Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hl. hv. fjh.- og viðskn., en hann skipar auk mín hv. þm. Ingi Björn Albertsson. Við höfum lagt fram svofellt nál.:
    ,,Undirritaðir nefndarmenn leggja til að frv. verði fellt.
    Hér er um að ræða framhald skattlagningar á erlendar lántökur sem margyfirlýst er af stjórnvöldum að verði afnumin um næstu áramót. Við það fyrirheit ber að standa. Tilgangur þessarar skattlagningar var upphaflega að reyna að slá á þenslu í efnahagslífinu, en kunnáttumenn sem kallaðir voru á fund nefndarinnar hermdu þó að skatturinn hefði haft lítil áhrif í því efni. Þenslan hefur nú breyst í samdrátt og vinnur áframhaldandi skattlagning því gegn upphaflegu markmiði sínu.
    Hafi skatturinn hins vegar haft þau áhrif að fresta lántökum einhverra aðila um hríð er ljóst að slík áhrif munu hverfa verði hann gerður varanlegur.
    Við þetta er því að bæta að skattur sem þessi jafngildir í raun tvenns konar gengi. En tvöföld gengisskráning gengur gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga.
    Vekur mikla furðu að ríkisstjórn, sem verður í orði tíðrætt um nauðsyn þess að undirbúa íslenskt efnahagslíf undir hinn sameinaða Evrópumarkað 1992, skuli í verki festa í sessi nýjar hindranir í gjaldeyrismálum. Augljóst er að slík breyting stefnir í þveröfuga átt við það sem er að gerast í Evrópu og gengur þvert gegn þeirri nauðsyn að afnema hindranir í gjaldeyrisviðskiptum Íslendinga og koma þar á auknu frjálsræði.``
    Undir þetta nál. rita Ingi Björn Albertsson og Geir H. Haarde.
    Við þetta nál., herra forseti, er í sjálfu sér ekki miklu að bæta. Það eru eilítið skiptar skoðanir um hvort þessi gjaldtaka á lántökur hafi haft þau áhrif sem til var ætlast, þ.e. hvort skattlagningin hafi dregið úr erlendum lántökum. Um það er erfitt að fullyrða en hitt er ljóst, eins og fram kemur í þessu áliti, að hafi einhverjir aðilar frestað sínum lántökum eingöngu vegna skattsins munu þeir að sjálfsögðu ekki gera það áfram ef hann verður lagður á til frambúðar.
    Ég vil hins vegar leggja sérstaka áherslu á það sem fram kemur í seinni hluta þessa nál. vegna þess að hér er verið að festa í sessi að því er virðist með þessu frv. hindranir og tálmanir í gjaldeyrismálum Íslendinga. Hér er verið að koma á gjaldi á gjaldeyrisnotkun af tilteknu tagi, þ.e. á erlendum lánum, og slík gjaldtaka og slíkar nýjar hindranir stefna þvert gegn því sem ætti að vera stefna hverrar þeirrar ríkisstjórnar sem hyggst búa í haginn fyrir framtíðina að því er varðar samstarfið við erlendar þjóðir.
    Þar er ekki síst um að ræða hinn svokallaða sameinaða Evrópumarkað 1992, en um fátt er nú meira talað á vegum þessarar ríkisstjórnar en einmitt hvað ráðherrarnir allir, hverjir um aðra þverir séu duglegir við að undirbúa Ísland undir þann atburð.

Það er eins og það komist ekkert annað að, hvorki hjá hæstv. utanrrh. né viðskrh., en breytingarnar sem eru að verða í Evrópu, en samt standa þeir að því að binda hér í lög og festa í sessi breytingu sem gengur þvert gegn öllu sem þar er verið að gera.
    Stundum er talað um að menn láti verkin tala. Þetta er einmitt dæmið um hvernig Alþfl. lætur kúga sig í þessu samstarfi þrátt fyrir allan fagurgala ráðherranna um frelsi í gjaldeyrismálum, um undirbúning undir Evrópumarkaðinn og annað. Þetta er enn eitt dæmið um hvernig ráðherrar Alþfl. láta svínbeygja sig og kúga í þessu stjórnarsamstarfi. Það fer lítið fyrir hinum fögru orðum þeirra í sambandi við þessi mál þegar þetta mál er til umræðu. Þeir láta ekki mikið á sér kræla í þingsölunum þegar verið er að fjalla um svona mál, enda vita þeir jafn vel og aðrir að skattur sem þessi á eftir að verða mönnum fjötur um fót, svo vægt sé til orða tekið, þegar fram í sækir, þegar menn fara að ræða sín mál við Evrópubandalagið og reyna að koma hér á þannig viðskiptaumhverfi að íslenskir atvinnuvegir verði samkeppnisfærir við það sem er að gerast í öðrum löndum.
    Hv. þm. Páll Pétursson situr í þingmannanefnd ásamt fleiri þingmönnum sem er að kanna hvernig best sé að bregðast við framvindu mála í Evrópu og efast ég ekki um að sú nefnd muni skila áfangaskýrslu á þessu þingi og gera Alþingi grein fyrir því hvernig mál muni þróast í því efni. En ég fullyrði það og ég tel víst að það muni koma í ljós í þeirri skýrslu að eitt það mikilvægasta sem við verðum að gera til að gera okkar atvinnuvegi og okkar atvinnulíf samkeppnisfært við það sem er að gerast með öðrum löndum og ekki síst í Evrópu er að koma á auknu frelsi í gjaldeyrismálum þannig að fyrirtækin geti keppt algerlega á jafnréttisgrundvelli að því er varðar lánafyrirgreiðslu og fleira sem snertir gjaldeyrismálin.
    Ég er alveg sannfærður um að þetta verður niðurstaðan og þá þykir mér --- sem vinur fjh.- og viðskiptanefndarformannsins alla vega hin síðari missiri --- hálfleiðinlegt fyrir hans hönd og annarra vandamanna frv. að þeir skuli þurfa að sitja uppi með að hafa átt þátt í því að festa í sessi skatt sem af öllum mun verða túlkaður sem hindrun í gjaldeyrismálum, jaðrar við að vera tvöfalt gengi og mun þess vegna verða fordæmdur af öllum sem til þekkja og ekki síst íslensku atvinnulífi þegar fram í sækir.