Staðgreiðsla opinberra gjalda
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti fjh.- og viðskn. sem liggur fyrir á þskj. 247.
    Nefndin ræddi frv. Á fund hennar komu Skúli E. Þórðarson, forstöðumaður staðgreiðsludeildar, og Lárus Ögmundsson, skrifstofustjóri tekjudeildar fjmrn.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj.
    Stefán Valgeirsson sat fundi nefndarinnar og er samþykkur þessari afgreiðslu. Undir þetta rita Páll Pétursson, Árni Gunnarsson, Ingi Björn Albertsson, Geir H. Haarde, Guðmundur G. Þórarinsson og Kristín Halldórsdóttir.
    Hér er um að ræða frv. til l. um að sníða af nokkra agnúa sem komið hafa fram eftir því sem reynt hefur á lögin um staðgreiðslu og framkvæmd þess kerfis. Þarna er fyrst og fremst um tæknilegar breytingar að ræða og við töldum þær vera réttmætar og eðlilegar flestar. Það er kannski meginbreytingin að skattkort þau sem verið hafa í gildi á þessu ári verða áfram í gildi. Við gerum hér breytingar samt við 4. gr., þ.e. að niður falli úr 4. gr. orðin ,,skattar sem þannig greiðast sjaldnar mega þó ekki vera hærri á síðari hluta ársins en á fyrri hluta þess``. Þetta ákvæði er óheppilegt t.d. fyrir þá sem hafa tímabundnar tekjur hluta úr ári, svo sem eins og trillusjómenn sem einkum róa á sumrin og hafa aðaltekjur síðsumars.
    Við 7. gr. töldum við eðlilegt að gagnkvæmni þyrfti að gæta við vaxtafærslu skattainnstæðu og/eða skattaskuldar þannig að ríkissjóður og skattgreiðandinn væru jafnsettir. Við leggjum til að þessi grein falli brott, en hins vegar verði tekin upp í tekjuskattslögin grein sem skilgreini þetta atriði.