Fjárlög 1989
Föstudaginn 16. desember 1988

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Í upphafi máls vil ég þakka formanni fjvn. Sighvati Björgvinssyni svo og nefndarfólki öllu fyrir gott samstarf. Einnig vil ég þakka starfsfólki fjvn. og starfsfólki í Þórshamri og Austurstræti 14 fyrir einstaka lipurð, dugnað og samviskusemi.
    Svo sem rakið hefur verið í nefndaráliti minni hl. fjvn. teljum við, sem eigum þar hlut að, að ýmis grundvallaratriði fjárlagafrv. séu enn á huldu.
    Við 1. umr. lýsti ég því að kvennalistakonur teldu ýmsar þær forsendur sem frumvarpið byggir á í meira lagi hæpnar og vafasamt að framsetning þess stæðist. Nú þegar komið er að 2. umr. hefur ekkert gerst sem breytt hefur því áliti. Tekjuhliðin svífur um í lausu lofti og meðan svo er er örðugt að taka afstöðu til útgjaldanna.
    Ríkisstjórnin sem mynduð var til að leysa efnahagsvandann hefur lítið hafst að enn. Þær fáu úrbætur sem eftir hana liggja eru einungis til bráðabirgða. Staða þjóðarbúsins er slæm og fer versnandi og enn hefur ríkisstjórnin enga stefnu tekið til lausnar vandanum og engin úrræði boðað. Fjárlagafrumvarpið ber merki þessa. Grundvöllinn vantar þar því stefnan er engin.
    Í upphafi gerðu flokkarnir sem að ríkisstjórninni standa með sér starfsáætlun, málefnasamning. Þessi samningur ásamt fjárlagafrv. eru þau plögg sem marka stefnu ríkisstjórnarinnar. Séu þessir pappírar skoðaðir saman og í samhengi þá liggur við að setji að manni hlátur, en fremur ætti kannski að segja að þetta væri allt saman grátbroslegt. Hvort tveggja þessara plagga hefur nú legið fyrir um hríð og menn hafa getað skoðað þau. Málefnasamningurinn er svo sem sléttur og felldur enda enn algjörlega ónotað plagg og spurning hvort nokkurn tímann hefur verið skorið upp úr örkunum. Hann er snotur upptalning á því sem ríkisstjórnin hyggst koma fram þjóðinni til tímanlegs og jafnvel andlegs velfarnaðar. Umhyggjan skín þar af hverri línu og við það hljóta menn að gleðjast og gera sér vonir um betri tíð með blóm í haga. Hitt málið er svo fjárlagafrv. Það vekur vissulega furðu að það stangast í flestu á við málefnasamninginn. Í því felst engin stefna um efnahags- eða atvinnumál, aðeins sú stefna að fjárlög skuli afgreidd án halla og til þess er flestra leiða leitað.
    Um þetta leyti fyrir ári voru til umræðu og afgreiðslu í þingsölum lagafrv. um sölugjald og tolla. Jafnframt því að vera einn meginþátturinn í gagngerðum breytingum á tekjuöflunarkerfi ríkisins voru þau borin fram í nafni einföldunar, réttlætis og skilvirkni, tískuorðanna um þær mundir. Ein skattprósenta og eitt vörugjald voru nánast heilagt fyrirbæri, stórkostlegt skref í réttlætisátt að áliti þeirra sem þá réðu. Við kvennalistakonur höfðum þá og höfum enn efasemdir um að einföldun leiði alltaf til réttlætis og skilvirknin hefur eitthvað látið á sér standa því enn vantar allt að 3 milljörðum kr. í ríkiskassann af sölugjaldinu.
    Því rifja ég þetta upp að nú drífa að frá hæstv.

ríkisstjórn tekjuöflunarfrumvörp, frv. um nýjar og auknar álögur til bjargar ríkissjóði og nú kveður við annan tón. Nú er réttlætið ekki fólgið í einni skattprósentu og einu sölugjaldi og einföldunin látin lönd og leið. Það gegnir furðu hve fljótir menn eru að skipta um skoðun eftir því í hvaða stólum þeir sitja, hvort sem þeir hafa verið í stjórn eða stjórnarandstöðu og hversu fljótir menn eru að leggja til hliðar fyrri trúaratriði án þess að það virðist koma hið minnsta við samviskuna.
    Við kvennalistakonur erum síður en svo mótfallnar því að fólk greiði skatta, að tekna sé aflað til að standa undir því velferðarþjóðfélagi sem allir vilja hafa en okkur er ekki sama hvernig það er gert. Við höfum lýst því yfir að við teljum að skattleysismörk séu of lág og verði allt of lág fari það eftir sem lagt er til með frv. um tekjuskatt og eignarskatt sem nú liggur frammi. Þá sýnist okkur að þeir sem miðlungstekjur hafa, en það er stærsti hópur skattgreiðenda, muni í rauninni bera þyngstar álögur. Spáð er að kaupmáttur rýrni um 7% á næsta ári. Ef ráðstöfunartekjur þessara skattgreiðenda dragast enn saman vegna aukinna álaga hlýtur það að koma fram í minnkandi veltu og þar af leiðandi minnkandi tekjum ríkissjóðs af veltusköttum. Því segir mér hugur um að í ljósi mun lakari innheimtu söluskatts á þessu ári en búist var við og horfum á vaxandi samdrætti í veltu á næsta ári muni tekjur ríkissjóðs af söluskatti vera ofmetnar í frv.
    Okkur kvennalistakonum virðist ekki rétt að ganga lengra í skattheimtu á almennar launatekjur en nú þegar er gert. Það ásamt þeirri kjaraskerðingu sem orðin er eykur aðeins samdráttinn. Sýnu nær væri að halda skatti í lágmarki í lægri launaþrepum með því að hækka persónuafsláttinn en taka fremur upp annað skattþrep með hærri prósentu. Úr því að einföldunin er ekki lengur það trúaratriði sem hún áður var ætti þetta að mega takast. Veltuáhrif vegna meiri ráðstöfunartekna leiða til aukinna tekna ríkisins af óbeinum sköttum sem trúlega myndu vega upp kostnað af auknum persónuafslætti. Þetta væri mun heilbrigðari aðferð og líklegri til að sporna við samdrætti og halda hjólum
atvinnulífsins gangandi. Í þessu sambandi er líka vert að minna á nauðsyn þess að beina neyslu og eyðslu fólks að innlendri framleiðslu með þjóðarhag að leiðarljósi. En þessi aðferð, þ.e. að hækka persónuafsláttinn, er miklu réttlátari því að öðrum kosti væri launafólki ætlað að bera samdrátt, kjaraskerðingu og minnkandi atvinnuframboð, en hingað til hafa margir komist sæmilega af með miklu vinnuframlagi. Þannig væri launafólkið látið taka þátt í erfiðleikum atvinnuveganna. Við þessar aðstæður er ekki sérlega snjöll bústjórn að koma byrðum ríkissjóðs yfir á almenning með skattahækkun á almennar launatekjur. Og með tilliti til þess að hinar miklu skattabreytingar í fyrra skiluðu ekki þeim tekjum í ríkissjóð sem að var stefnt, það er staðfest af Ríkisendurskoðun, þá tel ég að rétt væri að hæstv. ríkisstjórn athugaði endinn vel í upphafi áður en hún

knýr fram nýjar álögur. Skattstofnar hafa vissa tilhneigingu til að visna upp og jafnvel deyja séu þeir ofnýttir, svo sem er um gróðurinn á okkar landi og þarf nú ekki sauðkindina til.
    Svo ég víki aftur að störfum fjvn. þá er því ekki að leyna að minni hl. er langt frá því sáttur við ýmsar afgreiðslur sem þar hafa farið fram. Við viðurkennum hina þröngu stöðu ríkissjóðs og neitum því ekki að svigrúmið er lítið. En ég vil í máli mínu hér á eftir drepa á nokkur þau atriði sem ég hefði ýmist kosið að tekið væri betur á eða öðruvísi.
    Ég minnist aftur á orðaskrautið í málefnasamningnum og það sem þar á að ganga í augu kvenna. Þess er getið að gera skuli átak í jafnréttismálum, svo sem vænta má af stjórn jafnréttis og félagshyggju, en það er bara slæmt að til þessa þarfa málefnis er ekki ætlaður einn eyrir hvað þá króna á fjárlögum. Þar stendur líka að sérstakt átak verði gert til að auka atvinnu kvenna á landsbyggðinni. Það er ekki heldur ætlaður eyrir til þess, enda er þetta fyrirheit ekki trúverðugra en svo í augum stjórnarliða sjálfra að þeir hafa hver um annan þveran keppst við að bera fram þingsályktunartillögur og fyrirspurnir um framkvæmd á þessu máli. Það er heldur ekki að furða þar sem atvinnuleysisgrýlan er nú á gægjum og allir mega vita að komi til atvinnuskorts þá bitnar hann fyrst á konum.
    Önnur kvennamál, svo sem kvennaathvarf, kvennaráðgjöf og rannsóknir í kvennafræðum, eru ekki hátt metin til fjár fremur en vant er. Vissulega ber þó að meta það þegar komið er til móts við þarfir kvenna og barna og þar má nefna 95 millj. kr. upphæð til dagvistarmála, sem ber satt að segja vott um skynsamlegra viðhorf til þeirra mála en við höfum lengi séð. Við kvennalistakonur gleðjumst við þessa ákvörðun því frá því fyrsta höfum við barist fyrir úrbótum í dagvistarmálum og auknum framlögum til þessa málaflokks. Við höfum lagt fram mörg þingmál í þá veru og á síðasta þingi lögðum við fram frv. um átak til uppbyggingar í dagvistarmálum. Þegar við höfum borið þessi mál fram hafa þau aldrei fundið náð fyrir augum meiri hluta þingsins og ekki náð fram að ganga. Sú deyfð og skilningsleysi og mér liggur við að segja kæruleysi sem snýr að þessum málum hér á Alþingi eru óafsakanleg. Mál af þessu tagi ættu að hafa forgang og þarf ekki að hafa fleiri orð um það í þetta sinn.
    Öllum er það fullkunnugt að svo er komið að tekjur tveggja þarf til að framfleyta fjölskyldu. Ég tala nú ekki um ef þessi fjölskylda hefur lagt í þau ósköp að reyna að eignast þak yfir höfuðið. Ef báðir foreldrar eru nauðbeygðir til að afla tekna fyrir heimilið, og það skal enn ítrekað að svo er um mikinn meiri hluta fjölskyldna í landinu, vitum við öll að mikil þörf er fyrir gæslu og vistun fyrir börn, á góðum dagheimilum sem sinna aðhlynningu og uppeldi barna á vinnutíma foreldranna.
    Börnin okkar eru á hverjum tíma framtíð þjóðarinnar. Við megum ekki og getum ekki verið svo

skammsýn að kosta ekki til hverju því sem þarf til að tryggja að veganesti þeirra út í lífið sé sem mest og best þannig að fjöldi þeirra þurfi ekki að ráfa um í reiðileysi með lykil um hálsinn. Því segi ég þetta að þó að 95 millj. kr. til dagvistunar séu góðra gjalda verðar eru skuldir ríkisins við sveitarfélögin að þeim milljónum greiddum samt sem áður 133 millj. kr. Átakið til uppbyggingar sem við kvennalistakonur lögðum til í fyrra að gert væri hefði betur verið samþykkt þá.
    Fyrst ég er að tala um börn get ég ekki látið hjá líða að drepa á hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að draga úr fjárveitingum til skóla. E.t.v. má spara í skólahaldi á ýmsa vegu en ég vara við að dregið verði úr sérkennslu og forfallakennslu. Fjármunir til þeirra hluta hafa alla tíð verið í knappara lagi og samdráttur má síst koma fram þar.
    Ég vil nú enn skoða málefnasamninginn í ljósi fjárlagafrv. og í kafla um byggðastefnu stendur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Unnið verði skipulega að uppbyggingu í samgöngumálum samkvæmt langtímaáætlun``. Þannig er nú það. Innflutningsgjald af bensíni hækkar um 600 millj. kr. samkvæmt frv., en ekki verður séð að verja eigi krónu af því til vegamála né samgöngubóta af neinu tagi og fyrirhugaðar eru enn frekari skerðingar á fé Vegagerðarinnar. Ég trúi varla að bifreiðaeigendur, einkum þeir sem aka um utan þéttbýlissvæða, gleðjist við þær fyrirætlanir þegar sýnt er að ekki verður hægt að standa við
vegáætlun. Þessi tekjustofn, bensíngjaldið, er sérmarkaður til uppbyggingar vegakerfisins. Hingað til hefur hann verið látinn óáreittur en nú er því sýnilega lokið og fer þá væntanlega sem um fleiri slíka fjáröflunarliði að honum verður í æ ríkara mæli varið til annars en upphaflega var ætlað.
    Í því sambandi er ekki úr vegi að minna á málefni Ríkisútvarpsins sem enn má sæta því að fá ekki þá fjármuni sem því eru markaðir með lögum og berst því í bökkum. Fjárskortur hindrar að Sjónvarpið flytjist í útvarpshúsið, en reksturinn yrði allur hagkvæmari ef stofnunin væri undir einu þaki eins og henni er ætlað. Þessi ráðstöfun, eins og fleiri, einkennist af skammsýni. Það er hrein flónska að haga málum á þennan hátt og með öllu óþolandi að markaðir tekjustofnar til ákveðinna framkvæmda og stofnana séu ekki látnir í friði.
    Hv. 6. þm. Suðurl. gerði í ræðu sinni grein fyrir því hvernig þessi mál standa og hvernig þessi framlög eru skert svo að ég fjölyrði ekki frekar um það, en ég minni á að þar var um rúman milljarð að ræða.
    Stjórnvöld mega engan veginn og aldrei loka augunum fyrir því hvaðan fjármunir koma sem eru undirstaða lífsmöguleika okkar. Sjávarútvegurinn og sú atvinnustarfsemi sem tengist honum er frumforsenda þess að land okkar er í byggð. Hvernig er svo búið að þessum atvinnuvegi svona á ýmsan hátt?
    Við skulum t.d. taka hafnirnar. Hafnir landsins eru farvegurinn sem lífsbjörgin rennur um til okkar og á Íslandi eru 70 hafnir. Einhverjir kunna að spyrja: Er

þörf á þessum fjölda? Höfum við efni á þessu? Hafnirnar hafa orðið til í byggðarlögum þar sem sjór hefur verið sóttur frá ómunatíð. Undirstaða þessara byggðarlaga eru þau verðmæti sem um höfnina fara. Sjómenn draga fisk úr sjó. Konur og karlar, þó einkum konur, vinna aflann. Þetta fólk skapar meginið af útflutningsverðmætum okkar. Hvert byggðarlag hefur sín sérkenni, sína menningu sem þróast hefur í tímans rás. Höfum við efni á að fórna byggðarlögunum, láta þau veslast upp og leggja þau niður svo sem hlýtur að gerast verði viðhaldi og uppbyggingu hafnanna ekki betur sinnt en þetta frv. gefur til kynna? Ég vil leggja fram dæmi til glöggvunar á því hvernig horfir.
    Hafnir eru ekki mannvirki þeirrar tegundar sem eru byggðar í eitt skipti fyrir öll, ryð og fúi vinna á þeim. Sífelld tækniþróun í veiðum kallar á breytingar á skipum. Breytingar á flutningum kalla á annars konar flutningaskip og báðir þessir þættir kalla á breyttar hafnir, breytt skipulag og sífellda þróun. Meðalendingartími hafnarmannvirkja er talinn vera 35 ár og það kostar um 300 millj. kr. að byggja upp meðalhafnarmannvirki. 70 hafnir á Íslandi sem úreldast á 35 árum þýðir því það, að áætla verður að byggja þurfi tvær nýjar hafnir á ári sem kallar á a.m.k. 600 millj. kr. fyrir utan viðhald annarra hafna. Að vísu er hlutur sveitarfélaga með í þessari upphæð en af þessu dæmi má sjá hver þörfin er, þörf sem árlega er ýtt til hliðar en eykst vitanlega og verður fjallhá með tímanum. Ef ekki verður breytt um áherslur varðandi uppbyggingu þessara mikilvægu mannvirkja hlýtur það að leiða til þess að þetta fjall hrynur yfir okkur með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Með þessum orðum vil ég minna á að framlag til hafna samkvæmt frv. er 400 millj. kr. Öllum má ljóst vera að þessi upphæð nægir ekki til nema lítils hluta af því sem nauðsynlega þarf að vinna að hvernig svo sem hún er teygð og toguð.
    Því má svo bæta við að þrátt fyrir bága stöðu hafnanna eru framlög til Hafnabótasjóðs enn skert auk þess sem fyrirhugað er að hann greiði skatt af tekjum. Allar þessar aðgerðir í samgöngumálum sem ég hef nefnt einkennast af hentistefnu og skammsýni.
    Í sambandi við hafnaframkvæmdirnar vil ég minnast á gamalkunnugt mál, flugstöðina í Keflavík. Nú þarf að taka 350 millj. kr. lán vegna byggingar hennar, þessa skrautblóms okkar á Miðnesheiðinni eða á ég kannski heldur að kalla hana gæludýr. Menn skulu velta því fyrir sér hvað hægt væri að gera í hafnamálum fyrir þá fjármuni sem þangað hefur verið veitt, eða ég vil segja ausið, og á eftir að veita því enn er hún ekki fullgerð, svo ekki sé talað um afborganir af lánum sem koma til greiðslu af fullum þunga eftir rúmt ár. Ég tala um þetta nú, því þetta mál og þvílík eiga ekki að falla í gleymsku heldur vera sífelld áminning um að hafa ráðdeild, skynsemi og ábyrgðartilfinningu með í förinni þegar ráðstafað er sameiginlegu fé okkar allra.
    Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum dögum var okkur tjáð að hallinn á ríkissjóði væri tæpir 7 milljarðar kr.

Ríkisstjórnin fórnar nú höndum og sendir ekki frá sér tillögur heldur tilkynningu um sparnað og niðurskurð í ríkisrekstrinum. Við kvennalistakonur erum síður en svo mótfallnar sparnaði í sjálfu sér en okkur er ekki sama hvar er sparað. Það er ógerlegt á þessari stundu að taka afstöðu til sparnaðar- og niðurskurðarhugmynda ríkisstjórnarinnar þar sem þær eru ekkert útfærðar og engin leið að sjá hvar þær munu helst bitna.
    Hv. þingmenn hafa vafalaust veitt því athygli að við kvennalistakonur flytjum engar brtt. við fjárlagafrv. að þessu sinni. Vonandi hvarflar það þó ekki að nokkrum manni að það sé vegna þess að við teljum ekki breytinga þörf. Ástæðan er einfaldlega sú, sem kemur fram í áliti minni hl. fjvn. og
Kvennalistinn stendur að, að við teljum að allt fjárlagadæmið sé í óvissu og uppnámi og reyndar fyrst og fremst tekjuhliðin. Óhugsandi er að gera það dæmi upp fyrr en skýrst hefur um tekjuöflunarleiðir ríkisstjórnarinnar og því varð það niðurstaða okkar að bíða með brtt. til lokaumræðunnar. Ég vil þó undirstrika það, svo að enginn þurfi að vera í vafa um afstöðu okkar, að við teljum nauðsynlegt að gera ýmiss konar lagfæringar og það mun koma fram í máli annarra þingkvenna síðar í umræðunni. Þær munu fjalla um ýmsa málaflokka sem við berum sérstaklega fyrir brjósti og snerta bættan hag kvenna og barna og framtíðarhag þjóðarinnar allrar.
    Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að fyrr en ljóst liggur fyrir hvort ríkisstjórnin hefur þingstyrk til að koma fram sínum tillögum um tekjuöflunarleiðir tel ég að ekki sé hægt að afgreiða marktæk fjárlög.