Fjárlög 1989
Föstudaginn 16. desember 1988

     Margrét Frímannsdóttir:
    Virðulegi forseti. Í upphafi þessarar umræðu gerði formaður fjvn., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, ítarlega grein fyrir starfi fjvn. síðustu vikur og því nál. og brtt. sem hér hafa verið birtar á þingskjölum og er engin ástæða að fara nánar út í þau atriði.
    Aðdragandi þinghalds nú í haust var um margt róstusamur. Ríkisstjórn sem þá hafði setið í tæplega eitt og hálft ár gafst upp við að reyna að stjórna, hafði eiginlega aldrei stjórnað, aðeins haft uppi tilburði til þess. Ný ríkisstjórn var mynduð og tók við efnahags- og atvinnulífi landsins í rúst.
    Fjárlög þessa árs, fjárlög síðustu ríkisstjórnar, sem áttu að skila ríkissjóði í jafnvægi eru brostin svo að halli sem nemur milljörðum blasir við. Reyndar höfðum við, sem töluðum hér fyrir ári síðan og mynduðum þáverandi stjórnarandstöðu, ítrekað bent á að þær forsendur sem fjárlagafrv. fyrir þetta ár byggði á væru ótryggar og að miklu meira aðhald í ríkisfjármálum þyrfti en þá var ráð fyrir gert.
    Þó held ég að engan hafi órað fyrir því að ástandið yrði eins og það blasir við nú. Hversu dökka mynd sem við drógum upp þá varð hún aldrei eins dökk og hún er í dag. Þvílíkt stjórnleysi hefur ríkt í fjármálum ríkisins.
    Svona var ástandið þegar í byrjun október þegar vinna var hafin við það fjárlagafrv. sem hér er til 2. umr. Þegar frv. var samið, eins og það birtist hér á hv. Alþingi, var með ýmsum hætti reynt að stemma stigu við þeim vexti ríkisútgjalda sem fyrirsjáanlegur var. Framlög til framkvæmda og sjóða voru í flestum tilvikum takmörkuð við óbreytta eða lítt breytta krónutölu og stefnt að samdrætti í starfsmannahaldi ríkisins. Auk þess voru gerðar ráðstafanir varðandi einstakar stofnanir og málaflokka eins og fram kemur í greinargerð frv.
    Ýmsum brá í brún og þótti þetta mikill niðurskurður, höfðu jafnvel á orði að verið væri að gera aðför að stofnunum og málaflokkum. Ég var einn þeirra hv. þm. sem brá illilega við að sjá þá þörf á niðurskurði sem við blasti. Ég trúði því hreinlega ekki að eftir þá uppgangstíma, það góðæri sem hér hefur ríkt, væri ástandið svona slæmt, að óstjórn og eftirlitsleysi okkar alþingismanna hefði verið með þessum endemum þrátt fyrir allt sérfræðinga- og ráðgjafaliðið sem í kringum okkur er. Að tekist hefði að klúðra málum svo rækilega, það gat ekki gerst.
    Meira að segja þeir sem tóku þátt í síðustu ríkisstjórn og þeirri þar áður trúðu ekki sínum eigin augum og mótmæltu hátt og af reiði. En það sannaðist að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Það þýðir ekki að deila. Forsendur frv. lágu fyrir svo ljótar sem þær voru og ljótari urðu þær.
    Á þeim tíma sem liðinn er frá því að frv. var lagt fram hafa komið fram nýjar upplýsingar sem sýna að það stefnir í enn meiri halla ríkissjóðs á þessu ári en gert var ráð fyrir. Því hefur á milli umræðna orðið að gera frekari ráðstafanir sem snerta gjaldahlið frv. í þeim tilgangi að tryggja fjárhag ríkissjóðs og freista þess að hann fái gegnt því hlutverki sem honum ber

í efnahagslífi landsins. Enn meiri tekjubrestur og samdráttur en áður var reiknað með kallar á enn meira aðhald í ríkisbúskapnum.
    Það hafa vissulega heyrst þær raddir að vafasamt sé að rétta svarið við þessum samdrætti í efnahagslífinu sé að draga saman seglin í ríkisrekstri og að við þær aðstæður eigi ekki að stefna að því að reka ríkissjóð með tekjuafgangi.
    Um þetta má vissulega deila, en í því sambandi ættu menn þó að hugleiða tvennt, í fyrsta lagi að samdráttinn má rekja til minnkandi sjávarafla vegna takmarkana á veiði svo og lægra verðs á fiskafurðum á stórum hluta markaða okkar. Á móti samdrætti af þessum toga verður ekki unnið með eftirspurnarþenslu. Í öðru lagi má hafa hugfast að þrátt fyrir samdrátt og fyrirsjáanlega aukningu hans eru þjóðarútgjöld enn of há í samanburði við þjóðartekjur. Það að ríkið hvetji hér til þess að viðhalda óbreyttu neyslustigi, að ekki sé talað um að hækka það, leiðir, eins og menn hafa nú vonandi gert sér grein fyrir, ekki til annars en aukinnar skuldasöfnunar.
    Þessar aðstæður sem við nú búum við hafa sett svip sinn á starf og tillögur fjvn. Þar hefur verið reynt að gæta ýtrasta aðhalds við meðhöndlun erinda og óska um fjárveitingar. Það er ekki sársaukalaust að hafna erindum sem auðvelt hefði verið að verða við við eðlilegar aðstæður. Og fólkið í landinu á í raun skilið að kjörnir stjórnendur landsins hefðu skilað þeirra hlut í góðærinu í gegnum vel rekinn ríkissjóð og vel rekin ríkisfyrirtæki, en því er ekki að heilsa.
    Þær tillögur um hækkanir sem hér hafa verið lagðar fram eru að stærstum hluta þær sem nefndin taldi óhjákvæmilegt að verða við. Hækkanir á framkvæmdaliðum eru fyrst og fremst þar sem sýndi sig við yfirferð fjvn. og við ábendingar starfsmanna ráðuneyta um einstakar framkvæmdir að ekki yrði fyrir hendi fé til þess að standa við gerðar skuldbindingar. Hvergi nærri er hægt að greiða sveitarfélögum þær upphæðir sem þau eiga inni hjá ríkinu vegna framkvæmda sem þau hafa nú þegar lokið við eða standa í.
    Ekki er svigrúm til þess að leyfa eða veita fjármagn í nýjar framkvæmdir þó að ljóst sé að í ýmsum málaflokkum eins og uppbyggingu grunnskóla, sjúkrastofnana og dvalarheimila aldraðra er þörfin mikil. Það mun t.d. vera ljóst að hér í Reykjavík eru nú þegar langir biðlistar aldraðra sem bíða eftir leguplássum eða vistun á dvalarheimilum. Það er erfitt að verða að segja við þetta fólk: Því miður, við sem þið treystuð til þess að fara með málefni þjóðarinnar höfum staðið okkur svo illa, farið svo illa með fjármuni ykkar, að við getum ekki launað ykkur ævistarfið með því að búa vel að ykkur í ellinni, en við stöndum nú samt frammi fyrir því. Hér inni telja hv. þm. sig eflaust misjafnlega ábyrga fyrir því hvernig komið er, en enginn getur þó í raun afneitað allri ábyrgð.
    Fjvn. gerði einnig í nokkrum tilvikum tillögur um breytingu rekstrarliða og framlaga þar sem nægar upplýsingar höfðu ekki legið fyrir við gerð frv. eða

nýjar komið fram. Þá voru gerðar nokkrar smærri breytingar til leiðréttingar og aukins innra samræmis.
    Allar þessar ákvarðanir fjvn. eru teknar í ljósi þess að nauðsynlegt er að draga saman útgjöld ríkisins frá því sem verið hefur.
    Formaður nefndarinnar hefur einnig kynnt hér tillögur um enn frekari samdrátt sem hafa verið til umfjöllunar og verða fluttar við 3. umr. Þessar tillögur eiga að leiða til lækkunar á útgjaldaliðum frv. sem nemur 1,2 milljörðum kr. Þar er þó gert ráð fyrir að sú stefna gildi sem boðuð var þegar fjárlagafrv. var lagt fram, að framlög til þeirra framkvæmda og sjóða sem mikilvægasta hlutverkinu gegna í þjóðfélaginu breytist lítt eða ekki frá því sem er á yfirstandandi ári. Þar er m.a. gert ráð fyrir að framlög til byggingarsjóða húsnæðislánakerfisins verði svipuð og í ár og lækki því frá því sem nú er gert ráð fyrir um 150 millj. kr. Þrátt fyrir þessa breytingu mun ráðstöfunarfé þessara sjóða til útlána aukast og verða um 10 milljarðar.
    Þá er í þessum tillögum ríkisstjórnarinnar áformað að Póstur og sími skili nú fé í ríkissjóð. Miðað við það að afnotagjöld verði látin fylgja verðlagi og að fjárfestingu verði haldið sem mest í óbreyttri krónutölu er talið að skil Pósts og síma í ríkissjóð geti orðið um 250 millj. kr. Skil af þessari stærðargráðu geta þó varla talist eiginleg arðgreiðsla þar sem þessi fjárhæð er ekki meiri en sem nemur þeim skuldbindingum sem lenda á ríkissjóði af starfsemi stofnunarinnar en koma ekki fram á rekstrarreikningi hennar, svo sem lífeyrisskuldbindingar. Einnig hefur Póstur og sími fengið niðurfellingu aðflutningsgjalda af meginhluta fjárfestinga fyrirtækisins. Ætti að vera um eiginlegar arðgreiðslur Pósts og síma að ræða til ríkisins væri þessi fjárhæð mun hærri.
    Enn fremur eru í boðuðum niðurskurðartillögum lækkuð rekstrargjöld stofnana og ráðuneyta um 650 millj. kr. Það eru ánægjuleg tíðindi og þótti engum mikið þó svo að ríkisvaldið, sem endalaust leggur til aðgerðir í endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri þeirra atvinnufyrirtækja undirstöðuatvinnuveganna sem við hvað mesta erfiðleika búa í dag, fari nú að beita sömu ráðum á sinn eigin rekstur, kominn tími til.
    Sannleikurinn er nefnilega sá að í atvinnurekstri eins og til dæmis fiskvinnslu og útgerð eru menn nær daglega að huga að hagkvæmni og hagræðingu í rekstri sínum en af öllum þeim ráðgjöfum og fræðingum sem starfa hjá ríkinu eru fáir sem gæta þessara atriða nema þá Ríkisendurskoðun. Fram undir síðustu ár hefur allt of lítið tillit verið tekið til þeirra ábendinga sem þaðan hafa komið en nú virðist sem þar sé að verða breyting á og er það vel.
    Af þessum 650 millj. kr., sem eru lækkun á rekstrarkostnaði, eiga launagjöld og hliðstæðar greiðslur að lækka um 400 millj. kr. Það samsvarar 1,5% af launakostnaði sem bætist við þann samdrátt sem frv. gerði ráð fyrir, en þar var um 2,5% að ræða. Alls er því gert ráð fyrir að samdráttur þessa liðar nemi um 4% sem gerir um 1 milljarð kr.

    Þess ber þó að gæta að áður en til þessa niðurskurðar kom hafði verið gert ráð fyrir verulegri aukningu í starfsemi ýmissa stofnana. Ekki aðeins gert ráð fyrir heldur hafði átt sér stað aukning í starfsemi einstakra stofnana, t.d. á sviði félags-, heilbrigðis- og skólamála. Það var því nauðsynlegt að taka inn þá aukningu áður en til niðurskurðar yrði gengið til þess að skapa betra samræmi og taka tillit til mismunandi þróunar og þarfa í hinum ýmsu málaflokkum.
    Þannig er t.d. í frumvarpinu gert ráð fyrir aukinni þörf varðandi málefni fatlaðra og því lagt til að þar verði um 33,85 stöðugildi til ráðstöfunar. Þar af gerir fjvn. aðeins tillögu um ráðstöfun tæplega tveggja stöðugilda. Að öðru leyti verði þeim haldið inni í fjárlögum og sjái fjmrn. um ráðstöfun til þeirra sambýla eða heimila fatlaðra sem nú þegar eru í rekstri en hafa ekki fengið nægilega mörg stöðugildi og svo aftur þeirra sem verða tekin í notkun á árinu 1989. Þrátt fyrir að mikil uppbygging hafi átt sér stað í þessum málaflokki eigum við enn langt í land hvað varðar að sinna þeim þörfum sem þegar eru fyrir hendi. Ástandið er þó kannski verst hvað varðar uppbyggingu dagvistar og skammtímavistunar fatlaðra. Ég legg á það ríka áherslu að sá
samdráttur sem boðaður er verði látinn koma niður í meira mæli á yfirstjórn og umfangi ráðuneyta og í rekstri ríkisfyrirtækja en að staðið verði við þær tillögur sem lagðar hafa verið fram um málefni fatlaðra hér í dag og í frv. til fjárlaga.
    Ef tekið er tillit til þeirrar aukningar sem búið er að taka inn í frv. má auðvitað gera ráð fyrir að starfsumfang ríkisstofnana, eins og það lýsir sér í mannahaldi, muni dragast saman. Sá samdráttur þýðir í raun 1,5--2% lækkun frá því sem áætlað var í fjárlögum þessa árs. Ég geri mér fulla grein fyrir þessu og að samdrættinum verður að deila niður á stofnanir ríkisins. En ég held að viturlegt væri að horfa t.d. á þá gífurlegu aukningu sem orðið hefur á þeim þætti sem heitir yfirstjórn ráðuneyta á undanförnum árum og skoða hverju hún hefur skilað.
    Endurskipulagningar innan stofnana ríkisins er vissulega þörf. Þegar óskir einstakra fyrirtækja ríkisins um fjárveitingar berast, á þessum tímum tölvuvæðingar, ættu auðvitað að fylgja milliuppgjör yfirstandandi árs þannig að það sjáist í hvað fjárveitingar hafa farið og hvernig er áætlað að ráðstafa þeim fjárveitingum sem beðið er um. Þessi gögn sér fjárveitinganefnd afar sjaldan og forráðamenn ríkisfyrirtækja koma jafnvel með beiðnir sínar án nokkurs verulegs rökstuðnings og þeir fá vissulega ekki sömu meðferð og þau fyrirtæki sjávarútvegsins sem nú eru í skoðun hjá Atvinnutryggingarsjóði en væri þó oft full ástæða til.
    Við gerð fjárlaga nú var ekki tími eða tækifæri til þess að fara vel ofan í þennan þátt, í það minnsta ekki af núv. hæstv. fjmrh. eða hv. fjvn. Þess er óskandi að svona aðstæður verði ekki oftar, hægt verði að vinna að gerð fjárlaga í eins langan tíma og til þarf og nauðsynlegt er og að eftirlit fjvn. með framkvæmd fjárlaga verði aukið. Ég tel þó að miðað

við núverandi aðstæður getum við nokkuð vel við unað og starfsmenn fjmrn. hafa mætt þeim vanda sem upp er kominn, svo stór sem hann er, eins og best verður á kosið.
    Þó að ég hafi nefnt hér málaflokka þar sem erfitt er að draga saman og skera niður starfsemi eru aðrir málaflokkar þar sem starfsemi hefur vaxið ört ár frá ári og samdrátturinn kemur ekki eins illa niður á. Í sumum tilvikum fyllilega eðlilegur þegar hafðar eru í huga hinar dökku horfur í rekstri atvinnufyrirtækja og atvinnuöryggi í framleiðslugreinum þjóðfélagsins. Það er ekki nokkur glóra í því að ríkið haldi áfram að þenja út starfsemi sína og borgi himinháar upphæðir fyrir óunna og unna eftirvinnu þegar allt atvinnulíf í landinu er að dragast saman.
    Auk samdráttar í launakostnaði er gert ráð fyrir að önnur rekstrargjöld verði lækkuð um 250 millj. kr. Þarna er aðallega um að ræða kostnaðarliði sem að ósekju má draga saman, jafnvel um hærri upphæð en gert er ráð fyrir, án þess að það komi verulega niður á starfsemi stofnananna. Jafnvel getur orðið um það að ræða að þær skili sér í betra og meira starfi því hér er átt við samdrátt í ferða- og dvalarkostnaði, risnu og fundahöldum. Í tillögum ríkisstjórnar er talið að þennan kostnað megi draga saman um 20--30%. Ef horft er frá þeim sem ekki stunda þessi stöðugu ferðalög má ef til vill segja að lækka megi þennan kostnað enn meira. Enn fremur er horft til þess að lækka kostnað af kaupum á aðfenginni þjónustu sérfræðinga á ýmsum sviðum. Þessi kostnaður hefur vaxið ört á síðustu árum og leikur vafi á að gagnsemi hafi fylgt í sama mæli og að þarna sé nægilegrar hagkvæmni gætt.
    Virðulegi forseti. Hér var ég fyrir ári og gagnrýndi þáv. stjórn, forsendur fjárlagafrv. og þá tekjuleið sem ríkisstjórnin hafði valið, en þar var um að ræða gífurlega aukningu á skattlagningu almennings. Það var þá afsakað með því að verið væri að koma hallareknum ríkissjóði á réttan kjöl og að vænta mætti breytinga á skattatökum þegar betur áraði. Við vitum öll hvernig til tókst og að einhvers staðar á leið síðustu ríkisstjórnar urðu henni á hrapalleg mistök. Í dag erum við aftur að leggja til aukna skatta og enn til þess að bæta mistök ríkisstjórnar. Enn er það almenningur sem þarf að greiða þessi dýru mistök. Ástandið krefst úrlausna, skjótra úrlausna. Við höfum ekki tíma til að sitja hér og þjarka eða vera með málþóf sem skilar kannski þeim eina árangri að steypa þjóðinni í kosningar og sigla atvinnulífinu í strand.
    Vonandi fer að líða að því að íbúar landsins fái eitthvað fyrir það sem þeir leggja af mörkum. Tekjufrumvörp ríkisstjórnarinnar fela í sér aukna skattheimtu á almenning en þó hefur verið reynt að gæta þess að ekki leggist auknir skattar á þá sem verst hafa kjörin. Það er hins vegar hart að ekki skuli nást samstaða um skattlagningu t.d. á happdrætti, lúxusbíla eða aðra skatta á lúxusvörur sem við alþýðubandalagsmenn höfum lagt áherslu á og ekki verður mótmælt að koma fyrst og fremst niður á þeim sem mest fjárráð hafa.

    Auknar tekjur verða að koma til þess að mæta þeirri óráðsíu sem viðgengist hefur. Það verður ekki með öllu sársaukalaust. Það er líka ljóst að sú lækkun ríkisútgjalda sem hér er áformuð verður ekki auðveld né átakalaus. Hún mun vafalaust mæta andspyrnu þeirra sem stýra störfum ríkisstofnana og hagsmunaaðila. Þó viðurkenna menn að allar aðstæður geri hana nauðsynlega og
að öll skilyrði eru fyrir hendi til þess að hún megi takast. Framkvæmdin mun ráðast af vilja og dug þeirra sem með framkvæmdarvaldið fara, þ.e. ráðherranna og ríkisstjórnarinnar.
    Ég vil svo að lokum þakka nefndarmönnum fjvn. samstarfið. Ekki síst þeim minnihlutamönnum sem störfuðu í undirnefndum með mér. Ég vil einnig þakka starfsmönnum Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, starfsmönnum fjmrn., starfsmönnum Ríkisendurskoðunar og sérstakar þakkir flyt ég til sérstaks starfsmanns fjvn., Sigurðar Rúnars. Öðru starfsfólki í Þórshamri, nú í Austurstræti, flyt ég sérstakar þakkir fyrir lipurð og þolinmæði. Þá þakka ég formanni nefndarinnar, hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, gott starf því á honum hefur vissulega hvílt meiri vinna en á nokkru okkar hinna og hann hefur leyst hana vel af hendi.