Fjárlög 1989
Föstudaginn 16. desember 1988

     Friðjón Þórðarson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 12. þm. Reykv. fyrir að hafa leyft mér að flytja þessi orð í fyrra lagi.
    Svo lengi sem elstu menn muna hefur frv. til fjárlaga verið mál númer eitt á hverju haustþingi. Nú bregður svo við á 111. löggjafarþingi þjóðarinnar að fjárlagafrv. er 73. mál þingsins. Þetta gæti bent til þess að eitthvað óvenjulegt væri á seyði eða eitthvað afbrigðilegt hefði gerst, enda segir í upphafi nál. frá meiri hl. fjvn. að afgreiðsla fjárlaga hafi að þessu sinni verið nokkuð frábrugðin því sem vani hefur verið. Rætur þessa eru raktar til stjórnarskiptanna á sl. hausti og til mikilla sviptinga og dæmafárra breytinga á öllu efnahagslegu umhverfi á skömmum tíma eins og komist er að orði.
    Hvað sem öðru líður virðast störf fjvn. hafa gengið allgreiðlega. Þar skiptir að sjálfsögðu miklu máli að starfsaðstaða nefndarinnar hefur stórbatnað þar sem hún sækir nú mikinn styrk í nána samvinnu við Ríkisendurskoðun og Fjárlaga- og hagsýslustofnun, svo og aðrar stofnanir sem hafa allar nauðsynlegar upplýsingar á reiðum höndum.
    Þó að efnahagshorfur í heiminum á næsta ári séu almennt taldar fremur góðar og ástandið um þessar mundir töluvert betra en búist var við í byrjun þessa árs er því öfugt farið um okkar land.
    ,,Íslenskur þjóðarbúskapur hefur hreppt andbyr á þessu ári`` segir í inngangi þjóðhagsáætlunar fyrir árið 1989 og nú eru horfur á að landsframleiðsla og þjóðartekjur dragist saman á næsta ári. Mikil breyting hefur orðið frá góðæri síðustu ára. Það er mála sannast að oft hefur útlitið verið dapurt og drungalegt í þrotlausri efnahagsmálaumræðu liðinna ára, en nú fyrst tekur í hnúkana þegar æðstu valdamenn þjóðarinnar þykjast aldrei hafa séð það svartara. Það er varla mikils að vænta af fjárlagagerð við slík veðurskilyrði né margs sem gleður augað í tillögum fjvn. að þessu sinni. Allir verða að láta sér nægja að spila úr þeim spilum sem þeir hafa á hendinni þó að stundum sé vitlaust gefið.
    Þingsköp Alþingis mæla svo fyrir að við 2. umr. skuli ræða greinar frumvarpa hverja fyrir sig og brtt. við þær. Skal sú regla höfð í huga þó að óhjákvæmilegt sé að víkja almennt að skuggalegum blikum sem á lofti eru í atvinnu- og efnahagsmálum landsmanna og ýmsum sviptingum í þjóðlífi og stjórnsýslu. Um afgreiðslu fjárlagafrv. segir í áliti frá minni hl. fjvn. að frv. gangi nú til 2. umræðu við óvenjulegar aðstæður. Ástandið í atvinnumálum þjóðarinnar sé ískyggilegra en verið hafi í marga áratugi. Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í þeim málum sé algjört. Óvissan í ríkisfjármálum sé einnig óvenjuleg, tekjuhlið frv. í lausu lofti. Fjárlagadæmið allt sé því í uppnámi og margháttaðir megingallar á fjárlagafrv. sjálfu.
    Með hliðsjón af þessu má ljóst vera að ekki er árennilegt að flytja margar brtt. til hækkunar á ríkisútgjöldum, enda verður það ekki gert að þessu sinni. Þvert á móti eru nú full rök fyrir því að gæta ýtrustu hófsemi og sparnaðar við sérhvern útgjaldalið

fjárlaga. Þetta hefur reyndar heyrst áður og því verður ekki neitað að ýmsum lætur vel að tala um niðurskurð og jafnvel framkvæma hann. Þá verða hins vegar allar aðgerðir að vera samræmdar ef þær eiga að duga. Það stoðar t.d. lítið að fækka opinberum starfsmönnum eða leggja niður störf í opinberri þjónustu ef samtímis eru flutt frumvörp sem horfa til stóraukinna útgjalda á sama sviði. Það er oft mun hyggilegra og ódýrara að hlynna að því sem fyrir er og vel hefur reynst en að velta í rústir og byggja á ný þó að það geti stundum verið skáldlegt og skemmtilegt. Og vissar skyldur verður ríkið að rækja hvað sem það kostar ef það vill rísa undir nafni.
    Það er að vísu ekki hægt að gera þá kröfu til alþingismanna að þeir geti séð langt inn í framtíðina frekar en aðrir, en vissar staðreyndir eru þó svo augljósar að þess verður að krefjast af margreyndum forsjármönnum þjóðarinnar að mark sé á þeim tekið. Það er sjálfsagt að spara eins mikið og unnt er og hagræða öllu eins og hægt er, en það eru vissulega takmörk fyrir því hvað hægt er að ganga langt í þessum efnum. Það er dýrt að halda úti frjálsu þjóðfélagi af þeirri stærð eða öllu heldur smæð sem hér er í landi, ekki síst ef menn vilja halda til jafns við ríkar milljónaþjóðir á mörgum sviðum.
    Hvað sem öðru líður verða höfuðatvinnuvegir landsmanna að geta gengið, en nú horfir vægast sagt alvarlega í þeim málum. Hvaðanæva heyrist frá því sagt að útflutningsatvinnuvegirnir, undirstöður þjóðfélagsins, séu að molna niður, segir í nál. minni hl. fjvn. Og hvað um hinn margfræga rekstrargrundvöll eða rekstrargrundvallarræfilinn eins og hann var nefndur fyrir nokkrum árum svona með tregablandinni vorkunnsemi af því að hann er löngu týndur og tröllum gefinn. Þó viðurkenna allir í orði að atvinnufyrirtækin þurfi rekstrargrundvöll, almenn skilyrði af hálfu stjórnvalda til þess að geta snúið við frá hallarekstri til viðunandi afkomu. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a. á fyrstu blaðsíðu að höfuðverkefni hennar sé að treysta grundvöll atvinnulífsins, stöðu landsbyggðarinnar og undirstöðu velferðarríkis á Íslandi. Lítils verður þessa vart í fjárlagafrv. Þvert á móti eru framlög til atvinnuvega enn lækkuð eins og nánar er greint frá í þeim
kafla í nál. minni hl. sem ber yfirskriftina Atlaga að atvinnuvegunum.
    Það dregur enginn í efa að hv. fjvn. hafi í mörg horn að líta þegar haft er í huga að hún hafi tekið á móti og athugað hátt í 1000 erindi eins og formaður nefndarinnar gat um í framsögu sinni síðdegis í dag, en þar hafa margir gengið bónleiðir til búðar svo sem eðlilegt má telja. Sumir, ekki síst forsvarsmenn sveitarfélaga, hafa stundum orð á því að ekki svari kostnaði að ganga á fund fjvn. Þeir hafi ekki erindi sem erfiði. Þetta er skiljanlegt þegar litið er á þann nauma skerf sem margir fá í sinn hlut við skiptingu framkvæmdafjár, til skólabygginga, íþróttamannvirkja, hafna og heilsugæslu svo að dæmi séu nefnd. Þess ber hins vegar að minnast að miðað við gildandi

lagaákvæði eiga forustumenn byggðanna lögvarinn rétt á ákveðnum fjárframlögum frá því opinbera á móti framlagi heimamanna. Hvor aðili verður að standa við sitt svo að verkinu geti miðað áfram. Sé hins vegar vel að verki staðið og samvinnu hagað svo sem vera ber að lögum og venjum er engin von til þess að sveitarfélögin þoli að eiga stórfé, jafnvel svo að milljónum skipti, inni hjá ríkinu ár eftir ár. Þetta er bara einfaldlega ekki hægt. Það verða menn að muna. Sum sveitarfélög hafa leitað leiða til úrbóta að því er byggingu skólamannvirkja snertir með því að gera samninga við ríkið um föst, árleg framlög í þessu skyni. Þetta skapar festu í framkvæmdum og öryggi í greiðslum, en gengur öðrum þræði út yfir þá sem ekki hafa náð föstum samningum, a.m.k. að nokkru leyti. Þetta þarf að skoðast nánar við fyrsta tækifæri þegar batnar í ári.
    Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar frá 28. sept. sl. er að finna mörg ákvæði sem snerta byggðamál og stuðning við byggðir landsins. Þar er m.a. rætt um að framfylgja árangursríkri byggðastefnu sem komi betra jafnvægi á byggðaþróun í landinu. Stefnan í landbúnaðar- og fiskveiðimálum verði endurskoðuð með byggðasjónarmið og aukna hagkvæmni fyrir augum. Þar er og sérstakur kafli um byggðamál þar sem segir að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir jafnvægi í byggðaþróun, m.a. með eftirfarandi aðgerðum sem taldar eru upp í mörgum liðum. Einn þeirra segir að Byggðasjóður verði efldur, annar að gerðar verði ráðstafanir til jöfnunar á flutningskostnaði og kostnaði við síma, húshitun, skólagöngu o.s.frv.
    Ég tel mjög eðlilegt að málefnasamningur þessi sé lesinn yfir eða skoðaður vandlega um svipað leyti og afgreiðsla fjárlaga gengur yfir. Að ekki sé nú talað um að hann sé lesinn yfir kvölds og morgna eins og eitt sinn var ráðlagt af forsrh. í vinstri stjórn. Ætla verður að hæstv. ríkisstjórn sé fegin því að sem flestir lesi þennan samning og geri ráð fyrir því að hann sé annað og meira en orðin tóm. En því vek ég sérstaka athygli á þessu að ég tel hið allra brýnasta viðfangsefni okkar alþingismanna að stuðla að jöfnuði allra þegna þjóðfélagsins, þ.e. að þeir hafi sem allra jafnasta aðstöðu í lífsbaráttunni og sem jöfnust skilyrði til framfærslu, þæginda og þroska hvar sem þeir eiga heima í byggðum landsins.
    Ég ætla sérstaklega að nefna einn málaflokk, en það eru samgöngumálin þó að ekki verði sérstaklega um þau fjallað fyrr en seinna í vetur. En því er nú minnst á þau mál að heyrst hefur að þau hafi iðulega borið á góma á ríkisstjórnarfundum að undanförnu. Hafi þá aðallega verið rætt um hversu mikill niðurskurður fjárframlaga ætti að verða til vegamála á komandi tímum. ,,Á að skerða vegafé? Það væri rangt og óréttlátt``, segir Björn Pétursson frá Siglufirði í blaðagrein sl. miðvikudag. Margir landsmenn munu hugsa á svipaðan veg. Þeir hafa vonað að fé til bættra samgangna yrði ekki skorið niður fyrr en í síðustu lög. Þetta er dapurlegt þar sem bættar samgöngur um allt land eru sameiginlegt áhuga- og hagsmunamál allra landsmanna og eitt allra stærsta byggðamál

þjóðarinnar.
    Af ræðum og málsútlistun forsvarsmanna í fjvn. má ljóst vera að fjárlagafrv. sem nú siglir hægt og hægt til loka 2. umr. er æðigloppótt og reikult í rásinni enn sem komið er. Kenna margir um tímaþröng og þröngri stöðu í ríkisfjármálum svo sem heyrst hefur hér í umræðunni. Ég hygg að flestir alþingismenn séu meira og minna uggandi og kvíðafullir um þessar mundir vegna þess hvernig horfir í hinum veigamestu málefnum þjóðarinnar. En það er víst eina leiðin að sjá hvað setur og bíða bjartari og betri tíma.