Fjárlög 1989
Föstudaginn 16. desember 1988

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það er undarlegt ástand sem við lifum og hrærumst í þessa dagana. Hæstv. ríkisstjórn þrjóskast enn við og telur sig vera meirihlutastjórn. Enginn veit hvað gerist þegar tekjuöflunarfrv. hennar koma til atkvæðagreiðslu, en þau eru forsenda þess fjárlagafrv. sem við ræðum hér í dag.
    Í ljósi þeirrar óvissu um hver verða afdrif tekjuöflunarfrumvarpanna ákváðu þingkonur Kvennalistans að bera ekki fram neinar brtt. nú við 2. umr. fjárlaga eins og reyndar hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir, fulltrúi Kvennalistans í fjvn., hefur þegar gert grein fyrir. Við getum ekki litið á þessa þykku bók sem fjárlagafrv. er sem alvöruplagg. Til þess að geta lagt til breytingar verður að liggja fyrir hvort forsendur frv. standast, en eins og stendur er ekkert sem bendir til þess að svo verði. Það hefði svo sannarlega verið þörf á að gera margar breytingar á frv. Það fer ekki allt of mikið fyrir félagshyggju og jafnrétti í þessu fjárlagafrv. ríkisstjórnar félagshyggju og jafnréttis. Þó vil ég ekki gera lítið úr þeirri viðleitni sem þar kemur fram.
    Eitt af því sem mér finnst stinga í augu er sú upphæð sem ætluð er Kvennaathvarfinu í Reykjavík. Mig langar að lesa minnispunkta sem ég hef undir höndum frá aðstandendum Kvennaathvarfsins sem skrifaðir eru þann 9. des. sl. Þessir minnispunktar hljóða svo, með leyfi forseta:
    ,,Fram að þeirri stundu að Kvennaathvarfið var opnað hinn 6. des. 1982 buðust konum á Stór-Reykjavíkursvæðinu, sem flýja þurftu heimili sín vegna andlegs og/eða líkamlegs ofbeldis, ekki önnur úrræði en einnar nætur dvöl í fangaklefum lögreglunnar og einnar nætur dvöl í einum af þrem sjúkrarúmum slysavarðstofunnar í þeim tilvikum að konan var illa slösuð. Börnum þeirra var ekki boðið upp á neitt, né heldur landsbyggðarkonum og börnum þeirra. Síðan Kvennaathvarfið opnaði fyrir sex árum hafa þangað leitað og dvalið um lengri eða skemmri tíma alls 865 konur af öllu landinu með samtals 697 börn, og sanna þessar tölur svo ekki verður á móti mælt tilverurétt Kvennaathvarfsins.
    Frá upphafi hefur verið leitað eftir stuðningi opinberra aðila til reksturs athvarfsins og sótt um 70% til ríkisins og 30% til sveitarfélaga. Fjárhagsáætlun ársins 1989 hljóðar upp á 13 millj. 852 þús. kr., og var sótt um 70% af því eða tæplega 9,7 millj. kr. til ríkisins. Rekstrarframlag ríkisins til Kvennaathvarfsins fyrir árið 1988 var 5 millj. 500 þús. kr. en sótt var um 5.527.900 kr. og er það í fyrsta sinn í sögu athvarfsins að ríkisframlag var nær umbeðin upphæð.
    Í kjölfar ráðstefnu sem samtök um Kvennaathvarf héldu haustið 1987 um úrbætur í rekstri var ákveðið að manna athvarfið að fullu með fastráðnu starfsfólki í stað íhlaupafólks að hluta og fastráðins að hluta eins og áður var. Hækkaði fjárhagsáætlun þar með það seint að ekki náðist að koma þeirri hækkun inn í fjárbeiðni til ríkisins og skýrir það þessa miklu hækkun á milli ára. Heildarfjárþörf Kvennaathvarfsins árið 1988 var 10 millj. 573 þús. kr. og framlag

ríkisins því í reynd aðeins 52,3%.
    Frá upphafi hefur nokkuð skort á að opinberir aðilar legðu fram umbeðnar upphæðir en sú regla hefur verið í heiðri höfð af hálfu samtakanna að gera fjárhagsáætlanir sem standast og því ekki gert ráð fyrir svigrúmi til niðurskurðar. Allur niðurskurður myndar því rekstrargat. Fram til þessa hafa slík göt verið fjármögnuð með frjálsum framlögum almennings, einkum gamalmenna sem þekkja neyð af eigin raun, fyrirtækja og félagasamtaka, svo og mikilli og óeigingjarnri sjálfboðavinnu tiltölulega lítils hóps félagskvenna sem bætt hafa á sig þeirri vinnu ofan á vinnu utan heimilis og innan.
    Sá styrkur sem sótt er um til opinberra aðila er einungis til rekstursins, þ.e. laun starfskvenna og launatengd gjöld, matur, hiti, rafmagn, sími og annað sem til daglegs reksturs heimilisins heyrir. Dvalarkonur sjá sjálfar um húshaldið, þ.e. matseld, þvotta og þrif. Hús athvarfsins er keypt fyrir frjáls framlög almennings og fyrirtækja og félagasamtaka og sama gildir um allt viðhald hússins sem byggt var skömmu eftir aldamót. Opinberir aðilar hafa ekki lagt eina einustu krónu til þess hluta rekstursins sem heyrir til reksturs húsnæðis eða innkaupa og eðlilegs viðhalds og endurnýjunar húsbúnaðar. Næstum árlega, þ.e. þegar gjafafé þverr, stendur Kvennaathvarfið frammi fyrir lokun vegna skorts á rekstrarfé og því mjög brýnt að séð verði til þess að rekstur Kvennaathvarfsins verði tryggður til frambúðar, enda þau úrræði, sem áður voru fyrir hendi fyrir þær konur og börn þeirra, sem flýja þurftu heimili sín vegna ofbeldis, þjóðfélaginu til lítils sóma. Þess utan er ljóst að sveitarfélögin hvert og eitt gætu vart fjármagnað sómasamlega aðbúð þessara kvenna og barna í neyð. Ódýrast hlýtur að vera að reka eitt kvennaathvarf fyrir allt landið.``
    Þarna kemur fram að Kvennaathvarfið þarf 9,7 millj. kr. til að reka athvarf, en frv. gerir aðeins ráð fyrir 6,1 millj. kr. Mér þætti fróðlegt að vita hvernig ríkisvaldið hefur hugsað sér að konurnar eigi að fá það fjármagn til rekstursins sem á vantar? Mönnunum hlýtur að vera ljóst að þarna er því miður um að ræða nauðsynlega starfsemi sem að stórum hluta til er innt af hendi í sjálfboðavinnu. Það eru hins vegar fleiri hópar kvenna sem taka á sig
verkefni sem að öðru jöfnu ættu að vera hlutverk ríkis og sveitarfélaga. Má í því sambandi nefna sem dæmi kvennaráðgjöfina og sifjaspellshópinn, en fleiri hópar taka að sér ýmsa starfsemi í sjálfboðavinnu sem fær lítinn sem engan stuðning frá hinu opinbera.
    Það er ekkert nýtt að konur taki að sér verkefni sem eru nauðsynleg fyrir þjóðina. Má í því sambandi nefna byggingu Landspítalans og Háskólans þó að margir séu búnir að gleyma að það voru konur sem þar voru frumkvöðlar.
    Annað atriði vil ég nefna sem tengist jafnrétti, en það er jafnrétti til náms. Enn er gert ráð fyrir að námsmenn lifi af 20% lægri upphæð en framfærsla gerir ráð fyrir. Hvernig hugsa menn sér að námsmenn brúi þetta bil þegar jafnvel er búið að skattleggja bæði

hrísgrjón og brauð? Framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna hefði þurft að hækka um 372 millj. kr. til að hækka lán á næsta ári sem þessari skerðingu nemur, þessum 20% sem lán til námsmanna voru skert um í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, eða reyndar ríkisstjórnar þar sem Sverrir Hermannsson var menntmrh. Það gildir það sama um námsmenn og aðra sem lítið hafa að ekki er hægt að lifa á minni fjárhæð en þeirri sem dugar til framfærslu.
    Í húsnæðismálum hefur ástandið ekkert batnað. Fjöldi fólks er í miklum erfiðleikum við að afla sér húsnæðis. Alltaf sækja margir um lán vegna greiðsluerfiðleika. Það sem vekur athygli er að nú eru þeir sem hafa fengið lán eftir nýja húsnæðislánakerfinu svokallaða farnir að sækja um greiðsluerfiðleikalán. Af þeim sem fengu greiðsluerfiðleikalán árið 1988 voru 170 sem voru að fá lán vegna greiðsluerfiðleika í annað eða jafnvel þriðja sinn. Það hlýtur að vera eitthvað bogið við kerfi sem leiðir af sér slíka erfiðleika.
    Í frv. er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir kaupi skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins fyrir 7 milljarða kr. Samkvæmt nýrri spá frá Seðlabanka Íslands er ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á árinu 1989 áætlað rúmir 16 milljarðar. Til Húsnæðisstofnunar renna um 55% eða 8,8 milljarðar. Þetta er sem sagt áætlun frá Seðlabankanum. Hins vegar hafa aðrir gert áætlanir og Vinnuveitendasambandið hefur gert áætlun sem er verulega lægri en spá Seðlabankans. Spurningin er því: Hvar á að skera niður?
    Ríkisstjórnin hefur gert ráð fyrir að gera ráðstafanir í efnahagsmálum sem má áætla að hækki byggingarvísitölu um 3% umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Það má gera ráð fyrir að þetta kosti byggingarsjóðina á bilinu 150--250 millj. kr. Ef það er rétt má búast við að búið sé að binda meira lánsfé en stofnunin getur staðið við á næsta ári. Útlitið er því mjög dökkt og enn dekkra ef áætlun Vinnuveitendasambandsins gengur eftir en ekki áætlun Seðlabankans. Það er því spurningin hvar á að skera niður, framlag til kaupleiguíbúða, verkamannabústaða, íbúða aldraðra? Því að varla er hægt að svíkja fólk sem þegar hefur fengið lánsloforð. Einnig er ljóst að það stefnir í gjaldþrot byggingarsjóðanna ef heldur fram sem horfir með fjármögnunarhlið sjóðanna.
    Margt, margt fleira væri ástæða til að taka til í þessu frv. sem þyrfti að breyta. En eins og ég sagði í upphafi máls míns er ekki hægt að líta á frv. sem alvörufrv.
    Ég skora á hv. fjvn. og ríkisstjórnina að taka tillit til tillagna okkar kvennalistakvenna nú þegar frv. verður tekið til athugunar eftir þessa umræðu. Ef ekki verða gerðar breytingar á frv. nú fram að 3. umr. munum við væntanlega koma með breytingar við 3. umr. um frv. Ég hlýt að vera bjartsýn á að meiri hl. fjvn., sem allt er stuðningsfólk ríkisstjórnar félagshyggju og jafnréttis, sé sammála því að breytinga sé þörf í átt til félagshyggju og jafnréttis.