Fjárlög 1989
Föstudaginn 16. desember 1988

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Í samræmi við afstöðu Kvennalistans til þessa fjárlagafrv., eins og málum er háttað, flyt ég engar brtt. að svo stöddu. Það kemur þó í minn hlut að fjalla aðeins um þá liði fjárlagafrv. sem lúta að listum og menningu. Við kvennalistakonur höfum ár eftir ár flutt tillögur um tvöföldun á þeim lið sem ber yfirskriftina 02.982 Listir, framlög. Í þetta sinn bregðum við út af venjunni og flytjum engar tillögur eins og að ofan er sagt. Það er við hæfi að virða það sem vel er gert og hækkun á þessum lið er nokkuð meiri en oft áður.
    Tvöföldunartillaga okkar kvennalistakvenna hefur hins vegar ekki verið sett fram út í bláinn eða til þess að sýnast, heldur vegna þess að þörfin þarna er brýn því að í þessu felst undirstaða allrar listastarfsemi landsins, og þá undanskil ég að sjálfsögðu þá skóla sem annast menntun listamanna. Undirstaða segi ég því að starfsemi stofnana eins og Þjóðleikhúss, Sinfóníu og ýmissa safna og sjóða utan þessa safnliðs standa á miklu traustari grunni en flest það sem flokkast undir nefndan lið auk þess sem sú stofnanastarfsemi byggir að miklu leyti á þeirri sem fram fer utan stofnana. Þetta segi ég ekki til að rýra hlut stofnana, heldur til þess að undirstrika samhengi.
    Það sakar ekki að minnast á það hér að á tímum eins og nú er brýnna en oft áður að rýna í málin, reyna að skyggnast bak við atburði og ákvarðanir og sjá samhengi hlutanna eða, svo að hófsamara orðalag sé notað, reyna að sjá og skilja.
    Við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegu ástandi í efnahags- og atvinnulífi, þrátt fyrir mörg og margnefnd góðæri og hagstæð ytri skilyrði. En kynni að vera að hin innri skilyrði hafi vantað og þar sé að hluta að leita skýringar á fyrirhyggjuleysi og skammsýni stjórnvalda og að nokkru leyti þjóðarinnar allrar, a.m.k. þess hluta sem hæst lætur og mestu ræður? Er eitthvað bogið við verðmætamat og hinn dýpri skilning á mannlegu lífi? Getur verið að oftrú á efnalegar lausnir allra hluta hafi leitt okkur á villigötur? Hver er skýringin á hluta-, steinsteypu- og peningadýrkun sem öllu hefur ráðið undanfarið? Og af hverju vakna allir upp við vondan draum strax og eitthvað bjátar á og uppgötva, að því er virðist allt í einu, að allir sjóðir standa tómir og ljúka upp einum munni um það að við hefðum átt að vera hófsamari?
    Öll opinber umræða um stjórnmál og þjóðlíf einkennist af efnislegum forsendum einum, um of. Siglt er eftir áttavita hagfræðinnar sem engin verðmæti virðir önnur en þau sem mæld verða í tölum og hæfa reiknivélum og tölvum. Hagfræðin hefur engin mælitæki á andlega velferð auk þess sem hún undanskilur náttúrlega meiri hluta þeirrar vinnu sem unnin er í þjóðfélaginu. En það er nú kannski önnur saga. Því er von að þau störf sem listamenn vinna eigi ekki upp á pallborðið hjá þeim sem hugsa fyrst og fremst í krónum og aurum, þar sem framleiðsla listamanna verður ekki mæld á þann mælikvarða, utan þeirra verðmæta sem skila sér í skiljanlegum stærðum í ríkiskassann í formi beinna og óbeinna skatta. Ég

minni á í því sambandi að ýmislegt bendir til að þar hallist ekkert á, þ.e. að vinna listamanna skili sér ekki minna í ríkiskassann en þeir fá úr honum. Þann mælikvarða vil ég hins vegar ógjarnan nota því að eftir stendur að þó að bók eða leiksýning gefi af sér mælanlegan arð er það ekki tilgangurinn. Listaverkið sjálft er það sem máli skiptir. Þar liggja hin raunverulegu verðmæti. Og e.t.v. stæðum við betur í dag í efnahagslegu tilliti ef þau verðmæti væru ofar í huga stjórnmálamanna.
    Í ljósi þessa ætla ég að nefna nokkur atriði á fyrrnefndum lið. Ég mun aðeins stikla á stóru og ítreka áður en áfram er haldið að ýmislegt er nú í miklu betra horfi en var á síðustu fjárlögum. Tel ég því aðeins fátt eitt til.
    Þá vil ég fyrst nefna Íslensku tónverkamiðstöðina. Hún á nú við slíka örðugleika að etja að óvíst er að þeirri starfsemi verði haldið áfram nema auknir peningar komi til. Það er ekki víst að öllum sé ljóst hver sú starfsemi er sem þarna fer fram, eða hversu mikilvæg hún er.
    Í fyrsta lagi er þetta eini staðurinn á landinu þar sem tónlistarmenn, tónskáld, geta fengið verk sín prentuð og útgefin og vil ég aðeins biðja menn að hugleiða hvernig við værum stödd ef hér væru ekki til bókaútgáfur og rithöfundar gætu því einungis komið sínum verkum á framfæri að þeir nenntu að fjölfalda þau, þ.e. endurrita þau aftur og aftur með penna sínum og standa þeir þó betur að vígi en tónskáld því þeir geta þó notað ritvél. Það geta tónskáldin ekki. Þessi aðstaða fyrir tónlistarmenn hefur gjörbreytt starfi þeirra og gert þeim miklu auðveldara að koma verkum sínum á framfæri, bæði hér á landi og utan lands, og að fá þau flutt.
    Í öðru lagi er í Íslensku tónverkamiðstöðinni sinnt söfnun og varðveislu þeirra tónverka sem til eru eftir eldri tónskáld okkar. Þar liggur nú margt undir skemmdum og enginn aðili sinnir þessum verðmætum. Það er ekki þar með sagt að alls staðar sé um stórvirki að ræða, en þetta er samt þáttur í menningarsögu okkar sem við eigum ekki að glata og verðum að halda til haga.
    Íslenska tónverkamiðstöðin hefur líka unnið mikið að því að kynna íslenska tónlistarmenn erlendis, og í rauninni er starfsemi Tónverkamiðstöðvarinnar
forsenda þess að þeir geti fengið verk sín flutt erlendis. Þess hefur líka gætt í svokölluðum STEF-gjöldum sem ég held að nú séu hjá mörgum tónlistarmönnum ein aðaltekjulind þeirra, þ.e. STEF-gjöld sem þeir fá fyrir verk sín flutt erlendis.
    Öllu mikilvægari er samt sú starfsemi sem rekin er hér innan lands og Tónverkamiðstöðin er svo sannarlega ekki dýr í rekstri. Þarna vinna tvær konur og kannski eru þær að vinna margra manna verk, ekki veit ég það, en alla vega, miðað við mikilvægi þeirra starfa sem þær vinna er ekki ofrausn að hjálpa þarna upp á sakirnar og koma til móts við þær beiðnir sem fjvn. hafa borist um fjárhagsaðstoð við Tónverkamiðstöðina.
    Annað vakti furðu mína þegar ég las brtt. frá fjvn.

við fjárlögin. Þar er liður sem kallast Önnur leiklistarstarfsemi. Þessi liður hafði í fyrra 3 millj. og var í fyrstu drögum frv. hækkuð upp í 4,5 millj., en nú vill svo undarlega til að í brtt. er þetta allt í einu komið niður í 1 millj., og hef ég ekki heyrt neina skýringu á því aðra en þá að þetta muni ekki vera prentvilla eins og maður hneigist til þess að halda fyrst í stað. Undir þessum lið er öll leiklistarstarfsemi landsins utan stofnana og utan Alþýðuleikhúss. Það skýtur dálítið skökku við að umbuna Alþýðuleikhúsi eins myndarlega og eins vel og gert er á þessum fjárlögum. Ekki ætla ég að lasta það og síst að draga úr þeirri viðleitni, en ef ekki eru meiri peningar til skiptanna en þetta getur það ekki kallast réttlátt að eitt leikhús sem starfar utan stofnana fái, mig minnir að það sé 180% hækkun --- er það ekki? --- meðan sá liður sem á að spanna allt annað lækkar úr 3,3 millj. eða réttara sagt 4,5 millj. niður í 1 millj. Það er fjöldi lítilla leikhópa sem eru að starfa úti um allan bæ og ég fæ ekki skilið þetta samhengi milli þessara tveggja liða og vildi gjarnan heyra skýringu hæstv. menntmrh. á því.
    Ég get ekki í því sambandi stillt mig um að nefna að það er annar liður leiklistarmála sem er nefndur í þessum brtt. Það er Ferðaleikhúsið sem hafði 300 þús. samkvæmt fyrstu tillögum en hækkar nú snögglega upp í 800 þús. og vildi ég gjarnan að skýring fengist á því líka um leið og skýring fæst á hinum liðnum.
    Eitt er það atriði undir þessum lið sem lítið lætur yfir sér og er ætlað til listkynninga. Mér skilst að þetta eigi við listkynningar innan lands því að það er þarna sérstök fjárveiting til listkynninga ýmissa utan lands. Ég held að þetta sé sú upphæð sem listamenn geta fegið smásporslu úr ef þeir fara einhvers staðar til þess að kynna verk sín, lesa upp úr þeim eða kynna þau á annan hátt. Ég hef átt tal við talsvert af skólafólki sem hefur orð á því að mikið hafi breyst hvað varðar heimsóknir listamanna, t.d. í skóla, að nú sé svo komið að skólar hafi varla efni á því að fá til sín listamenn til þess að lesa upp eða spila eða flytja verk sín. Þetta er kannski fyrir mörg börn sú eina kynning og upplifun sem þau hafa af list því að það eru auðvitað ekki öll börn sem hafa aðgang að þeirri starfsemi, annaðhvort vegna þess að eitthvað skortir á skilning foreldra eða þá að efnahagur leyfir það hreinlega ekki. Hið mikilvæga hlutverk að skila til barnanna þeirri liststarfsemi sem fer fram í landinu og hugsanlega kveikja hjá þeim neista sem gerir þau að góðum neytendum, svo að maður noti nú leiðinlegt orð, felst því í þessum lið innan skólanna. Ég býst við að margir, a.m.k. þeir sem hér eru á mínum aldri eða álíka, muni þær stundir úr okkar skólum þegar, svo að ég nefni einn mann, Lárus heitinn Pálsson kom í skólana og las fyrir okkur prologus úr Gullna hliðinu eða eitthvað álíka og ég býst við að flestum börnum, sem þetta upplifðu, sé þetta ógleymanlegt og kannski var áhugi margra þarna vakinn fyrir því að halda áfram að njóta einhvers af þeirri starfsemi sem hann var fulltrúi fyrir.
    Í fjórða lagi langar mig til þess að nefna Íslensku

óperuna. Sú hækkun sem hún fær milli ára núna er 30%. Það væri svo sem ekki yfir því að kvarta ef hún hefði búið við sæmilegan efnahag fyrir. Ég held að Íslenska óperan, sem á 10 ára afmæli eftir nokkra mánuði, hafi sannað það með tilvist sinni að hún er komin til þess að vera í íslensku listalífi. Sú upphæð sem henni er ætluð hér dugir, ef vel er haldið á málum og spart með farið, fyrir einni uppfærslu á ári. Ég held að þær sýningar óperunnar sem hafa verið á fjölunum í Gamla bíói hafi yfirleitt náð 20--30 þús. áhorfendum. Þeir peningar nægja að vísu til þess að standa undir kvöldkostnaði, sjaldnast hefur náðst að borga stofnkostnað og ekkert er eftir til þess að borga listamönnum skikkanlega. Nú er svo komið eftir mikilvægt uppeldishlutverk Íslensku óperunnar að íslenskir söngvarar hafa náð þeim árangri að þeir eru orðnir ágætis útflutningsvara. Að vísu höfum við ekki neinar gjaldeyristekjur af þeim, en mikið væri nú betra ef við gætum notið þessa fólks hér heima og það þyrfti ekki að leita sér atvinnu erlendis, a.m.k. ekki um lengri tíma. Gott er sjálfsagt fyrir þá flesta að spreyta sig og aðeins að kanna sitt gengi, en æskilegast væri að við gætum boðið flestu þessu fólki atvinnu hér heima, og undirtektir fólks sýna að áhorfendur, almenningur, vilja það gjarnan. Ég er ekki að segja að það sé hægt að taka þau skref í einu lagi. Ég talaði í fyrradag um langstökksaðferðir
þegar þrístökksaðferðir dygðu kannski betur, og ég vona svo sannarlega að þessi hækkun sem Íslenska óperan fékk núna sé kannski fyrsta stökkið í þrístökkinu. Það mun þá kannski sannast með Íslensku óperuna eins og oft hefur gerst á Íslandi að það er fyrst og fremst stórhugur og í rauninni ótrúleg þrautseigja og áræði og hugrekki eins manns sem þarna hefur fleytt þessu fyrirtæki svo fram á veginn að það er nú statt þar sem það er í dag, og það er Garðar Cortes. Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Ég vona að hann fari að uppskera eins ríkulega og hann hefur sáð til ásamt öllum öðrum íslenskum söngvurum og íslenskum áhorfendum.
    Auðvitað hefði ég viljað nefna margt fleira, en læt þetta duga í bili. ( SighB: Hv. ræðumaður minnist ekkert á Sigurliða Kristjánsson sem á sennilega hvað mestan þátt í því að Íslenska óperan varð til.) Auðvitað liggur þarna stór þáttur og ég er alveg tilbúin að biðjast afsökunar á að hafa ekki minnst á þá gjöf. (Gripið fram í.) Já, og ég skal verða við þeim tilmælum og nefna það hér að auðvitað verður seint ofþökkuð sú gjöf sem þau hjónin gáfu Íslensku óperunni. Hús dugir hins vegar skammt ef engin starfsemi er í því.
    Að lokum vil ég benda á og undirstrika að fjárhagslegur stuðningur við listamenn og listastarfsemi er ekki einungis við þá persónulega sem listir stunda heldur við alla þjóðina. Það er hún sem eignast afrakstur þessa fjárstuðnings og nýtur og geymir, ýmist í huga sínum þegar um list augnabliksins er að ræða eða svo lengi sem þetta land er byggt af Íslendingum. Því vil ég beina því til hv. fjvn., ríkisstjórnar og þingmanna allra að

skammtímasjónarmið mega síst ráða í þessum efnum. Efnahagslegar þrengingar ganga yfir. Þar réttum við úr kútnum. Ef við hins vegar forsmáum hið andlega og hið varanlega verður sá skaði seint bættur.