Fjárlög 1989
Föstudaginn 16. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Fulltrúi Borgfl. í fjvn. hefur haldið hér athyglisverða ræðu og er hún byggð á þeim staðreyndum sem hann hefur aflað sér í fjvn. þannig að málefnalega hef ég ekki mikið erindi hingað upp í stólinn. Brtt. frá mér eru ekki margar. Það er aðeins ein brtt. sem ég vil ræða um í sambandi við fjárlögin, en það er að ég geri tillögu um að framlagið til Íþróttasambands Íslands verði hækkað úr 21 millj. upp í 30 millj. Fyrir 3--4 árum síðan var þessi upphæð þegar komin upp í 24--26 millj. ef ég man rétt en hefur lækkað með árunum á sama tíma og umsvif íþróttahreyfingarinnar aukast. Íþróttasambandið fór fram á 40 millj. en það framlag eða sú ósk hefur verið lækkuð um hér um bil helming.
    Ég vona að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að líta á þessa einu brtt. sem ég leyfði mér að gera sem einn með eldri þingmönnum hérna og eins sem fyrrv. fjmrh. Það lít ég á sem ósköp sanngjarna ósk af minni hálfu og ég er honum fyrir fram þakklátur fyrir það sem hann sér sér fært að gera í því máli.
    Það sem kom mér til að koma hér upp í ræðustólinn er allt annar hlutur en snertir þó fjárlögin. Hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson, einn af eldri þingmönnum þingsins og einn af reyndustu fjárlagagerðarmönnum okkar, kvartar undan stefnuleysi í fjárlögunum og mér finnst það stóralvarlegt mál. Mér finnst það stóralvarlegt mál vegna þess að í fjárlögunum felst bæði efnahags- og atvinnustefna og ef stærsti flokkur þjóðarinnar sér ekki hvað er að ske er þar um algjöra pólitíska blindu að ræða og stórhættulega.
    Það er stefnt að hallalausum fjárlögum í gríðarlega miklum vanda sem ríkissjóður er í. Ríkissjóður hefur áður verið í slíkum halla. Þá var stefnt að því að leysa þann vanda á 3--4 árum til þess að það kæmi létt niður á fólkið í landinu, og fjárlög voru afgreidd með minnkandi halla sem endaði í tekjuafgangi og þetta var hægt á löngum tíma. En nú birtist í fjárlögum þessa árs að það skal yfirfæra hallann hvað sem það kostar frá ríkissjóði yfir á heimilin. Kallið þið það enga stefnu? Það er stefna sem er stórhættuleg, vegna þess að í henni felst pólitísk ákvörðun. Það er verið að flytja pólitíkina sem eins konar uppbót á skattana inn á heimilin.
    Hækkandi vörugjald, það er líka stefna. Það er alvarleg stefna vegna þess að hækkandi vörugjald og aukinn fjöldi flokka í álagningargrunninum er stefna um minni kaupmátt almennings. Það er stefna. Það er stefna um það að taka ráðstöfunartekjur fólksins og fyrirtækjanna frá því inn í ríkissjóð, það er stefna. Það er ekki hægt að segja að ríkisstjórnin sé stefnulaus. Hún hefur stórhættulega stefnu, bæði í efnahags- og atvinnumálum, vegna þess að við vitum, við erum áhorfendur að því daglega, að fyrirtæki loka, fólk er í stærri hópum en nokkurn tíma hefur þekkst áður svo að ég muni til að missa atvinnu sína, fyrirtæki loka og fólk og heimili fara á hausinn. Það er árangurinn af stefnu. Auðvitað er það árangurinn af stefnu. Hækkandi tekjuskattar. Haldið þið að það sé ekki

stefna? Þetta er allt í sömu áttina, að skapa hér öngþveiti og öreiga. Það er stórhættuleg stefna sem hefur alltaf verið andstæð minni lífsskoðun. Hvað haldið þið að eignarskattarnir á einstaklinga sem eiga 7 millj. kr. í nettóeign eða hjón sem eiga 14 millj. kr. í nettófasteign þýði? Ég veit það að þar sem ég bý við Laufásveginn í Reykjavík eru gömul heimili. Þar er annaðhvort gamalt fólk, gömul hjón eða ekkjur sem búa í þessum dýru húsum sem voru utan bæjarins, utan miðbæjarins, þegar ég var að alast hér upp en eru núna miðbæjarkjarni og eru með dýrustu eignum. Þetta fólk verður öreigar þegar skattarnir koma til greiðslu. Hvað haldið þið að þetta sé? Þetta er stefna. ( Gripið fram í: Sósíalismi.) Auðvitað er það sósíalismi, hv. þm., en það er stefna því fólkið er hrætt, fólkið lifir í óvissu og óöryggi um framtíð sína, um eignir sínar og atvinnu. Auðvitað er það stefna, bæði í peningamálum og efnahagsmálum almennt, og hún er farin að virka og því skulum við átta okkur á, að hún er farin að virka áður en tekjuöflunarfrv. og fjárlögin eru samþykkt á Alþingi. Hún er farin að virka vegna þess að fólkið er hrætt. Við skulum ekki loka augunum fyrir því að við erum ekki í neinum leikaraskap. Við erum í alvöru lífsins hér á Alþingi og þar eru flokkar sem hafa mismunandi stefnur. Sú stefna sem ég aðhyllist ekki ræður ríkjum í dag. Sú stefna sem ég aðhyllist, að fólkið og fyrirtæki fái að halda sem mestu eftir af sjálfsaflafé sínu, er ekki virt í dag. Stefna mín er ekki í gangi. Stefna hinna sem ég aðhyllist ekki pólitískt er í framkvæmd. Þeir hafa náð undirtökunum og við skulum átta okkur á því að það er að mínu mati hættuleg stefna. Það er stefna sem skapar þennan ótta sem ég gat um, bæði efnahags- og atvinnulegt óöryggi. Það er líka stefna að deila fólkinu og deila til að stjórna. Það er það sem verið er að gera og þetta er að takast. Við segjum svo á Alþingi að engin stefna sé í gangi. Við erum með alvöruna á milli handanna.
    Byltingin er að heppnast og við skulum gera okkur grein fyrir því að til þess að geta haldið áfram lengur en 17 ár í ríkisstjórn hefur Framsfl. afsalað sér öllum lykilstöðum í þjóðfélaginu. Hver er þessi lykilaðstaða? Hún er náttúrlega fjmrn. sem ræður öllum öðrum ráðuneytum. Fjmrn. ræður hvað hin ráðuneytin eru áhrifamikil og sterk og hvað þau geta gert. Samgrn. er líka
mjög afdrifaríkt ráðuneyti vegna þess að það getur komið í veg fyrir eðlilega þróun varnarmála á Íslandi. Menntamálin hafa sín áhrif, við vitum það, fyrir utan það sem við áttum okkur ekki á en það er að undir menntmrn. heyra ríkisfjölmiðlarnir. Það hefur og komið í ljós hvað eftir annað þegar ég hef komið hér upp í ræðustólinn að komið er nýtt og allt annað forsetavald á Alþingi en var áður. Það er líka valdastaða og hluti af forsetavaldi þjóðarinnar nú á tímum. Við skulum bara sætta okkur við það að komin eru önnur öfl en við höfum aðhyllst. Við verðum að sætta okkur við það en við skulum ekki vera það blindir að segja að það sé engin stefna í fjárlögunum. Það er stefna og hún er vel rekin af

skemmtilegum andstæðingi í pólitík sem ég hef átt við að etja um langan tíma og ég met hans hæfileika vegna þess að þá má ekki vanmeta.
    Það er líka stefna að matarskatturinn kom á. Það er sko stefna. Það er stefna í efnahagsmálum heimilanna. Það er stefna og kannski sérstaklega fyrir Reykvíkinga þegar verið er að hækka bensínið. Tugþúsundir manna þurfa að aka 20--30 km vegalengd fram og til baka, úr og í vinnu í Reykjavík, úr Breiðholtinu, úr Grafarvogi, úr Árbænum og víðar. Hvað haldið þið að það kosti að auki þegar bensínið er hækkað? Það er stefna sem tekur meira frá heimilunum, frá fólkinu sem þarf að fara í vinnu snemma á morgnana og kemur heim til sín þreytt á kvöldin. Ég veit um fólk sem getur ekki notað bílana sína þegar líða fer á mánuðinn vegna þess að það á ekki fyrir bensíni á bílana. Þetta er stefna, auðvitað er þetta stefna. Þetta er stefna Alþb. og þeim er að takast mjög vel að koma sinni stefnu fram. Við verðum að viðurkenna það að þeir hafa náð undirtökum. Á meðan allt þetta er í gangi er búið að blinda okkur með einhvers konar fjárlögum og hefta hugann með því að ræða um einstaka liði sem í sjálfu sér skipta engu í hinu stóra dæmi sem ég er að tala um. Það er þetta sem við skulum ekki loka augunum fyrir.
    Nei, kæru samþingmenn. Hér vantar ekki stefnu. En það finnst kannski ekki leið á Alþingi til þess að koma í veg fyrir hana. Við skulum vera alveg viss um það, og það er það sem bjargar okkur, að fólkið veit að það sjálft þarf að finna leið til að verja sig, til að verjast þessari stefnu, finna vörn gegn stefnunni sem nú er notuð í árásarskyni. ( Gripið fram í: Við hvern?) Við þjóðina, við fólkið, við þau kaupfélög sem hafa ekki þolað hana og eru að fara á hausinn og fleiri og fleiri. Ef hæstv. ráðherra --- ég held að það hafi verið ráðherra sem greip fram í, (Gripið fram í.) ekki ráðherra, þá bið ég afsökunar, en það var verkalýðsforinginn Karl Steinar sem greip fram í. --- Ef hann finnur ekki leiðina eða finnur fyrir stefnunni sem er í gangi veit ég ekki hver leiðir blindan. ( Gripið fram í: Það var krataverkalýðsforingi.) Samkvæmt sérstakri ósk er ég minntur á að það var krataverkalýðsforingi sem greip fram í og það skal engan furða því að stefna þeirra er ein í dag og önnur á morgun. ( Gripið fram í: Þú lýgur því.)
    Ég verð að segja að ég er ekki alveg sammála fyrrv. hæstv. forseta Sþ., hv. 4. þm. Vestf., þegar hann segir að fyrst verði að móta stefnu og síðan að laga fjárlögin að þeirri stefnu. Ég vil líka segja að það sem er verið að gera núna, og ég vil að hv. þingmenn hugsi á þeirri línu og þess vegna tala ég svona, er að það er verið að aðlaga þjóðfélagið að hugmyndafræði vinstri manna og síðan á að venja þjóðina við stefnuna sem út úr því kemur. Það er þetta sem ég vildi hafa sagt að gefnu tilefni.