Fjárlög 1989
Laugardaginn 17. desember 1988

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Aðeins út af því að í grg. við atkvæðagreiðslu frá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni kom fram að e.t.v. hefði ekki í tillögum frá heilbr.- og trmrh. eða ráðuneyti verið nein athugasemd við það að ekki væri fjárveiting til heilsugæslustöðva í Reykjavík eða ósk um, þá vil ég ítreka og árétta hér að það er að sjálfsögðu fjvn. sem gerir tillögur um skiptingu þessa fjárveitingaliðar að þessu sinni eins og áður. Heilbrmrn. hefur gert grein fyrir öllum óskum sem hafa borist til þess að þessu sinni eins og jafnan áður. Þær voru upp á 700 millj. kr. Til ráðstöfunar eru 240 millj. Þar var auðvitað gerð grein fyrir ósk Reykjavíkurborgar um 100 millj. kr. Ég vil líka láta það koma fram að þessa dagana er verið að ganga frá 20 millj. kr. fjárveitingu til Reykjavíkurborgar upp í þær 100 millj. sem þar var getið um. Þá hefur Reykjavíkurborg fengið á þessu ári 44 millj. kr. samkvæmt heimildargrein í fjárlögum ársins í viðbót við 10 millj. sem voru í fjárlögunum, 55 millj. samtals, sem er meira en nokkurt annað eitt sveitarfélag hefur fengið í fjárveitingu til þessa liðar, uppbyggingar heilsugæslustöðva, á árinu sem er að líða. Þetta taldi ég rétt að kæmi fram, en það er auðvitað ljóst, þegar umsóknir eru um eða yfir 700 millj., að það verður ekki öllum framfylgt. En það var aðallega það að tilmæli frá heilbrmrn. hafa borist til fjárveitingavaldsins um þessar óskir Reykjavíkurborgar alveg eins og allar aðrar og það er því rangt hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni að það hafi engin athugasemd komið um það frá heilbr.- og trmrh. Ég segi já.