Fjárlög 1989
Laugardaginn 17. desember 1988

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Fram kom hjá hæstv. heilbrmrh. að heilbrmrn. geri grein fyrir því sem það telur þörf á til framkvæmda í sjúkrahúsabyggingum og heilsugæslustöðvum sem var um 700--800 millj. kr. Á hinn bóginn gera fulltrúar heilbrmrn. og fulltrúi frá framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins tillögu til fjárveitinganefndar um skiptingu á því fé sem liðurinn gerir ráð fyrir sem er miklu lægri fjárhæð en hér var um að tefla eða er nú í heild 240.3 millj. kr. Í þeirri skiptingu var ekki gerð tillaga um neina krónu til framkvæmda í Reykjavík í þessu tilliti.
    Ég lýsti því yfir þegar tillaga um þetta var lögð fyrir í fjvn. að ég gæti ekki staðið að skiptingu með þessum hætti og voru þá gerðar þær breytingar að bætt var við 8 millj. kr. til stöðvar á Seltjarnarnesi sem réttilega hefur komið fram að á að þjóna Reykjavík að hluta. Enn fremur lýsti formaður fjvn., hv. 5. þm. Vestf., því yfir að samkomulag yrði gert, samningur yrði gerður á milli hæstv. fjmrh. og borgarstjórans í Reykjavík með milligöngu hv. 1. þm. Reykv. um greiðslur til heilsugæslustöðva í Reykjavík, sem eru í byggingu bæði við Hraunberg og Vesturgötu, og eftir að sú yfirlýsing barst inn á fund nefndarinnar treysti ég mér til að standa að þessu máli.
    Ég lýsi því yfir að það er ekki til eftirbreytni að viðhafa þessa aðferð við afgreiðslu fjárlaga. Á þessu ári voru samkvæmt samningi og samkvæmt heimild í 6. gr. greiddar 44 millj. með þessum hætti til heilbrigðismála í Reykjavík. Það eru ekki eðlileg vinnubrögð að halda áfram að halda utan fjárlaganna sjálfra stórum fjárhæðum sem renna eiga til framkvæmda eins og heilsugæslustöðva og væri hyggilegra að taka málin hreint fyrir við afgreiðslu fjárlaga og fella fjárhæðina þar inn. Því var einnig lýst yfir að væri þetta samkomulag komið til loka áður en afgreiðsla fjárlaga fer fram væri hægt að fella þessar tölur inn í fjárlagaafgreiðsluna sjálfa.
    Ég vil svo aðeins segja að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson ( ÓÞÞ: Eru frjálsar umræður eða er verið að gera grein fyrir atkvæði sínu?) sagði að Reykjavík og yfirvöld í Reykjavík krefðust meiri greiðslu til heilbrigðismannvirkja en önnur byggðarlög og að yfirvöld í Reykjavík hefðu krafist gatnagerðargjalda vegna byggingar heilsugæslustöðva í Reykjavík. Þarna er málum blandið vegna þess að það er úrskurður Ríkisendurskoðunar að greiða skuli gatnagerðargjöld af þessum framkvæmdum hvar sem er á landinu. Ég segi já.