Fjárlög 1989
Laugardaginn 17. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég tók svo eftir að atkvæðagreiðslan væri um lið 1 og 2 eins og hæstv. forseti sagði og hafði hæstv. forseti úrskurðað nafnakall um lið 1 og 2. Síðan var mér bent á að nú væri búið að breyta atkvæðagreiðslunni og af vangá var ég of seinn til að óska eftir því að atkvæði yrðu sérstaklega greidd um þann lið sem varðar heimild til að kaupa skrifstofuhúsnæði fyrir Stjórnarráð Íslands. Hins vegar skil ég það vel, eins og ríkisstjórninni er háttað og stefnu hennar, að það verði með öllum hætti að koma í veg fyrir að þingheimur geti látið í ljós hug sinn til þess hvort rétt og nauðsynlegt sé að kaupa aukið skrifstofuhúsnæði fyrir Stjórnarráðið, en ég tel samt sem áður nauðsynlegt að þingheimur fái að láta uppi hug sinn um það. Það er verið að tala um að eyðsla sé mikil, það er verið að tala um það að fyrirtækin eigi að sýna sparnað og hagræðingu og einmitt þegar svo stendur á er nauðsynlegt að þingheimur fjalli um það, greiði atkvæði um það sérstaklega hvort það eigi áfram að halda við útþenslu ríkisbáknsins. Ég ítreka að ég óska eftir að þessi liður sé borinn upp sérstaklega.