Þinghald milli jóla og nýárs o.fl.
Laugardaginn 17. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. ( EKJ: Hefur fjmrh. tekið að sér að gegna störfum forsrh.?) Vegna frammíkalls Eyjólfs Konráðs Jónssonar er alveg óhætt . . . ( Gripið fram í: Hv. þm.) Hv. þm., vissulega, mjög háttvirts, sérstaklega háttvirts. Það er rétt að vekja athygli á því að formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl., vék í sínu máli að samtölum sem ég hefði átt við formenn þingflokkanna og tel ég eðlilegt að fjalla um það hér.
    Ég vil að vísu áður sérstaklega lýsa því yfir að mér fannst það sérkennilegur málflutningur hjá hv. þm. Þorsteini Pálssyni að fara að gera mál úr því, sem er algeng venja í þinginu og áralöng hefð fyrir, að þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu pari sig út hver á móti öðrum við atkvæðagreiðslur þegar þeir geta af ýmsum ástæðum ekki verið viðstaddir og að leggja pólitískan dóm á það, eins og hann gerði í upphafi sinnar ræðu, eru vægast sagt afar sérkennileg vinnubrögð og óvenjulegur málflutningur. Tveir þeirra þingmanna sem hafa verið fjarstaddir í dag, annar þingmaður Sjálfstfl., hinn þingmaður Alþb., gerðu það samkomulag sín á milli að vera ekki hér í dag vegna þess að þeir þurfa að vera viðstaddir jarðarför í sínu kjördæmi. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson má halda áfram að reyna að fleyta pólitískar kerlingar á slíkum forsendum, en það er ekki við hæfi.
    Hitt var hins vegar fyllilega eðlilegt að víkja að blaðaummælum og fyrirspurn um viðræður, en að tengja inn í það þessa áralöngu hefð í þinginu fannst mér fullkomlega óeðlilegt og óvenjulegt, hef aldrei heyrt það gert fyrr úr þessum ræðustól.
    Í gær kom ég á framfæri við formenn þingflokka, þeirra flokka sem ekki eiga aðild að þessari ríkisstjórn, formlegri ósk um viðræður við fulltrúa ríkisstjórnarinnar um þau tekjuöflunarfrumvörp sem eru til meðferðar í þinginu. Ég greindi jafnframt frá því að þetta væri formleg ósk sett fram í samráði við forsrh. og forustu Alþfl. Formenn þingflokks Kvennalistans og Borgfl. tjáðu mér í gær að þeir mundu koma til slíkra viðræðna og ég heyrði í sjónvarpi að formaður þingflokks Sjálfstfl. hafði svipuð orð. Hann var hins vegar ekki viðstaddur hér í morgun, líka vegna þessa samkomulags um pörun við atkvæðagreiðslur sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson var hér að fordæma í upphafi sinnar ræðu, og ég hef þess vegna ekki haft tækifæri til þess að ræða við formann þingflokks Sjálfstfl. um það mál. Hins vegar er það rétt að í morgun áttu hæstv. forsrh., hæstv. viðskrh. og ég viðræður á skrifstofu forsrh. við þrjá þingmenn Kvennalistans og við höfum sett fram þá ósk og það hefur verið ákveðið að á skrifstofu forsrh. muni að loknum fundi í Sþ. einnig fara fram viðræður við fulltrúa þingflokks Borgfl. og í samræðum hér á fundinum við formann Sjálfstfl. Þorstein Pálsson skildi ég hann þannig einnig að Sjálfstfl. mundi senda fulltrúa til sams konar viðræðufundar eftir að þingflokkur Sjálfstfl. hefði haft tækifæri til að funda um málið. Á þeim fundi gefst tækifæri til að fjalla um þau atriði sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson gerði hér að umræðuefni og fá á þeim nánari skýringar. Það tel ég

vera eðlilegri og vænlegri vinnubrögð og við munum þar greina frá okkar afstöðu og afstöðu ríkisstjórnarinnar og hlýða á þau sjónarmið sem fulltrúar þeirra flokka sem ég hef nefnt kunna að koma fram með.