Þinghald milli jóla og nýárs o.fl.
Laugardaginn 17. desember 1988

     Kjartan Jóhannsson:
    Herra forseti. Út af vangaveltum um hvort bráðabirgðalög verði afgreidd fyrir jól eða ekki vil ég staðfesta það, sem væntanlega er flestum hv. þm. kunnugt, að í áætlunum sem ég sem forseti Nd. hef lagt fram er gert ráð fyrir því að bæði 2. og 3. umr. um bráðabirgðalögin verði fyrir jól. Ég hef ekki breytt þeim áformum. Það hefur enginn beðið mig um að breyta þeim. Ég mun halda mig við þau eins og önnur atriði þessarar áætlunar. Hvort hún stenst að öllu leyti er auðvitað undir þingheimi komið, þingmönnum sjálfum, og þá ef að líkum lætur, miðað við fyrri reynslu, og þá ekki bara á þessu þingi heldur yfirleitt, ekki síst undir þingmönnum stjórnarandstöðunnar komið. En áform forseta og ákvarðanir eru ljósar.