Þinghald milli jóla og nýárs o.fl.
Laugardaginn 17. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Mér finnst í mesta lagi óviðfelldið að gera athugasemdir við það þó að þingmenn nýti sér þann rétt sem þeir hafa til þess að ræða um þingsköp að því er varðar framgang þingmála, ekki síst í ljósi þess, frú forseti, hvert ólag er á framgangi þeirra mála og verkstjórn hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar á framgangi mála hér í þinginu.
    Það var harla skrýtin ræða sem hæstv. fjmrh. flutti um tvo fjarstadda þingmenn. Ég hef ekki heyrt það fyrr, vegna þess að hann nefndi hér nafn hv. þm. Skúla Alexanderssonar, að hann væri í því liði sem væri yfirlýst stuðningsmannalið ríkisstjórnarinnar. Ég veit ekki betur en frá honum hafi komið yfirlýsingar alveg í gagnstæða átt og fæ því með engu móti skilið þá yfirlýsingu og ræðu hæstv. fjmrh. að þar hafi einhverju breytt um. Jafnvel þótt hv. þm. Ragnar Arnalds hefði verið viðstaddur hefði stjórnarliðið haft 31 þingmann sem ekki er meiri hluti í þinginu.
    Hinu er svo alveg nauðsynlegt, frú forseti, að fá hér skýr svör við og í tilefni af blaðayfirlýsingu hæstv. fjmrh. Ég skil að vísu mætavel beiðni hæstv. sjútvrh. að fara fram á að hér séu ekki rædd mikilvæg mál að hæstv. forsrh. fjarstöddum. Það er ofur skiljanleg beiðni. En ég veit að þingheimur allur skilur að það yrði ekki mikið rætt um hin alvarlegustu og meiri háttar mál ef alltaf ætti að bíða eftir hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. hefur gefið hér blaðayfirlýsingu sem breytir í grundvallaratriðum fyrri ákvörðunum og yfirlýstum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um afgreiðslu bráðabirgðalaga og þá um leið fjárlaga fyrir jól. Það er nauðsynlegt að fá um það skýr svör enn einu sinni hvort taka á þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh. eins og venjulega eða hvort á að taka hana alvarlega. Ég trúi ekki öðru en þeir ráðherrar sem hér eru viðstaddir geti skýrt frá því. Umræður hljóta að hafa farið fram um þetta í ríkisstjórn. Það er ekki smámál sem hér er í húfi. Ég trúi ekki öðru en verkstjórinn hér, hæstv. fjmrh., geti gefið um þetta alveg skýr svör.