Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Laugardaginn 17. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði var upphaflega til umræðu og samþykktur á Alþingi 1978--1979. Þessi skattur olli töluverðum umræðum og deilum þegar hann var fyrst ákveðinn, en engu að síður hefur það verið reynslan að fjármálaráðherrar í öllum ríkisstjórnum síðan hafa mælt hér á Alþingi fyrir endurnýjun frv. og laganna um skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Það segir kannski sína sögu um að þær deilur sem í upphafi voru töluverðar um réttmæti þessarar skattlagningar hafa síðan að mestu leyti lagst af og í staðinn hafa komið mismunandi sjónarmið um þá prósentutölu sem ætti að ákveða.
    Mér taldist til þegar ég mælti fyrir þessu frv. í hv. Nd. að ég mundi vera sjötti fjmrh. sem mælir fyrir því síðan þessi skattur var innleiddur að hann yrði framlengdur og hafa þeir verið fulltrúar í ríkisstjórnum sem fimm flokkar hafa setið í og sjálfir ráðherrarnir verið úr Sjálfstfl., Alþfl. og Alþb. ( Menntmrh.: Og Borgfl.) Og nú í Borgfl., það er rétt, þannig að það eru kannski fá skattafrv. í þingsögunni sem hafa hlotið í verki blessun með þessum hætti svo að ég slái aðeins á létta strengi. Hins vegar er engin launung á því að þegar þessi skattur var fyrst lagður á voru ýmsar efasemdir um framkvæmdina hvað hann snertir.
    Engu að síður hefur reynslan sýnt að þrátt fyrir ýmsa annmarka hefur framkvæmdin tekist svo vel að á hverju ári er mælt fyrir því að skatturinn verði endurnýjaður og þess vegna er frv. í þeim búningi sem hér er mælt fyrir ólíkt því sem er um ýmsa aðra skatta þegar eingöngu framlengingar- og breytingarákvæðin eru mjög einföld.
    Skatturinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði var öðrum þræði í upphafi settur á til að reyna að hamla gegn fjárfestingu á þessu sviði. Ég held að allir hv. þm. geti verið sammála um að á undanförnum árum hefur verið gífurleg fjárfesting í skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Kunnugir menn fullyrða að um 200 þús. fermetrar standi nú auðir af skrifstofu- og verslunarhúsnæði á þessu svæði. Ef sú staðreynd er rétt endurspeglar hún mjög rækilega að verulegum fjármunum hefur verið varið til framkvæmda á þessu sviði. Ef við viljum beita skattlagningu til að vera stýritæki bæði í neyslu og fjárfestingu held ég að allir geti verið sammála um að í okkar þjóðfélagi er nauðsynlegt að draga úr fjárfestingu í skrifstofu- og verslunarhúsnæði.
    Auðvitað er það þannig að skattur af þessu tagi nær kannski aldrei þeim árangri fullkomlega, en þó er alveg ljóst að hann hefur verið í vissum mæli hömlunartæki á þessu sviði. Ég held að um þessar mundir sé einnig nauðsynlegt að slíkt sé áfram.
    Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að leggja til að prósenttalan breytist hins vegar og verði 2,2% í stað 1,1%. Það er alveg ljóst að ýmsir telja að þessi hækkun sé ekki eðlileg. Við erum hins vegar sannfærð um að hún sé bæði nauðsynleg og óhjákvæmileg, ekki bara vegna tekjuþarfar ríkissjóðs heldur einnig til þess að gera þennan skatt að skarpara stýritæki en hann

hefur verið til þessa.
    Efnisþættir frv. eru þingheimi mjög vel kunnir vegna þess að það hefur í tíu ár verið hér á dagskrá. Það eina sem er breytt með því frv. sem hér hefur verið lagt fram er prósenttalan sjálf.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.