Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Mánudaginn 19. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er um ráðstafanir í ríkisfjármálum, en þar er verið að fjalla um sérstakt lántökugjald sem taka á vegna erlendra lána. Nú er það svo að þegar þetta lántökugjald var ákveðið fyrir einu ári óttuðust menn mjög að það væri mikil þensla í landinu og menn höfðu af því þungar áhyggjur að of mikil fjárfesting yrði af þeim sökum og með einhverjum hætti yrði að draga úr þessum þensluvaldi. Við munum eftir því, sem stóðum að þeirri ríkisstjórn, að í ágústmánuði í fyrra var sérstaklega rætt um það milli Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. hvort ástæður væru til að grípa þá þegar inn í með efnahagsaðgerðum vegna þess að efnahagsráðunautur ríkisstjórnarinnar hafði gert sér grein fyrir því að raungengi krónunnar var hækkandi og var raunar að verða svo hátt að það stefndi í að það yrði útflutningsatvinnuvegunum um megn. Það er rétt að hafa í huga og nauðsynlegt í ljósi þess sem síðan hefur gerst að bæði ráðherrar Framsfl. og ráðherrar Alþfl. sögðu á fundi sem um þetta mál var haldinn að ekki kæmi til álita að grípa til neinna efnahagsráðstafana fyrir 1. okt. á árinu 1988. Þá var tekin sú ákvörðun að reyna með almennum aðgerðum að draga úr þeirri þenslu sem óneitanlega var í þjóðfélaginu á þeim tíma, að verulegum hluta vegna þess að almenningur hafði ekki gert sér grein fyrir því að hverju stefndi og eins og við munum sögðu atvinnurekendur hreint út við stjórnmálamenn að eftirspurn eftir vinnuafli á vinnumarkaði væri svo mikil að það væri greinilega langt í að við því mætti búast að drægi úr yfirborgunum til þess að halda vinnuaflinu. Það var mat manna á þessum tíma, hvort sem við getum svo eftir á deilt um það hvort við höfum farið rétt eða rangt að, alveg eins og við gátum skipst á skoðunum um það fyrir fram, en það varð niðurstaðan á þeim tíma að slá því á frest að grípa til almennra aðgerða í efnahagsmálum þar sem ýmsir, bæði úr röðum vinnuveitenda og launþegahreyfingar, gerðu sér vonir um að takast mætti að ná samningum fyrir áramót, hóflegum samningum sem væru nauðsynleg aðgerð til þess kannski fyrst og fremst að breyta þeirri tekjuskiptingu sem þá var í þjóðfélaginu, en eins og við sjálfstæðismenn höfum lagt áherslu á hvað eftir annað var komið svo síðari hluta árs 1987 og það mikla launaskrið sem hafði viðgengist síðustu missirin olli því að lægstu laun og laun þeirra sem einungis þurftu að lifa af berum kauptöxtum voru orðin tiltölulega lægri en með góðu móti var hægt að una við. Það var af þessum sökum sem ýmsir héldu því fram að nauðsynlegt væri að láta nýja kjarasamninga ganga í gildi til þess að reyna að rétta hlut þeirra sem voru lægst launaðir, en eins og löngum vill fara þegar samdráttur verður í þjóðartekjunum drógust þeir samningar á langinn. Á hinn bóginn voru gerðar margvíslegar ráðstafanir til að reyna að draga úr þenslu í þjóðfélaginu. Ein af þessum ráðstöfunum fólst í því að leggja sérstakt lántökugjald á þau lán sem tekin voru erlendis og var gert ráð fyrir því að það lántökugjald félli niður hinn

31. des. 1988.
    Það er eins um þetta lántökugjald og margar aðrar efnahagsráðstafanir sem gerðar eru til að draga úr þenslu að áhrifin af þeim koma ekki fram þegar í stað heldur eru þær miklu fremur langtímaaðgerðir og það má segja að að því leyti hafi þessi aðferð tekist fyrir einu ári með lántökugjaldinu að mjög hefur dregið úr þenslu hér á landi á síðari hluta þessa árs sérstaklega og greinilegt að menn eru varkárari í fjárfestingum en áður. Auðvitað á það að hluta til rætur sínar að rekja til erfiðrar stöðu útflutningsatvinnuveganna og samkeppnisgreina, en enginn vafi er á því að lántökugjaldið flýtti fyrir því að menn hikuðu við fjárfestingar á þessu ári. Við slík skilyrði, þegar um of mikla fjárfestingu er að ræða í þjóðfélaginu, þegar of mikið kapphlaup er eftir vinnuafli og við sjáum fram á að nauðsynlegt er að draga úr eftirspurn og þenslu, getur lántökugjaldið verið eðlileg og skynsamleg framkvæmd, það er enginn vafi á því, ásamt með öðrum aðgerðum í þessu skyni.
    Það er okkur auðvitað mikið umhugsunarefni eftir á að fram eftir þessu ári voru ýmsir í þessu þjóðfélagi sem vildu trúa því að geta sjávarútvegsins til að taka á sig enn meiri byrðar væri fyrir hendi. Ég man sérstaklega eftir því að sá maður sem nú er samgrh. og landbrh., hæstv. samgrh. og landbrh., það ber best að segja það, lýsti því yfir á fundi sem ég átti með honum og fulltrúum frá öðrum stjórnmálaflokkum í byrjun september eða endaðan ágúst að sjávarútvegurinn hefði ekki orðið fyrir neinum ytri áföllum, að rekstrarskilyrði sjávarútvegsins hefðu síst versnað á árinu 1988 og hann spurði að því hvort einhver hefði orðið var við að fiskeldið ætti í erfiðleikum. Þegar menn tala með þessum hætti, svo ábyrgðarlausum hætti um stöðu útflutningsatvinnuveganna er auðvitað ekki von á því að almenningur, sem er minna inni í málum, geri sér undir eins grein fyrir því að aftur er farið að halla undan fæti og það því fremur sem fjölmiðlum hefur verið lagið núna lengi að bregða upp annarri mynd af ástandinu en hún raunverulega er. Ég undanskil í þessu sambandi auðvitað Morgunblaðið, en eins og hv. þingheimur veit ber ég mikið traust til þess blaðs vegna þess að fréttamennska þar er með allt öðrum og ábyrgari hætti og raunar ógerningur að fylgjast með íslenskum þjóðmálum eða því sem er að gerast hér á landi nema hafa það blað við hendina.
Það á sér eðlilegar skýringar vegna þess að festan sem þar hefur verið í ritstjórninni er mjög áberandi og greinilegt að blaðið lætur ekki á sig fá þótt einhverjar tískusveiflur séu í fjölmiðlaheiminum.
    Það sem skiptir sköpum í sambandi við lántökugjaldið nú og fyrir ári þegar við veltum fyrir okkur spurningunni um hvort það sé heppileg aðgerð og skynsamleg er hvort okkur finnist þenslan í þjóðfélaginu ,,vera of mikil``, hvort við teljum að eftirspurnin eftir vinnuafli sé of mikil og hvort við teljum að mikil brögð séu að því núna að menn vilji ráðast í óhóflega fjárfestingu í atvinnuhúsnæði. Ég hygg að allir þeir menn sem vilja tala um það mál

með einhverri sanngirni hljóti að viðurkenna að svo er ekki.
    Og hvernig skyldi standa á því að það eru svo breytt viðhorf nú frá því sem var fyrir ári? Hvernig skyldi standa á því? Nú er leiðinlegt að hæstv. forsrh. skuli vera upptekinn í Nd. Ég hef átt einkar ánægjuleg orðaskipti við hæstv. forsrh. hér í þinginu og ég veit að honum þykir jafnleiðinlegt og mér að hann skuli ekki vera hér nærstaddur til að geta svarað fyrirspurnum mínum sem ég hef orðið var við af minni reynslu á Alþingi að hann gerir með meiri nákvæmni en flestir aðrir og leggur sig óskaplega fram um að geðjast stjórnarandstöðunni með sama hætti og þessi hæstv. ráðherra var mjög orðvar t.d. um formann Sjálfstfl. meðan þeir voru saman í síðustu ríkisstjórn. Minnist ég þess ekki, enda ekki langminnugur, að hæstv. núv. forsrh. hafi nokkru sinni dregið í efa að þáverandi forsrh. vildi leggja sig fram, síður en svo, ekki man ég eftir því. Þess vegna er mjög leiðinlegt að hæstv. forsrh. skuli ekki vera við, svo ljúfmannlega sem hann yrði við því að svara enn einu sinni skýrlega fyrirspurnum mínum um hvað ríkisstjórnin hyggist gera til að rétta við atvinnureksturinn.
    Ég hef, herra forseti, beint fyrirspurnum mínum til einstakra ráðherra um þessi efni. Síðast þegar ég gerði það hittist svo á að ég gat ekki verið hér á fundi á meðan ráðherrar tóku til máls, en ég hef gengið úr skugga um það með því að hlusta á segulbandsspólur að þeir hafa ekki svarað mínum fyrirspurnum svo að viðhlítandi sé þannig að ég held að óhjákvæmilegt sé í tengslum við þetta mál að fá hæstv. sjútvrh. til að hlusta. Ég hef orðið var við að það er til lítils að varpa fyrirspurnum til hæstv. menntmrh. þannig að við því sé að búast að hann tali um atvinnumálin í einhverri alvöru, enda er það ekki háttur Alþb. hvort sem það er í ríkisstjórn eða í stjórnarandstöðu að vera með mikinn höfuðverk út af því. Það er ekki siður þess flokks.
    Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt þegar verið er að tala um þetta mál að hæstv. viðskrh. sé við. Ég hef áður fundið að því, herra forseti, að ráðherrar Alþfl. hafa ekki sést hér nema í sjónhendingu, ekki flugulíki. Það er ekki einu sinni að þeir hafi komið eins og fiðrildi og tyllt rassinum á stólana sem snöggvast eins og fiðrildin gera við blómknappana. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að við fáum að heyra í þeim. ( Forseti: Óskar ræðumaður eftir að fá viðskrh. í deildina?) Ég geri það. Við höfum, sjálfstæðismenn, mjög lagt okkur fram um að greiða fyrir þingstörfum. Við tókum síðast á fundi fjh.- og viðskn. fyrir í morgun mál sem ekki hafði verið vísað til nefndarinnar. ( JE: Sumir gengu út.) Það er rétt. Ég heyri að þingmaður þeirra Reyknesinga finnur að því að ég skyldi hafa sagt að ég hefði ekki gagn af því að ræða frv. um staðgreiðslu opinberra gjalda óviðbúið, enda hefði ég gaman af því að spyrja þennan hv. þm. út úr, bæði um tekjuskattinn og staðgreiðslukerfið, og athuga hvort hann sé svo vel með á nótunum að hann geti óviðbúið rætt þau

tæknilegu mál sem þar er um að ræða, en það er ég ekki og þarf fyrir fram að kynna mér hvað málið snýst um, enda hefur það ekki verið venja svo að ég muni til að ræða í þingnefndum mál sem ekki hefur verið vísað þangað.
    Á hinn bóginn höfum við sjálfstæðismenn . . . Var formaður fjh.- og viðskn. að biðja um orðið um þingsköp? Tók ég rétt eftir? ( Forseti: Ég hygg það.) Ég er alveg reiðubúinn, herra forseti, að gera hlé á ræðu minni til þess að formaður þingflokks Alþfl. geti talað um þingsköp. Ég vil ómögulega vera að draga það að formaður þingflokks Alþfl. geti talað um þingsköp. Vill herra forseti að ég geri hlé á ræðu minni til þess? ( Forseti: Ég hygg að það sé ástæðulaust, hv. ræðumaður, þar sem hv. þm. er ekki í salnum.) Ég vildi gjarnan að það kæmi fram að þessi hv. þm. staðfesti að Sjálfstfl. hefur lagt sig fram um að greiða fyrir störfum í fjh.- og viðskn. og er sannarlega tími til kominn vegna þess að hann talaði með þeim hætti um þau störf þegar hann mælti fyrir frv. um efnahagsaðgerðir fyrir skömmu, um breytingu á lögum um efnahagsaðgerðir eða bráðabirgðalög, en þá talaði formaður fjh.- og viðskn. í þeim anda að eitthvað hefði skort á að fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni hefðu verið samningaliprir.
    Ég tók sérstaklega eftir því að formaður nefndarinnar kvartaði undan því hversu marga aðila stjórnarandstaðan hefði kallað fyrir sem ég sé ekki að hafi komið að sök vegna þess að það er ekki hægt að halda nefndarfundum viðstöðulaust áfram. Lánsfjárlögin bíða afgreiðslu í nefndinni. Það er ekki hægt að ræða þau í botn vegna þess að ríkisstjórnin veit ekki hvernig hún
ætlar að standa að þeim. Í nefndinni liggur fyrir frv. um breytingar á sjóðakerfinu þar sem á að skattleggja m.a. Lánasjóð ísl. sveitarfélaga um nær 100 millj. kr., þar sem á að skattleggja Framleiðnisjóð, þar sem á að skattleggja Hafnabótasjóð samkvæmt greinargerð frv., þar sem á að skattleggja Orkusjóð samkvæmt greinargerð frv. þó okkur hafi að vísu síðar borist aðrar upplýsingar frá fjmrn., sem auðvitað bendir til þess að annar maður í ráðuneytinu hafi svarað nefndinni en sá sem samdi frv. eða skrifaði greinargerðina, og okkur er sagt að það sé ekki hægt að ræða það mál áfram vegna þess að ríkisstjórnin sé að hugsa um að breyta frv., en okkur er á hinn bóginn ekki trúað fyrir því hvernig. Eins er þetta í Nd. Þar er ekki hægt að ræða um hvernig vörugjaldið eigi að vera því að ríkisstjórnin er að hugsa um að breyta því. Svona er þetta um alla skapaða hluti.
    Ég hitti gamlan og reyndan embættismann í miðbænum í dag, mjög pólitískan að vísu, og hann sagði mér að þessi ríkisstjórn minnti sig á Indverja. Og þegar ég spurði hann við hvað hann ætti með því sagði hann við mig: Þegar Kínverjar ganga af stað vita þeir hvert þeir ætla að fara. En þegar Indverjar ganga af stað vita þeir ekki hvar þeir lenda. Eins er það með þessa ríkisstjórn. Hún veit ekki hvar hún ætlar að lenda. Hún er svo óákveðin að hún er byrjuð að saka stjórnarandstöðuna um að tefja mál í

nefndum, um að biðja of marga um viðtal áður en hún er sjálf búin að ákveða hvernig hún ætlar að óska eftir því að frumvörpin verði samþykkt hér í deildinni. Og þegar þessir menn eru að kvarta yfir því að við viljum ekki sýna nægilegan samstarfsvilja í stjórnarandstöðunni kemur forsrh. upp í þennan sama ræðustól eins og hann gerði þegar við vorum að ræða um efnahagsaðgerðirnar á sínum tíma og skýrði frá því að hann hefði rætt sérstaka brtt. við bráðabirgðalögin við fulltrúa Borgfl. og fulltrúa Samtaka um kvennalista. Síðan hef ég komist að því að hann hafi ekki viljað ræða þetta við Sjálfstfl. af því að Sjálfstfl. hafði ekki lýst neinum sérstökum brtt. við þetta ákvæði.
    Nú er hæstv. menntmrh. stundum við hér í deildinni. Hann sat með mér í fjh.- og viðskn. í fyrra og var ég formaður þeirrar nefndar. Nú þætti mér gaman ef hann vildi svara því hér úr stólnum hvort ég hafi verið að reyna að gera upp á milli samstarfsmanna minna í fjh.- og viðskn., bara að segja sumum frá og öðrum ekki, reyna að fela fyrir einum það sem ég sagði öðrum. Og það sem kannski er enn athyglisverðara af þessu öllu en það sem ég hef nú sagt er það sem kom upp í viðræðum sem stjórnarandstaðan átti við ríkisstjórnina á fundi sem ég sat. Þá kom það upp úr dúrnum að nauðsynlegt hefði verið að fella niður 2. mgr. 4. gr. laganna frá því í maímánuði vegna málaferla erlendis þar sem við værum ákærðir, Íslendingar, fyrir mannréttindabrot. Nú getur vel verið að það sé út af fyrir sig rétt að það geti verið skynsamlegt að fella þetta niður af þeim sökum. Ég hef ekki séð þau plögg sem liggja fyrir þeim dómi. En ef ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að breyta lögum vegna andlits okkar úti í heimi og þess hvernig við lítum út fyrir alþjóðlegum dómstóli man ég aldrei eftir því allan þann tíma sem ég hef fylgst með þingstörfum náið síðan 1961, ýmist sem blaðamaður, áhugamaður eða þingmaður, að ríkisstjórn og stjórnarandstaða hafi þá ekki talað um slíka lagabreytingu áður, fyrir fram, að spilin hafi verið lögð á borðið og málin hafi þá verið rædd í hreinskilni á milli allra stjórnmálaflokka. Ef þessi er ástæðan fyrir því að nauðsynlegt var að breyta bráðabirgðalögunum bar ríkisstjórninni skylda til að skýra formönnum allra stjórnmálaflokkanna frá því þegar í stað hvað lægi á bak við tillögugerð ríkisstjórnarinnar ef hún vildi ganga hreint til verks og ef fyrir henni vakti að halda uppi sóma Íslands á erlendum vettvangi. Hitt er aftur hverjum þingmanni til mikillar vansæmdar ef hann reynir fyrir fram að vera með einhverja klæki í þingstörfum í máli sem varðar kæru á hendur Íslendingum fyrir erlendum dómstóli. Ef hugmyndin er að vera með einhverja klæki í tillögugerð hér í þinginu og koma svo eftir á og segja að allt annað hafi vakað fyrir flm. en raunverulegt var er það ekki heiðarlegur málatilbúnaður og getur ekki verið til farsældar, hvorki í bráð né lengd.
    Þetta held ég að sé alveg nauðsynlegt að fram komi, en ég vona að hv. þm. skilji að það var

nauðsynlegt fyrir mig að taka þennan litla útúrdúr vegna þess að ég tók eftir því að formaður fjh.- og viðskn. bað um orðið um þingsköp í miðri ræðu sem er óvanalegt af stjórnarmeirihlutanum.
    Ég var þar kominn minni ræðu að ég var að velta fyrir mér hvernig á því stæði að sú mikla þensla sem var hér á landi fyrir einu ári og ég tala ekki um fyrir hálfu öðru ári er hér ekki lengur. Auðvitað vitum við að ástæðan fyrir því hvernig komið er fyrir atvinnuvegunum er sú að hér hefur verið gerð tilraun til að halda uppi röngu gengi. Jakob Möller, sá góði og gamli þingmaður Sjálfstfl., sagði einu sinni: ,,Þegar gengið er fallið er það fallið.`` Kjarni málsins er sá að gengi krónunnar er fallið og það þýðir ekki að reyna að standa á móti því. Ég hef áður vakið athygli á því í þessum ræðustól að í hvert skipti sem tilraunir hafa verið gerðar til slíks hefur það endað hörmulega. Það hefur endað með því að eigið fé fyrirtækja hefur eyðst, það hefur endað með því að grundvöllur atvinnulífsins á þeim stöðum á landinu
þar sem atvinnulífið er veikast hefur skekkst og sums staðar komið til atvinnuleysis sem auðvitað veldur því ef við horfum á reynsluna að los kemur á byggðarlögin og ýmsir hugsa sér til hreyfings sem ella mundu kannski ekki gera það. --- Ég reikna með að hæstv. sjútvrh. sé í deildinni. ( Forseti: Hann var hér.) Ég veit að hann var hér. Ég get að vísu sett upp gleraugun. Ég hafði þau í hendinni til öryggis. Það var rétt athugað hjá hæstv. menntmrh. að ég hef reynslu af því að það þýðir ekki mikið að ræða við Alþb. um atvinnumál. En ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. sé í deildinni. ( Gripið fram í: Hann mun hafa verið kvaddur í símann.) Ef hæstv. sjútvrh. er í símanum verður þá ekki að gera hlé á fundinum á meðan? ( Forseti: Ég hef óskað eftir því að fá hæstv. sjútvrh. í deildina, en hins vegar vil ég vekja athygli á því að hv. ræðumaður var fyrir skömmu að óska eftir að hæstv. viðskrh. kæmi og hann er kominn.) Þetta mál varðar fleiri en einn ráðherra og ráðherrarnir svöruðu ekki þegar þeir töluðu síðast um atvinnumálin. Sjálfur hæstv. forsrh. hefur kvartað yfir því þegar ég brýni röddina þannig að ég þori varla hans vegna að brýna röddina svo að sjútvrh. heyri í símaklefanum. Annars væri hægt að gera tilraun til þess svo að ekkert færi fram hjá hæstv. sjútvrh.
    Það sem ég hef verið að tala um, ég skal reyna að orða ræðu mína þannig að ekki komi að sök þó að hann komi bráðum, er það að ríkisstjórnin hefur viljandi haldið uppi röngu gengi og ég fullyrði að þess eru einsdæmi að bæði forsrh. og sjútvrh. lýsi því yfir um svipað leyti að raungengi krónunnar sé rangt og á sama tíma sitji viðskrh. hinn rólegasti og láti sem ekkert sé. Fjmrh. og viðskrh. segja að gengið sé rétt skráð. Sjútvrh. og forsrh. segja að gengið sé rangt skráð. Fjmrh. og viðskrh. segja að ekki komi til þess að gengið verði fellt. Sjútvrh. og forsrh. segja að gengið verði leiðrétt og fellt. Fjmrh. talar um að nauðsynlegt sé að efna til atvinnuleysis til að stokka upp fyrirtækin. Viðskrh. talar um að rétt sé að gera

herferð gegn bændum af því að þeir reki fé sitt á fjall. Sjútvrh. og forsrh. tala a.m.k. stundum öðruvísi og það hefur vakið athygli mína að hæstv. sjútvrh. talar með miklum þunga um að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar standist ekki þá sjaldan hann fæst til að taka til máls.
    Nú langar mig að spyrja hæstv. viðskrh. beint hvort það sé rétt, sem fram kom í ræðu forsrh. fyrr í haust í þessari deild, að nauðsynlegt yrði að fella gengið í janúarmánuði. Telur hæstv. viðskrh. að nauðsynlegt sé að fella gengið í janúarmánuði? Ef hæstv. viðskrh. segir að ekki sé nauðsynlegt að fella gengið í janúarmánuði langar mig til að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann sé sammála því, sem fram hefur komið bæði hjá fulltrúum fiskvinnslu og útgerðar og fram hefur komið hjá fulltrúum Vinnuveitendasambands Íslands, að hér muni koma til almenns og stórfellds atvinnuleysis eftir áramótin. Þeir hafa talað um að búseta muni raskast ef gengið verður ekki leiðrétt. Er hæstv. sjútvrh. sammála því, sem fram kemur hjá vinnuveitendum, sem fram kemur hjá samtökum fiskvinnslunnar, sem fram kemur hjá útgerðarmönnum, að stefna ríkisstjórnarinnar leiði óhjákvæmilega til mikils atvinnuleysis um allt land, leiði til þess að búsetan raskist, leiði til meiri fólksflutninga milli landa en áður hefur þekkst, leiði til þess að menn missi eigur sínar og fái naumast nokkuð fyrir þær vegna þess að atvinnuna brestur í byggðarlögunum? Mig langar líka til að spyrja hæstv. sjútvrh. að því hvernig hann hyggist standa áfram að þeirri stefnu sem hann hefur um stjórn fiskveiða ef það kemur á daginn að í byggðarlagi eftir byggðarlagi verði nauðsynlegt að selja skipin á brott vegna þess langvarandi hallareksturs sem verið hefur. Við vitum að það verður mikið kapphlaup um skipin vegna þess að skipin eru ávísun upp á að viðkomandi megi róa til fiskjar, nýta auðlindir hafsins. Við komum okkur saman um það hér í þinginu að við skyldum byggja á aflareynslunni og ég hlýt, herra forseti, að segja að þingið hefur gefið sér allt of lítinn tíma til að ræða um hvaða afleiðingar það muni hafa ef mörg byggðarlög verða samtímis fyrir því, kannski á svipuðu svæði, að skipin verða seld annað, til þeirra aðila sem hafa meira bolmagn, til þeirra sem ríkari eru. Þetta er mikið áhyggjuefni. Og það er hægt að hugsa sér að reyna að standa á móti þessu eða með þessu eins og hæstv. fjmrh. vill gera, að einhverjir menn hér fyrir sunnan fari í byggðarlag fyrir byggðarlag, í fyrirtæki á eftir fyrirtæki og fari að stokka þetta allt upp á nýtt. Hann sagði í septembermánuði að stjórn Atvinnutryggingarsjóðs mætti ekki verða þingkjörin vegna þess að ef hún væri þingkjörin væri ekki hægt að ráðskast eins með eignir manna og hægt er að gera eins og hún er skipuð. Það var mat fjmrh.
    Ég veit ekki, herra forseti, hvort þetta þýðir neitt. Ef forseti hefur ekki meiri stjórn á þessu en þetta . . . ( StG: Það er kominn annar ráðherra.) Nei, ég er búinn að kvarta yfir því í umræðu eftir umræðu að það sé enginn ráðherra frá Alþfl. í deildinni og til að

greiða fyrir þingstörfum hef ég ekki gert það að neinu sérstöku úrslitamáli. Ég bað hins vegar um að hæstv. fjmrh. yrði við þegar rætt yrði um bráðabirgðalögin frá því í septembermánuði við 3. umr., þá bað ég um að hann yrði við vegna þess að í þeim lögum var ákvæði sem sérstaklega snerti þann ráðherra. Hins vegar gekk hann út úr
þingdeildinni þegar orðið var gefið laust og þá átti ég um það að velja að standa enn einu sinni upp og biðja um að forseti næði í ráðherra. En ég sé ekki að þetta þýði neitt.
    Ég hef aldrei orðið var við þetta fyrr og óska eftir því að forseti gefi tíu mínútna hlé til þess að stjórnarandstaðan geti rætt um það við ráðherra hvort ekki sé hægt að finna sameiginlegan tíma á sólarhringnum til að geta ræðst við. ( Forseti: Ég hef óskað eftir því að viðskrh. verði sóttur.) Ég óska eftir meira en hann verði sóttur. Ég óska eftir að hann verði við. ( Gripið fram í: Það þarf að sækja hann til að hann verði við.) Er ekki best að taka þá fyrir annað mál? Ég skal gera hlé á ræðu minni og við tökum fyrir annað mál þar sem ekki er þörf á ráðherranum. Hvernig væri það? Ég óska eftir því, herra forseti, að þetta mál verði þá tekið út af dagskrá, ég geri hlé á ræðu minni og síðan sé hægt að halda áfram þegar ráðherrann er viðlátinn. ( Fjmrh.: Erum við Halldór ekki nógu góðir?) Er ekki hægt að verða því? ( Forseti: Hæstv. ráðherra mun vera rétt að koma.) Finnst forseta vera skemmtilegur blær yfir þingdeildinni? Ég mætti kannski ná í blað á borðinu meðan við bíðum eftir ráðherranum? Ég skal ekki fara í símann samt. ( Forseti: Ég mun verða við beiðni hv. ræðumanns og fresta þessari umræðu og taka fyrir 3. mál á dagskrá.)