Framhaldsskólar
Mánudaginn 19. desember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég held að það sé ástæðulaust að vera að taka þetta mál aftur inn í nefndina. Nd.-nefndin fær þetta og ef hún kemst að einhverjum nýjum sannindum í málinu kemur málið náttúrlega aftur hingað eða strandar þar. Ég held því að við bætum okkur ekki mikið á því að fara með þetta til nefndar aftur.
    Ég get út af fyrir sig vel skilið það hvernig hv. 2. þm. Norðurl. e. setur þetta mál upp og hvernig það birtist honum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Í fyrsta lagi er það þannig að Samband ísl. sveitarfélaga og stjórn þess eru aðilar að flutningi frv. til l. um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hér í þinginu. Það væri nú betra, herra forseti, ef þeir þingmenn sem varpa til manns spurningum væru viðstaddir þegar maður er að reyna að svara. Satt að segja tek ég það mikið mark á spurningum hv. þm. að mér finnst að mér sé skylt sem ráðherra málaflokksins að svara honum.
    Það sem ég var að víkja að, hv. þm. og herra forseti, var að ég er ekkert undrandi á því þó að hv. þm. spyrji um afstöðu Sambands ísl. sveitarfélaga. Hún birtist þannig að það liggur hérna fyrir frv. til l. um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Á baksíðu þess þingskjals er mat á áhrifum breyttrar verkaskiptingar á fjármál sveitarfélaga á ársgrundvelli miðað við núverandi tillögur og þar kemur fram að það er gert ráð fyrir framhaldsskólanum inni í þessu uppgjöri milli ríkisins og sveitarfélaganna. Á verðlagi í janúar 1988 er það talið nema 225 millj. kr. lækkun fyrir sveitarfélögin á kostnaði að flytja framhaldsskólann á milli. Í frv. eins og það er flutt er síðan gert ráð fyrir því að lögin um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga taki gildi samkvæmt því sem segir á bls. 13 í þingskjalinu 1. jan. 1990 eða á sama degi og frv. sem hér er verið að tala um um framhaldsskóla. M.ö.o., að þessu leytinu til lítur málið þannig út að Samband ísl. sveitarfélaga fellst á að svona sé að hlutunum staðið.
    Síðan gerist það að fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga í nefnd sem er að semja drög að reglugerð um rekstrarþátt framhaldsskólalaganna kemst að þeirri niðurstöðu að kostnaðarákvæðin séu --- ég endurtek í þrítugasta sinn úr þessum ræðustóli í dag, ég í annað sinn og hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur nefnt það svona 20--30 sinnum --- óbrúkleg. Það er hroki í því af minni hálfu, þetta er niðurstaða nefndar sem er að semja drög að reglugerð. Þessi fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga í nefndinni er bæjarstjóri í Garðabæ, ef ég man rétt. ( Gripið fram í: Hann er sjálfstæðismaður.) Það kemur náttúrlega ekki skólamálastefnunni við hvar menn eru í pólitík eins og kunnugt er. Síðan gerist það að hv. menntmn. berst mótmælasamþykkt frá sama Sambandi ísl. sveitarfélaga út af þessu máli og ég er ekkert undrandi á því þó að hv. 2. þm. Norðurl. e. spyrji: Hvað er gilt og hvað er ógilt í þessu efni? Í rauninni er það ekki þannig að menn séu hér að bera hlutina með einhverjum óljósum hætti á milli. Þetta liggur allt saman fyrir í skriflegum

gögnum og þetta er si svona. Þess vegna hef ég litið þannig á að Samband ísl. sveitarfélaga hafi í raun og veru fallist á að framhaldsskólinn sé hluti af þessum pakka varðandi breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þess vegna kemur það mér á óvart að heyra af þessari ályktun sem hv. 2. þm. Norðurl. e. kynnti hér fyrr í dag þegar þetta mál var rætt.
    Síðan er á það að benda að í því frv. til laga um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem hér er fjallað um, er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin greiði 40% af stofnkostnaði framhaldsskólans. Að óbreyttum lögum í þeim efnum greiðir ríkið 100% af stofnkostnaði sumra framhaldsskóla. Er þá Samband ísl. sveitarfélaga í raun og veru að biðja um meiri pinkla eða hvað? Ég segi alveg eins og er að ég undrast þessa uppsetningu mála af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég get hins vegar ekki að því gert að ég held að að langeðlilegast sé að Nd.-nefndin kembi þetta mál og fari yfir það. Við bætum okkur ekkert á því að vera að liggja yfir málinu frekar í hv. menntmn. Ed. eins og það er margt að sýsla hér í þessari virðulegu deild.
    Meginástæðan fyrir því að við frestum þessu er sem sagt þessi: Í fyrsta lagi er hún sú að mjög hefur dregist að semja reglugerðir með þessum lögum. Fulltrúi Bandalags kennarafélaga mun hafa sagt það í menntmn. Ed. að það væri mjög bagalegt og það var fróðlegt að heyra þær upplýsingar frá hv. 2. þm. Norðurl. e. Hugmyndirnar um að fresta fjármálakafla laganna um framhaldsskóla fæddust síðan ekki í gær eða fyrradag. Það er augljóst mál að menn voru að ræða þessar hugmyndir í menntmrn. í tíð síðustu ríkisstjórnar. Hér er ekki um að ræða neina uppfinningu þeirra vondu manna sem nú stýra menntmrn. og fjmrn. heldur hafa menn séð, bæði þeir sem nú stýra málum og þeir sem þar voru áður, að þetta er hluti af heild og því óhjákvæmilegt að fresta þessu.
    Ég tel, herra forseti, að ég hafi flutt svo gild fagleg rök fyrir þessari frestun að það sé í raun og veru engin ástæða til þess að mylja þetta mál með sér frekar og eðlilegast að afgreiða það bara hér einn, tveir, þrír, enda heyri ég í rauninni ekki svo ýkja hörð mótmæli við því hér í þessari virðulegu deild.