Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 19. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Þessi skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði er gamall kunningi. Ég man ekki gjörla hvenær hann var settur á. Að mig minnir var það í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og sjálfstæðismanna, 1983--1987. ( Gripið fram í: 1978.) Er hann svo gamall orðinn? Hann er orðinn 10 ára, þessi skattur. Hann er hins vegar jafnslæmur fyrir því. Ekki gerir það að hann er orðinn 10 ára það neitt geðfelldara fyrir okkur þingmenn Borgfl. að kyngja þessum skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.
    Ég hef alla tíð haft ímigust á þessum skatti vegna þess að það er verið að taka eina atvinnugrein fyrir sérstaklega og að því er virðist refsa henni með þessari skattlagningu. Nú efast ég ekkert um að stjórnvöld hafi gert þetta í góðum tilgangi, væntanlega til þess að koma í veg fyrir óeðlilega fjárfestingu sem menn telja að hafi verið í einmitt verslunarrekstri og í skrifstofurekstri. Það er auðvitað það sem menn hugsa um, þessar miklu verslunarhallir sem hafa risið hér á seinni árum í Reykjavík. Það er hins vegar ekki einungis um það að ræða að offjárfesting sé í verslun og í skrifstofuhúsnæði, heldur má einnig minna á að það hefur verið gífurleg offjárfesting víða í alls kyns atvinnuhúsnæði, ekki einungis hér á Reykjavíkursvæðinu þó að ég viðurkenni mætavel að hér hefur verið um mikla fjárfestingu að ræða, heldur hefur verið um offjárfestingu að ræða í fiskvinnslu og ýmiss konar fyrirtækjum víða um allt land. Þess vegna er spurt: Hefði ekki verið alveg eins eðlilegt að setja einfaldlega skatt á allt atvinnuhúsnæði? Það væri nú gaman að fá svör við þessari spurningu, hæstv. fjmrh.: Við skulum bara ímynda okkur að það yrði settur einhver skattur á allt atvinnuhúsnæði í landinu. Hvað þyrfti hann að vera hár í prósentum talið til þess að gefa svipaðar tekjur í ríkissjóð og 1,1% eða öllu heldur 2,2% skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði?
    Annars er fróðlegt að rifja upp að í vikunni var ég að hlusta á pistil sem var fluttur í útvarpsstöðinni Rót. Ég hlusta nú stundum á hana því að það er afbragðs útvarpsstöð. Þar heyrist stundum mælt mál, ekki bara rokkmúsík. Þar var mjög fróðlegur og skemmtilegur pistill sem skáldið Einar Kárason flutti frá Osló. Hann var að fræða okkur á því að í Osló hefur verið gífurleg offjárfesting í verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Þar er talið að byggðar hafi verið verslunarhallir og verslunarmiðstöðvar sem mundu nægja fyrir 12 millj. manna þjóð, en Norðmenn eru eins og kunnugt er 4 millj. Þannig er víðar pottur brotinn en á Íslandi. Ekki hef ég hins vegar trú á því að Norðmenn hafi verið svo snjallir að fara að setja sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði þrátt fyrir þetta því að ég get ekki látið hjá líða að ítreka það að þetta er geysilega óeðlilegur og ósanngjarn skattur. Að taka eina atvinnugrein fyrir og skattleggja hana svona umfram aðrar atvinnugreinar. Hvers á verslunin að gjalda? Er það ekki ósk okkar allra að verslun sé rekin á sem hagkvæmastan og skynsamlegastan hátt, og reynt sé að halda vöruverði niðri eftir bestu getu? Okkur er tjáð af fulltrúum verslunarinnar í landinu að

þessi skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði valdi því að vöruverð hækkar um 0,6% almennt talið. Auðvitað er skatti sem þessum velt beint út í vöruverðið.
    Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta. Þessi skattur er, má segja, ein af margvíslegum efnahagsráðstöfunum gömlu flokkanna sem þeir hafa fundið upp í tímans rás. Þetta er skattur sem er eins og margir aðrir skattar settur á til bráðabirgða. Honum er ætlað að leysa ákveðinn vanda tímabundið. En eins og allir aðrir slíkir tímabundnir skattar vill hann festast og það eina sem gerist er það að þegar hann er búinn að vera við lýði um dálítið skeið finna menn upp á því að tímabært sé orðið að hækka hann enn frekar. Mér kæmi ekkert á óvart þó að stjórnvöld mundu innan fárra ára telja eðlilegt að hækka þennan skatt í 3,3% eða eitthvað því um líkt. Ég vil því lýsa því yfir, a.m.k. hvað mig varðar, að ég er algerlega á móti skattlagningu sem þessari. Ég mundi þá frekar vilja athuga að settur væri, eins og ég sagði áðan, skattur á allt atvinnuhúsnæði, hverju nafni sem það nefndist þannig að allir sætu þar við sama borð.
    Svo langar mig að lokum að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig er háttað skattlagningu á skrifstofuhúsnæði fyrirtækja sem ekki eru endilega í verslun, við skulum taka sem dæmi iðnaðarfyrirtæki og fiskvinnslufyrirtæki? Eru þau látin borga skatta af sínu skrifstofuhúsnæði eins og gerist hjá þeim sem eru meira í hreinum verslunarviðskiptum og rekstri þar sem skrifstofan er aðalatriðið? Ég hef grun um, án þess að ég geti neitt fullyrt um það, að lítt sé gengið eftir því að innheimta þennan skatt af verslunarhúsnæði af fyrirtækjum úti á landsbyggðinni þar sem kannski skrifstofuhúsnæðið er illa aðgreinanlegt frá iðnaðarhúsnæði eða verksmiðjuhúsnæði fyrirtækisins.
    Ég held að ég þurfi ekki að hafa þessi orð fleiri og læt staðar numið.