Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 19. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 8. þm. Reykv. að ég hafði beðið um orðið til þess að svara þótt í litlu væri því sem hann til mín beindi. Hann spurði hverju það sætti að Þjóðhagsstofnun hefði látið koma fram að skattaálögur ákveðnar með nýjum lögum eða nýjum ákvörðunum væru metnar 6,7 milljarðar af Þjóðhagsstofnun en 4,4 af hæstv. fjmrh.? Hæstv. fjmrh. nefndi þarna einn skýringarlið, þ.e. frestun gildistöku virðisaukaskattslaganna sem ég ætla að mætti meta sem 1,1--1,2 milljarða. Þar með værum við komnir í 5,5--5,6 milljarða. Þá ber á milli 0,9--1 milljarð. Það hygg ég að megi að mestu eða öllu leyti skýra af þeim áformum sem lýst er í fjárlagafrv. eða síðar í yfirlýsingum fjmrh. um beitingu reglugerðarheimilda til þess að hækka gjaldskrár. Þar með ætti að vera að fullu skýrður munurinn, þ.e. mennirnir eru að því er ég best fæ séð að tala um sömu tölurnar.