Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 19. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég vil þakka þeim báðum, hæstv. ráðherrum, fyrir þessar skýringar. Þá fer ég að botna nokkuð í þessu, held ég. Þarna ber á milli ekki 1,9 heldur 2,2 sýnist mér nú. Er það ekki rétt? Það skiptir ekki máli, í kringum 2 milljarða. Ef það er hægt að ná því öllu með þessum hækkunum á gjöldum --- þær hafa verið boðaðar á áfengi og tóbak og eitthvað fleira. Það er það sem þú áttir við? ( Viðskrh.: Bensíngjöldum.) Bensíngjöldum o.fl. Það er skýringin. ( Viðskrh.: Þungaskatti.) Er það rétt, alltsvo þessir tveir milljarðar? (Gripið fram í.) Gæti orðið eitthvað á þeirri breiddargráðu? (Gripið fram í.) Já, ég tók hann til greina. Samt vantar tvo. ( Viðskrh.: Nei, samt vantar einn.) Nei, sex komma . . . ( Fjmrh.: 4,3 plús 1,2.) Já, það er 5,5. ( Viðskrh.: Plús 1--1,1.) Plús 1--1,2? Hann sagði þá 6,7. Já, já. Allt í lagi. Alla vega þarna er skýringin komin. Þetta nefndi hæstv. ráðherra ekki á föstudaginn. ( Fjmrh.: Af því að þá var sagt samkvæmt frumvörpunum.) Já, sem sagt, þá erum við komnir með þá skýringu að það er gert ráð fyrir að heildarálögur geti orðið 6,7 mínus þessi 1,2 sem er ekki nýtt. Er það ekki rétt skilið? Þá ætti þetta allt saman að fara að verða gleggra. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem ég hef heyrt þessar upplýsingar um hvernig þetta væri út fundið og ég þakka hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh. fyrir og þarf kannski ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta.
    Hv. þm. Júlíus Sólnes gagnrýndi þetta gjald og það hef ég gert líka, auðvitað sekur um að hafa flutt framsögu fyrir þessu gjaldi sem formaður fjh.- og viðskn. í fjögur ár. Ég fékk meira að segja leyfi til þess eitt árið að tala bæði með og á móti nefndaráliti meiri hluta, vera með sérálit þar. Af göfuglyndi andstæðinga minna leyfðu þeir mér að gera það í sömu ræðunni að mæla fyrir áliti meiri hlutans og líka gera athugasemd um mínar sérskoðanir í því efni svo að það er ekki nema gott um það að segja.
    Við erum að tala um góða og vonda skatta og hv. þm. taldi þennan skatt vera með því versta og að það mætti kannski leggja hann á alla atvinnuvegina. Mér finnst voða erfitt að meta skatta ýmist eftir því að þeir séu góðir eða slæmir. Sannleikurinn er auðvitað sá að allir skattar eiga það sammerkt að verið er að færa fjármuni, eignarráð fólks og atvinnufyrirtækja, frá fólkinu og atvinnufyrirtækjunum til ríkisins. Þess vegna er öll skattheimta þannig vaxin. Þessi skattur sem menn halda að lendi á versluninni sérstaklega fer náttúrlega út í verðlagið. Það er áreiðanlegt, a.m.k. þar sem einhver veruleg velta er. Og svo er það náttúrlega spurning, þegar verið er að reikna þessar tölur núna, hvort þær verða raunverulegar eftir árið. Ég held að þær verði það ekki. Kannski verða þetta lægri skattar en þessar tölur segja til um. Ég held nefnilega að tekjurnar lækki svo mikið hjá fólkinu og þar með ríkinu. Þegar beinlínis er skipulega unnið að kreppu og atvinnuleysi hlýtur það auðvitað að verka þannig að tekjurnar minnki ef samhliða er viðað í gífurlegt verðbólgubál og þá rýkur auðvitað gjaldahlið fjárlaganna upp og miklu, miklu fyrr en tekjuhliðin.

Þetta höfum við upplifað á þessu ári nákvæmlega. Þegar fyllt var upp í 3 milljarða gat, sem áætlað var í fyrrahaust, með 5 milljörðum í nýjum sköttum, þá varð hallinn ekki 3 milljarðar heldur er mér nú sagt --- ég held að farið sé að nefna töluna 7. Hæstv. fjmrh. sagði hér úr þessum stól að hann hækkaði um 1 milljarð í hvert skipti sem hann skýrði frá nýjum tölum og mér fannst það drengilega sagt. Það hefði gert það og það þýddi ekkert að vera að leyna því. Mér er sagt, ég heyrði það ekki með eigin eyrum, en af því að hæstv. sjútvrh. er hér inni ætla ég að bera það undir hann, hvort hann hafi jafnvel gert því skóna að halli á þessu ári sem er að ljúka gæti orðið 7 en ekki 5 eða 6 milljarðar. Er það rétt að ráðherra hafi sagt þetta hér í þinginu? ( Sjútvrh.: Já það er rétt.) Það er rétt. Ég held að þetta sé rétt líka, en það sýnir að þessar tölur er eins gott að taka allar með fyrirvörum.
    Af því að langt er nú liðið á kvöld og ég var búinn að lofa að vera ekki með málþóf ætla ég að hætta hér. Við tökum þessa umræðu upp seinna, kannski á næsta ári þegar maður fer að sjá fyrir svona 10 milljarða halla á fjárlögunum eftir skattahækkanirnar allar.