Staðgreiðsla opinberra gjalda
Mánudaginn 19. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Frv. sem hér er lagt fram felur eingöngu í sér tæknilegar breytingar á framkvæmd staðgreiðslukerfisins. Í því er ekki að finna neina efnislega breytingu hvað skattlagningu snertir. Það hefur komið í ljós við framkvæmd kerfisins að bæði er óþarfi og mjög kostnaðarsamt að gefa út ný skattkort á hverju ári og launagreiðendur hafa mjög kvartað yfir því óhagræði sem það yrði fyrir hinn mikla fjölda launagreiðenda að þurfa árlega að taka við nýjum skattkortum. Þess vegna er í frv. lagt til að ekki þurfi að gefa árlega út skattkort heldur nægi að gefa út þær tölur sem nota skal til viðmiðunar. Einnig er í þessu frv. lagt til að breyta ákvæðum sem snerta námsmenn og einstaklinga í rekstri sem eru með mjög sveiflukenndar tekjur og staðgreiðslukerfið hefur sýnt að með núverandi skipan greiða óeðlilega mikið þegar greiðslan er innt af hendi miðað við það sem þeir eiga að greiða ef litið er til ársins í heild.
    Nokkur önnur smávægileg atriði er að finna í frv. Þegar ég mælti fyrir því í hv. neðri deild óskaði ég eftir því að frv. fengi greiðan gang í gegnum deildina. Það skal sagt hér, neðri deild til hróss, að svo varð. Málið hlaut mjög skjóta og góða afgreiðslu og ég beini því einnig til þessarar hv. deildar að svo geti orðið.