Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Mánudaginn 19. desember 1988

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni mikilvægt mál fyrir sveitarfélögin í landinu og er miður að það skuli þurfa að taka það til umræðu þegar svo áliðið er orðið kvölds sem raun ber vitni.
    Umræða um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er ekki ný af nálinni. Hún hefur verið á döfinni áratugum saman. Þegar ég hóf afskipti af sveitarstjórnarmálum fyrir meira en tveimur áratugum síðan var þetta mál mikið rætt á vettvangi sveitarstjórnarmanna. Það má segja að rauður þráður í þeirri umræðu hafi alla tíð verið sá að efla sjálfstæði sveitarfélaganna, að færa valdið heim í héruð og að ákvarðanataka og fjármálaleg ábyrgð verði á sömu hendi. Stjórnmálaflokkar hafa látið þessi mál til sín taka í ályktunum sínum og Sjálfstfl. er þar engin undantekning, enda hefur hann haft frumkvæði í umfjöllun um þessi mál hér á hv. Alþingi þegar hann hefur átt aðild að ríkisstjórnum. Í ríkisstjórnartíð Geirs Hallgrímssonar 1974--1978 skipaði þáv. félmrh. Gunnar Thoroddsen nefnd, það var árið 1976, til að vinna að þessu máli, þ.e. verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Sú nefnd skilaði álitsgerð árið 1980 og það hversu langan tíma tók að vinna að þeirri álitsgerð sýnir kannski best hvað hér er um umfangsmikið og viðkvæmt mál að ræða.
    Síðan hafa fleiri ríkisstjórnir sett á laggirnar nefndir til þess að fjalla um málið og skila álitsgerðum. Nú síðast var skilað álitsgerð í apríl 1987 sem unnin var af tveimur nefndum sem skipaðar voru í ríkisstjórnartíð þáv. hæstv. forsrh. Þorsteins Pálssonar. Önnur nefndin var skipuð til þess að endurskoða verkaskiptinguna en hin fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og skiluðu þær sameiginlegri álitsgerð.
    Sveitarstjórnarmenn eru yfirleitt sammála um að vilja efla sjálfstæði sveitarfélaganna í landinu og færa þeim valdið heim í héruð en þegar reynt hefur á framkvæmd þessara mála hefur strandað á því að velja verkefnin sem á að færa sveitarfélögunum heim í héruð. Oft eru skiljanlegar ástæður fyrir því. Það er tortryggni sveitarstjórnarmanna gagnvart því að þeim verði færð verkefnin en að þeim verði ekki tryggðir tekjustofnar til að standa undir auknum verkefnum.
    Á síðasta þingi var lagt fram frv., eins og hér kom fram í yfirgripsmikilli ræðu hæstv. félmrh., um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og mælti þáv. hæstv. forsrh. Þorsteinn Pálsson fyrir því 10. des. 1987 í hv. Nd. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra hafði fyrrv. ríkisstjórn það á sinni starfsáætlun að finna lausn á þessum málum með því að gera verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga skýrari þannig að saman fari í hverjum málaflokki ákvörðun, framkvæmd og fjármálaleg ábyrgð.
    Frv. sem flutt var á síðasta þingi og lagt fram í hv. Nd. fékk mikla umfjöllun í deildinni en dagaði uppi þar sem það mætti mikilli andstöðu ekki síst frá sveitarstjórnarmönnum úti á landsbyggðinni sem töldu að það hefði ekki verið nægjanlega kynnt úti í sveitarfélögunum. Það frv. sem hér liggur fyrir hefur aftur á móti fengið ítarlega umfjöllun og kynningu á

vettvangi sveitarstjórnarmanna og mér er kunnugt um að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hafi hafið kynningu á frv. hjá einstökum landshlutasamtökum. Það hefur nú þegar fengið kynningu hjá þrennum landshlutasamtökum og þeirri kynningu verði haldið áfram eftir áramótin hjá öðrum landshlutasamtökum.
    Ég á sæti í félmn. þessarar hv. deildar og sé því ekki ástæðu til við 1. umr. að fara út í efnislega þætti frv. eða einstaka greinar, enda hefur hæstv. ráðherra nú þegar gert ítarlega grein fyrir þeim meginbreytingum sem gerðar eru á þessu frv. Vil ég lýsa stuðningi mínum við frv. í meginatriðum þó að auðvitað eigi eftir að fjalla um það í félmn. þar sem að sjálfsögðu geta komið upp einhver atriði sem einstakir þingmenn vilja skoða nánar. Við þessa umræðu vildi ég leggja áherslu á að löngu er orðið tímabært að breyta lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og, eins og ég sagði fyrr, þrátt fyrir það að tilraunir hafi verið gerðar til að breyta þessum lögum þá hefur það yfirleitt strandað á því að sveitarstjórnarmenn sjálfir hafa ekki verið samstiga í þeim efnum. Nú liggur það sem sagt fyrir, að því er ég best veit, að stuðningur sveitarstjórnarmanna almennt er 100%, eins og það var orðað við mig af formanni Sambands ísl. sveitarfélaga. Hlýtur það að vera fagnaðarefni og a.m.k. gefur það fyrirheit um að hægt ætti að vera að koma þessu frv. í gegnum þingið jafnvel þó einhverjar breytingar þyrfti á því að gera.
    Það er óhætt að segja að sveitarfélögin standi á tímamótum. Þau hafa orðið og verða nú að mæta margvíslegum breytingum. Auknar kröfur til menntunar, heilbrigðisþjónustu og samgangna hafa veruleg áhrif á atvinnulíf, byggðaþróun, velferð og menningu í landinu. Þekking sveitarstjórnarmanna á þörfum samfélagsins kallar þá til ábyrgðar og lausna þeirra verkefna sem tengjast nýjum viðhorfum. Engin stjórnvöld standa fólkinu nær en einmitt sveitarstjórnirnar. Þess vegna leggjum við sjálfstæðismenn áherslu á sjálfstæði þeirra og að þeim verði tryggðar auknar tekjur til að standa straum af auknum verkefnum. Við þingmenn Sjálfstfl. munum stuðla að framgangi þessa frv. og styðja það í meginatriðum, þó, eins og ég sagði áðan, að eðlilega
þurfi að hafa fyrirvara um kannski einstök atriði í frv. Mér þótti rétt, herra forseti, að láta það koma hér fram að við styðjum þetta frv., við teljum það vera í anda þess sem við höfum lagt megináherslu á varðandi sjálfstæði sveitarfélaganna og ekki síst þegar það er haft í huga hversu víðtæk samstaða hefur náðst hjá þeim aðilum sem eiga þar fyrst og fremst hagsmuna að gæta, sveitarstjórnarmönnum í landinu.