Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Mánudaginn 19. desember 1988

     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð fyrri ræðumanna hér í kvöld að ég fagna því að þetta frv. sé komið fram í þessari breyttu mynd sem það er núna og með þó þeirri miklu kynningu sem hefur þegar farið fram. Ég vona að sú kynning haldi áfram og jólaleyfið verði notað til þess að fá umsagnir allra þeirra aðila sem nauðsyn kann að krefja til þess að geta afgreitt þetta mál skynsamlega hér á þinginu, þannig að það geti tekið gildi 1. jan. 1990 eins og gert er ráð fyrir í frv.
    Ég hef starfað alllengi að sveitarstjórnarmálum og tekið þátt í stjórn tveggja allstórra sveitarfélaga á okkar mælikvarða. Ég fullyrði það að þessi flókna verkaskipting og kostnaðarskipting sem hefur verið á milli sveitarfélaga á undanförnum árum og áratugum hefur kostað ógrynni fjár, mikla vinnu og reyndar mikla flækju og deilur á milli sveitarfélaga og ríkisvaldsins um það hvernig gera eigi hlutina upp. Því miður hefur ekki alltaf farið þar saman ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum og framkvæmdalegum ákvörðunum sem verður að taka heima í héraði. Ég vona þess vegna að þinghléið verði notað til þess að senda frv. til umsagnar og kynningar eins víða og nokkur tök eru á. Ég tel að frv. hafi tekið allmörgum góðum breytingum frá fyrra ári. Ég ætla ekki hér að fara út í einstaka liði í frv. Ég á sæti í félmn. sem fær frv. til meðferðar og fæ þar tækifæri til þess að ræða það allvel.
    Ég vara þó við því, sem ég reyndar held að hafi tafið þetta mál á undanförnum árum, þ.e. það atriði þegar löggæslan var færð frá sameiginlegum kostnaði og ábyrgð ríkis og sveitarfélaga yfir til ríkisins eingöngu. Sú reynsla þykir ekki hafa gefið góða raun, ríkissjóður varð fyrir miklum útgjöldum, útgjaldaaukningu við þessa tilfærslu. Ég tel að hún hafi orðið fyrst og fremst vegna þess að þegar ríkið tók löggæsluna yfir, þá fylgdi ríkið því ekki eftir að láta það eftirlit og umsjá með löggæslunni fara fram sem fór fram heima í héraði áður og þess vegna megi ekki taka þá reynslu sem neikvæða. Ég held að það hafi verið við ríkið eitt að sakast hvernig þar tókst til.
    Það er eitt atriði sem ég vil leggja mikla áherslu á að verði tryggt í þessari lagasetningu og þeim samningum sem fara fram á milli ríkisins og sveitarfélaga við frágang þeirra mála í árslok næsta árs, það er uppgjör á kostnaðinum. Ég tel að það sé meginmál að reynt verði að komast að niðurstöðu um það hver kostnaðarstaðan sé í árslok 1989 þegar lögin eiga að taka gildi --- hvort sem þau verða í þessu formi eða eitthvað lítillega breytt --- sú kostnaðarskuld, sem er þá hjá ríkissjóði, sem núna virðist vera rúmur 1 milljarður eftir þeim áætlunum sem liggja fyrir og verða kannski hálfur annar þá eða guð má vita hvað. Ég legg mikla áherslu á að við það verði staðið sem nefndin sem samdi þetta frv. leggur til, að gera skuldir upp á fjórum árum, og jafnvel svo að það verði gefið strax við þau tímamót út skuldabréf um greiðslu á þeim skuldum á fjórum árum. Það er mikið mál held ég fyrir sveitarstjórnir,

sem flestar eða a.m.k. mjög margar eiga í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum út af þessum samskiptum við ríkisvaldið, miklu meiri erfiðleikum held ég en tölurnar segja til um, m.a. vegna þess að fjármagnskostnaður og verðbólga hefur ekkert komið inn í það dæmi, að það verði gert upp á einu bretti að svo miklu leyti sem nokkur tök eru á og staðið við það að greiða skuldirnar á ekki lengri tíma en fjórum árum. Það held ég að sé grundvallaratriði til þess að sveitarfélögin fari ekki illa út úr þessu.
    En meginmarkmið frv. held ég að sé nokkuð augljóst, að fjárhagsleg ábyrgð og ákvarðanataka fari saman, annaðhvort hjá ríki eða sveitarfélagi. Ég held að þetta frv. sé gott í öllum meginatriðum. Það eru einstök atriði sem ég vil að sjálfsögðu hafa fyrirvara um eins og fyrri ræðumenn hér í kvöld, sem ég mun þó taka upp í þeirri nefnd sem fær málið til meðhöndlunar, félmn., þegar umsagnir liggja fyrir.
    En að lokum bara þetta. Ég legg áherslu á það að uppgjörsmál verði reynt að hafa eins einföld og skýr og kostur er og að skuldir verði greiddar á þeim tíma sem um er talað, á ekki lengri tíma en fjórum árum, og tryggja þannig fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaganna eins og kostur er. En frv. hefur tekið breytingum til hins betra frá því í fyrra, eins og sjá má í þeirri töflu m.a. sem fylgir frv., því að fjárhagsleg staða sveitarfélaganna mun frá fyrra frv. batna mjög mikið. Það má að vísu deila um einstök atriði en ég held að þetta sé spor í rétta átt og ég vænti þess að við getum komið þessu máli til nefndar og til umsagnar áður en þingið fer í jólaleyfi.