Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Mánudaginn 19. desember 1988

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Ég sé ástæðu til að koma hér upp nú í lok þessarar umræðu til þess að fagna þeim umræðum sem hafa orðið um þetta frv. Mér finnst að sú umræða sem hér hefur farið fram sýni mjög jákvæð viðhorf þingmanna til þessa frv. og það vekur mér vonir um að um þetta mál geti tekist mjög góð og breið samstaða hér á hv. Alþingi. Vissulega hafa komið hér fram athugasemdir og ábendingar sem er mjög eðlilegt þegar um er að ræða svo stórt og viðamikið mál sem verkaskiptamálið er. En ég ítreka það, sem ég sagði í minni ræðu og reyndar hefur komið fram hjá ýmsum þingmönnum sem hér hafa talað, að það er gífurlegur áhugi hjá sveitarstjórnarmönnum á að þetta mál nái fram að ganga og vænti ég þess fastlega að svo geti orðið á þessu þingi.