Tekjustofnar sveitarfélaga
Mánudaginn 19. desember 1988

     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki hafa langt mál á þessum nýja degi. Ég get endurtekið það sem ég sagði um fyrra frv. sem hér var á dagskrá, um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég tel mjög brýnt að koma báðum þessum málum út til kynningar og umsagnar hjá sveitarstjórnum og öðrum þeim aðilum sem um þau þurfa að fjalla. Það eru ýmis atriði sem eru verulega jákvæð og skýrari í frv. en var í gömlu lögunum.
    Í fyrsta lagi tel ég að þau ákvæði um Jöfnunarsjóðinn sem eru í þessu frv. --- þó ég hafi fyrirvara um einstök atriði í því efni eins og reyndar fleiri í frv. og mun áskilja mér rétt til þess að hafa áhrif á það í félmn. þar sem ég á sæti --- séu skýrari en var í gömlu lögunum. Fyrst og fremst stendur Jöfnunarsjóðurinn frekar undir nafni núna sem Jöfnunarsjóður en hann er í núgildandi lögum.
    Um fasteignaskattinn má segja að þetta er gamalt hagsmunamál sveitarfélaga utan Reykjavíkursvæðisins, að stofninn sé svipaður og sveitarfélög hafi þar með sömu möguleika til tekjuöflunar. Það er pólitískt vandamál eins og þetta hefur verið að í sumum sveitarfélögum þurfi að vera verulegt álag á fasteignaskattinn, önnur geti gefið afslátt til þess að fá út svipaðar tekjur. Þetta er pólitískt vandamál sem hefur verið á milli sveitarfélaga sem nú er jafnað að verulegu leyti.
    Ég tek líka undir það að það er eðlilegt að það séu sveitarstjórnir sem ákveði aðstöðugjaldastofnana undir þessu vissa ákvæði um hámark, 1,3%, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., en sveitarstjórnirnar sjálfar ákveði skiptingu þar á milli atvinnugreina. Ég hygg að það verði í reynd ekki sveitarstjórnirnar sem geri það heldur landshlutasamtökin sem muni reyna að koma sér saman um hvernig það verði. Sama má segja um útsvörin. Það er mikið hagsmunamál og gott mál sem hefur tekist á þessu ári, að afskiptum ríkisvaldsins af því máli er hætt. Það eru sveitarfélögin sjálf sem fá heimild til að taka ákvörðun um hvort þau nýta sér hámarksálagninguna eða bæta á það 10% álagi eða ekki, þannig að það eru mörg atriði í þessu frv. sem eru til mikilla bóta.
    Ég er því samþykkur þessu frv. í öllum aðalatriðum, en hef þó fyrirvara um að flytja eða styðja brtt. sem fram kunna að koma við meðferð málsins bæði í nefnd og annars staðar, enda á ég, eins og ég sagði áðan, sæti í þeirri nefnd sem mun fá frv. til umfjöllunar. Meginmálið er þó það að ljúka þessu máli núna fyrir jólahlé og koma því til umsagnar til þeirra aðila sem um það þurfa að fjalla þannig að félagsmálanefndarmenn og aðrir þingmenn hafi möguleika til að meta skoðanir manna almennt á því.
    Ég tek svo að lokum undir þær skoðanir að ég held að að sé rétt að nefndarálitið sjálft fylgi með til umsagnaraðila, og hefði reyndar átt að fylgja með til þingsins, þannig að það hefði legið ljóst fyrir hvernig nefndin sjálf skilaði þessu frá sér til ráðherra. En það er hægt að bæta úr því með því að prenta það og láta það fylgja með til umsagnar til þeirra aðila sem þurfa

að fá það.