Tekjustofnar sveitarfélaga
Mánudaginn 19. desember 1988

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um þetta frv. sem er í raun fylgifrv. þess sem áður var rætt, um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þetta er auðvitað algjör forsenda þess að sú verkaskipting takist og það takist í raun að stunda valddreifingu og færa ákvörðunarrétt út í sveitarfélögin eins og markmið fyrra frv. er. Það er afar mikilvægt að það takist að koma á meiri jöfnuði og útrýma því misræmi sem hefur verið á möguleikum til tekjuöflunar milli sveitarfélaga.
    Mig langar að vitna í ályktun sem gerð var á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi í ágústlok. Þar er bent á eftirfarandi þrjú atriði, með leyfi hæstv. forseta. Í fyrsta lagi: Grunnur til álagningar fasteignaskatta verði sá sami hvar sem er á landinu. Í öðru lagi: Álagning aðstöðugjalda verði endurskoðuð og fundinn annar og sanngjarnari grundvöllur til álagningar, t.d. tekjur fyrirtækjanna. Álagningarhlutfall verði hið sama hvaða atvinnurekstur sem um er að ræða. Og í þriðja lagi: Jöfnunarsjóður verði í ríkari mæli en nú er gert notaður til tekjujöfnunar. Jafnframt verði tryggt að sveitarfélögin fái þær tekjur í gegnum Jöfnunarsjóð sem lög gera ráð fyrir hverju sinni og hann verði sá styrkur við sveitarfélögin sem honum var ætlað.
    Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða þar sem þetta frv. er, og varðar miklu að það komist sem fyrst til umsagnar ásamt hinu og það verði fjallað um þau samtímis í nefndinni. Ég vil ítreka beiðni mína um aðild að hv. félmn. þegar þessi tvö frv. koma þar til umfjöllunar.
    En í megindráttum tel ég að hér sé um gott mál að ræða þó að ég áskilji fulltrúum Kvennalistans allan rétt til að hafa fyrirvara við ýmsar greinar, eftir því hvernig umfjöllunin fer fram í nefndinni.