Aðgerðir í efnahagsmálum
Mánudaginn 19. desember 1988

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Þau tvö mál sem eru á dagskrá deildarinnar eru nátengd og þótt mælt sé fyrir þeim sitt í hvoru lagi hygg ég óhjákvæmilegt að þau komi bæði nokkuð við sögu í framsögu.
    Fyrra málið, aðgerðir í efnahagsmálum, er að grunni til staðfesting á bráðabirgðalögum sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar setti 20. maí sl. Aðgerðum sem þá var gripið til í efnahagsmálum var ítarlega lýst í yfirlýsingu þeirrar ríkisstjórnar frá 20. maí. Þær aðgerðir byggðust í fyrsta lagi á gengisfellingu sem nam 10% og í öðru lagi á ýmsum aðgerðum í kjaramálum sem síðan voru lögfestar í bráðabirgðalögum. Meginatriði þeirra laga var að framlengja alla gildandi og síðast gildandi kjarasamninga til 10. apríl 1989 og jafnframt að ákveða og binda þá kjarasamninga sem ekki höfðu verið gerðir við svokallaða Akureyrarsamninga þar sem meginþorri aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands náði samkomulagi norður á Akureyri og hefur verið við þann stað kennt.
    Þá voru í þeim bráðabirgðalögum ákvæði m.a. sem bönnuðu verkbönn, verkföll og þar með taldar samúðarvinnustöðvanir, það var í 4. gr. þeirra bráðabirgðalaga, og sömuleiðis bann til atvinnurekenda að hækka laun, þóknun og hlunnindagreiðslur hvers konar.
    Ég sé ekki ástæðu til að rekja þau bráðabirgðalög mikið nánar, en það kom í hlut minn að leggja þau fram og fá þau staðfest. Þau hafa síðan verið til meðferðar í hv. Ed. sem valdi þann kostinn, sem eðlilegt var, að sameina þau bráðabirgðalög ýmsum ákvæðum í lögum um efnahagsaðgerðir sem núv. stjórn setti með bráðabirgðalögum 28. sept. sl. og einkum þó að færa ákvæði í hinum nýrri lögum, sem voru samþykkt sem breytingar á lögum frá ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar eða maílögunum, yfir í fyrri lögin og sameina þau þannig. Fyrst og fremst eru þetta ákvæði sem varða kjarasamninga og kjör í landinu almennt.
    Ég ætla að fara yfir nokkur þau atriði og m.a. mun ég fjalla um þær brtt. sem komið hafa fram í hv. Ed. Eins og frv. stendur nú fjallar 1. gr. þess um m.a. að afnumdar verði launahækkanir sem ákveðnar höfðu verið í september og desember en ákveða í staðinn launahækkun 15. febr. nk. 1,25% og hljóti þá allir þá hækkun. Í 1. gr. frv. er jafnframt ákvæði þess efnis að frekari hækkun launa, kjaratengdra liða og hvers konar endurgjalds fyrir unnin störf en kveðið er á um í þessari grein sé óheimil fram til 15. febr. og er það sama eðlis og sú grein í bráðabirgðalögum ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar sem ég nefndi áðan. Í frv. eins og það stendur núna er 4. gr. frv. breytt frá því sem var í bráðabirgðalögum ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Í þeim bráðabirgðalögum var gert ráð fyrir því að framlengja alla gildandi og næstgildandi kjarasamninga til 10. apríl, en í þeim lögum sem sett voru 28. sept. var hins vegar ákveðið að þessi framlenging kjarasamninga yrði til 15. febr. Í lögunum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að stytta þá

kjarasamninga, sem eru þó nokkrir, sem ná lengra en til 15. febr. fremur en gert var ráð fyrir því í fyrri lögum, maílögunum, sem að grunni til ég mæli fyrir nú.
    Í upphaflegu frv. var jafnframt það ákvæði sem var í bráðabirgðalögunum frá 20. maí þar sem bann er sett við verkföllum, verkbönnum og samúðarverkföllum og slíkri viðleitni til að fá fram aðrar hækkanir en getið var um í þeim lögum. Í meðferð hv. Ed. á þeim málum komu fram ýmsar brtt. M.a. kom fram brtt. þar við 5. málsl. 5. mgr. 1. gr. frv. eins og það stendur núna, sem var áður 12. gr. nýrri bráðabirgðalaganna, og er þar lagt til að fella niður setningu sem er svohljóðandi: ,,Frekari hækkun launa, kjaratengdra liða og hvers konar endurgjalds fyrir unnin störf sem kveðið er á um í þessari grein er óheimil til 15. febr. 1989``, sem með m.ö.o. mundi þýða að það væri vinnuveitendum og launþegum frjálst að semja um aðrar hækkanir en fram er tekið í þessum lögum. Ekki var talið rétt við lagasetninguna 20. maí að heimila slíka samninga eins og það var orðað þá, þ.e. atvinnurekendum var óheimilt að ákveða frekari hækkanir, og við setningu laganna 28. sept., þ.e. septemberlaganna, var talið rétt einnig að hafa slíkt lagaákvæði inni þannig að það yrði ekki til þess að valda misræmi á vinnumarkaðnum. Meiri hl. í Ed. taldi ekki rétt að fallast á þessa breytingu með tilliti til þess sem ég hef nú sagt.
    Í Ed. var einnig rætt um ýmsar fleiri breytingar, m.a. þá að launaliður í verðlagsgrundvelli búvöru skyldi frjáls vera frá staðfestingu þessara laga frá hinu háa Alþingi nú sem gæti þá þýtt að launaliðurinn væri frjáls frá áramótum. Þetta hefur út af fyrir sig ekki þýðingu því að laun bóndans koma ekki til ákvörðunar fyrr en 1. mars og mundi því engu breyta, enda byggjast laun bóndans eins og allir vita á viðmiðunarstéttum.
    Þá var einnig lagt til að í 3. gr. yrði fellt niður ákvæði sem bindur gjaldskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga til 28. febr. 1989 og segir jafnframt að sama gildi um hvers konar útselda vinnu og þjónustu. Þetta var sett í septemberlögin til að binda slíka taxta sama tíma og verðlag er bundið með almennu ákvæði í verðlagslögum sem ekki þurfti að setja frekari lagaákvæði
um. Á þetta treysti meiri hlutinn sér heldur ekki til að fallast af þeirri augljósu ástæðu að menn óttast að það gætu orðið verulegar hækkanir á útseldri vinnu sérfræðinga ef þarna er losað um og ekki eðlilegt að gera það á meðan t.d. ýmsir aðrir kjarahópar eru með bundna samninga í töluvert lengri tíma.
    Þá var einnig flutt brtt. um að fella niður ,,15. febr. 1989`` úr 4. gr. sem mundi einnig þýða að þá yrðu sumir samningar lausir frá staðfestingu þessara laga. Þar er staðan sú að tíu samningar mundu þá losna, þ.e. Alþýðusamband Vestfjarða, sjómannasamningar, kjötiðnaðarmenn, Félag járniðnaðarmanna og blikksmiða, Verkstjórafélag Íslands, Félag hárgreiðslu- og hárskerasveina, Félag ísl. atvinnuflugmanna, Flugfreyjufélag Íslands, flugvélstjórar og flugvirkjar.

Hins vegar yrðu ýmsir samningar bundnir til lengri tíma og reyndar langmestur hluti samninga. Án þess að ég fari að lesa allan þann langa lista hér, þá eru það samningar Verkamannasambands Íslands, sem gilda til 10. apríl eins og þeir samningar voru gerðir, Landssambands iðnaðarmanna til 10. apríl líka og þannig er um fleiri. Félag bókagerðarmanna samdi hins vegar til 31. mars. Er þetta nokkuð breytilegt þegar farið er í gegnum þennan lista. Það eru aðrir með gildistíma töluvert lengur, eins og t.d. Sementsverksmiðja ríkisins til 30. apríl, Áburðarverksmiðja ríkisins til 30. apríl, Íslenska álfélagið til 31. ágúst, mjólkurfræðingar til 1. september o.s.frv. Æðimargir eru bundnir töluvert lengur.
    Ástæðan fyrir því að núverandi ríkisstjórn kaus að færa þessa samninga til sama dags var sú sama sem fyrri ríkisstjórn hafði fyrir flutningi samninga til 10. apríl, þ.e. sú að skapa á vinnumarkaðnum um ákveðinn tíma nokkra ró sem nota mætti til að skoða sem allra best og ákveða aðgerðir til að styrkja rekstrargrundvöll atvinnuveganna. Í stjórnarmyndun var þetta mikið rætt en þá varð ekki samkomulag um að halda dagsetningunni 10. apríl og því ákveðið og fallist á til samkomulags að færa það til 15. febr. Meiri hlutinn í Ed. féllst hins vegar á að fella niður það ákvæði sem bannaði verkföll, verkbönn og samúðarverkföll fyrst og fremst vegna þess að forusta verkalýðshreyfingarinnar hafði farið hinum hörðustu orðum um þetta ákvæði, nefnt það mannréttindabrot, ögrun við launþega. Reyndar var þetta og er aðaluppistaðan í kæru ASÍ til Alþjóðavinnumálasambandsins, ILO, eins og þeir þekkja sem hafa kynnt sér þau mál.
    Ríkisstjórnin leggur jafnframt mikla áherslu á að fljótlega geti hafist viðræður við launþega sem og vinnuveitendur og stjórnarandstæðinga um atvinnuástandið almennt. Það hafði ekki farið leynt að launþegahreyfingar, a.m.k. sumar, töldu sér ekki fært að setjast til slíkra viðræðna með þessa ögrun eða mannréttindabrot í lögum.
    Eins og ég sagði í upphafi míns máls er frv. í raun orðið eitt af tveimur frumvörpum sem eru til umræðu í dag og hvort tveggja er nátengt og liðir, reyndar óaðskiljanlegir þættir í þeim efnahagsaðgerðum sem frumvörpin til samans lýsa.
    Ég ætla þá að leyfa mér að fara nú nokkrum orðum um efnahagsástandið almennt því að það liggur til grundvallar báðum þessum frumvörpum.
    Eins og fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar frá 20. maí var þar ákveðið að grípa til ýmissa annarra aðgerða, hliðaraðgerða sem sú ríkisstjórn mat að þyrfti töluverðan tíma til að ná fram eins og kom fram í því sem ég sagði áðan um framlengingu launasamninga o.fl. Ákveðið var að treysta afkomu atvinnuveganna með allverulegri skuldbreytingu, gefa heimild til erlendra skuldbreytinga hér heima og endurskoða starfsemi Verðjöfnunarsjóðs svo eitthvað sé þar nefnt.
    Ég hef þegar lýst þeim ákvörðunum sem teknar

voru um að binda kjarasamninga þeirra, sem ekki höfðu gert þá, við þá kjarasamninga sem gerðir voru á Akureyri. Jafnframt var ákveðið að hækka ellilífeyri og aðrar bætur almannatrygginga, hækka persónuafslátt eða flýta hækkun hans til 1. júní. Jafnframt var ákveðið að líta nánar á allar víxlverkanir í efnahagslífinu og sérstaklega tekið fram í upphafsmálsgrein þeirrar yfirlýsingar að ,,ríkisstjórnin hefur ákveðið til þess að gengisbreyting krónunnar skili tilætluðum árangri`` o.s.frv. ,,að skapa undirstöðugreinum atvinnulífsins viðunandi rekstrarskilyrði, koma í veg fyrir sjálfvirkt víxlgengi verðlags, gengis, launa og fjármagnskostnaðar.`` Í því skyni var m.a. ákveðið að fela sérstakri nefnd, sem starfaði þá og fjallaði um lánskjaravísitölu, að leita leiða og gera tillögur um það hvernig mætti feta sig út úr þeirri viðmiðun fjármagns við verðlag. Nefndinni var ætlaður tími fram í júlímánuð til að skila því áliti.
    Þá var ákveðið að auka aðhald bæði með því að draga úr erlendu lánsfé til fjárfestinga og fjárfestingasjóða og aðgerðir til að auka aðhald hjá ríkissjóði. Það var ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að gera tillögur um aðgerðir í byggðamálum því að þar hefur röskun orðið afar mikil o.s.frv. svo ég hlaupi yfir þetta nokkuð hratt.
    Gengisfellingin var ákveðin að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins eða atvinnurekendur réttara sagt og var ákveðin nokkurn veginn eins og þeir
töldu óhjákvæmilegt. Það var rætt þar um 10--13% gengisfellingu. Niðurstaðan varð 10% gengisfelling en jafnframt heimild til Seðlabanka Íslands til að fella gengið um 3% til viðbótar.
    Því miður kom hins vegar fljótlega í ljós að þessar ráðstafanir náðu takmörkuðum árangri. Þær réttu við stöðu útflutningsatvinnuveganna um nokkurn tíma, en fljótlega kom að því að staðan virtist engu betri og staðfest var það af þeim tölum sem Þjóðhagsstofnun birti. Vitanlega eru ýmsar skýringar á þessu, m.a. verðfall á afurðum okkar, sérstaklega á Bandaríkjamarkaði, og lækkun á dollara, en ég held að mönnum hafi flestum verið orðið ljóst þegar kom fram í lok júlímánaðar eða ágústmánuð að ítarlegri athugun þyrfti til að ákveða aðgerðir í efnahagsmálum sem gætu orðið varanlegri en tvær gengisfellingar á árinu höfðu reynst. Því ákvað fyrrv. forsrh. að skipa í upphafi septembermánaðar sérstaka nefnd fulltrúa atvinnurekenda til að gera tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum. Sú nefnd vann mikið starf og stjórnarflokkarnir í samráði og samstarfi við hana og leiddi það starf til svokallaðrar niðurfærsluleiðar sem ég ætla ekki að fara að rekja í smáatriðum en er niðurfærsla kostnaðar og þá gagnstætt uppfærsluleiðinni sem er gengisfelling sem leiðir að sjálfsögðu til kostnaðarhækkana.
    Hins vegar var sumt afar athyglisvert í störfum þessarar nefndar sem nauðsynlegt er að hafa enn í huga. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að mikilvægast væri í efnahagsmálum að ná verðbólgunni niður. Hin mikla verðbólga væri það mein sem erfiðast væri atvinnugreinunum eins og fleirum.

Nefndin komst einnig að þeirri niðurstöðu að fjármagnskostnaður væri allt of hár og leita yrði leiða til að lækka hann. Nefndin ákvað því með tilliti til þess að leggja til, eins og ég sagði fyrr, fremur niðurfærslu en gengisbreytingu. Mig minnir að nefndin hafi jafnframt sagt að gengisbreytingu yrðu að fylgja mjög róttækar hliðarráðstafanir sem tækju áhrif gengisbreytingar út úr efnahagslífinu á sem flestum ef ekki öllum sviðum, en það hafði þá sannarlega sýnt sig að erfitt hefur reynst að ná samstöðu um slíkt.
    Því miður náðist ekki samkomulag um leiðir þær sem nefndin lagði til og leiddi það til stjórnarslita. Um þær tilraunir sem gerðar voru í septembermánuði til að ná samstöðu um aðgerðir í efnahagsmálum held ég að megi segja almennt að þær mótuðust af því að skapa enn á ný svigrúm til að ákveða varanlegri aðgerðir í efnahagsmálum. Ég ætla hér ekki að fara að gera upp sakir í þeim efnum eða ræða mun á hinum ýmsu tillögum. Þó vil ég geta þess, sem öllum er ljóst, að sjálfstæðismenn lögðu þá til enn á ný meiri gengisbreytingu en aðrir stjórnarflokkar töldu sér fært að fallast á sem ekki síst mótaðist af því að þær gengisbreytingar sem höfðu orðið, bæði í febrúar og september, höfðu ekki leitt til neins þess bata sem menn höfðu gert sér vonir um, en hins vegar valdið verulegri verðbólgu og þar með aukið á þann vanda sem atvinnuvegirnir sjálfir töldu hvað mestan, þ.e. mikla verðbólgu. Alþfl. og Framsfl. töldu því að leita yrði annarra leiða og m.a. að skapa svigrúm til þess með bráðabirgðaaðgerðum.
    Þessum bráðabirgðaaðgerðum er að hluta lýst í því frv. sem ég mæli fyrir hér, þ.e. launaþáttum þeirra aðgerða, en að hluta lýst í því frv. sem er til umræðu á eftir.
    Ég ætla að fara nokkrum almennum orðum --- þetta tengist mjög saman eins og ég sagði áðan og erfitt að greina þar fullkomlega á milli --- um þessar aðgerðir í heild sinni og þau áhrif sem þeim var ætlað að hafa.
    Samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar í lok september var talið að með þessum aðgerðum mætti ná veiðum og vinnslu upp í kringum núllið eða kannski rétt yfir núllið og frystingunni rétt um núllið. Saltfiskurinn er aðeins fyrir ofan. Hins vegar eru erfiðleikar miklir í t.d. rækjunni. Heildin yrði því einhvers staðar rétt í kringum núllið. Þessar aðgerðir felast m.a. í greiðslu úr Verðjöfnunarsjóði, skuldbreytingum, Atvinnutryggingarsjóði og viðleitni til lækkunar raforkuverðs eins og þá var talað um, þó það hafi ekki komið til framkvæmda, en fólust einnig í því að ná niður fjármagnskostnaði, ná niður vöxtum. Í því skyni er það mat þessarar ríkisstjórnar og reyndar þeirrar fyrri að ákaflega mikilvægt sé að halda verðbólgu sem lægstri. Það hefur því verið og er mat þessarar ríkisstjórnar að á meðan sú mikilvæga viðleitni fer fram að ná niður vaxtakostnaði sé afar mikilvægt að halda verðbólgu sem lægstri.
    Í fáum orðum sagt, þó að ég komi að öllum líkindum eitthvað meira inn á það á eftir, hefur sýnt sig við framkvæmd þessara efnahagsaðgerða að ástand

atvinnuveganna er stórum lakara en talið var í september. Líklega var það í raun yfir heildina litið um 2--3% lakara en Þjóðhagsstofnun hafði metið. Skýringar á því eru fyrst og fremst þær að aflasamdráttur og verðlækkanir, hækkanir á ýmsum liðum eins og t.d. launalið o.s.frv. hafi ekki skilað sér nógu vel í mati stofnunarinnar frá því í septembermánuði. Ég lét því hefja mjög umfangsmikla vinnu til að skoða þróun þessara mála og hef látið alla þingflokka fá eintök af þeim mikla talnafjölda sem í þeim skjölum er og ég efa ekki að þingmenn hafa skoðað það.
    Ég vil aðeins geta þar um fáein atriði. M.a. kemur fram í sérstakri
úttekt, sem gerð var af fjórum endurskoðendum sjávarútvegsfyrirtækja sem fengu með leyfi fyrirtækjanna beinan aðgang að 29 fyrirtækjum í sjávarútvegi, mjög skýr mynd af því afar alvarlega ástandi sem hefur skapast og er tvímælalaust, ég hygg að allra mati, miklu lakara en menn töldu í septembermánuði. Þar kemur m.a. fram að í þessum fyrirtækjum í frystingu er tap á þessu 8--9 mánaða tímabili nú tæplega 11% eða um 650 millj. kr. Sömuleiðis kemur fram að yfirleitt er skuldastaða þessara fyrirtækja afar slæm. Í efnahagsreikningi, þar sem tekið er saman yfirlit yfir öll þessi fyrirtæki, þ.e. frystingu, söltun og útgerð, kemur fram að skammtímaskuldirnar eru um 7,5 milljarðar kr. en langtímaskuldirnar rúmlega 8,5 milljarðar, en heildartekjur þessara 29 fyrirtækja eru rúmlega 11 milljarðar kr. Þarna kemur einnig fram að eiginfjárstaðan hefur skerst mjög og eiginfjárstaða fyrirtækjanna er í lok tímabilsins 4,7% þegar tekið er allt til samans. Ef fiskiskip eru metin á vátryggingarverði hækkar eiginfjárstaðan upp í 16,4%. Það sama kemur fram í þeim gögnum sem Atvinnutryggingarsjóður hefur safnað og hefur einnig verið látið hv. þm. í té. Vek ég þar sérstaklega athygli á yfirliti yfir 15 fyrirtæki sem þar eru dregin saman. Þar kemur í ljós að eiginfjárstaðan hefur hrunið --- þetta er fyrst og fremst frysting en lítið af útgerð í þeim fyrirtækjum --- úr 11% í 3% og tap þessara fyrirtækja frá því að vera, ef ég man rétt, 30--40 millj. á síðasta ári í um 640 millj. á 8--9 fyrstu mánuðum þessa árs.
    Ég hygg að mönnum geti verið ljóst að a.m.k. fyrir þau fyrirtæki sem eru með skuldastöðu eins og ég las áðan --- og ég vek athygli á því að að sjálfsögðu eru mörg með miklu verri skuldastöðu því að í þessu eru einnig fyrirtæki með allgóða stöðu í dag --- kemur gengisfelling að mjög litlum notum og aðeins í mjög skamman tíma. Af þessum ástæðum m.a. tel ég að afar þarft hafi verið að skoða þetta í grunninn. Það er enn þá verið að skoða það og ég geri mér vonir um að milli jóla og nýárs liggi þetta fyrir enn ítarlegar, bæði almennt yfirlit yfir fleiri fyrirtæki sem sótt hafa til Atvinnutryggingarsjóðs og sömuleiðis er Þjóðhagsstofnun að vinna ítarlegra yfirlit, m.a. svör við spurningum sem hér hafa komið fram og ég geri mér vonir um að dreifa á næstu dögum yfirliti yfir

svokölluð tíu verstu og tíu bestu frystihúsin, þannig að verið er að safna saman mjög viðamiklum upplýsingum um stöðu sérstaklega útflutningsgreinanna í dag.
    Um þetta mætti allt hafa miklu lengra mál og verður eflaust rætt í dag. Ég mun svara þeim spurningum sem til mín er beint og ég hef svör við, en vil aðeins að lokinni framsögu fyrir þessu fyrra máli taka það fram til að fyrirbyggja misskilning, sem mér hefur stundum heyrst fleygt á Alþingi, að ríkisstjórnin hyggist ekki gera annað og meira í þágu atvinnuveganna en það sem hér er nefnt. Þetta er misskilningur. Allt það sem ég hef hér rakið og talið er til undirbúnings því að grípa megi til viðameiri aðgerða en jafnframt aðgerða sem verða vonandi varanlegri en þær hafa verið sem gripið hefur verið til á undanförnum missirum og árum. Það er ásetningur minn að bjóða hv. stjórnarandstæðingum að koma til viðræðna um þá hluti. Ég lít svo á að hér sé um þannig mál að ræða að við þurfum að ræða þau sem allra mest fyrir opnum tjöldum, þó á ég ekki við að hafa fjölmiðlana inni hjá okkur, þeir eru það næstum því í dag, en a.m.k. á milli þeirra sem hér á Alþingi sitja og aðila vinnumarkaðarins. Það er von mín að þær viðræður geti hafist ekki síðar en strax upp úr áramótum. Sérstaklega legg ég á það mikla áherslu að fá fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands og launþegahreyfingum til þessara viðræðna og mun leggja drög að því næstu daga þó að ekki liggi endanlega fyrir sá tími sem þetta gæti orðið.
    Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að máli þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.