Aðgerðir í efnahagsmálum
Mánudaginn 19. desember 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Herra forseti. Með leyfi hæstv. forseta langar mig til að byrja mál mitt með tilvitnun í frétt í Morgunblaðinu 11. þessa mánaðar. Sú frétt ber yfirfyrirsögnina ,,Heildarfiskaflinn stefnir í 1,7 milljónir tonna í ár`` og undirfyrirsögn hljóðar svo: ,,Líkur á því að útflutningsverðmæti verði svipað og í fyrra.``
    Í aðfaraorðum fréttarinnar segir svo: ,,Árið í ár færir Íslendingum að öllum líkindum meiri afla úr sjó en nokkru sinni áður. Miðað við aflabrögð til þessa og spá Fiskifélags Íslands verður aflinn rúmlega 1,7 milljónir tonna og verður það þá í fyrsta sinn sem afli fer yfir það mark. Botnfiskafli verður svipaður þrátt fyrir samdrátt í þorskafla og loðnu- og síldarafli eykst talsvert. Minna hefur hins vegar veiðst af skelfiski nú en í fyrra. Verðmæti aflans upp úr sjó eykst verulega og þrátt fyrir verðlækkanir á frystum fiski erlendis má áætla að heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða verði svipað og á síðasta ári, um 42 milljarðar kr. Þar skiptir mestu veruleg verðhækkun á loðnuafurðum og um 100 þúsund tonna aflaaukning í heildina.``
    Síðan er fjallað í fréttinni um aflabrögðin nokkru frekar og eru birtar ýmsar tölur, en síðar segir, með leyfi forseta:
    ,,Að loknum ágústmánuði hafði verðmæti þorsks upp úr sjó aukist um 11% miðað við sama tíma í fyrra, verðmæti ýsu um 64%, loðnu um 61% og heildarverðmæti aflans um 14%. Það var þá 20,4 milljarðar kr. en 1987 17,8. Áður fyrr mátti áætla útflutningsverðmæti tvöfalt aflaverðmæti, en það er hæpið nú, bæði vegna útflutnings á ísuðum fiski og verðlækkunar á dýrustu afurðunum. Í júlílok var útflutningsverðmæti sjávarafurða að lagmeti meðtöldu um 25,4 milljarðar kr. og var þá 6,7% lægra en á sama tíma árið áður. Á þeim tíma er veruleg verðhækkun á loðnuafurðum ekki farin að skila sér, enda veiðar og vinnsla ekki hafin. Með aukningu heildarafla um 100 þús. tonn, megnið af því loðna og síld, og verðhækkun á loðnuafurðum má því reikna með því að heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða verði svipað og á síðasta ári, um 42 milljarðar kr. Verðmæti hefur því aldrei verið meira reiknað á verðlagi hvers árs fyrir sig.``
    Ekki er nú hægt að segja, virðulegi forseti, að þessi frétt af aflabrögðum og verðmætasköpun í undirstöðuatvinnuvegi okkar Íslendinga sé uggvekjandi eða lituð af svartsýni og hef ég hvergi séð þessari frétt mótmælt sem ósannri og rangri mynd. Aflinn hefur aldrei verið meiri og verðmætið aldrei meira reiknað á verðlagi hvers árs fyrir sig.
    Á sama tíma er talað um kreppuástand, hrun atvinnuveganna, fyrirtækin að brenna upp, þjóðlíf standi á brauðfótum og sjálfur hæstv. forsrh. gengur svo langt að segja okkur nálgast þjóðargjaldþrot. Á sama tíma telja stjórnvöld brýna nauðsyn bera til að hefta launafólk í fjötra launafrystingar og samningsbanns. Samt hefur aflinn aldrei verið meiri og verðmæti hans aldrei meira en á þessu ári sem kemur í kjölfar einhvers mesta góðæris í manna

minnum. Samt hefur aflinn aldrei verið meiri og verðmæti hans aldrei meira. Von er að einhvern bresti skilning og þolinmæði gagnvart sífelldu fálmi stjórnvalda, aðgerðarleysi eða hálfkáki.
    Hér stöndum við nú á annasamri aðventu jóla og ræðum vorverk síðustu ríkisstjórnar og haustverk núv. ríkisstjórnar, hvort tveggja skilgreint sem aðgerðir í efnahagsmálum til þess að bregðast við erfiðu ástandi í efnahags- og atvinnumálum. Nú stendur svo á að þeim hefur verið blandað nokkuð saman, þ.e. að því er tekur til launafrystingar sem núv. ríkisstjórn framlengdi í óðagoti sínu í haust. Það varð fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar, sem nú situr, fyrsta verk ráðherranna í valdastólum sínum. Svo mjög lá þeim á að troða úrræðum sínum upp á þjóðina að þeir töldu sér ófært að bíða með lagasetningu þá fáu daga sem voru til þingsetningar. Hér er rétt að minna á afstöðu 1 / 3 af tríóinu sem þá var reyndar utan stjórnar. En svo litla ábyrgð finnst þeim þeir líklega bera á þessari lagasetningu að þeir sjá sér ekki fært að vera við þessa umræðu. Sennilega væru eyru þeirra hálflokuð ef þeir væru hér hvort eð er og ég ætla ekki að gera kröfu til þess sérstaklega að þeir séu sóttir. En miðað við háværar kröfur þeirra í fyrra í garð þáverandi ráðherra um að vera viðstaddir umræðu skýtur nú nokkuð skökku við hvað þeim finnst lítið áríðandi að hlýða á það sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa að segja í umræðum á Alþingi.
    En mér finnst nauðsynlegt að minna á að seint í ágúst á þessu ári kom þingflokkur Alþb. saman til fundar á Hallormsstað og skrifaði þar bréf. Þingflokkurinn skrifaði þáv. forsrh. Þorsteini Pálssyni bréf og óskaði eftir því við ríkisstjórnina að Alþingi yrði kallað saman til funda eigi síðar en tíu dögum eftir dagsetningu bréfsins. Í bréfinu sagði m.a., með leyfi forseta:
    ,,Mikil óvissa ríkir nú í þjóðmálum. Ríkisstjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um neitt nema skerða kjör launafólks eins og nú hefur verið gert með enn nýjum bráðabirgðalögum sem svipta launafólk launahækkunum sem áttu að koma til móts við hinar miklu verðhækkanir að undanförnu. Opinskátt er rætt um frekari bráðabirgðalög á næstunni aðeins örfáum vikum eða dögum áður en Alþingi komi
saman. Þingflokkur Alþb. telur með öllu óverjandi að grípa nú til setningar umdeildra bráðabirgðalaga af ríkisstjórn sem riðar til falls og einkennist af óheilindum og sundurþykkju.``
    Þetta var skoðun Alþb. í ágúst. En mánuði seinna eða þar um bil stóð það að því að setja bráðabirgðalög þau sem við nú ræðum í dag og dæmi nú hver fyrir sig sem honum sýnist um þennan málflutning og snör sinnaskipti.
    Það verður eflaust forvitnilegt að heyra þegar stjórnmálamenn fara á hefðbundinn hátt að minnast atburða liðins árs við áramót. Ekki er ólíklegt að einhverjum verði það fyrir að minnast ársins 1988 sem ársins þegar bráðabirgðalög voru sett örfáum dögum eftir þingslit að vori og aftur örfáum dögum

áður en þing kom saman að hausti. Skyldi það vera borin von að við þurfum ekki að upplifa fleiri slík ár í þessu tilliti?
    Núverandi ríkisstjórn stendur ekki síður völtum fótum en sú fyrri, en vissulega af öðrum ástæðum. Þessi ríkisstjórn hefur ekki meiri hluta í þessari deild. Hún byggir tilveru sína á óvissum stuðningi huldumanna sem bónus þessarar happaþrennu taldi sig hafa ráð yfir hér á Alþingi. Það er að koma betur og betur í ljós hvílík ósvífni það var af hæstv. ríkisstjórn að setja þessi bráðabirgðalög sem við höfum nú loks fengið til meðferðar og er skipt raunar á milli þessara þingmála sem við ræðum í dag. Kvennalistinn gerði þá kröfu strax eftir myndun núv. ríkisstjórnar og setningu þessara bráðabirgðalaga að þau kæmu strax til kasta Alþingis svo að í ljós kæmi hvern stuðning þau og ríkisstjórnin hefðu. Hingað í hv. Nd. eru þau nú komin vonum seinna í miðju annríki lokadaganna fyrir jólaleyfi hvernig sem fer um það leyfi.
    Um efni þessara bráðabirgðalaga hefur svo margt verið sagt að hv. þm. þekkja þau út og inn og vafalaust afstöðu Kvennalistans til einstakra greina þess frv. sem hér er til umræðu. Þingkonur Kvennalistans í Ed. fjölluðu um þau þar í löngu máli og gerðu þar tillögur til breytinga, bæði einar sér og ásamt þingmönnum Sjálfstfl. og Borgfl. Hvað varðar það þingmál sem nú er til umræðu, þ.e. 20. málið, sem er á þskj. 243 eins og það er komið frá Ed., snýr höfuðgagnrýni okkar vitaskuld að þeim ákvæðum bráðabirgðalaganna sem lúta að launafrystingu og afnámi samningsréttar. Um þau atriði mætti hafa mjög langt mál og jafnvel lesa eitthvað af þeim fjölmörgu ályktunum, yfirlýsingum og greinum frá félögum og samtökum sem hafa birst undanfarnar vikur. Það ætla ég þó ekki að gera, enda afstaða okkar löngu kunn og þarflaust í sjálfu sér að leiða fram vitni í löngum röðum til stuðnings þessum sjónarmiðum okkar. Það er einfaldlega óþolandi að stjórnvöld skuli með þessum hætti ráðast að launafólki, sem flest hefur ekki annað en eigin vinnu til að lifa af, og svipta það umsömdum launahækkunum og réttindum til að semja um kjör sín. Hér er líklega rétt að komi fram að útspil hæstv. ríkisstjórnar við afgreiðslu málsins í Ed. breytir engu um afstöðu okkar í þessu efni. Það útspil var hæstv. ríkisstjórn gersamlega útlátalaust, enda túlkað nánast sem smekksatriði og breytti litlu fyrir launafólk þótt auðvitað verði að gefa mönnum prik fyrir viðleitni þótt klaufaleg væri. En svo virðist sem þetta atriði hafi gert einhverjum fært að réttlæta afstöðu sína til málsins í heild. En þessi viðleitni svo og breytt afstaða Sjálfstfl. vekja óneitanlega von um að frekari breytingar nái fram að ganga í Nd., eða nánast vissu, svo fremi sem allir þingmenn þingflokka stjórnarandstöðu verði jafnsamstiga í þessari deild og í Ed., en við hljótum að gera ráð fyrir því á meðan ekki kemur annað á daginn.
    Það sem e.t.v. er ámælisverðast alls í gjörðum núv. ríkisstjórnar er þó sú staðreynd að á sama tíma og hún tekur sér það vald að ákveða þak á almenn laun og leyfir jafnframt hækkun verðlags af völdum

erlendra kostnaðarhækkana leggur hún til breytingar á lögum í tekjuöflunarskyni sem hljóta að hafa veruleg áhrif á afkomu launafólks og heimila. Á ég þar t.d. við frv. um vörugjald og um tekju- og eignarskatta. Þetta er auðvitað ólíðandi með öllu og hlýtur að skoðast sem sérstök árás á launafólk, auk þess sem það er afar ólíklegt að þetta dæmi gangi upp reikningslega. Það gengur auðvitað ekki að þrengja svo að launafólki úr öllum áttum í senn og við það verður ekki unað. Það er siðleysi gagnvart launafólki og það hreinlega borgar sig ekki fyrir ríkissjóð. Kvennalistinn getur ekki samþykkt nein slík frv. til tekjuöflunar sem þrengt geta hag launafólks og heimila sem eru í spennitreyju fyrir.
    Ég ætla ekki að fara miklu fleiri orðum um frv. að sinni, en það má ljóst vera að við kvennalistakonur munum flytja brtt. sem lúta að afnámi launafrystingar svo sem við gerðum í Ed. Ef þær verða felldar hljótum við að benda á óréttlætið sem felst í 7. gr. frv. eins og það kom frá Ed. á þskj. 243 þar sem segir að gjaldskrár fyrirtækja og stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli ekki hækka til 28. febr. 1989, þó með þeirri undantekningu að tekið skuli tillit til hækkana á verði innfluttra aðfanga. Við sjáum satt að segja ekkert réttlæti í því að fyrirtæki og stofnanir hafi sínar tekjur verðtryggðar á meðan launafólk hefur það ekki. En ríkisvaldið sýnir með þessu að því er annara um stofnanir sínar og fyrirtæki en fólkið sem hefur ekki annað að selja en vinnuna sína.
    Hæstv. forsrh. lauk máli sínu áðan með því að fjalla nokkuð um efnahagsástand almennt sem reyndar virðist ekki ýkja mikið í tengslum við þá frétt sem ég vitnaði til í upphafi míns máls. Hann sagði svo að lokum að þær efnahagsaðgerðir væru aðeins undanfari þess að gripið yrði til viðameiri aðgerða og boðaði samráð við stjórnarandstöðuna. Nú komu þar engar vísbendingar fram um hvað líklegt væri að fælist í þessum orðum, en vissulega hefur hvarflað að manni síðustu dagana og við þessi orð hæstv. ráðherra að menn séu smám saman að átta sig á hugmynd Kvennalistans frá því í stjórnarkreppunni í haust um samstjórn allra þingflokka. Ekki skal ég segja hversu raunhæf sú hugmynd er nú úr því sem komið er, en það er út af fyrir sig þarflegt að ríkisstjórnin skilji það og viðurkenni að hún hefur ekki nægan styrk ein og sér. Hún verður að taka tillit til þess sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa.