Aðgerðir í efnahagsmálum
Mánudaginn 19. desember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Þau frv. sem hér liggja fyrir til umræðu um efnahagsaðgerðir eru annars vegar lög sem voru sett í þingbyrjun og hins vegar þau lög sem voru sett sl. vor. Í umræðum hefur komið fram að hér á sér stað uppgjör við þessa umræðu á milli fyrrv. stjórnarflokka og þeirra sem nú sitja í stjórn um hvað gerðist í þessum málum og af hverju það stjórnarsamstarf brast. Ég vil ekki blanda mér í þær umræður og tel að þeir flokkar sem þar koma að málum verði að útkljá það sín á milli. Það er okkur óviðkomandi að öðru leyti en því að afleiðingarnar eru þær að núna hefur sest að völdum ríkisstjórn sem hefur ekki þingmeirihluta á bak við sig. Það þýðir að þau frumvörp sem hér liggja fyrir ná ekki fram að ganga í Nd. nema samstarf við stjórnarandstöðuna takist.
    Nú er það svo að auðvitað erum við, a.m.k. í Borgfl., sammála um að atvinnulífið í landinu gangi og þau hjól sem snúa okkar undirstöðuatvinnugreinum séu á fullri ferð. En það verður að gera með þeim hætti að allir geti verið ánægðir með það og að það séu raunhæfar aðgerðir.
    Á síðasta þingi vöruðum við í Borgfl. við þeim efnahagsaðgerðum sem voru þá í frammi hafðar, við fjárlögum sem voru afgreidd síðast og við höfum varað við þeirri efnahagsstefnu sem nú hefur verið fylgt. Allar þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar í ríkisfjármálum hafa stuðlað að því að svo er komið sem nú er. Því var reyndar lýst yfir að menn vildu að sú spenna sem hefur verið í þjóðfélaginu yrði minni eða félli niður. Afleiðingin er sú að núna er ekki lengur um spennu í þjóðfélaginu að ræða. Það er samdráttur. Þetta er afleiðing af gerðum í ríkisfjármálum, en eitt af því sem ríkisstjórn hverju sinni verður að vita er hvort hún vill hafa spennu í þjóðfélaginu eða, eins og áður var kallað, velmegun. Þetta er ein af þeim leiðum sem hver ríkisstjórn verður að gera upp við sig hvernig hún vill standa að. En það gengur ekki að halda áfram á sömu braut, að auka skatta á sama tíma og það er verið að leggja til aðgerðir til að bjarga atvinnulífinu í landinu. Viðvaranir Borgfl. og okkar þingmanna á þinginu síðast eiga fullan rétt á sér núna. Þá má spyrja hvað menn hafi hugsað til að bæta úr þessu. Við sjáum að ef staða fyrirtækjanna er svo sem talin er, að þau nái ekki endum saman, hlýtur það einnig að vera alveg ljóst að auknir skattar á sömu fyrirtæki eru ekki til að bæta ástandið þannig að þær aðgerðir sem liggja annars vegar fyrir í svokölluðum bráðabirgðalögum og hins vegar í skattafrumvörpum ganga í sitt hvora áttina. Við viljum leggja áherslu á að það verði þá með sama hætti lækkaðir skattar á fyrirtækjum og fólkinu í landinu til þess að það verði meira fjármagn í umferð og fólkið og fyrirtækin hafi meira fé. En öll lagafrumvörp sem hér hafa verið flutt ganga í öfuga átt. Það er ekki rétt á sama tíma og við erum að flytja frv. um viðamiklar björgunaraðgerðir fyrirtækja í sjávarútvegi að ákveða að auka skatta á fyrirtækin. Þetta er stefna sem stangast á.

    Við í Borgfl. höfum flutt tillögur í Ed. um nokkur atriði sem við teljum vera til bóta á þeim bráðabirgðalögum sem hér liggja fyrir. Ég tel að það mætti vel ígrunda þær örlítið betur því að það er ekki til bóta, eins og hefur komið fram, að hér sé byggt upp eitt kerfið í viðbót við Byggðastofnun þannig að ný Byggðastofnun rísi með þessum bráðabirgðalögum heldur sé eðlilegra að notast við það kerfi sem er þegar til.
    Það eru mörg ákvæði sem væri hægt að fjalla um hér. Ég vil ekki lengja þessa umræðu mikið um þau sérstaklega, en þó verður að víkja að þeim atriðum sem varða kjarasamninga. Það er nokkuð ljóst að skoðanir eru skiptar um þá hluti. Við höfum lagt til að kjarasamningar séu frjálsir og verkalýðshreyfingin fái samningsréttinn strax, en það eru ekki allir sammála um það í verkalýðshreyfingunni þannig að það er sín hver skoðunin uppi um það. Ég tel að það sé mjög mikilsvert að ef það séu lög í landinu sem heimila frjálsa samninga séu þau virt. Annars er miklu eðlilegra að hafa engin lög í landinu sem heimila frjálsa samninga. Það er mjög mikilvægt að þau lög sem eru í landinu séu virt og ekki sé sífellt verið að skerða þau eins og hefur verið gert æðioft á undanförnum árum.
    Við þessa umræðu verður ekki hjá því komist að líta á stefnuna í peningamálum og stöðu heimilanna. Hér á hinu háa Alþingi hafa farið fram umræður sem hafa nær eingöngu fjallað um að leggja skatta á heimilin í landinu, leggja skatta á fólkið, en það hefur ekki verið fjallað um á hinu háa Alþingi af hæstv. ríkisstjórn að auðvitað verður fólkið sem býr í landinu að fá auknar tekjur ef það á að leggja á svo mikla aukna skatta. Það er alveg ljóst að staða margra heimila í landinu er mjög bágborin og með auknum sköttum mun sú staða ekki batna. Ég vil enn ítreka þá skoðun mína varðandi eignarskatta sem hafa verið hér lagðir fram svo háir að þeir þekkjast hvergi hærri í heiminum að ég veit um. Á Norðurlöndunum eru þeir smábrot af þessu því mönnum dettur ekki í hug að leggja eignarskatta á með þessum hætti og sérstaklega ekki á íbúðarhúsnæði því að menn hafa gert sér grein fyrir því að íbúðarhúsnæði er enginn skattstofn eins og hér hefur verið fundið út og landshlutum þar að auki mismunað eftir því hvort menn búa í eign sem selst betur eða verr. Þetta er kjarnaatriði. Við hljótum að staldra við það að íbúðarhúsnæði hlýtur að vera fyrst og fremst til að búa í því en ekki til að leggja á skatta. Ég tel að þetta sé hugsanaskekkja hjá þeim sem hafa sífellt verið að auka þessa skatta. Það er svo um allan heim að menn leggja ekki háa skatta á íbúðarhúsnæði. Menn gera sér grein fyrir því að þegar menn hafa eignast íbúðarhúsnæði, þá er það hús sem menn búa í gjarnan til æviloka og tekjur manna vaxa ekkert í hlutfalli við húsin sem þeir búa í. Þeir fá ekkert hærri tekjur þó að þeir búi í verðmætara húsi. Hér er því verið að leggja vitlaust mat á verðmæti og þar að auki er verið að mismuna fólki eftir landshlutum. Þessir hlutir koma inn á aðgerðir í efnahagsmálum á sinn hátt vegna þess að það verður

ekki hjá því komist að verði þessir auknu skattar lagðir á til að auka þenslu ríkisins munu þau bráðabirgðalög sem hér eru til að bæta stöðu atvinnuveganna vera gagnslaus því að verkalýðshreyfingin í landinu er nauðbeygð til að krefjast miklu hærri launa en annars væri. Þetta er auðvitað það sem mun gerast. Það mun verða hér allt logandi í verkföllum og kjaradeilum vegna þess að fólkið, hin vinnandi hönd þarf á hærri tekjum að halda. Þá verða fyrirtækin að borga hærri laun og þá erum við komin í sömu stöðu aftur. Það er verið að leika sér að eldinum. Það er verið að ganga í allt aðra átt en eðlilegt er. Ég vil enn minna á að á sama tíma sem á Norðurlöndunum er verið að ganga til móts við skattastefnu Efnahagsbandalagsins um lækkun skatta til þess að fólkið í landinu, fyrirtækin í landinu verði samkeppnishæf við þau fyrirtæki sem eru í Efnahagsbandalaginu, þá er hér verið að ganga í þveröfuga átt og koma því þannig fyrir að samkeppnisaðstaðan verði miklu verri. Þetta eru mikilsverðir hlutir sem við verðum að gera okkur grein fyrir.
    Hér hefur einnig verið rætt um setningu laga rétt fyrir þingbyrjun, bráðabirgðalaganna, sem hefðu allt eins getað verið borin upp á þinginu. En sannleikurinn er sá að þau voru ekki sett af því að þau hefðu ekki getað verið sett hér á þinginu heldur vegna þess að það var ekki meiri hluti til að setja þau á þinginu. Svo hefur verið reynt að þvæla þessu í gegn með ýmsum hætti. Ég geri ráð fyrir að ríkisstjórnin viti að stjórnarandstaðan mun gjarnan vilja að atvinnuvegirnir gangi vel. En það er ekki sama með hvaða hætti það er gert. Það gengur heldur ekki að ætla að reyna að pressa slík lög í gegn með því að segja eitthvað í þá veru að ef þetta verði fellt sé allt komið í strand. Það verður að vera lýðræðislegur meiri hluti á þinginu fyrir aðgerðum sem þessum. Það er grundvallarspurning þegar við erum að ræða þau lög sem hér liggja fyrir að lýðræði er ekki virt ef það er ekki meiri hluti fyrir lögum sem við erum að setja. Við verðum að horfast í augu við þær staðreyndir að til þess að bráðabirgðalög nái fram að ganga verður ríkisstjórnin annaðhvort að hafa meiri hluta á Alþingi eða ná samningum við stjórnarandstöðuna um að þessi lög verði þannig úr garði gerð að allir geti sætt sig við þau.
    Ég held að þetta sé kjarnaatriðið í þessum umræðum og því mjög mikilvægt að ríkisstjórnin taki nú af skarið sem allra fyrst og geri annað tveggja: að ná samningum við stjórnarandstöðuna eða tryggja sér aukinn meiri hluta. Það er ekki nema um tvær leiðir að ræða. Annað væri óraunhæft. Og það hlýtur að liggja í augum uppi að ríkisstjórnin verður að horfast í augu við þessar staðreyndir.
    Við höfum litið á þessi lög mjög gaumgæfilega, eins og ég sagði í byrjun, og þau bera í sér ýmislegt sem við getum ekki samþykkt og teldum að væri hægt að breyta þannig að þau yrðu miklu betri og til bóta fyrir atvinnulífið í landinu. En það verður jafnframt að huga að því að það sé ekki gengið í aðra veru með

álagningu aukinna skatta hér á Alþingi þannig að það sem er verið að gera með bráðabirgðalögum og lögum um efnahagsaðgerðir sé eyðilegt með auknum skattaálögum á þinginu á eftir. Þetta er mjög mikilsvert atriði. Það verður auðvitað að hefja til vegs nýja stefnu í efnahagsmálum, nýja stefnu í peningamálum sem felst í aukinni hagræðingu og sparnaði hjá ríkinu en ekki auknum útgjöldum. Þetta eru kjarnaatriði sem hlýtur að verða að líta á í náinni framtíð því að nú höfum við búið við mesta góðæri sem hugsast getur jafnvel frá upphafi lýðveldis hér. Við höfum haft hæsta aflaverðmæti sem um getur í sögunni og tilkostnaður hefur verið tiltölulega lágur hvað varðar olíu, það hefur verið mjög lágt verð á olíu, þannig að ytri aðstæður fyrir þjóðarbúið hafa verið geysigóðar. En þessu hefur verið gloprað niður með rangri stjórnun á peningamálum.
    Við verðum að taka okkur saman og halda þannig á þessum málum að hægt sé að halda atvinnufyrirtækjum gangandi, heimilunum gangandi og efnahagslífinu gangandi með lægri tilkostnaði á öllum vígstöðvum því að við getum alveg eins átt von á því að olían hækki og þá þýðir það allt upp í 10 milljarða kr. á ári í auknum útgjöldum í innkaupum á olíu. Við getum einnig átt von á því að það verði breytingar á fiskigengd sem við sjáum þegar að er gert ráð fyrir í tillögum sjútvrh. Við verðum því að huga að sparnaði og mæta þessu á þann hátt en ekki með auknum sköttum.