Efnahagsaðgerðir
Mánudaginn 19. desember 1988

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég hafði reiknað með því að fleiri væru á mælendaskrá en eins og ég sagði í upphafi míns máls og aðrir hafa tekið hér undir eru þessi mál svo nátengd að í raun er ekkert lakara að ræða þau saman og líklega betra.
    Það mál sem nú er til umræðu er það sem eftir stendur af bráðabirgðalögum núv. ríkisstjórnar, þ.e. það sem er ekki flutt yfir í bráðabirgðalög fyrri ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Þau atriði sem hér um ræðir snerta sérstaklega aðgerðir í atvinnumálum, aðgerðir í verðlags- og kjaramálum að nokkru leyti, sem ekki voru færðar yfir, og vaxtaákvarðanir og skal ég fara yfir það í nokkrum orðum.
    Aðgerðir í atvinnumálum eru í fyrsta lagi greiðsla úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins til frystingar og framleiðslu á humar og rækju. Ákveðið er með þessum lögum að taka lán hjá Seðlabanka Íslands eða fyrir milligöngu Seðlabanka Íslands, allt að 800 millj. kr., sem greiða má út á frystar sjávarafurðir, 750 millj. kr. vegna verðbóta á freðfisk og 50 millj. kr. vegna verðbóta á hörpudisk. Hér er um að ræða 5% verðbætur á þessar afurðir og er það u.þ.b. sú upphæð sem frystingin hefði fengið greitt samkvæmt þeim reglum sem gilda í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins ef þar hefði verið inneign. Sú inneign var því miður ekki fyrir hendi, hafði verið tekin út, ekki lögð inn á þeim árum þegar tekjur höfðu verið, á undanförnum þremur árum, allmiklar í frystingunni.
    Einnig var ákveðið að greiða svipaðar verðbætur og reyndar nokkuð meiri á skelfletta rækju og var nauðsynlegt að setja það ákvæði í lög því að þar er um að ræða töluvert meiri greiðslu vegna erfiðleika í rækjuvinnslunni en reglur um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins gáfu tilefni til. Eins og ég veit að hv. þingmönnum er kunnugt byggjast þær reglur á breytingu á verðlagi sjávarafurða erlendis. En í sambandi við rækjuna þótti nauðsynlegt að taka tillit til erfiðleika sem urðu vegna minni afla hér heima. Gera má ráð fyrir því að þessar greiðslur endist fram í marsmánuð, þ.e. 5% verðbætur út á frystinguna og viðbótargreiðsla út á rækjuna.
    Þá er í þessum lögum gert ráð fyrir því að stofna svonefndan Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina. Sjóði þessum er ætlað að skuldbreyta skammtímaskuldum útflutningsgreinanna, en jafnframt er sjóðnum ætlað að veita lán til hagræðingar í útflutningsgreinunum og er gert ráð fyrir því að til þess renni um 800 millj. kr. Gert er ráð fyrir því að sjóðurinn fái í reiðufé 2 milljarða kr. Einn milljarður kr. er framlag frá ríkissjóði, sem kemur til lækkunar á framlagi ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs, en 400 millj. kr. er aflað með sérstökum tekjuskattsauka á árunum 1989 og 1990. Þá er stjórn sjóðsins heimilað að taka lán í Seðlabanka Íslands eða fyrir milligöngu hans allt að einum milljarði kr. og er það gert með sjálfskuldarábyrgð af hálfu ríkissjóðs. Jafnframt er sjóðnum heimilað að skuldbreyta allt að 5 milljörðum kr.

    Gert er ráð fyrir því í þessum lögum að í stjórn sjóðsins sitji fimm menn. Er gert ráð fyrir því að fjmrh., iðnrh., sjútvrh. og viðskrh., hver um sig, tilnefni einn stjórnarmann, en einn stjórnarmaður er skipaður án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður sjóðsstjórnar. Þá er einnig gert ráð fyrir því í lögunum að við stofnunina starfi samstarfsnefnd lánastofnana atvinnuveganna og Byggðastofnunar og er Ríkisendurskoðun ætlað að fylgjast með starfsemi sjóðsins og gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi hans.
    Það var ætlun ríkisstjórnarinnar með þessum reglum að tryggja að umsóknir í sjóðinn fengju sem faglegast mat. Í fyrsta lagi af þeirri samstarfsnefnd sem þær lánastofnanir, sem eiga þarna mestra hagsmuna að gæta, skipa fulltrúa í. Í öðru lagi með eftirliti því sem Ríkisendurskoðun er ætlað að hafa með starfsemi sjóðsins. Og í þriðja lagi með því að velja menn í stjórn sjóðsins sem væru embættismenn fyrst og fremst, kunnugir á hinum ýmsu sviðum atvinnuveganna, hefðu þaðan reynslu á einn máta eða annan. Gert er ráð fyrir því að sjóðurinn starfi eða hafi heimili hjá Byggðastofnun og að Byggðastofnun annist reikningshald og rekstur sjóðsins eftir nánara samkomulagi þeirra á milli.
    Þá er gert ráð fyrir því að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina sé undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum hverju nafni sem nefnast.
    Forsrh. setur með reglugerð nánari reglur um Atvinnutryggingarsjóð og hefur það að sjálfsögðu þegar verið gert.
    Í þessum lögum eru ákvæði sem fjalla um hugsanlegt gjald af loðnu og öðrum bræðslufiski sem fluttur er óunninn til vinnslu erlendis. Gjaldið renni til reiknings fyrir loðnuafurðir í deild fyrir mjöl og lýsi í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og segir þar að gjaldið skuli ákveðið sem tiltekin fjárhæð á hvert tonn bræðslufisks. Til þessa hefur þó ekki komið en þessi heimild er hér í lögum og er þar að sjálfsögðu ætlað að jafna á milli greiðslna Verðjöfnunarsjóðs og á milli þess afla sem fluttur er til bræðslu erlendis og hins sem unninn er hér heima.
    Í þessu frv. sitja eftir nokkur ákvæði sem varða verðlags- og kjaramál. Er það m.a. tekið fram að óheimilt er að hækka endurgjald fyrir afnot af fasteignum frá gildistöku laga þessara til 28. febr. 1989.
    Í lögunum er einnig kafli sem fjallar um vaxtaákvarðanir og er þar tekið af skarið með það að dráttarvextir skuli ætíð reiknast sem dagvextir. Þó skulu haldast óbreytt til 1. júlí 1989 ákvæði um útreikning dráttarvaxta í lögum um innheimtu opinberra gjalda til ríkissjóðs og sveitarfélaga.
    Einnig eru sett ákvæði um það að Seðlabanki Íslands skuli eigi sjaldnar en mánaðarlega reikna vegið meðaltal ársávöxtunar á nýjum almennum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum og birta meðaltal þetta í Lögbirtingi ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr.
    Þá var Seðlabankanum heimilað að ákveða hámark þess álags er innlánsstofnanir mega bæta við vexti

gengisbundins fjár er þær endurlána í formi afurðalána. Með þessu ákvæði er að sjálfsögðu að því stefnt sem framkvæmt hefur verið að lækka þann vaxtamun sem hefur verið á afurðalánum.
    Ég sé ekki ástæðu til að rekja nánar einstök ákvæði þessara bráðabirgðalaga, ég hygg að allt það mikilvægasta hafi komið fram, en ætla þá að fara nokkrum orðum um þau áhrif sem þessu er ætlað að hafa á stöðu atvinnuveganna og þá um leið um ýmsar þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til. Mér sýnist þá ástæða til að leitast við að svara ýmsum þeim spurningum sem komu fram í umræðum um fyrra dagskármálið en varða þetta mál í heild sinni að sjálfsögðu og vona ég að menn virði það við mig að ég steig ekki í ræðustól áðan. Eins og ég sagði í upphafi gerði ég mér ekki grein fyrir að ýmsir höfðu fallið þar frá orðinu.
    Með þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar er að sjálfsögðu, eins og ég hef hvað eftir annað sagt, alls ekki boðað að þar sé um að ræða varanlegar eða endanlegar aðgerðir til þess að treysta rekstrargrundvöll atvinnuveganna, ekki frekar en þær aðgerðir sem fyrri ríkisstjórn hafði gripið til í maí og sem aðildarflokkar að þeirri ríkisstjórn lögðu til í viðræðum sín á milli í septembermánuði. Reyndar sagði hv. þm. Þorsteinn Pálsson hér áðan að ljóst hefði verið eftir aðgerðirnar í maí að enn hefði orðið að grípa til nýrra aðgerða á haustmánuðum til þess að rétta enn einu sinni við stöðu útflutningsgreinanna. Með þessum aðgerðum ætlar ríkisstjórnin að skapa nokkurt svigrúm til að skoða betur stöðu útflutningsgreinanna og ná síðan breiðri samstöðu um aðgerðir sem geti þá orðið til lengri tíma og krefjist þess ekki í raun fyrir fram að gripið verði til nýrra aðgerða að fáum mánuðum liðnum.
    Ég hygg að það hafi verið bæði hv. þm. Þorsteinn Pálsson og hv. þm. Kristinn Pétursson sem andmæltu þeim orðum að gengisfelling hefði ekki komið að liði. Ég sagði nú að vísu aldrei að hún hefði ekki komið að liði heldur aðeins að skammtímaliði í þessum málum, þ.e. að áhrif gengisfellingar hafi verið runnin út í sandinn á ótrúlega skömmum tíma. Ég hygg að það hafi komið enn betur í ljós við þær athuganir sem nú hafa verið gerðar.
    Hv. þm. Þorsteinn Pálsson gerði lítið úr öflun þessara upplýsinga. Taldi lítið gert annað en að safna skýrslum. Ég er nú þeirrar skoðunar að ólíkt betra sé að vita með vissu hvaða afleiðingar þær ýmsu aðgerðir sem til greina koma hafa og hvaða árangri má með því ná. Og ég er þeirrar skoðunar að til þess að það sé unnt sé afar mikilvægt að þekkja stöðu atvinnuveganna sem allra best. Ég held að það sé alveg tvímælalaust að þær athuganir sem hafa verið gerðar hafa leitt í ljós að fjármagnskostnaður hefur hækkað langtum meira en menn gerðu ráð fyrir. Ég vek athygli á því sem var í fréttum Sjónvarps í kvöld frá hagfræðingum ASÍ þar sem sannarlega var með rökum vakin athygli á því að fjármagnskostnaður hefur hækkað margfalt meira á yfirstandandi ári heldur en launakostnaður.

    Nú er það hárrétt að það eru ýmsar leiðir til að reikna fjármagnskostnað. Menn reikna inn verðbótafærslur o.s.frv., sem vissulega er rétt samkvæmt skattalegu uppgjöri en eru hins vegar ekki peningar í vasa, við reiknum þær ekki í okkar ávísanahefti, og gefa því ekki rétta mynd í raun, vil ég leyfa mér að segja, af fjármagnskostnaði fyrirtækjanna, greiðslubyrði vegna fjármagnskostnaðar. Því taldi ríkisstjórnin eitt af því allra mikilvægasta í sínum aðgerðum að ná fram lækkun á fjármagnskostnaði þannig að gengisfelling yrði ekki í gegnum lánskjaravísitölu svo mjög sem verið hefur til þess að hækka fjármagnskostnað. Það er að vísu alveg hárrétt hjá hv. þm. Kristni Péturssyni, ég held að hann hafi nefnt það sem dæmi að 1000 dollarar eru 1000 dollarar eftir gengisfellingu sem áður og það á við bæði um tekjur og skuldir. En málið er nú því miður ekki svo einfalt sem ætla má af þessum tölum. Útgerðarmaður sem þolir gengisfellingu fær ekki sömu dollaratölu fyrir fiskinn sinn nema því aðeins að hann nái fram hækkun á fiskinum í samningum við fiskvinnslufyrirtæki. M.ö.o.: Tekjur hans í dollurum lækka. Hins vegar ef hann skuldar í dollurum þá haldast skuldirnar vitanlega óbreyttar. Það er rétt. Og olíuverðið helst óbreytt í dollurum. Mér þykir nú alltaf skemmtilegra satt að segja að reikna þetta yfir í íslenskar krónur, en vitanlega fáum við nákvæmlega það sama út. Tekjur fiskvinnslunnar hækka í íslenskum krónum og
skuldirnar hækka í íslenskum krónum, svo ég held að við þurfum ekki að vera að fara yfir í erlenda gjaldmiðla í þessu skyni.
    En mér hefur verið sagt að það væri svona nokkuð viðunandi þumalfingursregla að segja að u.þ.b. helmingur af auknum tekjum vegna gengisfellingar renni strax í aukinn kostnað. Það eru fjölmargir liðir sem hækka. Í fyrsta lagi hækkar t.d. rafmagnsverð og ýmsir slíkir liðir sem eru æðimikið bundnir gengi. Í öðru lagi er óhjákvæmilegt að veita útgerðinni nokkra aðstoð með því að hækka fiskverð, þannig að hún geti mætt hækkun á útgerðarkostnaði, hækkun á sínum skuldum o.s.frv., sem gengisfellingin hefur í för með sér. Ég held auk þess að það sé óraunhæft að reikna með því að engin hækkun launa verði. Mér hefur verið sagt af þeim mönnum sem hafa unnið mikið í þessu að það megi reikna með kannski í kringum helming í hækkuðum kostnaði. Og ef við tökum nú bara í huganum afar einfalt dæmi, tökum t.d. þessi 29 fiskvinnslufyrirtæki sem eru í samantekt endurskoðenda sem til þess voru fengnir. Samtals eru tekjur þessara fyrirtækja um 11 milljarðar kr. Þær mundu hækka þá um 1,1 milljarð kr. og eru þá eftir um 550 millj. kr. Skammtímaskuldirnar, sem eru 7,6 milljarðar kr., mundu hækka um 760 millj. kr. Nú er ég ekki að segja að þær þyrftu að greiðast upp á einu ári. Vitanlega er þeim framlengt o.s.frv. En miðað við þessa hækkun á höfuðstól, þá hækka náttúrlega greiðslur vaxta í íslenskum krónum séð. Sama er um langtímaskuldirnar sem eru taldar hjá þessum 29 fyrirtækjum upp á 8,6 eða 9 milljarða ísl. kr., þó að

það dreifist yfir lengri tíma.
    Ég er því ekki í nokkrum vafa um að það er rétt sem hagfræðingar ASÍ sögðu og skýrt var frá í fréttunum áðan, að gengisfelling sé mjög takmörkuð, þeir sögðu reyndar engin lækning fyrir fiskvinnsluna. Ég er sammála því sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson sagði að vitanlega fyrir --- ja, ég vil ekki bara segja betur rekin fyrirtæki, en fyrir betur stæð fyrirtæki verður þetta vitanlega aðstoð þar sem skuldirnar eru litlar, þá kemur tekjuaukningin, en hækkunin skuldamegin verður þar vitanlega minni. Það sem við erum að sjá af þessum úttektum sem nú hafa verið gerðar er m.a. það að það eru langtum fleiri fyrirtæki en menn trúðu áður í þeirri skuldastöðu að þau fá engan bata og í mörgum tilfellum versnar þeirra staða mjög fljótlega eftir fyrstu vikurnar, eftir nokkrar vikur, tvo þrjá mánuði í mesta lagi, þá versnar þeirra staða við gengisfellingu.
    Einn er sá þáttur í sambandi við gengisfellingu sem ég vil a.m.k. ekki gleyma og það er það misgengi sem verður á milli fjármagnskostnaðar og launa. Ég hef látið athuga hvað hann yrði mikill miðað við t.d. 15% gengisfellingu og í ljós kemur að misgengið yrði í kringum 25%. Gengisfelling þýðir að sjálfsögðu kjaraskerðingu, flutning frá launþegum yfir til atvinnuveganna. Og að fenginni reynslu í ríkisstjórninni 1983--1987 treysti ég mér ekki til að standa frammi fyrir þeim fjölmörgu skuldugu einstaklingum sem þurfa að mæta slíku misgengi og að öllum líkindum, a.m.k. til að byrja með, í ástandi þar sem t.d. yfirvinna og yfirborganir munu dragast verulega saman.
    Af því að mér hefur nú orðið tíðrætt um fjármagnskostnaðinn í þessu er rétt að ég fari nokkrum fleiri orðum um það og nefni nokkur dæmi og reyni þá jafnframt að svara hv. þm. Friðriki Sophussyni sem spurði sérstaklega um ýmislegt í þeim málum. En því nefndi ég hann áðan að lækkun fjármagnskostnaðar er, a.m.k. í augum þessarar ríkisstjórnar, ein meginlagfæringin sem þarf að gera áður en aðrir hlutir eru ákveðnir. Ég vek athygli á því t.d. að á ágætum fundi í Félagi fiskvinnslustöðva sem haldinn var í Stykkishólmi sl. haust kom þetta mjög greinilega fram, hvað fjármagnskostnaðurinn er orðinn geigvænlegur þegar yfir sviðið er litið.
    Ég hef hér útreikninga frá fremur stóru fyrirtæki, sem mér hafa verið látnir í té, og sýna bara hreinan vaxtakostnað þess fyrirtækis, sýna heildargreiðslur vegna vaxta hjá þessu fyrirtæki. Reiknað á meðalársvöxtum frá janúar til nóvember 1988 voru heildarvaxtagreiðslur hjá fyrirtækinu rúmar 205 millj. kr. Hins vegar voru vaxtatekjur 61 millj. kr., þannig að samtals voru hreinar greiðslur vaxtakostnaðar 144 millj. 155 þús. kr. Síðan hefur fyrirtækið reiknað hvað þessir vextir hefðu orðið miklir með þeim vöxtum sem núna eru ákveðnir, þ.e. í desembermánuði. Þá hefðu vaxtagreiðslur á sama tímabili níu mánaða orðið um 71,5 millj. kr., vaxtatekjur tæpar 27 millj. kr., eða vaxtagreiðslur hreinar orðið nálægt 44,5 millj. kr.
    Mér er fyllilega ljóst að það kann að vera hægt að

lækka þetta eitthvað með færslu verðbóta o.s.frv. eins og skattalög gera ráð fyrir. En þetta eru þær greiðslur sem fyrirtækið varð að inna af hendi og verðbótafærslur gengu ekki upp í þær greiðslur úr tékkhefti fyrirtækisins. Þ.e. það munar hátt í 100 millj. kr. hjá fyrirtækinu á þessum mánuðum í vaxtagreiðslum. Og þetta er ekki eina fyrirtækið sem hefur sýnt hve mikilli breytingu þessi lækkun veldur. Og þó að raunvaxtalækkunin hafi orðið minni en ég hefði viljað, ég viðurkenni það, og það verður haldið áfram að þrýsta henni niður, reyna að handstýra vöxtunum niður. Þó að sumir hafi ekki trú á því, þá hafa þeir þó lækkað í 7,75% og eru það t.d. af öllum skuldabréfum sem þessi fyrirtæki borga af, sem
eru með breytilegum vöxtum. Manni er að vísu sagt að bankarnir fari nú nýja leið og það séu bestukjaravextir. Þá líti bankastjórinn framan í manninn og ákveði svo hvaða vexti hann megi fá. En a.m.k. af þeim skuldbindingum, sem hafa þegar verið gerðar og eru með breytilegum vöxtum, er þessi lækkun komin fram og að sjálfsögðu í þeim nafnvöxtum sem reiknaðir eru t.d. af afurðalánum sem eru vitanlega mjög miklir hjá mörgum þessara fyrirtækja. Ég held því að það sé alveg tvímælalaust að þarna hefur afar mikið áunnist.
    Ég viðurkenni það að vitanlega hefur markaðurinn mikil áhrif á vaxtahæð og hann hefur það alveg sérstaklega núna því að þótt úr þenslu hafi dregið gífurlega mikið og nú jaðri við atvinnuleysi, þá er þetta nú vertíð hjá verslunum og innflytjendum og það er gífurlega mikil ásókn í að fá fjármagn til að geta haldið oft veikum rekstri áfram yfir þessa mánuði. Og m.a. hafa kaupmenn þá horfið að því óyndis úrræði að selja greiðslukortakvittanir með allt að 50% ávöxtun. Þess vegna hefur ríkisstjórnin nú ákveðið að frá áramótum færist greiðsla söluskatts til samræmis við greiðslu krítarkorta til annars dags hvers mánaðar. Þetta þýðir aukin vaxtagjöld fyrir ríkissjóð, líklega rúmar 100 millj. kr. En talið er af öllum sem þessi mál þekkja að þetta muni draga töluvert úr þrýstingnum á sölu þessara korta bæði í bönkum og á hinum svonefnda gráa markaði. Ég tel að því verði alls ekki á móti mælt að mikið hefur áunnist í vöxtum þó að enn meira þurfi að ávinnast og á það muni lögð áhersla á næstu vikum.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson ræddi um lánskjaravísitöluna. Ég er því miður ekki með hér með mér mjög fróðlegar töflur sem mér hafa borist bæði frá Landsbanka Íslands og sömuleiðis frá Fiskveiðasjóði en ég ætla að fara með eftir minni nokkrar af þeim tölum.
    Í töflum Fiskveiðasjóðs er borin saman ávöxtun með lánskjaravísitölu án vaxta og nauðsynlega vexti á ýmsum gjaldmiðlum til að halda í við þá ávöxtun, frá 1981 ef ég man rétt. Og þá kemur í ljós að til þess að dollarinn hefði haldið í við lánskjaravísitölu án vaxta þessi ár, þá hefðu vextir af dollaranum orðið að vera 15,83%. Þannig eru teknir þarna fjölmargir gjaldmiðlar og alls staðar þurfa vextirnir að vera mjög háir.

    Í því sem ég fékk frá Landsbanka Íslands er hins vegar borið saman frá 1980, lánskjaravísitalan sett í hundrað yfir allan tímann og þá metið hvað nokkrir gjaldmiðlar hafa fallið borið saman við íslenska krónu með lánskjaravísitölu. Sá gjaldmiðill af þeim sem þarna voru bornir saman sem komst næst íslensku lánskjaravísitölunni var þýska markið sem er með styrkleika 76% rúmlega af lánskjaravísitölunni í lok þessa tímabils.
    Nú skal viðurkennt að þarna er ekki tekin verðbólga inn í. Ég lét skoða það og það breytti ekki mjög miklu. Reyndar komu þá þeir sem voru að athuga þetta með hlut á móti sem þeir töldu reyndar benda til þess að það væri ekki sérstök ástæða til að taka verðbólguna þarna inn í. Staðreyndin er m.ö.o. að það hefur verið afar hagkvæmt fyrir erlenda fjármagnseigendur að ávaxta hér í fjármagni með íslenskri lánskjaravísitölu, a.m.k. hefðu þeir getað fengið peningana til sín aftur sem hefur vitanlega verið mjög losað um.
    Ég leyfi mér að fullyrða að íslenskt efnahagslíf hefur ekki efni á því að hafa svona gjaldmiðil eins og íslenska krónu með lánskjaravísitölu. Og þó að það sé rétt, eins og kom fram hjá hv. þm. Kristni Péturssyni, að 1000 dollarar eru 1000 dollarar eftir sem áður við gengisfellingar, þá eru þó æðimargir með mikið af sínum lánum í íslenskum krónum með lánskjaravísitölu. M.a. átti ég mjög fróðlegar viðræður við eiganda báts á Suðurlandi nú nýlega sem sagðist hafa skoðað afleiðingar gengisfellingar hjá sér. Hann sagðist vera með svo að segja allt í íslenskum krónum með lánskjaravísitölu. Og hann sagðist ekki sjá betur miðað við þær hækkanir sem hafa orðið á lánskjaravísitölu en að það mundi ríða honum að fullu ef gengið félli, jafnvel þó að hann fengi þá fiskverðshækkun sem hann taldi koma til greina í þessum málum. Þessi ungi maður með þennan bát skuldar að vísu töluvert mikið í bátnum. Því miður.
    Hv. þm. spurði um lánskjaravísitölu um áramótin. Ríkisstjórnin ákvað í stefnuyfirlýsingu sinni, og þar er það birt, að taka upp nýja lánskjaravísitölu sem byggist að hálfu á launavísitölu, að einum fjórða á framfærsluvísitölu og einum fjórða á byggingarvísitölu. Þessi ákvörðun hefur verið tekin. Hún var tilkynnt Seðlabankanum strax og ríkisstjórnin tók við. Það var haldinn fundur með Seðlabankanum í fyrri hluta nóvember og þá ítrekað og Seðlabankinn beðinn að hefja undirbúning að þessu og að það gæti tekið við strax eftir áramótin. Hins vegar kom í ljós í byrjun desember að Seðlabankinn var ekkert byrjaður að vinna að þessum málum. Og því miður er það ekki ný reynsla. En það var ákveðið þá og ítrekað að Seðlabankinn gengi frá málinu og tilbúið er frv. sem ég mun leggja fram í ríkisstjórninni á morgun um lögbindingu vísitölu launa. Hins vegar telur Seðlabankinn ekkert því til fyrirstöðu og Hagstofan að taka upp þessa vísitölu strax þó að það sé ekki búið að lögbinda hana. Hagstofustjóri telur að engar breytingar séu væntanlegar af þeim útreikningum sem þegar hafa verið gerðir og eru notaðir í þessu

sambandi en hins vegar sé réttara að hún sé fest í lögum sem vísitala.
    Ríkisstjórnin ákvað jafnframt að heimilt yrði að hafa gengisviðmiðun. Það hefur reyndar verið heimilt nokkuð lengi í lánsviðskiptum en satt að segja hafa mjög fáir notað sér það, líklega hafa þeir sem lána skilið réttilega að lánskjaravísitalan íslenska er ólíkt betri kostur heldur en lán í erlendum gjaldmiðlum eins og ég nefndi áðan.
    Hins vegar hefur það ekki endanlega verið afgreitt í ríkisstjórninni hvort gamli vísitölugrundvöllurinn verður leyfður áfram. Ég hika ekki við að segja að ég tel það afar vafasamt að hafa svo marga vísitölugrundvelli í notkun. Tel að það muni fyrst og fremst stuðla að enn auknu braski og ,,spekúlasjónum`` manna á milli vísitölugrundvalla.
    Við fengum, og það tafði nokkuð okkar starf í þessu, álit lögfræðinga enn einu sinni á því hvort heimilt væri með lögum að breyta gömlum lánasamningum í nýja vísitölu, í nýjan grundvöll og niðurstöðurnar voru þær að það væri ekki rétt og fengi ekki staðist, mundi varla standast fyrir dómstólum. Þetta er annað en þeir lögfræðingar ályktuðu sem sátu í svokallaðri lánskjaravísitölunefnd sem starfaði á vegum fyrri ríkisstjórnar. Þeir töldu að breytingar væru heimilar. Hitt er svo annað mál að vitanlega geta lánveitendur boðið upp á breytingu yfir á þennan nýja grundvöll. Þá yrði hann á eldri lánum enn þá í notkun, nema hjá þeim sem kjósa að færa yfir á nýja grundvöllinn.
    Nú hefur heilmikið verið birt um það að þessi nýi grundvöllur sé ólíkt óhagstæðari lántakendum en sá gamli. Byggist það á því að laun hafa hækkað hér á undanförnum árum töluvert umfram verðlag sem kemur m.a. fram í því að þáttur launa er nú talinn í svokölluðum þáttatekjum, sem eru þjóðartekjur mínus beinir skattar, og er nú talinn vera kominn upp í 73%, úr u.þ.b. 65--66%. Það hefur orðið þarna gífurlega mikil hækkun. Fyrst og fremst hygg ég að þessi hækkun stafi af miklum yfirborgunum sem atvinnurekendur hafa talið vera um 20% og mundi lýsa að fullu þessari hækkun sem þarna er orðin. Þessi hækkun kemur inn í þetta mat, þegar borin eru saman laun og vísitölur.
    En það sem efst er í mínum huga þegar ég ræði um þessa hluti er það að ef við þurfum að ganga í gegnum tímabil eins og t.d. 1983, þegar ekki varð komist hjá að lækka hlutdeild launa verulega í þjóðartekjum, þá skapar það lántakendum gífurlega mikla erfiðleika í mismun, í misgengi launa- og fjármagnskostnaðar. Ég tel miklu betra að lánskjör og laun fylgist sem næst að. Þó að í vissum tilfellum kunni það að vera óhagstæðara fyrir launþegann þá a.m.k. á hann ekki á hættu að horfa framan í svona mikið misgengi eins og þá varð.
    Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að ég tel ekkert annað viðunandi, og það sem fyrst, að losna að fullu út úr þessari víxlverkun launa, verðlags og lánskjaravísitölu fjármagnskostnaðar eins og við samþykktum í fyrri ríkisstjórn og er þar bókað í

upphafsorðum þeirrar yfirlýsingar sem ég fór yfir hér fyrr í dag. Það má kannski geta þess að í ríkisstjórninni 1983--1987 var þetta rætt og m.a.s. kom fram tillaga frá þáv. fjmrh., ef ég man rétt, á fyrri hluta þess tímabils um að fella burtu lánskjaravísitöluna, en ekki náðist samstaða um það. Ég man að vísu að hv. þm. Þorsteinn Pálsson sagði þá að þegar komið væri jafnvægi, eða niður fyrir 10% verðbólga, þá teldi hann rétt að stíga slíkt skref. Og hæstv. fyrrv. forsrh. gerði einmitt þá tillögu, sem kom til framkvæmda 20. maí, að heimila ekki verðtryggingu á tveggja ára lánum. ( Gripið fram í: Inn- og útlánum.) Inn- og útlánum. Það var gefinn frestur á þessu með innlánin að vísu, það er rétt, samkvæmt mjög eindreginni ósk Seðlabanka Íslands, nánast kröfu, þannig að það varð breyting á því.
    Ég fagna því að mér sýnist vera rík samstaða hér á hinu háa Alþingi um að losa okkur út úr þessari lánskjaravísitölu og taka upp nafnvexti. Og ég leyni því alls ekki að þegar rétta þarf við stöðu atvinnuveganna þá er ekki ólíklegt að það geti orðið með neikvæðum vöxtum einhvern skamman tíma.
    Staðreyndin er sú að þegar lesnar eru þær mörgu tölur sem koma út úr þeim athugunum, sem menn hafa dálítið gert hér að umræðuefni --- og sumir ekki kannski talið vera þarfa notkun dýrmæts tíma að safna þeim --- þá kemur m.a. í ljós að eiginfjárstaða fyrirtækjanna hefur dregist gífurlega saman, sérstaklega útflutningsfyrirtækjanna, t.d. dregist saman hjá þeim 15 fyrirtækjum sem Atvinnutryggingarsjóður veitti yfirlit um, úr 11% í 3%. Og sama kom fram í þeim 29 fyrirtækjum sem sérstakir endurskoðendur athuguðu. En það eru til fyrirtæki í þjóðfélaginu sem hafa verulega bætt eiginfjárstöðu sína. Það eru allir fjárfestingarsjóðirnir, nokkurn veginn með tölu. Það eru bankarnir. Það eru sparisjóðirnir, sem eru komnir mjög ánægjulega hátt ef maður lítur á það frá þeirra sjónarmiði, mig minnir með yfir 11% eigið fé eins og það er mælt í bönkunum. Það eru tryggingafélögin. Og það eru yfirleitt þau félög, þau fyrirtæki sem hafa haft fjármagn á milli handanna og getað ávaxtað í þessari dásamlegu lánskjaravísitölu okkar eða tekið erlend lán á meðan gengið var fast og lánað út á ný í lánskjaravísitölu eins og Iðnlánasjóður gerði á síðasta ári og sýndi hagnað, ef ég man rétt, upp á 260 millj. kr. eða þar um bil.
    Þannig að ég vísa líka til þess ákvæðis í stjórnarsáttmála sem segir að
banna eigi alla slíka verðtryggingu fjármagns þegar jafnvægi er fengið í efnahagsmálum. Ég hygg að Ísland sé eina landið í Vestur-Evrópu sem er með slíkt fyrirkomulag. Og reyndar ef ég veit rétt þá er aðeins eitt annað land í Evrópu sem er með lánskjaravísitölu og það er Júgóslavía. Öll önnur lönd hafa forðað sér út úr lánskjaravísitölu eða verðtryggingu fjármagns. Í Júgóslavíu er nú ástandið ekki þannig að við getum talið það vera til fyrirmyndar. Ég vona að ég hafi svarað hv. þingmanni um lánskjaravísitöluna og vextina.
    Hv. þm. Sjálfstfl. sérstaklega hafa lagt mikla

áherslu á gengisfellingu og ég hef sjálfur sagt að vissulega sé raungengið of hátt. Raungengið hefur þó samkvæmt athugun Seðlabankans lækkað verulega núna síðustu missirin. Lækkað verulega og er á nokkurri niðurleið.
    Sömuleiðis er það spá mjög margra að hækkun verði á fiskverði á vormánuðum, m.a. vegna þess að fiskveiðikvótar hafa verið mjög skornir niður í Evrópu, t.d. í Norðursjónum alveg gífurlega mikið og í Barentshafi, á sumum stofnum um meira en helming. Því er nú almennt spáð að þetta muni leiða til verulegrar hækkunar á verði sjávarafurða.
    Ég leyfi mér einnig að fullyrða að áður en til gengisfellingar yrði gripið, ef farið yrði að ráðum hv. sjálfstæðismanna, þá sé afar mikilvægt að geta notað þá litlu verðbólgu sem er núna til að ná vaxtakostnaði eins mikið niður og frekast er unnt. Það er afar mikils virði einnig að geta lengt þau skammtímalán sem eru svona gífurlega mikil, eins og ég las áðan, á fiskvinnslufyrirtækjunum, álíka mikil og langtímalánin samkvæmt niðurstöðu endurskoðendanna.
    Það er einmitt þetta sem ríkisstjórnin er að gera. Hv. þm. fullyrða hér að það sé ekkert gert. Mér þykir það undarlegt því að nú lögðu hv. sjálfstæðismenn einnig til að það yrði greitt úr Verðjöfnunarsjóði og ekki munu þeir hafa talið það ekkert. Þeir lögðu til að greiða 4% uppbót úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins á frystan fisk. Ég viðurkenni að það er millifærsla, ja, það er bitamunur en ekki fjár á milli tillagnanna. Við erum með 5%, hv. sjálfstæðismenn voru með 4%. Ég bendi einnig á að það voru á floti einnig tillögur um að bæta eiginfjárstöðu fyrirtækjanna. Það erum við einnig að skoða, en við höfum farið út í miklu víðtækari skuldbreytingar og ég held að þegar málin eru nú skoðuð í grunninn þá komi í ljós að þeirra er svo sannarlega þörf.
    Ég hef einnig séð útreikninga fyrirtækis sem hefur tekið til greina þær skuldbreytingar sem það sækir um í Atvinnutryggingarsjóð, það er ekki búið að fá þær, og tók það inn í þessa vaxtabyrði sem ég rakti áðan frá einu fyrirtæki þar sem spöruðust 100 millj. kr. Hjá því fyrirtæki kom fram tiltölulega enn meiri sparnaður með því að losna út úr dráttarvöxtum og háum vöxtum á hinum fjölmörgu skammtímalánum. Og svo loks þessi almenna vaxtalækkun sem nú er unnið að.
    Ef ég má koma að þeim brtt. þá sem gerðar voru í Ed. við þetta frv., ég ætla síðan að reyna, væntanlega til að spara tíma, að svara eitthvað þeim spurningum sem komu fram hér áðan og varða þetta mál almennt. En í Ed. komu fram ýmsar brtt. við frv. frá hv. stjórnarandstöðu og varða þær fyrst og fremst Atvinnutryggingarsjóðinn.
    Án þess að rekja þær nákvæmlega þá er þar lagt til í raun að Atvinnutryggingarsjóðurinn verði lagður niður en í stað komið á fót rekstrardeild við Byggðastofnun sem taki að sér það verkefni sem Atvinnutryggingarsjóðurinn á að hafa. Jafnframt er lagt til að komið verði á fót hlutafjársjóði sem geti þar með eignast hlutafé í ýmsum fyrirtækjum þar sem verið er að bæta eiginfjárstöðuna. Jafnframt er lagt til

að það framlag sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir af lögbundnu framlagi til Atvinnuleysistryggingasjóðs verði lán. Þá er einnig lagt til að fiskverð verði laust frá gildistöku þessara laga. Ég held að ég hafi þá rakið í meginatriðum þær brtt. sem ekki var fjallað um í sambandi við fyrra málið hér á dagskrá.
    Ég heyri að það er lítið gert úr þeim viðræðum sem stjórnarandstaðan og ég ásamt tveim öðrum ráðherrum áttum. Ég vil alls ekki gera lítið úr þeim. Ég tel að þær hafi verið þarfar. Ég get hins vegar alls ekki tekið undir það að þar hafi verið lagðar á borðið fyrir okkur málamiðlunartillögur. Við stóðum frammi fyrir því að ræða þær tillögur sem stjórnarandstaðan hafði lagt fram í Ed. annars vegar og frv. hins vegar. Ég ákvað því og þeir sem með mér voru og þingflokkar okkar að bjóða þar upp á málamiðlunartillögur. Mjög hefur verið gagnrýnd skipan stjórnar Atvinnutryggingarsjóðsins og m.a. fullyrt að að þeim störfum komi ekki aðrir en fulltrúar stjórnarflokkanna. Ég er tilbúinn að beita mér fyrir því að mæta þessu með því að fjölga í stjórn sjóðsins t.d. um þrjá menn sem yrðu skipaðir af forsrh. að höfðu samráði við formenn þingflokkanna og þá er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að þeir væru allir tilnefndir af stjórnarandstöðuflokkunum. Þá fjölgar í stjórninni upp í átta. Það er víst aldrei gott að fjölga um of, en ég teldi þannig gengið til móts við stjórnarandstöðuna.
    Ástæðan fyrir því að mér þykir varasamt að kúvenda nú í þessum störfum er
að það er búið að vinna mikið starf í þessari stofnun. Samstarfsnefndin hefur afgreitt frá sér með jái eða neii eitthvað um 50--60 umsóknir, en stjórnin sjálf hefur afgreitt rúmlega 20 umsóknir. Það er rétt að orðið hefur nokkur töf á þessu eins og stendur, m.a. vegna þess sem kom fram í fréttum í dag og hv. þm. Þorsteinn Pálsson spurði um, að Ríkisendurskoðun hefur viljað skoða nánar starfshætti og óskað eftir upplýsingum um hvernig ákveðin fyrirtæki eru metin og gerir það þá sérstaklega með tilliti til 2. gr. í reglugerð um stofnunina sem kveður á um að fyrirtækin skuli talin hafa rekstrargrundvöll þegar til lengri tíma er litið eftir skuldbreytinguna. Vitanlega eru þessar upplýsingar látnar í té og mér skilst að það verði um það fjallað á morgun, en stjórnin taldi réttara að skoða athugasemdir Ríkisendurskoðunar dálítið nánar til að engin slys yrðu.
    Ég er alveg sammála ríkisendurskoðanda sem sagði samkvæmt fréttum að þetta væri ekkert annað en venjulegt eftirlit og ég fagna því að Ríkisendurskoðun skuli hafa náið eftirlit með því hvernig þarna er starfað. Ég veit hins vegar ekki annað en að allmargar umsóknir verði afgreiddar nú alveg á næstunni. Þetta mat er alltaf vissum erfiðleikum háð. Það getur aldrei hjá því farið og þarna koma t.d. inn í, þegar litið er yfir lengri tíma, hvert fiskverð verður á næstunni o.s.frv. og það viðurkenna vitanlega allir að rekstrargrundvöllurinn er, jafnvel fyrir góð fyrirtæki, alveg á mörkum þó að það muni að vísu vera nokkur dæmi þess að fyrirtæki koma út með jákvæða afkomu

jafnvel á þessu erfiða ári þar sem annars staðar hefur kúvenst. Þetta er fyrsta tillagan sem við höfum gert í þessu sambandi.
    Önnur tillagan er sú að setja á fót rekstrardeild við Byggðastofnun. Vitanlega er það góð hugmynd því að staðreyndin er vitanlega sú að Byggðastofnun stendur stöðugt frammi fyrir miklum rekstrarvandræðum en sjóðurinn sem þar er er stofnlánasjóður og ég held að það sé engin launung að menn hafa verið að reikna út stofnkostnað í raun til þess að mæta ýmsum rekstrarvandræðum með nýjum lánum. Við teljum að það væri skynsamlegast að slík rekstrardeild tæki við öllu frá Atvinnutryggingarsjóðnum á ákveðnum degi, t.d. 1. jan. 1991 þegar hann á að vera búinn að skuldbreyta, en þarna getur vel verið að menn geti hugsað sér að rekstrardeildin taki við einhverjum ákveðnum hluta eða hvernig menn vilja hafa það. Það er vissulega til umræðu.
    Við teljum það sömuleiðis ágæta hugmynd að setja upp hlutafjársjóð. Við teljum að það þurfi að skoða nokkuð vandlega hvernig sá sjóður starfar því að það er ekki einfalt mál að fara að safna á einn stað e.t.v. mjög miklu hlutafé í fjölmörgum íslenskum fyrirtækjum. T.d. er ljóst að bankarnir yrðu að koma inn í starfsemi slíks sjóðs því að mjög mikið af skuldum sem þarft er að breyta í hlutafé er í bönkum, en þeir hafa ekki heimild til þess samkvæmt bankalögum. Og það er spurning hvort þeir geta keypt hlutdeild í sjóðnum og þannig stuðlað að breytingum skulda í hlutafé. Við erum því tilbúnir að fallast á þá hugmynd, enda verði hún nánar útfærð.
    Við erum líka tilbúnir að athuga á hvern máta það yrði tryggt að fjármagn það sem Atvinnuleysistryggingasjóður fær ekki á næstu tveimur árum verði endurgreitt Atvinnuleysistryggingasjóði þegar kemur til endurgreiðslna á lánum Atvinnutryggingarsjóðs. En að gera það að láni á þessari stundu er dálitlum erfiðleikum bundið því að það vitanlega rýrir mjög eiginfjárstöðu Ätvinnutryggingarsjóðsins ef þetta er allt talið lánsfé. Við teljum hins vegar eðlilegt að ríkissjóður ábyrgist að þetta fjármagn verði greitt Atvinnuleysistryggingasjóði aftur þegar það endurgreiðist.
    Við teljum hins vegar ekki rétt að losa um fiskverðið um áramótin fremur en annað. Við teljum að ástandið sé það alvarlegt, eins og mjög greinilega hefur komið fram hjá hv. sjálfstæðismönnum, að ekki veiti af að hafa þarna sem minnsta óvissu meðan á þeim málum er tekið.
    Ég hef nú lýst þeim tillögum sem ég leyfi mér að kalla málamiðlunartillögur sem við höfum lagt fram í þessum málum og þó að ekki næðist samstaða um það á fundinum í morgun tel ég að þar hafi verið gagnleg umræða um þessar hugmyndir og það er von mín að í nefnd verði þessar hugmyndir einnig athugaðar og milli flokkanna og athugað hvort ekki næst um þær samstaða.
    Herra forseti. Það var að vísu spurt um æðimargt. Ég ætla þó að reyna að fara yfir það nokkuð fljótt.

Ég hef komið inn á þessa fundi sem voru og er því ósammála að ekki hafi orðið þar árangur, a.m.k. liggja sjónarmið fyrir töluvert betur, og hef komið inn á æðimargt af því sem hér hefur verið sagt. Menn hafa dálítið gert að umræðuefni það sem ég sagði að við stæðum nær þjóðargjaldþroti. Ég vek athygli á því sem Guðmundur J. Guðmundsson sagði á fundi hjá Borgfl. fyrir nokkru. Ég hygg að sú lýsing hafi verið öllu svartari en mín og ég geri mikinn greinarmun á því að vera nær eða að við blasi eins og einhverjir hafa leyft sér að orða það. Ég vek hins vegar athygli á því að erlendar skuldir þjóðarinnar nú eru 45% þjóðarframleiðslu og með svipuðum aðgerðum og við höfum verið með hækka þær skuldir á næstu tveimur árum líklega yfir 60%. Það fer að vísu eftir mjög mörgum þáttum, en ég vek athygli á því að enn þá er spáð viðskiptahalla á næsta ári upp á 10--11 milljarða. Þarna spilar
að sjálfsögðu mjög inn í að þjóðarframleiðslan fellur á þessu og næsta ári um 6--7% og það sem ég tel hvað alvarlegast í þessu sambandi er að fram undan er spáð þremur lélegum aflaárum. Árið 1984 þegar skuldirnar voru meiri voru fram undan mjög góð aflaár og þetta fer mjög eftir aflanum eins og allir hér vita.
    Ég tek undir það sem einhver sagði, ég man ekki hvort það var hér í þessum sal eða í Ed., að ef útflutningsatvinnuvegirnir stöðvast og gjaldeyrisöflunin stöðvast erum við svo sannarlega nær þjóðargjaldþroti en við höfum verið áður. Ég vil hins vegar fullyrða að svo gerist ekki með þeim aðgerðum sem núv. ríkisstjórn er með og væntanlega næst samstaða um frekari aðgerðir hér mjög fljótlega. Það er því alrangt eins og ég hef nú rakið að engar ákvarðanir hafi verið teknar, því fer víðs fjarri.
    Menn hafa spurt hér um raforkuverðið. Það er rétt að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að lækka raforkuverð og gert ráð fyrir að það geti numið 1 / 2 % í rekstrarútgjöldum þeirra fyrirtækja sem nota raforku tiltölulega jafnt yfir sólarhringinn á ársgrundvelli. Þetta hefur verið skoðað. Þetta mun kosta að mati rafveitna um það bil 200 millj. kr. og þær hafa svarað málaleitun ríkisstjórnarinnar þannig að þær treysti sér á engan máta til að axla þennan kostnað, þannig að það er hárrétt að þetta mál er ekki leyst og er enn þá á borði iðnrh. og í viðræðum við Rafveiturnar. Út af fyrir sig er þetta tiltölulega ódýr leið til að lækka umtalsvert rekstrarkostnað hjá vissum fjölda fyrirtækja, en það verður hins vegar að viðurkenna að gallinn á þessu er sá að þetta er mjög sértæk aðgerð og nær aðeins til frystingar og söltunar að einhverju leyti en t.d. ekki mjölvinnslu sem kannski þarf síður á því að halda og nær ekki til annarra greina í útflutningi sem vissulega þurfa á lagfæringu á sinni rekstrarstöðu að halda, svo að ég vil alls ekki fara leynt með það að menn hafa talið nauðsynlegt að skoða þetta nokkuð nánar.
    Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir vakti athygli á fréttum um það að aldrei hefur aflast meira og það er út af fyrir sig alveg hárrétt, en engu að síður sýna

allar tölur, allir endurskoðendur, allir sem að þessum málum koma að aldrei hefur staðan verið verri. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að við teljum að þarna sé æðimargt sem þurfi að skoða betur en gert hefur verið. Ég hef þegar rakið þetta nokkuð. Ég hef tekið undir það sem hagfræðingar ASÍ segja um gífurlegan fjármagnskostnað sem ég held að sé einn meginþátturinn í þessari slæmu stöðu. M.ö.o., slæma staðan er ekki vegna þess að ekki hafi aflast umtalsvert. Hitt er svo líka annað mál að það er alltaf spurning hvernig slíkum afla er ráðstafað og miklu af þessum afla var á síðasta ári, nokkuð minna núna, ráðstafað til útlanda í gámum. Mjög mikil aukning hefur orðið á vinnslu á þessum afla á sjó úti. Frystitogurum hefur fjölgað afar mikið. Ég held að þeim hafi fjölgað á þremur til fjórum árum úr líklega þremur upp í 21 og þá á ég reyndar við togara sem vinna aflann, ekki þá sem frysta aðeins heldur vinna aflann jafnframt á sjó. Þetta hefur náttúrlega dregið mjög úr þeim afla sem komið hefur til vinnslu í fiskvinnslustöðvum á landi. Um þær erum við fyrst og fremst að fjalla. Þar hefur aflinn dregist saman og mér sýnist að alls ekki hafi orðið sú sama hagræðing hjá fiskvinnslustöðvum á landi sem orðið hefur væntanlega með vinnslutogurum á sjó og sem nauðsynleg hefur verið vegna breyttra aðstæðna að þessu leyti. Þetta er eitt af þeim málum sem ég held að sé óhjákvæmilegt að taka betur á og ná betri samræmingu á milli nauðsynlegrar vinnslu í landi og flutnings á óunnum afla úr landi.
    Hv. þm. Hreggviður Jónsson kom inn á atriði um peningamálin og hef ég reyndar þegar rakið það svo ítarlega að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Ég verð hins vegar að taka undir það með honum að röng stefna í peningamálum, eins og ég held að hann hafi orðað það, á mikinn þátt í þessum erfiðleikum sem við eigum nú við að stríða.
    Ég hef þegar fjallað mikið um það sem hv. þm. Kristinn Pétursson sagði, en þó er eitt atriði, hann sagði að staðan væri lakari nú en í september. Ég held að það sé ekki rétt miðað við þá 5% greiðslu sem kemur úr Verðjöfnunarsjóði. Ég held að hún sé eitthvað skárri, en hitt er alveg hárrétt að hún hefur versnað miðað við enga greiðslu úr Verðjöfnunarsjóði. Ég er reyndar með alveg nýjar tölur um þetta. Það er, eins og hér hefur verið sagt, stöðugt verið að vinna skýrslur og samkvæmt þeim tölum er staðan núna í botnfiskvinnslu eins og ég skal nú lýsa. Miðað við 6% ávöxtun stofnfjár, og þá er búið að taka inn greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði og jafna þeim yfir allt árið, er talið að í frystingunni séu 5,3% í mínus en voru líklega um 8% í september, söltunin sé plús 1,4. Samtals sé þetta mínus 2,8 og er þá miðað við 6% ávöxtun stofnfjár. En eins og fram hefur komið mun fjármagnskostnaðurinn vera miklu meiri en þá og afkoman því töluvert lakari en hér kemur fram. Þetta er hins vegar reiknað nákvæmlega á þann sama máta og reiknað var í september.
    Ég vil ekki taka undir það að þetta sé allt ríkissjóði að kenna. Það liggja hér á borðinu og eru

í hólfum manna yfirlit yfir auknar lántökur á síðasta ári og þessu ári og það vekur undrun mína að af þeim, ef ég man rétt, rúmum 6 milljörðum sem farið er fram úr er hátt í helmingurinn hjá útgerðinni
og fiskvinnslu. Það kemur líka fram einmitt í tölum endurskoðendanna, sem ég hef oft vísað til, að í útgerðinni eru vaxtagjöld, verðbætur og gengismunur 36% veltunnar og þar eru afskriftir 11,8% veltunnar. M.ö.o., það hlýtur að vera þarna gífurlega mikið af nýrri fjárfestingu, og það vitum við reyndar, í frystitogurum og endurbótum á fiskiskipum o.s.frv., sem fjarar síðan undan vegna þess að verð hefur lækkað og fleira sem ég veit að hv. þm. þekkir allra manna best. Ég er ekki út af fyrir sig að draga úr því að það er mjög skaðlegt að ríkissjóður er rekinn með halla á þenslutímum. Mér finnst hins vegar of mikið gert úr því að tileinka ríkissjóði þetta allt. Og mín skoðun er nú sú að við búum hér við velferðarkerfi sem við getum verið tiltölulega ánægð með og ég er ekki tilbúinn að draga úr eða afhenda einkaaðilum til reksturs eins og kom fram í orðum hv. þm. sem mætti athuga. Ég vek athygli á því að skattheimta hér er miklu minni en víða annars staðar þar sem svipað velferðarkerfi er eins og t.d. á Norðurlöndum. Ég tel að við eigum að setja okkur þarna þak og reyna að standa við það.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson var sá sem talaði síðastur, en hann hefur gengið brott úr salnum. Hv. þm. ræddi töluvert t.d. um frjálshyggjuna hér og á Norðurlöndum. Ég vil leyfa mér að fullyrða að frjálshyggjan sé æðimikið meiri hér en víða annars staðar og sérstaklega að hún er stjórnlaus hér. Ég hef áður rakið lánskjaravísitöluna sem þarna spilar stórkostlega inn í og er ekki til á Norðurlöndum, þar er ekki lánskjaravísitala en skapar vitanlega þeim sem versla með fjármagnið allt aðra aðstöðu, tryggir þeim grundvöllinn, tryggir þeim að vextir verða ekki neikvæðir og því miður hafa ekki verið hér lög um flesta þætti þessarar starfsemi sem er utan bankanna en sem verið er að setja nú og hefði þurft að koma að sjálfsögðu langtum fyrr með langtum meiri kröfur um ábyrgðir þessara aðila og langtum meiri takmörkun á ýmiss konar umsvifum þessara aðila sem hvergi annars staðar þekkist. Hér er meiri notkun greiðslukorta en annars staðar er og hér eru ekki til lög um notkun greiðslukorta. Ég held því að það megi svo sannarlega segja að frjálshyggjan sé hérna miklu meiri en t.d. á Norðurlöndum.
    Ég er að sjálfsögðu ekki á móti frelsi og það er hárrétt að við tókum þátt í því á árunum 1983--1987 að losa um. Við gerðum það 1984 þegar samþykkt var í þeirri ríkisstjórn að heimila hækkun vaxta um 2%, en því miður fór síðan allt úr böndum eins og allir þekkja, hætt var að ákveða hámarksvexti, okurlögin urðu þar með óvirk og fleiri slys urðu þá sem því miður er erfitt að lagfæra, en þyrfti þó að gera. Ég held að öllum sé fyrir bestu að frelsið sé innan ákveðinna marka. Ég ætla ekki að ræða um frelsi á þessu sviði í öðrum löndum. Ég veit að t.d. í Bandaríkjunum er þetta miklu strangara og hart tekið

á þeim sem eru taldir okra.
    Hv. þm. spurði um ullariðnaðinn. Ákveðin hefur verið aðstoð við ullariðnaðinn upp á 40 millj. kr. sem þýðir u.þ.b. 5% útborgun á verðmæti en verður þó ekki allt nýtt þannig. 20 millj. verða greiddar á þessu ári og 20 millj. á því næsta. Af þeim verða á hvoru ári 14 millj. greiddar sem uppbót á útfluttar ullarafurðir, en 6 millj. verður varið til hagræðingarátaks innan ullariðnaðarins, til að aðstoða menn við að sameina fyrirtæki, sameinast í markaðsátaki og fleiru þess háttar.
    Ég hef svarað, hygg ég, flestu sem um var spurt. Hv. þm. sagði að vísu að bankarnir vissu ekkert um þessa breytingu á lánskjaravísitölu. Ég held að ég hafi ekki út af fyrir sig svarað því áðan, en það er einkennilegt því að Seðlabankanum var tilkynnt það formlega strax í upphafi stjórnarsamstarfsins og ítrekað í nóvember og það er þá einhver samgönguskortur á milli Seðlabanka og viðskiptabanka sem vitanlega á ekki að eiga sér stað.
    Herra forseti. Ég hef talið nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um þessi mál ítarlegar en ég gerði áðan vegna þess sem eðlilega hefur komið fram hjá stjórnarandstæðingum. Ég er tilbúinn að svara fleiri spurningum ef menn óska að sjálfsögðu, en legg loks til að máli þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.