Efnahagsaðgerðir
Mánudaginn 19. desember 1988

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Út af umræðunum um fjármagnskostnað langar mig til þess að benda á að hluti af þessum skýringum á háum fjármagnskostnaði er væntanlega sá að skattalögin gera ráð fyrir að gengismunur sem myndast skuli gjaldfærður í bókhaldi fyrirtækis. Þessi gengismunur er hins vegar ekki greiddur, þ.e. ef fyrirtæki skuldar 10 millj. kr. í erlendum gjaldeyri og gengið fellur um 10% kemur ein milljón til gjalda eins og fyrirtækið hafi ekki greitt þessa einu milljón. Þetta er bókhaldsatriði. Um áramót er svo færð svokölluð tekjufærsla á móti. Ég veit náttúrlega ekki hvort búið er að færa slíkar tekjufærslur í þessum fjármagnskostnaði sem verið er að safna í þessum umræðum eins og það kom fram í sjónvarpinu í kvöld. Ég vil bara benda á þetta.
    Varðandi gengisskráninguna þá hef ég bent á það margsinnis áður að ekki er hægt að skrá gengi krónunnar einhvern veginn, af því bara, út í loftið. Ég er margbúinn að benda á það úr þessum ræðustól að ákvarðanir um gengi krónunnar styðjast við lagabókstaf. Það eru til lög um það hvernig skuli skrá gengi krónunnar. Það stendur hér í lögum um Seðlabanka Íslands, 18. gr., með leyfi forseta: ,,að gengi krónunnar skuli haldið sem stöðugustu og ná skuli jöfnuði í viðskiptunum við útlönd en tryggja rekstrargrundvöll útflutnings- og samkeppnisgreina``. Þetta er ekki hlutur sem íslensk stjórnvöld geta leyft sér að hafa einhvern veginn eða eins og þeim dettur í hug hverju sinni. Það er alveg fráleitt.
    Ég held að rétt sé í þessari stöðu að forsrh., ef hann vill vera svo vænn, spyrji sína efnahagsráðgjafa spurninga eins og hvað íslenskir atvinnuvegir þoli háa skatta nú, vegna allra þessara hugmynda um hækkun skatta. Hvað þola íslenskir launþegar mikla hækkun á tekjuskatti í dag og hvað þolir íslenskur lánsfjármarkaður að ríkið seilist langt í íslenskt lánsfé? Er ekki rétt að spyrja þessara spurninga frá nýjum sjónarhól en ákveða ekki bara að hrifsa þetta til sín burtséð frá því hvaða afleiðingar þetta hefur? Mér finnst einhvern veginn eins og ákvarðanir hingað til hafi verið í þeim dúr að ríkið ákveði bara að hrifsa til sín svona mikið af þjóðarkökunni burtséð frá því hvernig það kemur niður á íslenskum atvinnuvegum og lífskjörum í landinu.
    Ég skal ekki tefja hér meira að sinni.