Fyrirspurn um þjóðargjaldþrot o.fl.
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. 4. mgr. 31. gr. þingskapa Alþingis hljóðar svo: ,,Á sérstökum fundi í sameinuðu þingi skal forseti taka á dagskrá munnlegar fyrirspurnir er leyfðar hafa verið í síðasta lagi fjórum virkum dögum fyrir fundinn. Fyrirspurn skal þó að jafnaði ekki tekin á dagskrá síðar en átta virkum dögum eftir að hún var leyfð.``
    Ég þarf ekki að rifja upp fyrir hv. þm. að þingsköpum var breytt 1985 þannig að umræðutími við fsp. og um fsp. var mjög skorinn niður til að greiða fyrir því að þingmenn gætu fengið svör ráðherra við málum sem þeir vildu bera upp þannig að fyrirspurnatími gæti gengið fljótt fyrir sig og hefði ekki truflandi áhrif á störf Alþingis og þannig að samtímis ynnist tími í sameinuðu þingi til þess að ræða þáltill. og jafnframt gætu fundir í deildum gengið viðstöðulaust fyrir sig.
    Þegar talað er um að fsp. skuli í síðasta lagi að jafnaði ekki tekin á dagskrá síðar en átta virkum dögum eftir að hún var leyfð er auðvitað átt við það að ekki þykir við hæfi að það dragist úr hömlu að svara fsp. sem eru formlega fram lagðar vegna þess að það hlýtur að enda með því að þingmenn sjái sig knúða til að kveðja sér hljóðs utan dagskrár. Ef þingmenn geta ekki treyst því að fsp. séu teknar fyrir á eðlilegum tíma, þá hefur það auðvitað þau áhrif að þeir kveðja sér hljóðs utan dagskrár.
    Samkvæmt málaskrá sameinaðs Alþingis beindi ég fsp. til forsrh. 28. nóv. sl. Fsp. er til forsrh. um þjóðargjaldþrot, svohljóðandi: ,,Telur forsrh. að þjóðargjaldþrot blasi við að óbreyttri stjórnarstefnu?`` Í fyrirspurnatíma sl. fimmtudag var hæstv. forsrh. í húsinu þangað til kom að þessari fsp. Þá hafði hann horfið á braut án þess að hafa samband við fyrirspyrjanda og það kom mjög í opna skjöldu hæstv. forseta þingsins því hann hafði áður sagt mér að öll dagskrá fundarins yrði afgreidd og ég þyrfti ekki að óttast að þessi fsp. kæmist ekki á dagskrá. Ég sagði hæstv. forseta að ég ætlaðist til þess að fsp. yrði svarað fyrir jól, sem væri skýlaus vilji þingsins miðað við hinar nýju reglur um fsp., og sagði hæstv. forseta jafnframt að ef svo færi að hann treysti sér ekki til þess að boða til sérstaks fyrirspurnatíma fyrir jólin sæi ég mig knúinn til að kveðja mér hljóðs utan dagskrár til að knýja fram svar við fyrirspurninni. Vitaskuld liggur það í augum uppi, eins og ástandið er í landinu, að ekki er hægt að komast undan því fyrir hæstv. forsrh. að svara þessari fsp. sem borin er fram að gefnu tilefni vegna þeirra ummæla sem hæstv. forsrh. hafði á fundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna fyrir rúmum mánuði.
    Ég vek athygli hæstv. forseta á því að síðan þessi fsp. var fram borin eru ekki liðnir átta dagar heldur nærfellt þrisvar sinnum átta dagar. Það eru 22 dagar síðan fsp. var fram borin og auðvitað dæmalaust að fyrirspyrjandi skuli á öllum þessum tíma ekki hafa átt kost á því að fá fsp. svarað.
    Ég vil taka fram, hæstv. forseti, að þann hinn sama dag bar ég fram fyrirspurn til annars ráðherra sem að

vísu hefur ekki verið svarað, en hann hefur haft að fyrra bragði samband við mig og ég hef samþykkt þann drátt sem hefur orðið á því að svar sé veitt við fyrirspurninni og er það í fullkomnu samkomulagi okkar á milli og hef ég ekkert þess vegna við það að athuga. En ef þingmenn og fyrirspyrjendur telja brýnt að fá fyrirspurnum svarað lít ég svo á að hæstv. forseta beri skylda til að sjá til þess að hæstv. ráðherrar, einstakir ráðherrar, virði rétt þingmanna til að bera fram fyrirspurnir, virði fyrirspurnatímann og boði ekki til funda úti í bæ þennan eina dag í viku sem þeim er ætlað að standa hér fyrir svörum og m.a.s. farið svo vægt í sakirnar að stjórnarandstaðan hefur aldrei ætlast til þess ef menn eru langdvölum erlendis að þeir fljúgi heim að morgni og fari aftur að kvöldi til að mæta hér í fyrirspurnatímanum heldur höfum við virt það sem löglega fjarvistarsönnun ef þeir hafa verið erlendis. Að því leyti eru mínar aðfinningar ekki ósanngjarnar.