Fyrirspurn um þjóðargjaldþrot o.fl.
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Nei, það er ekki meining forseta Sþ. að fimmtudagurinn fari í fyrirspurnir eingöngu. Hins vegar er gert ráð fyrir fundum hér á hinu háa Alþingi og ég tel alls ekki úr vegi að venjulegur fyrirspurnatími væri notaður að einhverju leyti til að svara fyrirspurnum. Forseti mun leitast við hér eftir sem hingað til að koma til móts við óskir jafnt stjórnar sem stjórnarandstöðu svo að vel getur svo farið að hér verði fyrirspurnatími á fimmtudaginn.
    Ég vil upplýsa menn um, svo að það sé alveg ljóst, að fram hafa komið á þessu þingi 55 þingsályktunartillögur. Þar af eru 20 farnar til nefndar en 35 bíða umræðu.
    Hér hefur hv. 3. þm. Vestf. kvatt sér hljóðs um þingsköp, en ég bendi hv. þm. á að hér er á dagskrá þáltill. sem leitast átti við að ræða til þrautar. Úr því verður augljóslega ekki mikið ef þingskapaumræður halda hér áfram.