Fyrirspurn um þjóðargjaldþrot o.fl.
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Karvel Pálmason:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja umræður um þetta mikið, en fyrst einum hv. þm. leyfist að taka til máls um þingsköp hlýtur öðrum að leyfast það líka ( Forseti: Að sjálfsögðu.) þannig að þar verður engin undantekning gerð.
    Mér heyrist á yfirlýsingu hæstv. forseta að það muni ekki liggja mikið fyrir þingdeildum til afgreiðslu fram á fimmtudag ef hér er verið að boða fund í Sþ. til að svara fyrirspurnum. Ekki er ég að draga úr því því að auðvitað eiga þingmenn rétt á því að fá svör við sínum fsp. En mér hefur virst ganga erfiðlega að fá út þá ákvörðun hvenær þingleyfi eigi að vera á Alþingi, hvort það eigi að halda áfram fram á Þorláksmessu eða jafnvel fram á aðfangadag. Enginn hefur svarað því enn. Mér sýnist á því sem hæstv. forseti er nú að gefa í skyn að menn ætli að vera í Sþ. á fimmtudag. Þá gera menn trúlega eitthvað á föstudaginn, gætu kannski haldið áfram fram að hádegi á aðfangadag ef það er meiningin að haga þingstörfum með þessum hætti.
    Ég mótmæli harðlega vinnubrögðum af því tagi sem hér eru viðhöfð. Það verður að gera kröfu til þess, a.m.k. hljótum við sem búum úti á landi og eigum langa ferð fyrir höndum og ekkert örugga oft og tíðum frá degi til dags að gera þá kröfu að þingstörfum sé hagað með þeim hætti að menn hafi nægilegan tíma til þess að komast til síns heima fyrir jólafrí.
    Þingstörfin að undanförnu hafa gengið með þeim hætti að það tekur engu tali. Oft hefur það verið slæmt en aldrei eins. Ég er út af fyrir sig ekki með þessu að gagnrýna hæstv. forseta sérstaklega. Forsrh. og ríkisstjórn bera að sjálfsögðu meginábyrgð á því hvernig þingstörfum er hagað hér. Hér liggur ekkert fyrir enn hvað á að afgreiða af frumvörpum hæstv. ríkisstjórnar sem menn telja nauðsyn á fyrir jólahlé og þau eru ærið mörg að mér heyrist. Ég held að menn geti ekki dregið öllu lengur að taka af skarið um hvað á að gera hér, hvað á að afgreiða fyrir jólahlé og hvenær það á að vera. Þessari spurningu hljótum við, a.m.k. utanbæjarþingmenn, að krefjast svara við í ljósi þeirra ummæla sem hér hafa verið.