Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að lýsa ánægju minni yfir því að hæstv. iðnrh. skuli hafa tekið vel við þeirri ábendingu að rétt væri að undanskilja skipasmíðaiðnaðinn lántökugjaldinu. Þetta mál kom upp í Ed. og við ræddum þetta mál á síðari fundi fjh.- og viðskn. í morgun. Það er rétt, sem formaður nefndarinnar hefur fundið að við mig, að ég kom of seint á þennan nefndarfund þannig að svo virtist um skeið sem ekki tækist að taka upp efnislega skoðun á frv. um lántökugjaldið, en það náðist fram og fulltrúar skipasmíðaiðnaðarins komu á fund nefndarinnar og ég hygg að hann hafi sannfært nefndarmenn um að óeðlilegt væri annað en lán vegna skipasmíða hér á landi yrðu undanþegin gjaldinu. Ég er þakklátur hæstv. viðsk.- og iðnrh. fyrir að hann skyldi hafa, eftir því sem mér skildist hér áðan, fallist á að þetta væri réttlát ábending og að meiri hl. væri inni á því að taka þessa beiðni til greina.
    Það er auðvitað mikil spurning hvort ekki eigi að stíga skrefið til fulls og endurgreiða skipasmíðaiðnaðinum það lántökugjald sem hann kann að hafa greitt vegna verkefna á þessu ári og mun ég taka það mál upp við nefndina því eðlilegt er að það sé ekki mismunur á milli stöðva, eðlilegt er að ekki halli á á milli einstakra fyrirtækja í þessu efni, hvort sem við erum þá að tala um skipasmíðafyrirtækin eða þau útgerðarfyrirtæki sem við þau eiga viðskipti.
    Ég vil í annan stað, hæstv. forseti, lýsa yfir ánægju minni yfir því að hæstv. iðnrh. skuli nú hafa gefið afdráttarlausa yfirlýsingu um að innlendar skipasmíðastöðvar skuli jafnan hafa sama aðgang að erlendu fjármagni og þær erlendu eða m.ö.o. að útgerðarmaður sem lætur gera við skip sitt hér á landi eigi það öruggt og tryggt að hann fái jafnfljóta og jafngóða fyrirgreiðslu og sá útgerðarmaður sem lætur gera við skipið erlendis. Enginn maður yrði glaðari yfir því en ég ef hægt yrði að koma slíkri reglu á vegna þess að í sambandi við mörg lánsfjárlög undanfarið hefur komið til mjög harðra átaka milli einstakra manna sem stutt hafa þær ríkisstjórnir sem áður voru við völd. Ég hef átt viðræður við viðskrh. síðustu ríkisstjórnar og sjútvrh. þeirrar næstsíðustu um hvernig eigi að fara að því að tryggja skipasmíðaiðnaðinum eðlileg rekstrarskilyrði og ég er mjög ánægður yfir því að þessir ráðherrar báðir eru nú sammála mér um nauðsyn þess að á hverjum tíma eigi að tryggja innlendum skipasmiðjum það mikið fjármagn að þær geti gengið fyrir sig með eðlilegum hætti. Ég leyfi mér að skilja orð viðskrh. svo að hann sé þá að tala um 80% af viðgerðarkostnaði þegar um meiri háttar viðhald er að ræða eða endurbætur.
    Ég þarf auðvitað ekki að ítreka, það á þingdeildarmönnum að vera mjög kunnugt, að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að Fiskveiðasjóður hafi meiri skyldur við íslenskar skipasmíðastöðvar en erlendar og að við Íslendingar værum fullsæmdir af því ef Fiskveiðasjóður lánaði meira til þeirra skipasmíðaverkefna sem unnin eru hér á landi en erlendis. Auðvitað er það það sem ég stefni að. En

númer eitt er að reyna að ná jafnstöðu og má segja að það sé varnarsigur, en síðan hljótum við að berjast áfram fyrir því að þeir útgerðarmenn sem vilji versla við innlenda aðila fái af opinberri hálfu greiðari aðgang en aðrir. Auðvitað er ég ekki að tala um að það eigi að gefa neinum neitt, en ég fordæmi með jafnmikilli sannfæringu ef íslensk framleiðsla, hvort sem það heita garðyrkjumenn eða skipasmíðastöðvar, hvort sem það heita gosdrykkjaframleiðendur eða þeir sem t.d. framleiða færavindur, ef einhverjir slíkir aðilar eru til langframa eða stutt látnir sitja við annað og verra borð en keppinautur þeirra erlendis. Auðvitað hlýt ég að fordæma slíkt og hlýt af þeim sökum nú undir lokin, hæstv. forseti, að leggja áherslu á að til þess að hægt sé að tryggja viðhlítandi samkeppnisstöðu, viðhlítandi rekstrarstöðu íslenskra skipasmíðastöðva og til þess að íslenskir útgerðarmenn hafi efni á því að versla við íslenskar skipasmíðastöðvar verða þeir að fá gengið rétt skráð. Það er algjörlega út í bláinn, það er algjörlega út í hött, það er í rauninni fyrirlitning á staðreyndum að reyna að koma því sjónarmiði að að þjónustufyrirtæki við sjávarútveginn geti, þegar gengið er rangt skráð, boðið upp á jafngóð kjör og erlend fyrirtæki, þegar útgerðarmennirnir fá gjaldeyrinn á útsölu sem þeir greiða viðgerðina fyrir. Og hitt er jafnvitlaust að hugsa sér að útgerðarmennirnir hafi efni á því að vera blíðir og þægilegir við íslenska framleiðendur ef þeir fá gjaldeyri fyrir sinn útflutning á niðursettu verði. Auðvitað gefur auga leið að á meðan ríkisstjórnin vill ekki viðurkenna staðreyndir, á meðan ríkisstjórnin tekur ekki undir með Jakob Möller og segir ,,þegar gengið er fellt er það fallið``, á meðan hún getur ekki skilið þetta er alveg tómt mál að tala um einhver erlend ráðgjafarfyrirtæki. Það getur vel verið að það sé ódýrara að borga þeim ef það má borga reikninginn með niðurgreiddum gjaldeyri í bili. Það getur vel verið að reikningurinn verði lægri fyrir skipasmíðastöðvarnar, fyrir hið erlenda ráðgjafarfyrirtæki. En hitt er alveg ljóst að tapið verður miklu meira af öðrum ástæðum vegna þess að rekstrargrundvöllurinn er ekki fyrir hendi.
    Ég skal ekki síðan fara mörgum fleiri orðum um þetta. Ég vil sem sagt í stuttu máli segja, hæstv. forseti: Ég er mjög ánægður yfir því að hæstv.
iðnrh. skyldi lýsa því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, eins og ég skildi hann, að lántökugjaldið komi ekki á lán sem tekin eru til greiðslu á viðgerðum hér á landi, á skipasmíðum hér á landi og veit að bæði útgerðarmenn og þeir sem reka skipasmíðastöðvarnar kunna að meta þetta. Ég vil líka láta í ljós ánægju mína yfir því að báðir þessir hæstv. ráðherrar, bæði sjútvrh. og iðnrh., skuli vilja sjá um að þjónustan við skipasmíðaiðnaðinn í sambandi við þau verkefni sem við erum að tala um, þ.e. meiri háttar viðhald og endurbætur, að lánsfyrirgreiðslan við skipasmíðastöðvarnar skuli ekki verða verri en hún hefur verið heldur þvert á móti betri og að þeir skuli fullyrða í hinu háa Alþingi að skipasmíðastöðvarnar megi vænta þess að þær fái til sinna verkefna

jafngreiðlega fjármagn og hinir erlendu keppinautar þeirra. Ég hlakka sannarlega til að fylgjast með því að þessir báðir hæstv. ráðherrar standi við þessi orð.