Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Flm. (Stefán Guðmundsson):
    Hæstv. forseti. Ég geri mér ljóst að við erum enn einu sinni að tala um þetta mál í tímahraki og þess vegna skal ég verða við vinsamlegum tilmælum forseta og reyna að stytta mál mitt mjög, en ég vil þó aðeins grípa inn á nokkur atriði sem hafa komið fram í máli manna.
    Hv. fyrrv. iðnrh. Friðrik Sophusson sagði fyrr í umræðum um þetta mál að stefna þessarar ríkisstjórnar væri hættuleg íslenskum skipaiðnaði. Ég held, hv. þm., að það sé of snemmt fyrir okkur að gerast spámenn í þessum efnum. Ég trúi því ekki og reyndar veit að svo er ekki og ég held að ef við höfum lagt hlustirnar við og hlustað á hæstv. iðnrh., hvað hann lagði hér til málanna, þá sé ekki sanngjarnt að tala svo.
    Hv. þm. minntist einnig á að ég sem flm. þessarar tillögu hefði átt að snúa mér beint til sjútvrh. með þetta mál og láta vera að flytja það inn í þingsali. Ég er á öðru máli en hv. þm. í þessum efnum. Þannig var að ég lagði þessa tillögu fram á síðasta þingi, en því miður var svo liðið á þing að málið komst ekki á dagskrá. Því endurflutti ég það nú og ég held að þau viðbrögð sem þetta mál hefur fengið hér sanni það að það var vissulega þarft að hreyfa því. Ég vil einnig taka fram að ég tel mig vissulega hafa leyfi til að flytja mál á þingi þótt þau heyri undir þá ráðherra sem ég hvað dyggilegast styð. Það vil ég að komi skýrt fram að það bindur enginn hendur mínar þannig í þessum málum.
    Hæstv. iðnrh. sagði þegar hann fór yfir þessa tillögu að það toguðust á hagsmunir iðnaðar og útgerðar í þessum efnum. Þá var hann að tala um hvað því við kæmi að bjóða út verk og lét að því liggja að útgerðarmenn þyrftu oft og tíðum og kannski oftast nær að fá þessi verk unnin mjög fljótt og alla jafna vildu þeir fá þau á sambærilegu verði.
    Ég sagði þegar ég talaði fyrir þessari tillögu að íslenskur skipaiðnaður væri ekki --- og ég endurtek: hann er ekki að biðja um forréttindi í þessum málum. Hann er ekki að biðja um forréttindi. Íslensk skipaiðnaðarfyrirtæki og íslenskir iðnaðarmenn eru að biðja um jafnrétti við erlendar stöðvar. Það er það sem verið er að biðja um og um það snýst þetta mál. Að þessum hluta til harma ég ummæli iðnrh.
    Ég vil að menn hugsi það mjög áður en þeir kasta því frá sér sem stendur í minni tillögu um að skylt sé að bjóða út öll verk. Ég trúi því að yfirleitt séu þetta svo stórir póstar að útgerðarmenn vilji fá úr því skorið hvar hagstæðast sé að vinna þessi verk. Það er ekki bara um að ræða að það sé unnið í Þýskalandi eða Íslandi. Það eru margar þjóðir sem eru að keppa við okkur í þessari atvinnugrein þannig að mér finnst mjög eðlilegt að um útboð sé að ræða og það skuli vera skylt.
    Ég fullyrði einnig úr þessum ræðustól eins og ég gerði þegar ég talaði fyrir þessu máli að íslenskar stöðvar eru fyllilega samkeppnisfærar við erlendar stöðvar í þessari atvinnugrein. Þegar þessi verk hafa verið boðin út hafa íslensku stöðvarnar ekki ætíð unnið öll tilboð, en ég veit um dæmi þess og eitt

mjög nýlegt dæmi, og ég gat um það sérstaklega þegar ég talaði fyrir tillögunni, að verk var boðið út. Það komu tilboð erlendis frá og það kom íslenskt tilboð í þetta verk. Og hvað kom upp? Íslenska tilboðið var ekki helmingi hærra, íslenska tilboðið var helmingi lægra. Íslenska tilboðið var nefnilega helmingi lægra en erlenda tilboðið. Ég fullyrði hér að íslenskir iðnaðarmenn eru betri iðnaðarmenn en aðrar þjóðir geta státað af í þessari atvinnugrein. Ég fullyrði að verk sem íslenskir útgerðarmenn fá unnin hér heima eru betur af hendi leyst en erlendis.
    Við megum heldur ekki gleyma að skoða það grannt hvort við höfum efni á því að flytja út í jafnríkum mæli og við höfum gert þá tækniþekkingu sem við höfum verið að öðlast með því að sinna þessum verkefnum að ógleymdri tækniþekkingunni sem við höfum fleygt frá okkur til erlendra þjóða í svo stórum stíl sem raun ber vitni.
    Það sem ég bað um í máli mínu þegar ég talaði fyrir þessari tillögu um daginn var hvort núv. ríkisstjórn gæti ekki fallist á að láta fara frá sér hliðstætt bréf og ríkisstjórn lét frá sér fara árið 1986, en ég ætla að lesa bréfið enn og aftur til þess að þeir sem um þessi mál fjalla geti heyrt hvað í því stendur. Þar segir, með leyfi, virðulegi forseti:
    ,,Opinberum sjóðum verði tilkynntur sá vilji ríkisstjórnarinnar`` --- verði tilkynntur sá vilji ríkisstjórnarinnar, ég endurtek það --- ,,að leita skuli tilboða innan lands um endurbætur og viðhald fiskiskipa og samanburður gerður á slíkum tilboðum og erlendum og þau metin á viðskiptalegum grundvelli áður en lánveitingar eru ákveðnar. Lögð verði áhersla á það við viðskiptabankana að bankaábyrgðir vegna skipasmíðaverkefna innan lands verði sambærilegar og þær sem veittar eru þegar verkefni eru unnin erlendis. Ríkisstjórnin samþykki að gera ráð fyrir lántökuheimildum til Byggðasjóðs eins og verið hefur undanfarin tvö ár þannig að sjóðurinn geti veitt viðbótarlán vegna viðgerðaverkefna hér á landi svo að lánin verði 80% kostnaðar. Þess verði farið á leit við Iðnlánasjóð að hann veiti skipaiðnaðinum samkeppnislán til þess að mæta sérstökum undirboðstilboðum eða niðurgreiðslum frá erlendum skipasmíðastöðvum.``
    Undir þetta ritar Steingrímur Hermannsson þáv. forsrh.
    Þetta er raunverulega kjarni þess máls sem í tillögunni felst. Og ég trúi því, eftir að hafa hlýtt á mál iðnrh. og reyndar rætt við hann áður um skilning hans á þessu máli, að þetta mál verði til lykta leitt þannig að þeir sem við eiga að búa geti sætt sig við, enda kom það skýrt fram í máli hæstv. ráðherra áðan þar sem hann lýsti því yfir að hann mundi beita sér fyrir því að innlendir aðilar hefðu jafnan aðgang að fjármagni til þessara verkefna eins og veitt væri þegar þessi verk væru unnin erlendis.
    Ég tala ekki um það að ég fagna auðvitað sérstaklega, eins og ég held að hafi komið fram í máli hv. þm. Halldórs Blödals, þeirri viljayfirlýsingu sem hér kom fram að nú væri unnið að því að reyna að

tryggja að þetta lántökugjald, sem menn hafa rætt um, yrði ekki lagt á þegar um þessar heimildir væri að ræða.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt meir. En ég veit um að þetta breska fyrirtæki, Appeldore, er að vinna að skýrslu og er hún væntanleg hingað til okkar. Ég vona að við fáum hana á borð þingmanna og getum gluggað í hana. ( FrS: Það er búið að lofa því.) Það er búið að lofa því, segir hv. þm., þannig að við getum gluggað í það. Ég fagna því auðvitað. En það má geta þess að atvinnugreinin sjálf er einnig með mjög víðtækar áætlanir og vinnu í gangi til að bæta stöðu sína.
    Hvað varðar samkeppnishæfni þessara stöðva held ég að það sem við þurfum mjög að einbeita okkur að sé hvernig við getum bætt nýtingartíma innlendra skipasmíðastöðva. Staðreyndin er nefnilega sú að langmesti hluti þessara verkefna er unninn á tímabilinu maí til október. Þar er veðurfarinu um að kenna og það sjá allir menn og skilja að það hlýtur að vera mjög óhagstætt að heilu vinnuflokkarnir þurfi að standa í slíkum viðgerðarverkefnum jafnvel við hin verstu veðurskilyrði. Þess vegna hef ég þá trú að við getum ekki unnið þetta af neinu viti fyrr en við erum búin að koma upp ákveðnum skipasmíðastöðvum þannig að hægt sé að vinna þessi verk undir þaki. Þá fyrst er farið að gera þetta á faglegan hátt og þá fyrst erum við orðnir hæfir til þess að berjast við erlenda risa í þessum efnum.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri nú. Ég þakka mönnum fyrir að hafa tekið þátt í þessum umræðum og legg til að málinu verði að þessari umræðu lokinni vísað til síðari umr. og hv. atvmn.