Framhaldsskólar
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Í framhaldi af þeim umræðum sem áttu sér stað um mál þetta í hv. menntmn. í gærkvöld flyt ég brtt. á þskj. 292 sem er í raun og veru aðeins skýring á þeim ákvæðum sem gert er ráð fyrir í 2. málsl. 1. gr. Þar er gert ráð fyrir því að tiltekin lagaákvæði haldi áfram gildi sínu. Er þar um að ræða annars vegar kostnaðarákvæði og hins vegar ákvæði um skipan skólanefnda. Við umræðuna í nefndinni kom fram að menn áttuðu sig ekki á því hvað af þessum ákvæðum fjallaði um kostnað og hvað af þeim fjallaði um skólanefndir. Til þess að gera málið alveg skýrt og koma í veg fyrir misskilning er flutt þessi till. þar sem fyrri málsl. orðast svo:
    ,,Ákvæði þau um niðurfellingu laga, sem um er getið í 41. gr., koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1990 að því er varðar kostnaðarskiptingu og fjármál skólanna.`` --- Síðan segir: ,,Þær skólanefndir, sem starfa við framhaldsskólana, er lög nr. 57/1988 koma að öðru leyti til framkvæmda, halda umboði sínu til 1. jan. 1990.`` M.ö.o.: þær skólanefndir sem til voru við framhaldsskólana eru einfaldlega framlengdar að því er varðar umboð og starf.
    Ég tók eftir því við umræðuna í gær að menn rugluðu aðeins saman þessum þáttum, annars vegar kostnaði og hins vegar skólanefndarmálinu, og til þess að gera þetta skýrt flyt ég þessa brtt. Ég tel að þetta sé tvímælalaust til bóta. Ég þakka hv. nefndarmönnum fyrir ábendinguna og vænti þess að þetta greiði fyrir afgreiðslu málsins svo sem kostur er.