Framhaldsskólar
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Frsm. 2. minni hl. menntmn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Mér hafði verið sagt að það hefði náðst samkomulag um að fundir yrðu í þingflokkum, fundi yrði frestað, og átti þess vegna ekki von á því að þetta mál yrði tekið á dagskrá fyrr en að loknum þingflokksfundum og er satt að segja mjög undrandi á því að hæstv. menntmrh. skuli hafa haldið sína ræðu fyrir brtt. sem hann flytur án þess að mér hafi verið gefinn kostur á að hlýða á hana og skil satt að segja ekki þessi vinnubrögð.
    Ég vil taka það fram í upphafi að á fundi menntmn. í gærkvöld benti ég á að eins og 1. gr. er orðuð í frv. stenst hún ekki. Hún er óþinglega fram sett og gjörsamlega út í hött að ætla sér að endurvekja lög sem fallið hafa úr gildi með þeim hætti sem gert var ráð fyrir í málsgr. Ég er þakklátur hæstv. menntmrh. fyrir að hann skyldi hafa komið til liðs við mig til þess að tími ynnist til þess að málið yrði athugað nánar en þingdeildin hlypi ekki til eða meiri hluti hennar og afgreiddi málið án þess að það yrði skoðað eins og leit út fyrir á tímabili. Ég legg ríka áherslu á að sú skylda hvílir á þingmönnum og þingdeildum að vanda lagagerð sem mest þeir mega og auðvitað grundvallarforsenda, herra forseti, ef nefndarmaður fer fram á að fá að kynna sér hvort lagafrv. sé með lögformlegum hætti að til þess sé jafnan gefinn frestur og tími. Ég vil láta þess getið að ég hef borið lagagreinina eins og hún er í frv. undir --- ég vil segja málsmetandi lögfræðinga og þeir hafa spurt mig brosandi að því hvort það væri lagasetning ef sagt væri í lagafrv.: 1. gr. Umferðarlög nr. 7/1948 skulu taka gildi. 2. gr. Önnur lagaákvæði um umferðarlög skulu falla úr gildi. 3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Auðvitað er lagagerð af þessu tagi út í hött og gengur ekki að standa þannig að verki. Við áttum síðan tal saman, ég og hæstv. menntmrh., í gærkvöld og hann skýrði mér frá því hvert yrði efni brtt. Ég hef ekki tekið blaðið með mér, en samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að síðari málsl. falli niður og lagagreinin hljóði þá svo: ,,Ákvæði III. og VIII. kafla laganna auk ákvæða 7. og 8. gr. skulu ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1990. Ákvæði þau um niðurfellingu laga, sem um er getið í 41. gr., koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1990 að því er varðar kostnaðarskiptingu og fjármál skólanna. Þær skólanefndir, sem starfa við framhaldsskólana, er lög nr. 57/1988 koma að öðru leyti til framkvæmda, halda umboði sínu til 1. jan. 1990.``
    Þetta er svolítið skrýtið orðalag en skilst kannski. En ég vek athygli á öðru sem er óvenjulegt í sambandi við þessa lagasmíð og það er að í 1. málsl. þessarar greinar er lagt til að sú grein í lögunum um framhaldsskóla sem fjallar um starfssvið skólanefndar skuli falla niður eða skuli frestast þannig að 8. gr. laganna, þar sem fjallað er um hvað skólanefndin eigi að gera, á ekki að taka gildi fyrr en 1. jan. 1990. Það á að fresta gildistöku þeirrar greinar til þess tíma þannig að ekki verður séð að skólanefndir eigi samkvæmt brtt. menntmrh. að hafa annað hlutverk en

það að vera menntmrh. til aðstoðar við að setja eða skipa skólameistara eða rektor eða þegar menntmrh. þarf að setja eða skipa fasta kennara að fengnum tillögum skólanefndar og skólameistara viðkomandi skóla, eins og segir í lögunum, og stundakennara. Auðvitað get ég verið sammála hæstv. menntmrh. um að hann þurfi leiðbeiningar um hvernig eigi að ráða skólameistara og kennara að framhaldsskólunum, en vil á hinn bóginn benda á að verksvið skólanefndanna er skorið niður við trog. Eins og þessi lagasmíð liggur fyrir virðist ekki gert ráð fyrir að skólanefndirnar komi með einum eða öðrum hætti að daglegum rekstri framhaldsskólanna og má því segja að þessi viðbót hafi sáralitla þýðingu. Það væri þá kannski einfaldara að fella algerlega niður ákvæðið um skólanefndirnar.
    Ég skal svo að öðru leyti ekki fjalla fremur um þetta mál. Af einhverjum undarlegum ástæðum telur menntmrh. að 8. gr. laganna sé óbrúkleg, að hlutverk skólanefnda eins og það er þar skilgreint eigi ekki við og ekki sé rétt að skólanefndir komi að þeim verkum sem þar er um talað, en kýs á hinn bóginn að viðhalda skólanefndum sem eru ekki að störfum núna en endurreisa þær með að vísu óvenjulegum hætti og þá þannig að þær eigi ekkert annað að gera en vera til ráðuneytis við kennararáðningar á hausti komanda og eftir því sem við á í sambandi við ráðningu skólameistara eða rektora.
    Þessi tillöguflutningur allur minnir okkur á, herra forseti, að þó að mikið sé að gera verðum við líka að huga að hinu að þingmenn fái tóm til þess á milli nefndarstarfa og umræðna að ræða þingmál við kunnáttumenn einslega og vinna sjálfstætt að rannsókn á þingmálum til þess að komið verði í veg fyrir slys af þessu tagi. Ég held líka að það muni koma í ljós þegar skólanefndir eftir þessum tillögum menntmrh. taka til starfa á næsta ári að þeim gömlu skólanefndum þyki undan sér fjarað og þær átti sig ekki alveg á því hvaða hlutverk þær hafi. Bið ég hæstv. menntmrh. mjög að íhuga hvort ekki sé rétt að breyta enn frvgr. og segja a.m.k. að 8. gr. skuli standa þannig að skólanefndirnar hafi þó eitthvert verksvið og þannig að sú uppbygging sem er í framhaldsskólafrv. um stjórnun framhaldsskólanna geti haldist og staðið og að eitthvert vit verði í þeirri lagasetningu sem Alþingi vill setja í sambandi við skólamál.