Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Á þskj. 289 er að finna nál. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.
    Nefndin ræddi frv. og á hennar fund komu þeir Kjartan P. Kjartansson og Geir Geirsson frá Sambandi ísl. samvinnufélaga og Vilhjálmur Egilsson frá Verslunarráði Íslands.
    Hér er um gamalkunnan skatt að ræða sem margar ríkisstjórnir hafa lagt á ár eftir ár, en skylt er að geta þess að hann er að vísu hækkaður nokkuð núna með þessu frv. Um það hefur verið ágreiningur og á það bent að það kunni að koma illa við ýmsa aðila og auðvitað hafa verið færð fyrir því nokkur rök. En þetta er liður í fjáröflun ríkisstjórnarinnar til að standa straum af samneyslunni og sameiginlegum kostnaði okkar og ein af forsendum fjárlagafrv. sem verið er að afgreiða núna.
    Það er alveg ljóst að þetta er umdeilt mál og nefndin klofnaði í afstöðu sinni til þess. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir á þskj. 142 og ég get þess að lokum að Danfríður Skarphéðinsdóttir sat fund nefndarinnar og er samþykk þessu áliti.
    Undir þetta nál. skrifa, auk framsögumanns, Valgerður Sverrisdóttir fundaskr., Jóhann Einvarðsson og Margrét Frímannsdóttir.