Vinnubrögð í fjárhags- og viðskiptanefnd og
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Herra forseti. Hér stend ég nú og get ekki annað. Ég var með fjarvistarleyfi í upphafi fundar og kom þess vegna til þessarar umræðu eftir að hún var byrjuð og veit því ekki nákvæmlega hvað hér hefur verið sagt og ætlaði raunar ekki að segja neitt umfram það sem ég vissi að aðrir nefndarmenn ætluðu að gera, þ.e. nefndarmenn sem eru í stjórnarandstöðu. En því kem ég hér upp að mér ofbuðu gjörsamlega orð hv. formanns fjh.- og viðskn. sem talaði hér af mikilli kokhreysti og hældi sér í bak og fyrir og var alveg sérstaklega ánægður með störf sín og nefndarinnar. Hann þakkaði að vísu okkur fulltrúum stjórnarandstöðu í nefndinni og ég er ekki undrandi á því vegna þess að stundum var tæplega fundarfært nema vegna þess að stjórnarandstaðan mætti af stakri samviskusemi og tryggði það að formaður gæti haldið fundi.
    Hann minnti á fund sem var haldinn í hliðarherbergi í gærkvöldi á meðan á þingfundi stóð. Af þeim fundi varð ég að vísu að fara þar sem ég var á mælendaskrá í umræðum um bráðabirgðalögin og þurfti að fara í ræðustól. Ég verð hins vegar að segja það að ég þekkti ekki þennan fund af lýsingu hv. formanns fjh.- og viðskn. Hann sagði að þar hefði verið fullt samkomulag um það starf sem við ætluðum að inna af hendi í morgun í nefndinni. Það var vissulega rætt um vinnutilhögun, en ég harðneita því að það hafi verið samkomulag um það að drífa þessi mál öll út úr nefndinni. Ég a.m.k. og við í stjórnarandstöðunni mótmæltum því harðlega að öll málin væru tekin út úr nefnd í morgun. Mig minnir að ég hafi heyrt hv. formann nefndarinnar segja að það hafi ekki komið nein athugasemd við það að vörugjaldið yrði afgreitt út úr nefnd. Það er ekki rétt. Ég gerði athugasemd við það og það hygg ég að við höfum gert öll úr stjórnarandstöðunni og við lýstum þeirri skoðun okkar að fyrst yrðum við að fá að sjá þær brtt. sem stjórnarflokkarnir ætluðu að gera og gátu ekki sýnt okkur né skýrt út fyrir okkur, hvorki í gærkvöldi né heldur í morgun, að fullu og ég hef sem sagt ekki enn þá séð þar sem ég þurfti að fara frá um hádegisbilið. Við lýstum því að við yrðum að hafa tækifæri til að sýna þessar brtt. og ræða þær í okkar þingflokkum. Þessa hefur okkur alls ekki gefist tími til, og þessi afgreiðsla og þetta vinnulag er gjörsamlega óþolandi.
    Hv. formaður reyndi að gera lítið úr þeirri kröfu stjórnarandstöðunnar að tekjuöflunarfrv. yrðu afgreidd áður en fjárlög væru afgreidd. Ástæðan er vitanlega sú að það hefur verið algjör óvissa um það hvernig sú afgreiðsla yrði. Sú óvissa er raunar enn fyrir hendi. Það kann að breytast eftir afgreiðslu bráðabirgðalaganna og það vekur vissulega athygli að menn eru allir aðrir í framkomu hér og telja sig geta gengið yfir stjórnarandstöðuna eins og hún sé ekki til. Við höfum einmitt lagt áherslu á það að bráðabirgðalögin verði afgreidd fyrst, það fáist niðurstaða í atkvæðagreiðslu um þau. Við höfum reynt að vinna að því og m.a. var óvenjulítil umfjöllun um

bráðabirgðalögin í fjh.- og viðskn. í morgun svo að það er ekki við okkur að sakast um þau mál.
    Ég hlýt að taka það fram að hv. formaður hefur hingað til sýnt mikla lipurð í samskiptum við stjórnarandstöðuna. Það er ekki fyrr en núna sem þessi snöggu umskipti hafa orðið og á að keyra allt í gegn án þess við einu sinni fáum að sjá á þingskjali ellegar þá aðeins á blaði nákvæmlega útfærðar þær brtt. sem menn afgreiða út úr nefnd með nál. án þess að geta sýnt okkur þær, hvað þá að við getum sýnt öðrum þær.
    Það er fráleitt að ætlast til þeirrar afgreiðslu sem meiri hl. ætlar nú að knýja hér fram á frv. um vörugjald og tekju- og eignarskatt. Það er hv. fjh.- og viðskn. og þinginu öllu til skammar.