Vinnubrögð í fjárhags- og viðskiptanefnd og
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég kemst ekki hjá því að gera örlitlar athugasemdir við þessi vinnubrögð. Mér finnst vanta að í þessum nefndum, fjvn. og fjh.- og viðskn., sé spurt þeirra spurninga sem ég hef nefnt hér áður, hvort íslenskt atvinnulíf þolir aukna skattheimtu um þessar mundir og hvort íslenskir launþegar þola aukna skattheimtu, og hvort íslenskir fjármagnsmarkaðir þola það að ríkissjóður sæki þangað aukið fé án þess að vextir springi upp úr öllu valdi. ( Forseti: Ég minni á að þetta eru umræður um þingsköp.) Þessar umræður þurfa að fara fram, hæstv. forseti. ( Forseti: Það verða umræður um efnahagsmál á eftir.) Ég tel að í þessum nefndum verði að spyrja þessara spurninga, hæstv. forseti, og ákveða vinnubrögðin út frá þeim punkti en ekki ákveða að sækja eitthvert fjármagn út í þjóðfélagið án þess að vita hvort fjármagn er fyrir hendi. Það verður að vinna þetta út frá því að ekki er hægt að gefa sér það að hægt sé að sækja endalaust fé til borgara og fyrirtækja.