Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Hv. framsögumaður tók ekki fram hverjir hefðu skrifað undir nefndarálitið og tók þar af leiðandi ekki heldur fram að ég hafði skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara. Minn fyrirvari felst fyrst og fremst í því að ég tel mjög brýnt að endurskoða félagslega íbúðarlánakerfið í heild. Inn í þá endurskoðun þurfa m.a. að koma leiguíbúðir, kaupleiguíbúðir, húsnæðissamvinnufélög og verkamannabústaðir. Með samþykkt þessara breytingartillagna er verið að veita heimild til að selja hlutareign gegn búseturétti í félagslega kerfinu sambærilegt við það sem er í almenna kerfinu. Ég tel þetta eðlilega breytingu en hefði, eins og ég sagði áðan, talið betra að endurskoðun húsnæðiskerfisins hefði þegar farið fram. Mínir fyrirvarar eru kannski á svipuðum nótum og hv. 17. þm. Reykv., sem talaði hér á undan mér, um að eðlilegra hefði verið að heildarendurskoðun á húsnæðislánakerfinu hefði farið fram og þar með þetta ákvæði en eins og nú er komið tel ég þessa breytingu eðlilega.