Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. félmn. fyrir afgreiðslu frv. og vænti þess að það geti orðið að lögum fyrir jólaleyfi þingmanna.
    Hv. 17. þm. Reykv. vék nokkuð að niðurstöðu þeirrar nefndar sem starfað hefur að endurskoðun almenna húsnæðislánakerfisins og spurði í því sambandi þeirrar spurningar hvort ég mundi beita mér fyrir framlagningu frv. á grundvelli tillagna meiri hl. nefndarinnar. Því er til að svara að eins og hv. þm. er væntanlega kunnugt þá mæltu sex af átta nefndarmönnum með því að tekið yrði upp húsbréfakerfi, þó að einstakir nefndarmenn hafi haft fyrirvara um einstök atriði í nefndarálitinu sem lagt var fram. Tveir nefndarmanna, annar fulltrúi ASÍ og hinn fulltrúi Framsfl. í nefndarstarfinu, mæltu hins vegar með því að viðhaldið yrði núv. húsnæðiskerfi með nokkrum breytingum. Ég held að það segi nokkra sögu í svo viðamiklu verkefni sem endurskoðun húsnæðiskerfinsins er, þar sem skiptar skoðanir hafa verið um leiðir að endurskipulagningu, þegar samstaða næst milli sex af átta aðilum um að taka upp húsbréfakerfi.
    Ég hef lagt niðurstöðu nefndarstarfsins og nefndarálitið fyrir ríkisstjórnina. Ríkisstjórnin hefur falið þremur ráðherrum að fara yfir nefndarálitið og þau frumvarpsdrög sem nefndin skilaði af sér. Í fyrsta lagi er það frv. sem felur í sér að taka upp nýtt kerfi, húsbréfakerfi, sem sett verði í gang samhliða núgildandi kerfi. Einnig hefur meiri hl. nefndarinnar lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á núgildandi kerfi og að breytt verði niðurgreiðslu á vöxtum. Þetta mun ráðherranefndin taka til skoðunar ásamt því sem hún mun vissulega taka til skoðunar sérálit minni hl. sem mælir með því að viðhaldið verði núgildandi kerfi með breytingum. Ráðherranefndinni hefur verið fengið þetta verkefni að fara yfir nefndarálitið og skila sinni niðurstöðu.
    Mín skoðun er sú að meginniðurstaða nefndarinnar, sem er að taka upp húsbréfakerfi, sé lausn sem gæti leyst þann vanda sem húsnæðiskerfið er komið í og ég bind vonir við að þarna sé að finna framtíðarlausn á húsnæðismálunum. Auðvitað eru þarna þrír flokkar sem þurfa að koma sér saman um niðurstöðu til þess að hægt sé að leggja fram stjfrv. á Alþingi, en ég get svarað hv. þm. beint um það að ég mun beita mér fyrir því að framlagning geti átt sér stað á Alþingi á stjfrv. á grundvelli tillagna meiri hluta nefndarinnar.