Aðgerðir í efnahagsmálum
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Við 1. umr. um frv. sem hér er nú til 2. umr. flutti hæstv. forsrh. allítarlega framsöguræðu þar sem hann gerði nokkra grein almennt fyrir efnahagsmálum og lýsti því jafnframt yfir að hann teldi að eðlilegt væri að ræða þetta mál ásamt 8. máli, þ.e. bráðabirgðalögum frá því í september sl. eða staðfestingarfrv. á þeim, nokkuð í einu lagi. Ég var á mælendaskrá við 1. umr. þessa frv. en féll frá orðinu, en ég tek ábendingum hæstv. forsrh. um það að rétt sé að ræða þessi mál nokkuð í samhengi þó að um það sé að ræða að flutt eru hér tvö frv. til staðfestingar á tvennum brbl. sem sett voru hvor af sinni ríkisstjórn.
    Nú hefði maður mátt ætla að eftir þriggja mánaða valdatímabil væri þessi hæstv. ríkisstjórn komin lengra varðandi lausn efnahagsmála eða undirbúning tillagna um efnahagsmál en svo að aðalumræðan um efnahagsmál í lok desember væri um þau bráðabirgðalög sem sett voru fyrst í vor og síðan í september. Því miður er það ekki svo. En maður hefði auðvitað sérstaklega reiknað með því að málin væru lengra á veg komin þegar haft er í huga upphaf þessarar ríkisstjórnar og reyndar endalok þeirrar sem fyrir var, þ.e. ríkisstjórnar þáv. hæstv. forsrh. Þorsteins Pálssonar.
    Ég býst við að mörgum sé í fersku minni sá sjónvarpsþáttur sem sýndur var á Stöð 2 í september, ætli það hafi ekki verið 16. september, á föstudagskvöldi, þegar þeir mættu í beinni útsendingu þáv. hæstv. utanrrh. Steingrímur Hermannsson og þáv. hæstv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson og slitu í beinni sjónvarpsútsendingu því stjórnarsamstarfi sem þá hafði staðið í um fjórtán mánuði. Og ekki nóg með það. Hæstv. þáv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson stökk í þessum sjónvarpsþætti upp í fangið á hæstv. ráðherra Steingrími Hermannssyni og þar hefur hann setið síðan og ekki hefur losnað um þau faðmlög. Í allri umræðu sem varð, m.a. í þessum sjónvarpsþætti, var það talin ein meginforsenda fyrir stofnun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og ástæðan fyrir því að stjórnarsamstarfinu fyrra var slitið að það lægi lífið á. Atvinnulífið þyldi ekki að beðið yrði öllu lengur með að gera efnahagsráðstafanir sem dygðu. ,,Efnahagsráðstafanir í þágu atvinnulífsins þola enga bið. Þess vegna þarf að setja á laggirnar nýja ríkisstjórn sem fyrst sem geti tekið á málunum.`` Þetta var formálinn að myndun þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    En hvað hefur gerst þessar vikur, eða þessa þrjá mánuði síðan ríkisstjórnin var mynduð? Hvað hefur verið gert í þágu íslensks atvinnulífs? Það hefur sáralítið gerst. Bráðabirgðalögin sem sett voru í september og voru af sjálfri hæstv. ríkisstjórn talin biðleikur, fyrst og fremst, hafa reynst með öllu gagnslaus og það hefur komið í ljós að taprekstur sjávarútvegsins í heild hefur aukist verulega frá því að þessi hæstv. ríkisstjórn tók við völdum. Það er talið að í staðinn fyrir 2,5% taprekstur í september sl. sé tapreksturinn nú 4,5%, og atvinnulífinu blæðir út og ekki bólar á aðgerðum af neinu tagi til þess að leysa

þann vanda sem við er að glíma. Það eina sem ríkisstjórnin virðist geta gert, virðist geta komið sér saman um, en þó með nokkrum harmkvælum eins og við höfum orðið vitni að hér í þingsölum núna síðustu daga, er að hækka skatta, það er að auka umsvif ríkissjóðs, það er að auka ríkisafskipti á öllum sviðum og að stórauka álögur á alla landsmenn í formi nýrra skatta, í formi nýrra óbeinna skatta sem munu hækka vöruverð á landinu eins og lýst hefur verið og í stórhækkun beinna skatta sem kemur niður á öllum almenningi en ekki hinum breiðu bökum eins og reynt hefur verið að telja fólki trú um.
    En hvenær hyggst hæstv. ríkisstjórn grípa í taumana? Ætlar hún að láta atvinnulífinu blæða út með öllu áður en reynt er að gera eitthvað? Á meðan atvinnulífið eða fyrirtækin þurfa að draga saman seglin, á meðan gjaldþrot ekki aðeins vofa yfir, heldur eru raunveruleiki nánast á hverjum degi, í öllum greinum atvinnulífsins, í iðnaði, í verslun, í sjávarútvegi, gerist ekkert hjá hæstv. ríkisstjórn annað en það að reyna að seilast enn lengra ofan í vasa fyrirtækjanna, reyna að soga til sín enn meira fé úr vösum almennings og úr sjóðum fyrirtækjanna langt umfram það sem er sæmilegt og unnt er að sætta sig við.
    Þetta er auðvitað alröng stefna sem hér er framfylgt. Í kreppuástandi á ríkið að reyna að örva fyrirtæki og einstaklinga, ekki að leggja lamandi hönd aukinnar skattheimtu yfir atvinnulífið. Það sem skiptir mestu máli nú er að hjól atvinnulífsins geti farið að snúast hratt, fyrirtækin geti farið að snúa þróuninni við, í stað þess að tapa geti þau farið að skila hagnaði. Þá atvinnuleysisskriðu sem virðist vera að ríða yfir þarf að stöðva. En þetta virðast hæstv. ráðherrar ekki skilja. Þeirra eina úrræði er að hugsa um ríkisfjármálin, að hugsa um ríkiskassann og efna til meiri eyðslu og leggja á aukna skatta.
    Hið almenna efnahagslíf, rekstrargrundvöllur fyrirtækjanna, verður út undan og nú þegar líður að jólum og nýju ári eru ekki uppi neinar tillögur og engar hugmyndir um það hvernig leysa á þann vanda sem að steðjar. Þó var þessi
ríkisstjórn mynduð, eins og ég gat um áðan, með þeim formerkjum að það væri forgangsverkefni að tryggja hag atvinnulífsins, einkum útflutnings- og samkeppnisgreina.
    Ég held að það sé nú öllum ljóst sem af alvöru vilja hugsa um þessi mál að sú eina raunhæfa alvörutillaga til úrbóta, sem uppi var þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar fór frá og núv. hæstv. ríkisstjórn var mynduð, var sú till. sem þáv. hæstv. forsrh., Þorsteinn Pálsson, lagði fyrir ríkisstjórnina, en um hana náðust ekki samningar og stjórnarslit urðu.
    Það er mjög fróðlegt nú, þegar við erum í þessari stöðu --- að sjá engar tillögur frá hæstv. ríkisstjórn, að horfa á atvinnulífinu blæða út --- að rifja upp hverjar þessar raunverulegu tillögur sem þá voru uppi á borðinu voru. Ég er sannfærður um að ef þær hefðu þá verið framkvæmdar væri á margan hátt öðruvísi umhorfs í okkar efnahagslífi. Og ekki er mér

grunlaust um að margir af þeim sem stukku út úr þeirri ríkisstjórn til þess að taka þátt í þessari sjái nú eftir því að ekki skyldi hafa verið gripið til þeirra aðgerða sem þá var lagt til.
    Ég ætla að rifja upp í hverju þessar tillögur voru fólgnar, hvað það var sem þáv. hæstv. forsrh. Þorsteinn Pálsson lagði til um aðgerðir í efnahagsmálum. Grundvöllur og markmið þessara aðgerða var að leggja grunn að stöðugleika í efnahagslífinu og hafa það að markmiði að bæta afkomu atvinnuveganna, að treysta atvinnuöryggi og hag heimilanna, að draga úr verðbólgu og að lækka vexti og fjármagnskostnað. Þær tillögur og hugmyndir --- mér þætti vænt um, herra forseti, ef hægt væri að halda fundinn sem hæstv. ráðherrar eru með einhvers staðar annars staðar en hér við hliðina á þessum ræðustól. ( Gripið fram í: Tekið til greina.) ( Forseti: Það er alveg sjálfsagt að ræðumaður fái frið til að halda máli sínu áfram.) Þær aðgerðir sem þar voru uppi voru í stórum dráttum á þessa leið:
    Í fyrsta lagi að sýnt yrði verulegt aðhald í verðlagsmálum. Í því efni var ríkisstjórnin reiðubúin að fela Verðlagsstofnun að beita ströngu verðlagsaðhaldi í samræmi við gildandi ákvæði um verðstöðvun, samkvæmt lögum nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Við framkvæmdina var gert ráð fyrir að Verðlagsstofnun veitti nauðsynlegar undanþágur vegna breytinga á gengi og verði á erlendu hráefni og aðföngum og enn fremur vegna starfsemi innlendra uppboðsmarkaða og árstíðabundinna verðbreytinga. Gert var ráð fyrir að breytingar á gjaldskrám ríkisfyrirtækja yrðu óbreyttar til 10. apríl 1989, en þó yrði heimilt að taka tillit til hækkana af erlendum toga og sérstakra heimilda í fjárlögum. Það var gert ráð fyrir að fjárhæðir launaliða í gjaldskrám sjálfstætt starfandi sérfræðinga yrðu óbreyttar til 10. apríl 1989 og sama skyldi gilda um hvers konar útselda vinnu og þjónustu.
    Til þess að koma til móts við almenning, til þess að treysta hag heimilanna í landinu, var gert ráð fyrir í þessum tillögum að söluskattur af matvælum skyldi lækka þann 1. okt. úr 25% í 10%. Til þess að vega á móti því tekjutapi sem ríkissjóður hefði þá orðið fyrir var hins vegar gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga skyldi hækka frá sama tíma úr 28,5% í 30,5% og að heildarskatthlutfall einstaklinga hækkaði þannig úr 35,2% í 37,2%.
    Því hefur verið haldið fram að í rauninni hefði almenningur ekki notið neins góðs af þessari skattalækkun vegna þess að þessir skattar væru niðurgreiddir að fullu og þess vegna mundi almenningur ekki sjá eyri í sínum vasa úr þessu dæmi. Þetta er alrangt og raunar furðulegt að þáv. hæstv. fjmrh. skyldi leyfa sér að halda slíku fram því að það er ljóst að það voru mjög margar vörutegundir sem hefðu lækkað og það var talið að áhrif til lækkunar framfærsluvísitölu vegna lækkunar söluskattsins yrðu 1,6%.
    Minnsta lækkunin var á kjöti og kjötvörum, um

2,5%, og mjólk, rjóma, ostum og eggjum um 0,4% vegna niðurgreiðslnanna. En þó var gert ráð fyrir að ýmsar landbúnaðarvörur eins og rjómi lækkaði um 9%, svínakjöt, egg, kjúklingar og nautakjöt um 3%, hrossakjöt um 12% og unnar kjötvörur um 3--4%. Þetta eru þær vörur sem minnst mundu hafa lækkað ef orðið hefði verið við þessum tillögum, en stórir vöruflokkar eins og grænmeti og ávextir hefðu lækkað um 12%, kartöflur og vörur úr þeim um 12%, sykur um 12%, kaffi, te, kakó og súkkulaði um 12%, aðrar matvörur, sem svo eru flokkaðar, um 12%, gosdrykkir og öl um 12%, mjöl, grjón, bakaðar vörur um 12% og fiskur og fiskvörur um 7,1%. Það er því alveg ljóst að sá áróður sem haldið hefur verið uppi, að þessar tillögur hefðu ekki komið heimilunum til góða, hefur verið alrangur og settur fram fyrst og fremst í blekkingarskyni.
    Af öðrum tillögum sem þá lágu fyrir skal minnt á að gert var ráð fyrir að samningsbundin og lögákveðin laun hækkuðu ekki til 10. apríl 1989 og sama skyldi gilda um búvöruverð. Það var gert ráð fyrir að almennt fiskverð skyldi framlengjast óbreytt til 10. apríl 1989.
    Þá var í þessum tillögum þáv. hæstv. forsrh. gert ráð fyrir verðjöfnun á frystum sjávarafurðum. Stjórn frystideildar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins átti að vera heimilt að taka innlent eða erlent lán með ríkisábyrgð að fjárhæð
allt að 440 millj. kr. og andvirði lánsins skyldi nota til greiðslu verðbóta vegna framleiðslu á freðfiski og hörpudiski á tímabilinu frá 1. júní sl. Sjóðsstjórn skyldi ákveða nánar hvernig að greiðslu verðbóta skyldi staðið, en taka skyldi sérstakt tillit til afkomu frystiiðnaðarins.
    Þrátt fyrir ákvæði laga um Verðjöfnunarsjóð frystiiðnaðarins var gert ráð fyrir að verja um 250 millj. kr. af innstæðu á reikningi vegna skelflettrar rækju í deild fyrir frystar afurðir í Verðjöfnunarsjóði frystiiðnaðarins til endurgreiðslu til þeirra rækjuframleiðenda sem gert hefur verið að greiða í sjóðinn á tímabilinu 1. febr. 1986 til 30. sept. 1988. Skyldi fjárhæðinni skipt milli framleiðenda í hlutfalli við það sem þeim hefur verið gert að greiða í sjóðinn vegna rækjuframleiðslu á framangreindu tímabili að frádregnum verðbótum sem til falla vegna framleiðslu þeirra á sama tímabili. Sjútvrh. skyldi setja reglugerð um tilhögun endurgreiðslu samkvæmt þessari grein.
    Þá var gert ráð fyrir að treysta eiginfjárstöðu fyrirtækja í þessum tillögum. Það var gert ráð fyrir að stofnaður yrði sjóður sem hefði að markmiði að treysta eiginfjárstöðu fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum og skyldi sjóðurinn vera sérstök deild í Byggðastofnun sem annaðist rekstur hans og hafa sérstaka stjórn. Stofnfé sjóðsins átti að verða 600 millj. kr. sem greiddist af lögbundnu framlagi ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs á árunum 1989--1990. Enn fremur skyldi sjóðnum aflað lánsheimildar allt að 400 millj. kr. á næstu tveim árum þannig að ráðstöfunarfé hans yrði 1 milljarður. Sjóðurinn skyldi lána til aukningar eigin fjár í

fyrirtækjum í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu þeirra og skyldi starfsemi hans einkum lúta að meiri háttar skipulagsbreytingum og samruna fyrirtækja.
    Gert var ráð fyrir að settar yrðu á fót atvinnumálanefndir í kjördæmum landsins sem skyldu vinna með sjóðsstjórn að verkefnum sjóðsins. Þá var veitt fyrirheit um það að ríkisstjórnin mundi undirbúa aðgerðir í skattamálum til að treysta eiginfjárstöðu atvinnufyrirtækja. Með ákvæðum í skattalögum yrði útflutningsfyrirtækjum gert kleift að jafna sveiflur með því að mynda eigin varasjóði til að mæta hugsanlegum áföllum. Með þessum aðgerðum var unnt að skjóta styrkari stoðum undir atvinnuvegina og dregið úr lánsfjárþörf fyrirtækja.
    Í þessum tillögum var einnig fjallað um lækkun vaxta og breytingu á lánskjaravísitölu. Á því var vakin athygli að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um verðstöðvun frá 27. ágúst hefði mjög dregið úr verðbólgu og gert fært að lækka vexti um 10--12% í byrjun septembermánaðar. Áframhald launastöðvunar til næsta vors ásamt ströngu verðlagsaðhaldi mundi gera kleift að lækka nafnvexti enn verulega á næstu mánuðum ef við tæki tímabil stöðugleika í verðlagi á næsta ári, þ.e. 1989. Þess vegna hafði ríkisstjórnin falið Seðlabankanum í samráði við viðskrn. að halda áfram viðræðum við lánastofnanir um lækkun vaxta og ef þær viðræður leiddu ekki til samkomulags um vaxtaþróun ítrekaði ríkisstjórnin samþykkt sína frá 26. ágúst sl. um beina íhlutun Seðlabankans um vaxtaákvarðanir innlánsstofnana til þess að viðunandi niðurstaða næðist. Samhliða lækkun nafnvaxta í samræmi við áframhaldandi hjöðnun verðbólgu mundi ríkisstjórnin vinna að því að meiri stöðugleiki í efnahagsmálum leiddi til lækkunar raunvaxta. Fjmrh. mundi beita sér fyrir lækkun vaxta á spariskírteinum og öðrum skuldabréfum ríkissjóðs í samningum við innlánsstofnanir og lífeyrissjóði.
    Ríkisstjórnin hafði falið Seðlabankanum að stuðla að hliðstæðum breytingum á öðrum sviðum lánamarkaðarins og vinna þannig að almennri lækkun raunvaxta. Jafnframt hafði ríkisstjórnin falið Seðlabankanum að breyta grundvelli lánskjaravísitölu þannig að vísitala launa hefði sama vægi og framfærsluvísitala og vísitala byggingarkostnaðar. Með þessu var talið að leitast yrði við að draga úr misgengi launa og lánskjara samhliða því sem sparifé yrði áfram varið til verðlagsbreytinga.
    Það var gert ráð fyrir að dráttarvextir skyldu framvegis reiknast sem dagvextir, en til þessa hafði verið heimilt að reikna fulla mánaðarvexti fyrir brot úr mánuði. Jafnframt skyldi Seðlabankinn reikna dráttarvexti eigi sjaldnar en mánaðarlega.
    Í þessum tillögum var gert ráð fyrir að gengi krónunnar yrði lækkað um 6%, en í þeirri tillögu fólst almenn aðgerð sem átti að koma ekki aðeins ákveðnum greinum sjávarútvegs til góða heldur sjávarútveginum í heild og öllum okkar útflutningsatvinnuvegum, þar á meðal okkar útflutningsiðnaði.

    Síðan var yfirlýsing um að ríkisstjórnin mundi í framhaldi efnahagsaðgerðanna taka ákvarðanir um fjárlög ársins 1989 og gert ráð fyrir að lánsfjárlög mundu einkennast af ströngu aðhaldi á erlendum lántökum og almennt stefnt að því að draga verulega saman erlendar lántökur á árinu 1989 en jafnframt að skapa heilbrigða umgjörð á þessu sviði með setningu almennra reglna.
    Þessar aðgerðir, sem þáv. hæstv. forsrh. lagði til, áttu að koma í veg fyrir stöðvun undirstöðuatvinnuveganna og tryggja með því atvinnuöryggi og
afkomu heimilanna. Það var gert ráð fyrir að komið yrði í veg fyrir víxlgengi verðlags og launa og grundvöllur lagður að frekari hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta. Með þessum aðgerðum var talið að sköpuð yrðu skilyrði til að mæta verðfalli á erlendum mörkuðum og samdrætti í afla mikilvægra fisktegunda. Jafnframt að lagður yrði grundvöllur að auknum stöðugleika og jafnvægi sem væri forsenda þess að þjóðarbúið glæddist nýjum þrótti og lífskjör almennings bötnuðu á nýjan leik.
    Ég hef rakið nokkuð ítarlega þessar tillögur þáv. hæstv. forsrh. til þess að sýna fram á að þetta voru einu raunhæfu tillögurnar sem lágu á borðinu þegar þáv. ríkisstjórn fór frá, en því miður náðist ekki samkomulag um þær og þessi ríkisstjórn var mynduð. Hún var mynduð til þess að grípa til aðgerða sem allra fyrst til þess að koma til móts við þarfir atvinnulífsins, en þær aðgerðir hafa ekki enn þá séð dagsins ljós. Við erum enn næstum í sömu sporum og þess vegna ítreka ég það sem ég sagði áðan að enginn vafi er á því að um margt væri öðruvísi umhorfs í íslensku efnahagslífi, í íslensku atvinnulífi, grundvöllur okkar atvinnuvega væri mun styrkari ef þessar tillögur hefðu náð fram að ganga. Hitt er svo annað mál, og það var tekið mjög skýrt fram þegar þáv. hæstv. forsrh. Þorsteinn Pálsson lagði þessar tillögur fram að þetta væru ekki neinar óskatillögur hans né Sjálfstfl., heldur væru þetta málamiðlunartillögur þar sem reynt væri að taka tillit til mismunandi sjónarmiða beggja samstarfsflokkanna, annars vegar Framsfl. sem greinilega vildi ganga lengra, ekki síst t.d. á vegi gengislækkunarinnar, en hins vegar Alþfl. sem vildi ganga mun skemmra.
    Hæstv. forsrh. rifjaði það upp í sinni frumræðu þegar hann mælti fyrir frv. að sú nefnd sem þáv. hæstv. forsrh. skipaði, nefnd fulltrúa úr atvinnulífinu, hefði gert það að tillögu sinni að farin yrði svokölluð niðurfærsluleið en um hana hefði ekki náðst pólitísk samstaða og það hefði orðið þessari ríkisstjórn að falli. Það er rétt að við nánari athugun var Sjálfstfl. ekki reiðubúinn til að fara niðurfærsluleiðina og menn hljóta að spyrja sjálfa sig að því hvernig standi á því. Niðurfærsluleiðin fól það í sér að laun yrðu lækkuð um 9% en síðan yrði verðlag lækkað um það sem lækkun launa leiddi af sér á næstu tveimur mánuðum þar á eftir.
    Það var okkar skoðun við nánari athugun að niðurfærsluleiðin væri gjörsamlega óframkvæmanleg.

Það lá ljóst fyrir að þessi leið mundi fela í sér mjög mikla mismunun. Það lá alveg ljóst fyrir að hluti launafólks mundi auðvitað þurfa að sæta því að laun þess yrðu skert um 9%, lækkun launa um 9%, og það var alveg ljóst að það fólk sem mundi verða fyrir skerðingu af því tagi væri lægst launaða fólkið, það væri fólkið í fiskvinnslunni, það væri lægst launaða verslunarfólkið, fólkið sem ynni hjá stórum fyrirtækjum sem aðallega greiddu bera launataxta en ekki yfirborganir af neinu tagi.
    Það var jafnframt ljóst að mörg fyrirtæki mundu ekki lækka launin sem þessu næmi. Þess vegna var það okkar mat að þegar þessi mismunun kæmi í ljós, þegar t.d. fjölmiðlar færu að spyrja launþega í fyrirtækjunum hvort þeirra laun hefðu verið lækkuð og þegar stúlkan á kassanum hjá Hagkaup segði já eða þegar fiskvinnslustúlkan hjá Granda segði já eða þegar fiskvinnslustúlkan hjá Útgerðarfélagi Akureyringa segði já og síðan yrði komið í önnur fyrirtæki, minni fyrirtæki, t.d. minni verslunarfyrirtæki, heildverslanir eða minni skrifstofur og spurt hvort laun hefðu verið lækkuð um 9% og svarið yrði nei, mundi slík mismunun, þegar hún uppgötvaðist meðal launþega, verða til þess að þessi leið mundi hrynja og við yrðum verr settir en áður. Slík leið hefði haft í för með sér sennilega eitt mesta stríð á vinnumarkaðinum sem við hefðum upplifað um langan tíma. Það var þessi mismunun sem gerði það að verkum að við treystum okkur ekki til að fallast á þessa leið.
    Það var líka ljóst að mikill misskilningur var úti í þjóðfélaginu um það hvað niðurfærsluleiðin raunverulega fæli í sér. Ef maður fór út á götu og spurði fólk hvað niðurfærsluleiðin fæli í sér fékk maður oftast það svar að hún fæli það í sér að laun og verðlag lækkaði. M.ö.o., fólk trúði því að lækka ætti verðlag um það sama og laun þess lækkuðu um. Því fór fjarri að svo væri í raun. Útreikningar sýndu að þegar laun áttu að lækka um 9%, þá strax, mundi verðlag lækka smám saman á næstu tveimur mánuðum um 2--3%. Ég hygg að fólk hefði ekki unað því þegar það hefði uppgötvað að sú trú sem menn stóðu í varðandi lækkun verðlags hefði á engan hátt staðist.
    Þess vegna var það okkar trú að þessi leið væri ekki fær, enda kom það reyndar í ljós þegar farið var að ræða þessa tillögur nánar innan ríkisstjórnarinnar að fulltrúar bæði Alþfl. og Framsfl. voru búnir að bæta við tillögu nefndar forsrh. tillögu þess efnis að verðlag ætti að lækka jafnmikið og launin sem auðvitað var óframkvæmanlegt. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að lækka t.d. innflutta vöru í verði alveg óháð því hvað varan kostar erlendis? Þess vegna var það okkar eindregin niðurstaða að niðurfærsluleiðin væri ófær, enda reyndist það svo að þrátt fyrir það að bæði Framsfl. og Alþfl. hefðu innan ríkisstjórnar og í áróðrinum úti í þjóðfélaginu sagt að þeir vildu fara niðurfærsluleiðina kom það í ljós að um leið og síðasta ríkisstjórn var
farin frá var ekki minnst á niðurfærsluleiðina meir og hæstv. núv. forsrh. sagði í viðtali stuttu seinna að það hefði verið afstaða Alþýðusambandsins sem hefði gert

það að verkum að ekki væri unnt að fara þá leið. Það kom reyndar í ljós að Alþýðusamband Íslands var mjög andvígt þessari leið og treysti sér ekki til þess að fara hana og lét reyndar uppi þær skoðanir að hart yrði barist gegn því að fara niðurfærsluleiðina ef hún yrði reynd. Þess vegna var þessi leið ekki farin. Mér þótti sérstök ástæða til þess að skýra það í nokkuð ítarlegu máli hér vegna þess að hæstv. forsrh. gerði niðurfærsluleiðina nokkuð að umtalsefni í sinni frumræðu fyrir nokkrum kvöldum þegar hann mælti fyrir frv.
    Eins og hæstv. forsrh. gat um þá, og ég hef fylgt hans ráðleggingum í þeim efnum, er ekki unnt auðvitað að ræða þetta mál öðruvísi en að ræða hin bráðabirgðalögin einnig frá því í september og þetta mál allt í heild. Þess vegna mun ég hér á eftir ræða nokkuð ítarlegar um hvor tveggja þessi bráðabirgðalög og þá stefnu eða stefnuleysi sem ríkjandi er hjá hæstv. ríkisstjórn varðandi þessi mál. Áður en ég geri það vil ég þó aðeins minnast á þá furðulegu uppákomu sem varð út af 4. gr. bráðabirgðalaganna sem hér eru til umræðu. 4. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Með þeim breytingum á kaupgjaldsákvæðum kjarasamninga sem kveðið er á um í lögum þessum framlengjast allir gildandi og síðast gildandi kjarasamningar til 10. apríl 1989.
    Verkbönn, verkföll, þar með taldar samúðarvinnustöðvanir, eða aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi mæla fyrir um eru óheimilar.``
    Nú gerðist það fyrir nokkrum kvöldum hér í Ed. í síðustu viku að hæstv. forsrh. kom öllum á óvænt og sagði að ríkisstjórnin hefið ákveðið að hverfa frá 2. mgr. 4. gr. og túlkaði það í sínu máli þannig að kjarasamningar yrðu allir lausir og nú mætti ganga til samningaviðræðna um nýja samninga. Þessu fögnuðu forsvarsmenn launþegasamtaka. T.d. fagnaði formaður BSRB þessu ákaflega í útvarpsviðtali þetta sama kvöld og Ásmundur Stefánsson gerði það einnig. Síðan mættu þeir í beinni útsendingu --- þær eru frægar þessar beinu útsendingar á Stöð 2 --- hæstv. forsrh. og Ásmundur Stefánsson, og það var sérkennilegt að horfa á þann hátt vegna þess að það kom í ljós að Ásmundur Stefánsson var sömu skoðunar og Ögmundur Jónasson í upphafi þáttarins, að með þessari yfirlýsingu forsrh. væri ríkisstjórnin að hverfa frá fyrri áætlunum og heimila kjarasamninga þannig að þeir væru allir lausir frá og með gildistöku þessara laga. Það var sérkennilegt að horfa á það renna upp fyrir Ásmundi Stefánssyni smám saman í sjónvarpinu að hann hafði misskilið forsrh. og reyndar var ekki alveg auðvelt að sjá hvort forsrh. sjálfur áttaði sig nákvæmlega á hvað hann ætti við, en smám saman rann það upp fyrir mönnum og kom í ljós að öll launþegahreyfingin hafði misskilið yfirlýsingu forsrh. og talið að nú væri unnt að ganga til kjarasamninga og öll 4. gr. skyldi þar með falla úr gildi.
    Borgfl. og Kvennalistinn höfðu flutt brtt. í Ed. þess efnis að öll 4. gr. félli úr gildi. Eftir þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh., sem greinilega var sett fram til þess að

láta menn halda annað en raun varð á, varð það niðurstaða í þingflokki okkar sjálfstæðismanna að við mundum fallast á þær tillögur sem Kvennalisti og Borgfl. höfðu flutt og við mundum greiða þeim atkvæði og þingmenn Sjálfstfl. gerðu það í Ed. Með því vildum við eyða þeirri óvissu sem upp var komin, auk þess sem þeim bráðabirgðalögum sem hér eru til umræðu hefur verið breytt það mikið af hæstv. ríkisstjórn að raunar eru forsendur þeirra að miklu leyti brostnar.
    Ýmis samtök hafa látið frá sér fara ályktanir og skoðanir um þær aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sem bráðabirgðalögin frá því í september kveða á um. Landssamband iðnaðarmanna hefur nú nýlega sent þingmönnum mjög ítarlega greinargerð um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fyrstu aðgerðir núv. ríkisstjórnar í efnahagsmálum, sem birtast m.a. í umræddum bráðabirgðalögum, eru annars vegar almennar aðgerðir, svo sem launastöðvun og vaxtalækkun, sem gagnast atvinnulífinu almennt og eru vissulega til þess fallnar að bæta stöðu atvinnulífsins frá því sem orðið hefði ef ekkert hefði verið aðhafst. Hins vegar hafa lögin í för með sér sértækar aðgerðir í þágu útflutningsgreina, einkum hraðfrystiiðnaðar.
    Rekstrarvandi sjávarútvegs og annarra útflutningsgreina er sannarlega mjög mikill og alvarlegur. Það eitt og sér réttlætir þó ekki að ítrekað séu gerðar efnahagsráðstafanir sem mismuna atvinnuvegunum og skekkja starfsgrundvöll þeirra. Iðnaður sem framleiðir fyrir innanlandsmarkað á einnig í verulegum rekstrarerfiðleikum og hefur á flestum sviðum verið að tapa markaðshlutdeild. Þessi staðreynd hefur alls ekki farið jafnhátt og erfiðleikar útflutningsgreina og mætir litlum skilningi hjá stjórnvöldum. E.t.v. er þó alvarlegast að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar geta ekki falið í sér lausn á vanda þeirra útvöldu atvinnugreina sem þeim er ætlað að hjálpa. Ástæðan er
sú að þær taka lítt á því sem er grundvallarvandinn, innlendur framleiðslukostnaður er orðinn allt of hár í hlutfalli við framleiðslukostnað í samkeppnislöndunum, þannig að almennur taprekstur og/eða samdráttur er í öllum greinum útflutnings- og samkeppnisgreina.
    Skuldbreytingar til þess að fjármagna tapið leysa ekki vandann til frambúðar og verðuppbætur úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins duga heldur ekki til og eiga raunar ekki heldur rétt á sér þar sem engin innstæða er fyrir þeim.
    Ójafnvægi innlends og erlends framleiðslukostnaðar hefur haft í för með sér innflutningsholskeflu, rýrnandi markaðshlutdeild og versnandi afkomu íslensks iðnaðar, aukinn viðskiptahalla og óhóflega ásókn í erlent lánsfé. Þessu ójafnvægi verður ekki mætt með því einu að rykkja niður verðbólgu um stundarsakir.
    Landssamband iðnaðarmanna telur m.ö.o. að efnahagsstefna núv. ríkisstjórnar eins og hún birtist í umræddum bráðabirgðalögum og öðrum ráðstöfunum fái ekki staðist til lengdar þótt sumar ráðstafanir

hennar gætu átt rétt á sér í einhverri mynd ef grundvallarstefnan væri önnur.
    Ekki verður hjá því komist að leiðrétta hlutföll innlends og erlends framleiðslukostnaðar, annaðhvort með verulegri gengislækkun eða með beinni niðurfærslu launa og verðlags. Í báðum tilvikum þyrfti jafnframt að gera víðtækar hliðarráðstafanir, ekki síst í ríkisfjármálum og peningamálum. Ef litið er á þær fjárhæðir sem um er að tefla í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bæta afkomu atvinnuveganna vegur stofnun Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina langþyngst þar sem gert er ráð fyrir að sjóðurinn hafi milligöngu um skuldbreytingu á allt að 5 millj. kr. af lausaskuldum útflutningsfyrirtækja. Landssamband iðnaðarmanna hefur því haft til skoðunar áform um starfsemi þessa sjóðs með hagsmuni iðnaðarins í huga. Í því sambandi telur Landssamband iðnaðarmanna að einkum þurfi að huga að eftirfarandi tveim atriðum:
    1. Verksvið sjóðsins. Samkvæmt bráðabirgðalögunum og reglugerð sjóðsins er honum eingöngu heimilt að lána eða hafa milligöngu um skuldbreytingu til fyrirtækja í útflutningsgreinum. Eins og kunnugt er hefur Landssamband iðnaðarmanna barist fyrir jöfnum starfsskilyrðum atvinnuveganna almennt og skilningi á því að engin haldbær rök eru fyrir því að mismuna atvinnuvegunum með því að gera sérstakar efnahagsráðstafanir í þágu útflutningsgreina einna, en skeyta litlu um þær atvinnugreinar sem eru gjaldeyrissparandi, þ.e. atvinnugreinar sem keppa við innflutta vöru og þjónustu. Þá hefur Landssambandið löngum bent á að skilgreining stjórnvalda á samkeppnisskilyrðum atvinnuveganna, ekki síst á hugtakinu ,,samkeppnisiðnaður``, hefur verið allt of þröng og ekki á rökum reist.
    Með nýrri tollskrá um sl. áramót varð þó einkum breyting til batnaðar á þessu sviði. Stofnun Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina yrði hins vegar afturför ef starfssvið sjóðsins verður jafnþröngt og ráðgert er. Í reynd hljóta einnig að vera veruleg vandkvæði á framkvæmd þess að binda starfsemi sjóðsins við útflutningsfyrirtækin ein þar sem það er oft talsvert matsatriði hvaða fyrirtæki geti talist útflutningsfyrirtæki. T.d. er hlutur útflutnings í heildarveltu margra iðnfyrirtækja talsvert breytilegur frá einum tíma til annars og e.t.v. ekki ávallt skýrt afmarkaður í bókhaldi þeirra. Sama á við um mörg fyrirtæki í sjávarútvegi. Landssamband iðnaðarmanna þekkir raunar dæmi þess að menn hafi fyrir löngu síðan verið farnir að búa sig undir mismunun af því tagi sem hér um ræðir og gera út á hinn nýja sjóð.
    Með vísan til þess sem að framan segir leggur Landssamband iðnaðarmanna til að starfssvið Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina verði víkkað þannig að það nái a.m.k. til alls samkeppnisiðnaðar auk útflutningsgreina.
    2. Gagnsemi sjóðsins fyrir kröfuhafa. Fyrr á þessu ári beitti þáv. ríkisstjórn sér fyrir skuldbreytingu lausaskulda atvinnufyrirtækja en upphaflegar tillögur um reglur við úthlutun heimilda voru iðnaðinum mjög

í óhag. Viðskiptaráðherra beitti sér þá fyrir að mál iðnfyrirtækja sem óskuðu eftir skuldbreytingu yrðu síðar tekin fyrir hvert og eitt þannig að þau yrðu ekki að mestu afskipt í þessum efnum. Þrátt fyrir þessa lagfæringu hafði skuldbreytingin þá, eins og oft áður, þann alvarlega ágalla að skuldbreytingin náði fyrst og fremst til krafna banka og lánastofnana. Kröfur iðnfyrirtækja sem selja fyrirtækjum í sjávarútvegi vöru og þjónustu urðu hins vegar algerlega út undan, en þessar kröfur nema verulegum fjárhæðum, sbr. meðfylgjandi upplýsingar úr könnun Landssambandsins.
    Í ljósi þess mikla vanda sem mjög háar útistandandi viðskiptakröfur hafa skapað hjá hlutaðeigandi iðnfyrirtæki er skiljanlegt að ýmis þeirra hafa litið vonaraugum til Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina. Að óbreyttum lögum virðist gagnsemi sjóðsins fyrir þessa aðila ætla að verða mun minni en í fyrstu mátti ætla.
    Að undanförnu hefur ýmsum þjónustufyrirtækjum sjávarútvegs verið boðin greiðsla með skuldabréfum sjóðsins. Hafa sum þeirra snúið sér til Landssambands iðnaðarmanna og bent á að erfitt muni verða að selja bréf þessi
á verðbréfamarkaði nema með verulegum afföllum. Skýringin er annars vegar sú að vextir bréfanna eru lágir miðað við markaðsvexti og hins vegar að þau eru ekki talin fyllilega tryggð þar sem talið er að þeim fylgi ekki ríkisábyrgð. Telja fyrirtækin að ef svo fer fram sem horfir sé verið að velta vanda útflutningsfyrirtækjanna yfir á þjónustufyrirtækin þar sem verið sé að bjóða upp á greiðslu á hluta skuldarinnar eða að þjónustufyrirtækin verði þvinguð til að lána í lengri tíma með því að eiga bréfin til gjalddaga í þeirri von að þau verði þá að fullu greidd. Slík þjónusta hlýtur fremur að teljast á sviði lánastofnana en iðnfyrirtækja.
    Að öllu samanlögðu telur Landssamband iðnaðarmanna því mjög óvíst að starfsemi sjóðsins muni, eins og hún er fyrirhuguð, geta komið að því gagni sem að er stefnt. Verði ekki gerð breyting á bráðabirgðalögunum í meðferð Alþingis, fela aðgerðirnar, þegar á heildina er litið, í sér verulega mismunun á milli atvinnugreina og röskun á starfs- og samkeppnisskilyrðum þeirra.``
    Hér lýkur lestri á þessari greinargerð frá Landssambandi iðnaðarmanna, en undir hana rita forseti Landssambands iðnaðarmanna, Haraldur Sumarliðason, og framkvæmdastjórinn, Þórleifur Jónsson.
    Landssamband iðnaðarmanna hefur látið fleira fara frá sér í sambandi við efnahagsstefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar. Í blaðinu Iðnaðurinn, 6. tbl. 1988, er gerð grein fyrir þessari stefnu og afstöðu Landssambands iðnaðarmanna til hennar í ritstjórnargrein þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Miklar sveiflur í fjármunamyndun og við verklegar framkvæmdir hafa lengi verið vandamál á Íslandi. Opinber hagstjórn hefur allt of oft magnað þessar sveiflur, bæði toppa og lægðir. Sú virðist

einnig ætla að verða raunin nú því nú, þegar fjárfestingar eru þegar farnar að dragast saman um allt atvinnulífið, hefur ríkisstjórnin á prjónunum ýmsar ráðstafanir í skatta- og ríkisfjármálum sem miða að enn frekari samdrætti í fjárfestingum.
    Í þessu sambandi er rétt að benda á að sú skoðun sem margir hafa haldið á lofti, að offjárfesting hafi verið ein helsta undirrót þenslunnar á undanförnum missirum, er ekki á rökum reist. Vissulega má benda á ýmsar óarðbærar fjárfestingar og þeim þarf að sjálfsögðu að fækka í framtíðinni. Staðreyndin er hins vegar sú að samkvæmt opinberum áætlunum verður hlutfall fjármunamyndunar af landsframleiðslu á þessu ári 17,7% og 17,2% á því næsta eða lægra en verið hefur áratugum saman. Sérstakar hagstjórnaraðgerðir til þess að draga enn úr fjármunamyndun gætu því naumast talist brýnar.
    Öðru máli gegnir um annan af þrem höfuðflokkum útgjalda þjóðarinnar, ríkisútgjöldin. Þar hefur þenslan verið óstöðvandi og sífelldar skattahækkanir alls ekki náð að minnka hallarekstur. Þróun ríkisfjármála er orðin óhugnanleg, skattkerfisbreytingin um sl. áramót, sem var skynsamleg í sjálfu sér, var ekki síst gerð undir því yfirskini að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Breytingin náði vissulega að skila ríkissjóði meiri tekjum. Þannig er t.d. talið að staðgreiðslukerfið eitt og sér muni skila ríkissjóði heilum milljarði kr. aukalega á þessu ári vegna bættrar innheimtu. Einnig hafa tekjur af söluskatti að sjálfsögðu stóraukist eftir að undanþágur á matvæli og þjónustu voru afnumdar. En auknar skatttekjur segja ekkert í hítina. Bilið milli tekna og útgjalda ríkissjóðs fer vaxandi þrátt fyrir það.
    Í ljósi þessarar reynslu hlýtur það að vera alvarlegt íhugunarefni hvort stefnan í ríkisfjármálum ætti ekki fyrst og fremst að miðast við það að draga úr sköttum, jafnvel þótt það leiddi til tímabundins hallareksturs á ríkissjóði. Það að hafa jöfnuð í ríkisbúskapnum fyrst og fremst að leiðarljósi, eins og margir síðustu fjármálaráðherrar hafa gert, getur leitt til þess að báknið vaxi í hið óendanlega ef jöfnuði er eingöngu náð með skattlagningu. Forráðamenn ríkisins hafa nú uppgötvað að góðærinu er að ljúka og virðast hafa einna mestar áhyggjur af því að dregið geti úr þeirri innflutningsholskeflu sem verið hefur og þá missi ríkissjóður eitthvað af tekjum sínum. Ekki stendur á viðbrögðunum. Þeir ætla sér að skattleggja kreppuna og jafna bilið með því. Hjá samkeppnisiðnaðinum lauk undangengnu góðæri í raun þegar fyrri ríkisstjórnir ákváðu að taka upp fastgengisstefnu án þess að hafa að öðru leyti efnahagsstefnu sem gerði hana mögulega. Þá hefði þurft að draga verulega úr útgjöldum ríkissjóðs en það var ekki gert. Það er kaldhæðnislegt að nú þegar ríkissjóður er loks farinn að finna fyrir samdrætti á að skattleggja kreppuna sem iðnaðurinn hefur búið við alllengi.
    Ekki skal hirt um að tíunda öll þau fjölmörgu nýju skattlagningaráform sem er að finna í fjárlagafrv., en eitt það versta er að ráðgert er að hækka vörugjald og leggja það á nýja vöruflokka, þar á meðal á vörur

sem framleiddar eru hér á landi. Virðist ekki duga til að fyrri ríkisstjórnum hefur ítrekað verið komið í skilning um að vörugjald er meingallað skattform fyrir iðnaðinn og skerðir samkeppnisstöðu hans gagnvart erlendum aðilum. Við þann samdrátt og erfiðleika sem nú blasa við í efnahagsmálum og einnig með tilliti til þeirrar gífurlegu kröfu sem fast gengi í verðbólgu gerir til atvinnulífsins um hagræðingu og framleiðniaukningu til að standast samkeppni er nauðsynlegra en ella að ríkisvaldið hvetji til og styðji við hagræðingu, vöruþróun og
markaðssókn í atvinnulífinu almennt en ekki aðeins í útflutningsgreinum. Fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar gengur því miður í öfuga átt.``
    Þetta er boðskapur sem alþingismönnum hefur verið sendur frá Landssambandi iðnaðarmanna en þingmenn hafa allir fengið þetta blað, Iðnaðurinn, sem landssambandið gefur út. En þetta var úr ritstjórnargrein þess blaðs.
    Við höfum líka fengið frá ýmsum öðrum aðilum boðskap sem er ekki ólíkur þessum. Þannig höfum við þingmenn fengið sent ritið Á döfinni sem gefið er út af Félagi ísl. iðnrekenda þar sem fjallað er um málefni íslensks iðnaðar og þar segir í ritstjórnargrein, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar fyrir árið 1989 eru boðaðar miklar skattahækkanir. Þar má nefna hækkun á tekjuskatti einstaklinga og félaga, hækkun á eignarskatti og hækkun á vörugjaldi, auk hækkunar á ýmsum öðrum sköttum. Fjárlagafrv. er í raun yfirlýsing um það að ekki verði dregið úr ríkisútgjöldum og halli á ríkissjóði verði því jafnaður með hækkun skatta. Þetta kemur reyndar ekki á óvart þar sem ríkisútgjöld hafa vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og áratugi. Þessi vöxtur ríkisútgjalda verður ekki stöðvaður með yfirlýsingum í fjárlagafrv., heldur aðeins með víðtækum breytingum á stærstu útgjaldakerfum ríkisins og skipulegu eftirliti með ríkisútgjöldum. Þetta kallar á lagasetningu og annan undirbúning sem ekki örlar á.
    Ef þessari þróun ríkisútgjalda verður ekki snúið við á næstunni þá stöndum við frammi fyrir ört vaxandi skattbyrði á næstu árum. Hækkun skatta lendir fyrst og fremst á atvinnurekstrinum, annaðhvort með beinum eða óbeinum hætti. Þetta á beint við um tekjuskatt félaga en einnig óbeint t.d. um vörugjald. Álagning vörugjalds veldur mismunun milli atvinnugreina og gengur þvert á þá stefnu að skattlagning eigi að vera almenn. Fyrirhugaðar skattahækkanir munu veikja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum á sama tíma og talað er um nauðsyn þess að laga íslenskt efnahagslíf að þeirri breytingu sem er að verða í Evrópu og reyndar víðar. Skattastefna ríkisstjórnarinnar gengur þvert á þetta.
    Ríkisstjórnin hefur einnig lagt fram þjóðhagsáætlun fyrir árið 1989. Þar kemur einungis fram sú stefna sem ríkisstjórnin markaði þegar hún var mynduð, en um þá stefnu ályktaði stjórn Félags íslenskra iðnrekenda m.a.:

    ,,Í tilefni af efnahagsaðgerðum nýrrar ríkisstjórnar [þ.e. þeim efnahagsaðgerðum sem birtast í þeim bráðabirgðalögum sem einnig eru hér á dagskrá þessa fundar] vill stjórn Félags íslenskra iðnrekenda ítreka fyrri mótmæli sín gegn hvers konar millifærslu og styrkjakerfi fyrir einstakar greinar útflutningsframleiðslunnar. Þessar aðgerðir mismuna atvinnugreinum en leysa engan vanda eins og reynslan frá fyrri árum ber glöggt vitni um. Þetta er einungis margreynd gengisfölsunarleið sem ávallt hefur magnað taprekstur í útflutnings- og samkeppnisgreinum samhliða auknum halla ríkissjóðs og miklum viðskiptahalla.
    Niðurstaða þjóðhagsspár fyrir næsta ár er sú að landsframleiðslan dragist saman um rúmlega 1 1 / 2 % í kjölfar svipaðs samdráttar á þessu ári. Þetta eru nánast sömu niðurstöður og settar voru fram í þjóðhagsspá Félags íslenskra iðnrekenda um mitt þetta ár. Nú bendir hins vegar allt til þess að samdráttur á næsta ári verði meiri. Afkoma útflutnings- og samkeppnisgreina verður mun lakari á þessu ári en vonir stóðu til eftir mitt ár, enda hefur nánast ekkert verið gert af opinberri hálfu til að bæta samkeppnisstöðu atvinnuveganna. Þar stefnir allt í óefni.
    Verkefni stjórnvalda á næstu dögum er í rauninni aðeins eitt: að bæta verulega samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs gagnvart erlendum keppinautum. Það verður ekki gert með millifærslukerfi og því síður með skuldbreytingum. Samkeppnisstaðan ræðst fyrst og fremst af raungengi krónunnar og það er einfaldlega allt of hátt um þessar mundir.``
    Hér lýkur tilvitnun í ritstjórnargrein blaðsins Á döfinni sem Félag íslenskra iðnrekenda gefur út.
    En fleiri aðilar láta í sér heyra og senda okkur þingmönnum sinn boðskap. Annað rit sem við þingmenn höfum fengið nú nýlega í hendur er ritið Af vettvangi sem er fréttablað Vinnuveitendasambands Íslands. Þar er ritstjórnargrein sem fjallar um þá efnahagsstefnu sem boðuð er í þeim frumvörpum sem við höfum hér til meðferðar og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Af opinberum umræðum síðustu daga mætti helst ráða að vandi efnahagslífsins felist í minnkandi innflutningi og minni veltu því þetta valdi halla á ríkissjóði. Við þessum vanda þurfi að bregðast með enn meiri skattahækkunum en áður var áformað því lækkandi gjaldstofn verði best meðhöndlaður með hærri hundraðshluta því ríkið þarf sitt og engar refjar.
    Í efnahagsyfirliti því sem birtist í þessu blaði og unnið er af hagdeild VSÍ kemur fram að verðmæti sjávarvöruframleiðslu mun dragast saman um tæp 3% á þessu ári og að líkindum um 6% til viðbótar á næsta ári. Þjóðartekjurnar minnka á þessu ári um 3--4% og 5% til viðbótar á næsta ári. Kaupmáttur hefur lækkað lítillega frá fyrra ári, en hefur þó hækkað um þriðjung á síðustu
fjórum árum.
    Neysla þjóðarinnar hefur aukist um fjórðung síðustu fjögur ár og nú er svo komið að atvinnulífið

riðar til falls. Fjöldi fyrirtækja hefur hætt starfsemi og önnur fækkað starfsmönnum og dregið úr vinnutíma. Útflutnings- og samkeppnisgreinar eru reknar með tapi og sumar með tímabundnum styrkjum og niðurstaða efnahagsstarfsemi ársins er rúmlega milljarðs skuld í útlöndum. Við þessar aðstæður hefur ríkisstjórnin lagt fram efnahagsboðskap fyrir næsta ár sem miðar að enn auknum útgjöldum ríkissjóðs, óskilgreindum skattahækkunum og óbreyttu gengi íslensku krónunnar. Þessu fylgja frekari lán og enn skal kreppt að peningalegum sparnaði landsmanna sem rétt hefur úr kútnum á þessum áratug eftir hrun á þeim síðasta. Þessi stefna byggir annars vegar á þeim harða skóla óheftrar markaðshyggju að sterkustu fyrirtækin muni lifa en hins vegar á þeirri kennisetningu að stjórnmálamenn séu best til þess færir að meta hvaða fyrirtækjum sé rétt að veita fyrirgreiðslu og tryggja líf. Markaðshyggjan grisji skóginn en miðstýringin planti út.
    Þessi stefna getur ekki leyst vanda íslensks efnahagslífs. Hún horfir fram hjá þeim veruleika að þjóðin öll hefur eytt meiru en aflað er. Hún hefur látið berast stjórnlítið á bylgjufaldi tímabundins góðæris sem steytt hefur á skeri. Undirstaðan er horfin. Því lengur sem menn neita að horfast í augu við þessa staðreynd, þeim mun dýpri verður öldudalurinn og örðugra um uppbyggingu á ný.
    Efnahagsvandi á borð við þann sem nú knýr dyra er ekkert nýtt. Valkostirnir eru jafnsvipaðir. Kjósa menn að varðveita kaupmátt velmektardaganna þýðir það í reynd ekkert annað en aukið atvinnuleysi. Færri skipta og kaupmáttur þeirra sem eru án vinnu reiknast ekki með. Þessari lausn hefur lengst af verið hafnað því að hún býður annars vegar heim ójafnari skiptingu byrðanna meðal þjóðfélagsþegnanna en ella væri og grefur auk þess heldur undan innlendri framleiðslu af öllu tagi.
    Hagdeild VSÍ áætlar t.d. að ef boðaðri stefnu ríkisstjórnar væri fylgt fram í öllum greinum, þá þýddi það a.m.k. 10% samdrátt innlendrar iðnaðarframleiðslu, mikla byggðaröskun og minni útflutningsframleiðslu. Landsframleiðslan mundi dragast verulega saman og atvinnuleysi yrði á síðari helmingi ársins allt að 6000 manns. Þessi stefna fær því ekki staðist. Ekkert getur komið í stað þess að viðurkenna orðinn hlut og horfast í augu við það að gengi íslensku krónunnar verður að færa á nýjan grundvöll. Því fylgja að sjálfsögðu erfiðleikar en hverfandi miðað við alla aðra skyndikosti þegar til lengri tíma er litið. Verðbólga eykst tímabundið og lán hækka, en lánin á ekki að greiða af einni ársveltu fyrirtækjanna heldur mörgum. Með þessum hætti einum er unnt að skapa nýjan rekstrargrundvöll og leggja grunn að jafnvægi í hagkerfi okkar og áframhaldandi uppbyggingu.
    Horfur í sjávarútvegi benda eindregið til þess að í hönd fari a.m.k. þriggja ára samdráttarskeið svo takmarka verði sókn í flesta nytjastofna frá því sem verið hefur. Því eru horfur á að lægð verði í eftirspurn eftir vinnuafli á næstu missirum samtímis

því að fátt teiknar til þess að grundvöllur verði að bæta enn kjör frá því sem þau verða á næsta ári.
    Í þessum aðstæðum felst jafnt takmörkun og tækifæri. Síðustu missiri hefur verið vandséð hvernig íslenskur vinnumarkaður gæti tekist á við stór verkefni á borð við frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Aðstæður eru nú aðrar og svo virðist að samstarfsaðilar séu nú fáanlegir til að ráðast í slíkar framkvæmdir. Því er mikilvægt að frekari uppbygging orkufreks iðnaðar verði ekki tafin eða torvelduð því að á næstu missirum virðist fátt annað geta bætt upp fyrirsjáanlegan samdrátt sjávarafla.
    Það er þörf á nýjum grundvelli, raunsæi og framkvæmdahug ef takast á að halda lífskjörum á Íslandi á við það sem best gerist með öðrum þjóðum til langrar framtíðar.``
    Þetta var það sem segir í Fréttablaði Vinnuveitendasambands Íslands Af vettvangi um þá efnahagsstefnu sem þessi hæstv. ríkisstjórn fylgir.
    Því má enn fremur bæta við að í fréttum í kvöld, bæði í sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum, í hljóðvarpi, var greint frá fundi sem Verslunarráð Íslands hélt í morgun þar sem ýmsir sérfræðingar héldu erindi um efnahagsstefnu núv. ríkisstjórnar, þ.e. einkum þann þátt sem snýr að ríkisfjármálunum, aukinni skattheimtu og hvernig útlitið væri fyrir atvinnuvegina í ljósi þessarar skattheimtu. Það virðist eftir fréttum að dæma, ég var því miður ekki á þessum fundi, hafa verið eindregin skoðun þeirra sem þar töluðu að sú mikla skattheimta, sem nú er boðuð, af atvinnurekstri í landinu geti ekki haft aðrar afleiðingar en þær að samdráttur verði hjá fyrirtækjum. Fyrirtæki verði annaðhvort að velta þessum auknu sköttum út í verðlagið, og þar með hækka verð, rýra kaupmátt og draga úr lífskjörum almennings, eða þá að draga úr launagreiðslum annaðhvort með uppsögnum starfsfólks eða að draga úr kaupgreiðslum á annan hátt, t.d. með minnkun yfirvinnu eða draga úr yfirborgunum. Það er því eiginlega sama hvar borið er niður varðandi þá efnahagsstefnu sem þessi hæstv. ríkisstjórn fylgir, hún mætir alls staðar andstöðu í þjóðfélaginu. Ekki er launþegahreyfingin hrifin af því sem er að
gerast nú á hv. Alþingi eins og glöggt hefur komið fram annars staðar.
    Því miður virðist þessi hæstv. ríkisstjórn ekki ætla að bera gæfu til að grípa á vandamálum íslensks efnahagslífs og íslensks atvinnulífs á þann hátt sem dugir til þess að koma því á réttan kjöl. Við þurfum umfram allt á því að halda að sem fyrst --- og það þolir enga bið frekar en það þoldi bið þegar þessi hæstv. ríkisstjórn var mynduð --- að grípa til almennra efnahagsaðgerða sem treysti grundvöll íslensks atvinnulífs og þau frumvörp sem við höfum verið með til umræðu og meðferðar á Alþingi nú og undanfarna daga eru síst til þess fallin.