Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Á þskj. 293 er prentað nál. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. Þar segir:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og kvaddi á sinn fund Ásmund Stefánsson, Örn Friðriksson og Láru V. Júlíusdóttur frá ASÍ, Þórarin Þórarinsson frá VSÍ og Vilhjálm Egilsson frá Verslunarráði Íslands.
    Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir á þskj. 246 með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali.``
    Síðan eru í örstuttu máli taldar upp meginbreytingarnar, þ.e. í fyrsta lagi er þremur mönnum bætt við í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs, við Byggðastofnun verður komið á fót hlutafjársjóði með sjálfstæðum fjárhag og sérstakri stjórn. Atvinnutryggingardeild verður stofnuð við Byggðastofnun og tekur hún við eignum og skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs á stofndegi og Atvinnutryggingarsjóði verða tryggð viðbótarframlög eftir mitt ár 1990 í hlutfalli við endurgreiðslur lána sem Atvinnutryggingarsjóður hefur veitt.
    Að þessu nál. standa Árni Gunnarsson, Guðmundur G. Þórarinsson, Ragnar Arnalds og Páll Pétursson.
    Ég mun, herra forseti, gera í örstuttu máli aðeins nánari grein fyrir þessum brtt. sem við flytjum á þskj. 294.
    Eins og mönnum er kunnugt eru nú fimm menn í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs, en við leggjum til að þar verði fjölgað þannig að sjóðsstjórnin sé skipuð átta mönnum og þessir þrír sem til viðbótar koma verði skipaðir að höfðu samráði við formenn þingflokka. Það er að ýmsu leyti mjög æskilegt að stjórnarandstaða komi að stjórn sjóðsins og eðlilegt til að eyða tortryggni og skapa ró um sjóðinn að svo sé. Ég treysti því að formenn þingflokka treysti sér til að taka þátt í vali þessara manna.
    Fjmrh., iðnrh., sjútvrh. og viðskrh. tilnefna hver um sig einn stjórnarmann. --- Þessi þingflokksfundur hjá sjálfstæðismönnum er að vísu nokkuð skemmtilegur, og ef þeir gætu leyst einhver vandamál sín á milli þá væri það vel þess virði að doka hér aðeins við. ( Gripið fram í: Þeir eru að leysa það.) Mér þykir vænt um að heyra að vandamálin eru leyst. --- En hér er lagt til að ríkissjóður ábyrgist að eftir 1. júlí 1990 renni til Atvinnuleysistryggingasjóðs auk reglulegra framlaga 1 / 10 hluti af endurgreiðslum lána sem Atvinnutryggingarsjóður hefur veitt þar til 600 millj. kr. er náð.
    Þá er hér nýmæli að lagt er til að við Byggðastofnun skuli starfa hlutafjársjóður. Hann skal afla fjár með sölu hlutdeildarskírteina og skal ríkissjóður tryggja verðbætt nafnvirði þeirra án vaxta fyrir allt að 600 millj. kr. Hlutafjársjóður Byggðastofnunar skal hafa sjálfstæðan fjárhag og lúta stjórn þriggja manna sem skipaðir eru af forsrh.
    Hlutafjársjóði Byggðastofnunar er heimilt að kaupa hlutabréf í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja og það er raunar verkefni þessa sjóðs. Ríkissjóður getur einnig selt hlutafjársjóðnum hlutafjáreign sína í fyrirtækjum ef

ástæða þykir til.
    Hlutabréf sem sjóðurinn kann að eignast skulu boðin til sölu eigi síðar en fjórum árum eftir að þau eru keypt og skal starfsfólk og aðrir eigendur fyrirtækis sem í hlut á njóta forkaupsréttar.
    Hlutadeildarskírteini í hlutafjársjóðnum skulu ætíð skráð á nafn og geta gengið kaupum og sölum. Hlutafjársjóðnum skal tilkynnt um eigendaskipti á hlutdeildarskírteinum. Hlutafjársjóðurinn skal gefa reglulega út gengi á hlutdeildarskírteinum.
    Ég hygg að með þessu sé brotið upp á merku nýmæli sem gæti reynst merkilegt og heilladrjúgt í atvinnulífi Íslendinga, sérstaklega þegar við erfiðleika er að etja.
    Þá er í 12. gr. lagt til að stofnuð verði hinn 1. jan. 1991 atvinnutryggingardeild við Byggðastofnun sem hafi það markmið að treysta fjárhagsstöðu fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu, meiri háttar skipulagsbreytingar, samruna fyrirtækja og annað það sem til hagræðingar horfir. Deildin skal hafa sjálfstæðan fjárhag og tekur hún á stofndegi við eignum og skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina og þá hættir að sjálfsögðu stjórn Atvinnutryggingarsjóðs störfum. Það er eðlilegt að ganga frá því með einhverjum hætti hver framvindan verði til lengri tíma. Atvinnutryggingarsjóður var hugsaður sem bráðabirgðaráðstöfun í vandræðaástandi og það er eðlilegt að gengið sé frá því með hverjum hætti málinu verði lokið.
    Ég mun ekki að svo komnu máli orðlengja þetta meira, herra forseti. Álit meiri hl. fjh.- og viðskn. deildarinnar er sem sagt það að það beri að samþykkja þetta frv. með þeim breytingum sem við leggjum til á þskj. 294.