Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Með samþykkt sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, var gerð sú veigamikla breyting á skipan sveitarstjórnarmála að sýslunefndir voru lagðar niður. Þessi breyting felur m.a. í sér að réttarstaða allra sveitarfélaga verður sú sama samkvæmt sveitarstjórnarlögunum, hvort sem þau nefnast kaupstaður, bær eða hreppur, en samkvæmt eldri sveitarstjórnarlögum er réttarstaða hreppanna frábrugðin stöðu kaupstaðanna að því leyti að sýslunefndum var m.a. ætlað að hafa umsjón með störfum hreppsnefnda.
    Í bráðabirgðaákvæði í sveitarstjórnarlögum var svo fyrir mælt að sýslunefndir skyldu kosnar á árinu 1986 og færu með umboð þar til sveitarstjórnir eða byggðasamlög gætu tekið við verkefnum þeirra, þó ekki lengur en til 31. des. 1988. Skv. 6. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, skulu lögbundin verkefni sýslunefnda falla til sveitarfélaga sem síðan skulu setja á stofn héraðsnefndir eða byggðasamlög til að annast framkvæmd þeirra að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er að hafa samvinnu um verkefnin.
    Fyrr á þessu ári skilaði áliti sínu nefnd sem falið var að gera tillögur að reglum um flutning verkefna og önnur skil af hálfu sýslufélaga til sveitarfélaga og héraðsnefnda. Í þessu áliti var einnig að finna tillögur nefndarinnar um breytingar á lögum og lagaákvæðum sem varða sýslufélög, sýslunefndir og sýslusjóði. Tillögur þessar fólu í sér breytingar til samræmis við ákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986. Þar sem lög þau sem lagt var til að breytt yrði heyra undir hin ýmsu ráðuneyti var sl. vor sent bréf til allra hlutaðeigandi ráðuneyta með ósk um að þau fjölluðu um fram komnar tillögur.
    Í stuttu máli má segja að í frv. sé gengið út frá því að hvarvetna verði settar á stofn héraðsnefndir í samræmi við ákvæði 6. gr. sveitarstjórnarlaga. Í mörgum tilvikum er þannig lagt til að héraðsnefndir eða byggðasamlög komi í stað sýslunefnda og héraðssjóður í stað sýslusjóðs, en á öðrum sviðum hefur þótt eðlilegra að sveitarstjórnir og sveitarsjóðir leystu sýslunefndir eða sýslusjóði af hólmi. Í örfáum tilvikum er þó gert ráð fyrir því að sýslumenn komi í stað sýslunefnda.
    Þá þykir rétt að vekja athygli á því að í frv. er einnig að finna tillögur um niðurfellingu ýmissa lagaákvæða sem talið er að ekki eigi lengur við með hliðsjón af breyttri skipan sveitarstjórnarmála. Sama á við um ýmis gömul lög og úrelt. Hér er því um að ræða talsverða lagahreinsun.
    Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.