Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu felur í sér að heimila að selja allt að 15% eignarhlut í íbúð til að tryggja afnotarétt af íbúð í félagslega íbúðalánakerfinu. Þetta er reyndar sams konar ákvæði og er í 38. gr. í almenna íbúðalánakerfinu.
    Það er eðlilegt að þetta ákvæði nái einnig til kaupleiguíbúða, en spurningin er hvers vegna ákvæðið er í raun ekki inni í húsnæðislögunum eins og þau eru. Þó að Kvennalistinn geti fallist á að þessi breyting á lögunum sé eðlileg nú teljum við eftir sem áður að það hefði verið betra að fresta afgreiðslu kaupleigufrv. sl. vor og taka fremur tíma til að endurskoða húsnæðislánakerfið og þar með félagslega íbúðalánakerfið samtímis. Í þeirri endurskoðun hefði einmitt mátt taka tillit til skipulags verkamannabústaðakerfisins, leiguíbúða, húsnæðissamvinnufélaga og fleiri aðila.
    Við afgreiðslu málsins í Nd. var fulltrúi Kvennalistans í hv. félmn. samþykk nál. nefndarinnar, en þó með fyrirvara og þá fyrst og fremst vegna þess að við teljum að það sé eðlilegt að sinna þessu í heild sinni en ekki að taka út einstaka þætti fyrir sig. Nógur er vandi húsnæðiskerfisins fyrir.
    Eins og menn muna e.t.v. gekk talsvert mikið á hér á sl. ári þegar hæstv. félmrh. mælti fyrir kaupleigufrv. sem var samþykkt um vorið þó margir hefðu efasemdir um ágæti þess að koma með nýtt kerfi við hlið annars. Það er ekki vegna þess að við í Kvennalistanum séum á móti því að auka valkosti í húsnæðislánakerfinu heldur miklu fremur að við teljum tæplega réttlætanlegt að koma á nýju kerfi þegar óvissan um framtíð byggingarlánasjóðanna er eins mikil og raun ber vitni og hefur reyndar verið um langan tíma. Biðtími eftir lánum mun nú vera a.m.k. þrjú ár, e.t.v. lengri, og ef ekkert verður að gert til að breyta þessu kerfi er eins víst að þessir sjóðir stefni í gjaldþrot, bæði Byggingarsjóður ríkisins og eins Byggingarsjóður verkamanna. Þess vegna hefði verið miklu eðlilegra og æskilegra að sú breyting, sem gerð var á húsnæðislöggjöfinni á sl. vori, hefði verið liður í heildarendurskoðun á húsnæðislánakerfinu og það er í raun það sem við teljum að sé nauðsynlegt að gera.
    Það er vafi á því að það gangi í raun upp að íbúðalánakerfið sé með þeim hætti sem það er nú, þ.e. mörg kerfi hlið við hlið bæði flókin og reyndar misréttlát. Þannig deilist féð sem rennur til húsnæðislánakerfisins í marga hluta og því hlýtur nýtt kerfi að takmarka fé til þeirra hluta kerfisins sem fyrir eru. Eins og allir vita hafa framlög til leiguíbúða verið allt of lítil undanfarin ár, en þörf á leiguíbúðum, bæði félagslegum og almennum, er veruleg bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og ekki síður úti á landi þar sem mikil neyð ríkir víða og tefur fyrir atvinnuuppbyggingu. Meiri hluti fólks er í raun á því máli að verulegt átak þurfi að gera til að auka framboð á leiguhúsnæði og það sem kannski flestir hafa mestar áhyggjur af, eins og komið hefur hér fram ítarlega í máli þeirra sem talað hafa á undan mér, er að menn óttast mjög um fjármögnun til þessa kerfis.

Það er vert að huga að því að sú mikla vinna, hin langa vinnuvika Íslendinga stafar ekki síst af því hversu erfitt hefur verið um vik fyrir vanalegt fólk að koma sér upp húsnæði, hvort heldur sem er leiguhúsnæði eða að byggja sér eigið húsnæði. Það má nánast líkja því við krossferð fyrir hverja fjölskyldu að ganga í gegnum slíkt, svo miklar eru fjárhagsáhyggjurnar og valda þar í raun ómældum félagslegum vanda vegna þess hvernig kerfið hefur verið sniðið. Það er því auðvitað löngu kominn tími til þess að taka afstöðu til heildarendurskoðunar og endurbóta á þessu kerfi. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. geti gert sitt til þess meðan hún situr í embætti sínu vegna þess að hún hefur, eins og áður kom fram, verið mikil áhugamanneskja og baráttumanneskja um þessi mál um langa hríð. En hún þarf auðvitað stuðning annarra í ríkisstjórninni og það þarf að vera vilji stjórnvalda allra að taka á þessu máli vegna þess hve angar málsins teygja sig víða út í þjóðlífið og hversu miklum vanda þau valda í raun venjulegum fjölskyldum í landinu.