Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Hér hafa orðið mjög góðar og gagnlegar umræður um húsnæðismál í tengslum við það frv. sem hér er til umræðu og vissulega hefði verið gott að hafa meiri tíma en nú gefst til að ræða um húsnæðismálin því að þau eru sá málaflokkur sem skiptir mjög miklu máli fyrir allar fjölskyldur í landinu. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið.
    Til mín hefur verið beint ákveðnum spurningum m.a. af hv. 2. þm. Norðurl. e. og hv. 14. þm. Reykv. Ég skal reyna að svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint.
    Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, sem að vísu er ekki staddur í deildinni, vildi fá almennt upplýsingar um stöðu í húsnæðiskerfinu og hvernig gengi með öflun fjár með tilliti til þarfar og húsnæðislaga sem við búum við og m.a. hvernig lífeyrissjóðirnir hefðu staðið í skilum.
    Það er ljóst og allir þingmenn þekkja það að það húsnæðiskerfi sem við búum við kallar á mjög mikið fjármagn, ekki einasta fjármagn frá lífeyrissjóðunum heldur einnig mikið ríkisframlag ef kerfið á að ganga upp. Frá því að þessu húsnæðiskerfi var komið á hafa borist tæplega 16 þús. umsóknir og um 8 þús. lánsloforð hafa verið send út. Til að fjármagna þær 8 þús. umsóknir sem nú bíða afgreiðslu þarf um 23 milljarða kr., þ.e. þessar 8 þús. óafgreiddu umsóknir kosta um 23 milljarða kr., og það segir okkur sína sögu um fjárþörf húsnæðiskerfisins. Meðalbiðtími er mjög langur. Hann verður væntanlega á næsta ári um 34 mánuðir og ef ekkert er að gert má gera ráð fyrir að hann styttist ekki fyrr en árið 1994 að öllu óbreyttu.
    Hv. þm. Halldór Blöndal beindi til mín þeirri spurningu hvað þyrfti að gera til að ná biðtímanum niður, hann nefndi t.a.m. í eitt ár eftir þrjú ár. Því er til að svara að nefnd sem starfað hefur að því að móta tillögur um endurskipulagningu húsnæðislánakerfisins hefur skilað sínu áliti. Þar kemur fram í áliti minni hluta nefndarinnar að til að stytta biðtímann niður í 24 mánuði á næsta ári og niður í eitt ár á næstu þremur árum þarf bæði að koma til veruleg breyting á útlánareglum húsnæðislánakerfisins þar sem yrðu skert lán bæði til einstaklinga og til þeirra sem eiga íbúð fyrir og það er einnig miðað við þennan biðtíma að endurgreiðsla lána verði tekjutengd og það komi til aukagreiðsla sem nemi 3,5% af tekjum umfram skattleysismörk sem þýðir raunverulega styttingu á lánstímanum. Til þess að ná biðtímanum niður um þetta þarf að koma verulega aukið fjármagn, ríkisframlag, inn í Byggingarsjóð ríkisins. Þar kemur fram að til að ná biðtímanum niður, þ.e. í 24 mánuði á næsta ári og eitt ár á næstu þremur árum, telur minni hluti nefndarinnar að framlag ríkissjóðs á næsta ári þurfi að vera um 2 milljarðar og að 2 milljarða vanti upp á framlög ríkissjóðs fyrir árið 1987 og 1988. Ef það skili sér ásamt því að framlag ríkissjóðs yrði um 2 milljarðar á næsta ári og hér eftir telja þeir að það sé

hægt að ná niður biðtímanum um það sem ég nefndi.
    Það er ljóst að þegar verið er að huga að húsnæðislöggjöfinni þurfa menn að gera upp við sig hvort við treystum okkur til að láta það ríkisframlag inn í húsnæðislánakerfið sem til þarf eða hvort við viljum gera einhverjar breytingar á því. Það er deginum ljósara og hefur komið fram í máli þeirra sem hér hafa talað í dag, og ég tek undir, að það er óviðunandi að búa við það ástand sem nú er í húsnæðislánakerfinu, að fólki sé boðið upp á það að þurfa að bíða í tvö og hálft til þrjú ár eftir að fá lán úr húsnæðislánakerfinu. Ég er því alveg sammála. En hitt er líka ljóst að ég hef ekki orðið vör við það þann tíma sem ég hef setið í stól félmrh. að þeir flokkar sem hafa átt aðild að þeim ríkisstjórnum, m.a. Sjálfstfl., séu tilbúnir að láta í húsnæðislánakerfið það fjármagn sem til þarf til að stytta biðtímann.
    Ég minni á að þegar Sjálfstfl. átti sæti í ríkisstjórn var verulega skert ríkisframlagið og það var líka verið að skerða ríkisframlagið í byggingarsjóðina eftir að fjárlög voru samþykkt í tengslum við efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar þannig að þessir flokkar virðast ekki tilbúnir að láta það fjármagn sem til þarf í húsnæðislánakerfið og ríkissjóður raunverulega ekki geta staðið undir því.
    Hv. þm. Halldór Blöndal spurði hvort ég hefði eitthvað meint með því á sínum tíma þegar ég sagði að húsnæðiskerfið, eins og hann orðaði það, ,,væri sprungið``. Ég varaði við því fyrir þó nokkuð löngu hvert stefndi í húsnæðislánakerfinu ef ekki yrðu gerðar breytingar á. Ég hygg að það hafi allt komið á daginn. Það var eins og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði áðan. Þó að vilji væri fyrir hendi t.a.m. hjá húsnæðismálaráðherra til að breyta húsnæðislánakerfinu þarf auðvitað fleira að koma til. Það þarf að nást samstaða á Alþingi um breytingar, samstaða á milli stjórnarflokka um nauðsynlegar breytingar á húsnæðislánakerfinu.
    Að því er verið að vinna þessa dagana að reyna að ná áfram samstöðu um breytingar á húsnæðislánakerfinu. Ég tel að þessari ríkisstjórn sé ekki stætt á því að ná ekki fram nauðsynlegri endurskipulagningu á húsnæðislánakerfinu á yfirstandandi þingi. Það er líka óviðunandi fyrir mig sem húsnæðismálaráðherra ef ekki nást fram verulegar breytingar og endurskipulagning á
húsnæðislánakerfinu á þessu þingi og það er óviðunandi fyrir fólkið sem er í löngum biðröðum að bíða eftir láni.
    Ég hygg að þær tillögur sem nú liggja á borðinu og eru til skoðunar muni geta haft veruleg áhrif í þá átt að stytta þessa margumtöluðu biðröð og stuðla að því að gera húsnæðislánakerfið svo fjárhagslega öflugt að það geti með eðlilegum hætti veitt lán og lánafyrirgreiðslu til fólksins eins og með þarf.
    Spurt var um hvort lífeyrissjóðirnir hafi staðið í skilum. Það verður að segjast eins og er að það hefur verið mjög erfitt að fá fullnægjandi upplýsingar frá lífeyrissjóðunum, en ég vænti að það geti orðið þar breytingar á vegna þess að í samkomulagi sem nú

hefur verið gert við lífeyrissjóðina um fyrirkomulag á skuldabréfakaupum lífeyrissjóða hefur náðst samstaða um ákveðnar aðferðir, sem lífeyrissjóðirnir hafa gengist undir, um skil á skýrslum um ráðstöfunarfé og greiðsluflæði í lífeyrissjóðunum þannig að hægt sé að fylgjast reglubundið með því á hverjum tíma að lífeyrissjóðirnir standi við tilskilin kaup þannig að þeirra félagar hafi fullan rétt í lífeyrissjóðunum. Það ber að viðurkenna að á þetta hefur skort, en með því samkomulagi sem nú hefur verið gert um fyrirkomulag á skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna vænti ég þess að á því geti orðið breyting.
    Ég skal ekki tefja mjög þessa umræðu. Ég vil þó koma inn á það sem hv. þm. Halldór Blöndal vék að er hann taldi að það þyrfti að vera fyrir hendi ákvæði í félagslega húsnæðiskerfinu sem væri í þá veru að hægt væri að leiðrétta lánskjör ef tekjur breytast. Ég hygg að það hafi farið fram hjá hv. þm. að slíkt ákvæði er fyrir hendi í löggjöfinni um félagslegar kaupleiguíbúðir þannig að ef tekjur kaupanda að félagslegri kaupleiguíbúð breytast er heimild fyrir hendi til að breyta vaxtakjörum og það er ákvæði um reglulega endurskoðun á því fyrirkomulagi. Ég vænti þess að hv. þm. fagni því þá að þetta ákvæði er fyrir hendi í húsnæðislöggjöfinni, þ.e. í félagslega kerfinu, bæði að því er varðar félagslegar kaupleiguíbúðir og almennar kaupleiguíbúðir, sem er heimild til endurskoðunar á vaxtakjörum.
    Að því er varðar félagslegar íbúðir hér á landi er ljóst að það þarf að gera verulegt átak í því efni vegna þess að það er margt fólk sem ekki getur staðið undir þeirri greiðslubyrði sem því fylgir að kaupa íbúðir í gegnum almenna húsnæðislánakerfið. Ég bendi á í því sambandi, sem er nokkuð athyglisvert, að af um 87 þúsund íbúðum á landinu eru ekki nema liðlega 5 þúsund félagslegar íbúðir eða tæp 6% af heildinni og það hlýtur að segja sína sögu.
    Ég hygg að ég hafi svarað flestu af því sem fram hefur komið. Varðandi greiðsluerfiðleikalánin sem hv. þm. spurði um líka, þá er alveg ljóst að þar er veruleg þörf fyrir hendi. Bara til þess að sinna 300 umsóknum sem liggja fyrir hjá Húsnæðisstofnun frá fjölskyldum sem eru í miklum greiðsluvanda og líklegt að stór hluti þeirra verði gjaldþrota ef ekki kemur til fjármagn í greiðsluerfiðleikalán, fara um 150 millj. kr. Forstöðumaður ráðgjafarstöðvarinnar telur að það þurfi að gera ráð fyrir því að um 2000 fjölskyldur leiti aðstoðar vegna greiðsluerfiðleika á árinu 1989 að öllu óbreyttu og miðað við útlánareglurnar nú, sem mjög hafa verið þrengdar og tengjast bæði tekjum og eignum viðkomandi, megi gera ráð fyrir að um 500 umsóknum þurfi til viðbótar þessu að sinna á næsta ári og til þess þurfum við 250 millj. kr. Um þetta mál hefur verið fjallað í ríkisstjórninni og þremur ráðherrum verið falið að skoða hvernig hægt er að koma til móts við þennan vanda.
    Ég tel að það verði að stuðla að því að bankarnir komi miklu meira inn í þessa mynd en verið hefur, bæði með breyttum vinnubrögðum og eins hitt að verulegur hluti af því fjármagni sem t.d. á þessu ári

fór í greiðsluerfiðleikalán rann aftur í bankakerfið vegna þess að þær fjárhæðir voru notaðar til að gera upp vanskil við bankana. Þarna var um að ræða 150 millj. kr. Ég tel að það verði að skoða það af fullri alvöru að bankarnir kaupi skuldabréf af Húsnæðisstofnun ríkisins, t.a.m. sem nemur þeirri upphæð sem ég nefndi, sem verulega gæti leyst þá þörf sem fyrir hendi er á næsta ári að því er þennan þátt í húsnæðismálunum varðar.
    Herra forseti. Ég skal ekki hafa lengra mál að sinni nema tilefni gefist til. Ég vænti þess að samstaða geti orðið um það í þessari hv. deild að greiða götu frv. og að það geti orðið að lögum fyrir jólaleyfi þingmanna.