Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegur forseti. Því miður gat ég ekki af óviðráðanlegum ástæðum verið í deildinni þegar hæstv. ráðherra hóf mál sitt og svaraði spurningum, en ég hefði gjarnan viljað fá að leggja spurningu fyrir hæstv. ráðherra sem lýtur að samningum Húsnæðisstofnunar við lífeyrissjóðina vegna næsta árs. Eins og hv. þm. vita er það venjan að lífeyrissjóðirnir semja við húsnæðiskerfið fyrir eitt ár í senn um hvað þeir hyggjast kaupa fyrir mikið og jafnframt því er samið um vaxtakjör og önnur lánskjör. Nú hafa staðið yfir undanfarnar vikur viðræður, veit ég, á milli lífeyrissjóðanna og hins opinbera um þetta atriði. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort búið sé að semja við lífeyrissjóðina og ef svo sé hvað um hafi verið samið, hver vaxtakjörin séu eða lánskjör almennt.
    Það er mjög þýðingarmikið að það komi fram, ekki endilega í sambandi við afgreiðslu þessa frv. heldur er þýðingarmikið að það komi fram í sambandi við afgreiðslu mála almennt á þinginu, hvernig þetta stendur. Það er mjög þýðingarmikið að við getum gert okkur grein fyrir hver er hugsanleg stefna hæstv. ríkisstjórnar í sambandi við vaxtakjör á lánum almennt og einnig er það að sjálfsögðu þýðingarmikið hvort núv. ríkisstjórn viðurkennir lánskjaravísitöluna, en eins og við vitum hafa verið miklar deilur um það og m.a. hefur hæstv. forsrh. margsinnis sagt á þessu ári að það eigi að leggja niður lánskjaravísitöluna. Þetta hefur geysimikla þýðingu bæði fyrir þá samninga sem hafa verið undanfarið milli aðila og ekki síður fyrir lífeyrissjóðina sem þurfa að gera það upp við sig hvernig þeir ætli að haga sínum kaupum.
    Að öðru leyti skal ég ekki lengja þessa umræðu, en ég vil þó láta það koma fram, sem ég hef oft gert áður, að ég er þeirrar skoðunar að þetta bákn, eins og Húsnæðisstofnunin er orðin, sé allsendis ófullnægjandi í því formi sem hún er. Ég minnist þess að í umræðum hér fyrr um Húsnæðisstofnun og íbúðamál almennt hef ég lagt áherslu á að ég teldi að það ætti að þróa alla þessa lánastarfsemi vegna húsnæðismála þjóðarinnar þannig að bankarnir komi meira inn í þá mynd sem og sjóðir og aðrir sem eiga fé aflögu þannig að húsbyggjendur og verktakar geti snúið sér í æ ríkari mæli til bankanna og bankakerfisins í sambandi við lausn þessa máls. Ég er sannfærður um að ef þetta verður flutt meira frá Húsnæðisstofnun yfir í bankakerfið muni þær biðraðir ekki vera sem nú eru því miður vegna lánafyrirgreiðslu í sambandi við íbúðabyggingar og yfirleitt í húsnæðismálunum. Það er ekki nokkur vafi á því að með því að færa þetta yfir í bankakerfið, eins og mér skildist að hæstv. ráðherra væri sjálfur inn á að þyrfti að þróa í ríkari mæli, mundi það leysa mikinn vanda.
    Ég vil svo einnig segja að lokum að auðvitað verðum við að haga okkur þannig í sambandi við húsnæðismálin að þess sé jafnan gætt að fyrir hendi sé nægilega mikið af félagslegum íbúðum til að fullnægja þörf láglaunafólks og annarra sem geta ekki með auðveldum hætti eignast íbúðir. Það er stefna

Sjálfstfl. að sjálfsögðu og hefur alltaf verið. Vísa ég til þess að Reykjavíkurborg undir forustu Sjálfstfl. hefur staðið myndarlega að þessum málum, sem viðurkennt er og til mikils sóma, en að sjálfsögðu leggjum við áherslu á sem meginstefnu sjálfseignarstefnuna. Það er grundvallaratriði. Því miður hlýtur maður að hafa miklar áhyggjur af því að núv. ríkisstjórn ætli að brjóta niður þá stefnu að menn geti átt sínar íbúðir og húseignir sjálfir. Það er sama stefna og snýr að atvinnulífinu. En hvað sem því líður vil ég láta það koma fram að Sjálfstfl. styður það eindregið og einlæglega að byggt sé á félagslegum grundvelli, eins og einnig hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra.
    Mér þætti vænt um það ef hæstv. ráðherra gæti svarað þeirri spurningu hvort samningar hafi tekist við lífeyrissjóðina og þá á hvaða grundvelli.