Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hæstv. félmrh. þau svör sem hann gaf áðan. Það vakti athygli að hann vék ekki einu einasta orði að hinni nýju lánskjaravísitölu, sem forsrh. hefur svo mjög prísað, sem verður eins og ég sagði áðan þannig byggð upp að það á taka til baka ef kjarabætur verða í landinu hluta þeirra hjá þeim sem skulda hjá byggingarsjóðunum þannig að launþegar geti ekki til fullnustu notið þeirrar kaupmáttaraukningar sem þeir ella mundu njóta því auðvitað getur maður ekki spáð því að þjóðfélagsþróun verði með þeim hætti að áfram horfi niður á við, en eins og þingmenn vita hefur hagvöxtur dregist saman á þessu ári og eins og horfir á því næsta. Eins og stefna ríkisstjórnarinnar er er öldungis ljóst að ekki glæðast vonir manna til þess að þeir hafi meira úr að spila. Við sjáum fyrir okkur hringinn í kringum landið hvernig fjarað hefur undan fyrirtækjunum og ég veit ekki betur en þess hafi víða orðið vart líka í höfuðborginni að fólkið hefur ekki sama atvinnuöryggið. Þessa hefur m.a. orðið vart í daglegri neyslu manna. Við sjáum það ef við skoðum innflutningsskýrslur að þá hefur innflutningur minnkað mjög verulega á venjulegum neysluvörum og það má sjá líka á versnandi fjárhag ríkissjóðs hvernig söluskattstekjur hafa orðið minni en búist hafði verið við. Og kaupmenn hafa þá sömu sögu að segja. Kaupmátturinn er allur annar og miklu minni en áður. Auðvitað eru engin teikn á lofti önnur en þau að sú öfugþróun haldi áfram.
    Það er þess vegna alveg morgunljóst að það mun hefna sín síðar á þeim sem lán þyrftu að taka í húsnæðiskerfinu á næsta ári ef þeir verða skyldugir til þess að lánin verði tryggð með lánskjaravísitölu forsrh. Ég vil þess vegna ítreka þá fyrirspurn sem ég var með áðan til hæstv. félmrh. um hvort hann geti fellt sig við þessar hugmyndir og hvort hann telji það fyrirkomulag betra fyrir lántakendur að skuldbindingar þeirra séu tryggðar eins og verið hefur með lánskjaravísitölunni eins og hún er núna eða hvort hæstv. húsnæðisráðherra telur að lántakendur fari betur út úr hinni nýju vísitölu.
    Svarið er líka vísbending um hvernig ráðherrann sér framtíðina fyrir sér. Ef ráðherrann sér framtíðina þannig fyrir sér að kjörin haldi áfram að skerðast og ef ráðherrann á ekki von á því að kaupmáttur geti aftur vaxið hér á landi hlýtur svar hans auðvitað að vera að hann fallist á hugmyndir forsrh. Ef hins vegar ráðherrann gerir sér vonir um að kaupmáttur geti batnað á nýjan leik, að launakjörin eða að laun manna í krónum talið vaxi meir en kostnaður við að halda uppi fjölskyldum og meir en byggingarkostnaður, er það líka alveg ljóst að það borgar sig að halda gömlu vísitölunni.
    Ég hygg þess vegna að það sé mjög lærdómsríkt og upplýsandi fyrir þingdeildina að fá svör húsnæðisráðherra við einmitt þessari spurningu. Ég sætti mig ekki við það að húsnæðisráðherra, eins mikill baráttumaður og hann er, láti kyrrt liggja ef hann hefur sannfæringu fyrir því að gengið sé á rétt

þeirra sem minnst mega sín, eins og er t.d. um þá sem eru í hinu félagslega íbúðakerfi, ef það á nú að knýja þá til þess að borga sérstakan aukaskatt til Byggingarsjóðs verkamanna ef aðeins tekst að bæta hlut þeirra borið saman við aðra í landinu. Ég held að þessi nýja lánskjaravísitala sé mjög vanhugsuð og geti undir engum kringumstæðum verið viðunandi fyrir launafólk.
    Ég minni á að lögin eru mjög afdráttarlaus um það hvaða rétt lántakendur hafa og ég minni á að þessi afdráttarlausi réttur, sem lántakendum er gefinn til vissrar lánsfyrirgreiðslu í lögunum, byggir á þeim rökum að nær allir í landinu eru launþegar, nær allir í landinu greiða til lífeyrissjóðanna og höfðu áður en húsnæðislöggjöfin var sett vorið 1986 verulegan rétt til sérstakrar lánsfyrirgreiðslu úr lífeyrissjóðakerfinu, einkum og sér í lagi þó ef um hjón var að ræða sem bæði höfðu áunnið sér fullan rétt. Við munum að á þeim tíma fór því víðs fjarri að lífeyrissjóðslánin væru greidd út síðar en húsnæðislánin. Þvert á móti var útgreiðsla þeirra venjulega mun fyrr á ferðinni sem gerði mörgum kleift að stíga það stóra skref sem það vissulega var að eignast þak yfir höfuðið.
    Ég get vel rifjað það upp að ég var á þeim tíma efins um að við ættum að hafa skrefið jafnstórt og það var á árinu 1986 og benti á að í þeirri miklu verðbólgu sem verið hafði og geisað hafði þá á annan áratug hafði fyrirgreiðsla Húsnæðisstofnunar raunverulega verið mun minni en hún sýndist á pappírnum. Þannig man ég það örugglega rétt að meðan núv. hæstv. menntmrh. var ráðherra húsnæðismála var svo komið að lán til byggingar á íbúð var að raungildi eitthvað í kringum 10% af byggingarkostnaði, en með skrefinu sem stigið var gat það farið upp í 70% ef um íbúð af hóflegri stærð var að ræða.
    Það má vel vera að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að nauðsynlegt sé að skerða mjög rétt ýmissa til húsnæðislána til þess að hægt sé að stytta biðlistann niður í eitt ár á næstu þrem árum. Það er alveg ljóst að ef skorið er aftan af biðlistanum með stjórnvaldsaðgerðum minnkar biðröðin. Ef það fé sem viðkomandi eiga að fá verður mun minna nægir minna til að uppfylla óskirnar og vonirnar. En ég vil líka minna á hitt, að þær greiðslur sem mest munar um eru ekki til þess fólks sem á íbúð fyrir og þarf að stækka við sig.
Ég gæti trúað að fyrirgreiðsla til þess fólks nú sé í kringum 1,5 millj. kr. Það væri fróðlegt að rifja upp hversu mikið fé þetta sama fólk gat fengið á árinu 1986 frá lífeyrissjóðunum og athuga um hversu mikið fé væri að ræða ef það væri fært upp til núgildandi verðlags. (Gripið fram í.) --- Já, hv. þm. segir að það yrðu 2 til 2,3 millj. þannig að við erum þá í raun og veru að tala um minni fyrirgreiðslu nú í krónum talið til þessa fólks en það gat fengið á þeim tíma úr lífeyrissjóðunum ef það hafði fullan lánsrétt.
    Þess vegna stöndum við enn á ný frammi fyrir þessari spurningu: Ef húsnæðiskerfi, ef ráðamenn, stjórnvöld ætlast til þess að lífeyrissjóðirnir geti varið

jafnmiklum hluta af ráðstöfunartekjum og þeir gera nú til húsnæðiskerfisins hlýtur sú krafa að koma á móti að ekki sé gengið á það grundvallarsjónarmið lífeyrissjóðanna að allir sem þar eru hafi nokkuð sama rétt með hliðsjón af því hversu lengi þeir hafa greitt í viðkomandi sjóð. Þetta húsnæðiskerfi í heild, þó því sé breytt, er þess vegna mjög brothætt og má búast við því að ef knúðar eru fram breytingar á kerfinu í grundvallaratriðum muni fara fyrir því eins og stundum gerist um stjórnmálaflokka, að þegar einn steinninn losnar molna þeir niður.
    Það er þess vegna að minni hyggju miklu þýðingarmeira en maður gæti haldið í fljótu bragði að allar breytingar sem gerðar eru á lánsreglum Byggingarsjóðs ríkisins séu í fullu samráði og samstöðu við verkalýðshreyfingu og vinnuveitendur, í fullu samráði og í fullum friði við þá sem ráða yfir lífeyrissjóðunum. Verkalýðshreyfingin er þannig byggð upp að þeir sem stjórna henni eru trúnaðarmenn hinna einstöku félagsmanna og ef þeim mislíkar við forustuna verður hún að sæta sömu ábyrgð og alþm. ef þeir stjórna þannig að þeim fellur ekki við þá þannig að þeir eru undir mikilli pressu og þeir hljóta augsýnilega að haga sér þannig að það skapi a.m.k. viðunandi frið í viðkomandi stéttarfélögum.
    Ég vil eins og ég gerði áðan leggja ríka áherslu á að einhver lágmarksfyrirgreiðsla úr Byggingarsjóði ríkisins meðan við höldum honum verður að vera fyrir hendi til þess að menn reyni að bjarga sér sjálfir, til þess að menn ráðist í kaup á íbúðum eða í byggingu húsa án þess að þeir falli undir hina sérstöku gæðaflokka, forgangshópa, sem við köllum kaupleigukerfið og við hljótum að kalla félagsmálakerfið í heild sinni. Ráðherrann komst svo að orði að það þyrftu 2 milljarðar til að koma á næsta ári til viðbótar öðrum tveim sem húsnæðiskerfið hefði þurft að fá á þessu ári og sl. ári til þess að biðröðin gæti farið niður í eitt ár eftir þrjú ár. Þá er óhjákvæmilegt að spyrja hvað hann reiknar með að kaupleiguíbúðirnar verði margar sem byggðar verði á þessum árum, 1989, 1990 og 1991. Í þessum áætlunum hlýtur að vera talað um þá skiptingu því að hún er ráðandi þáttur um fjármagnið sem nauðsynlegt er að fá. Þá er líka fróðlegt að fá upplýsingar um hvort könnun hafi verið gerð á því meðal ungs fólks hvort það vilji fá íbúð í þessum kaupleiguíbúðum, hvort það vilji njóta þeirra sérstöku lánskjara sem þar er um að tefla þannig að það geti fyrst notið hinnar sérstöku fyrirgreiðslu og síðan gert það upp við sig á eftir hvort það vill eignast íbúðirnar eða ekki. Ég held að það geti orðið okkur mikill vegvísir að því mikla vandamáli sem húsnæðiskerfið vissulega er.
    Ég hlýt að ítreka það sem ég sagði áðan um það hversu nauðsynlegt það er að koma til móts við það fólk sem nú á í greiðsluerfiðleikum. Hæstv. ráðherra hafði orð á því að það væri ekki nema, ef ég man rétt, 5 eða 6% íbúanna sem byggju í íbúðum af félagslegum toga. Þetta er mjög lág tala. Að sumu leyti skýrist hún af því að húsnæðislánin, sem Byggingarsjóður ríkisins veitti á fyrri hluta síðasta

áratugs og fram eftir honum, gufuðu upp þannig að menn gátu með tiltölulega lítilli fyrirhöfn ráðist í það stórvirki að kaupa húsnæði án þess að búast við því að þeir þyrftu að greiða andvirðið til baka. Bæði var nú þá ástatt svo að vextir náðu engan veginn raunvöxtum og það litla þeir voru voru þeir jafnframt frádráttarbærir við álagningu tekjuskatts þannig að ólíku er saman að jafna þá og nú.
    Nú á hinn bóginn hafa menn þurft að sæta mjög ströngum lánskjörum og þess vegna er við því að búast, ef erfiðleikalánin eru dregin við sig, að þeim fjölgi sem vegna erfiðs fjárhags hafa misst íbúðir sínar og að þeir banki á dyrnar annars staðar í kerfinu, annaðhvort hjá verkamannabústöðum eða þá þessum kaupleiguíbúðum, í þeim hlutanum sem fellur undir Byggingarsjóð verkamanna eða hinum sem fellur undir Byggingarsjóð ríkisins.
    Ég er mjög ánægður yfir því að þeirri reglu skuli hafa verið komið á að þeir sem njóta lánskjara Byggingarsjóðs verkamanna megi búast við að þeim verði breytt ef tekjur þeirra og allur efnahagur hefur batnað þannig að þeir falli undir Byggingarsjóð ríkisins. Þetta er skref sem fyrir löngu hefði átt að vera búið að stíga. Ég geri mér grein fyrir að það er flóknara mál að taka dæmið á hinn veginn þannig að þeir sem njóta nú kjara Byggingarsjóðs ríkisins geti vænst þess að njóta kjara Byggingarsjóðs verkamanna ef heimili hefur orðið fyrir miklu áfalli. Það er miklu erfiðara og flóknara mál, en þó er óhjákvæmilegt að huga að því einnig og reyna að taka á því í tengslum við þá
endurskoðun á húsnæðiskerfinu í heild sem hæstv. ráðherra hefur boðað og verð ég að taka undir með ráðherra að ég skil ekki hvernig það megi vera að frv. um slíka heildarlöggjöf skuli ekki þegar liggja fyrir þinginu svo mikið sem er í húfi.
    Ég man eftir því þegar við vorum að fjalla um húsnæðismálin í gamla daga hversu lengi það stóð í okkur hvernig haga ætti lánveitingum úr Byggingarsjóði ríkisins til kaupa á notuðum íbúðum. Við gerðum okkur grein fyrir því að við því mætti búast fyrst í stað að íbúðaverð færi hækkandi ef lánsfyrirgreiðslan yxi verulega. Menn voru þess vegna mjög hræddir við að stíga stórt skref í einu í þá áttina eins og þó var gert 1. september 1986. Ef litið er yfir fasteignamat frá þeim tíma sést að fyrst á eftir hækkaði verð á notuðum íbúðum á öllum fasteignamarkaði hér á landi. Var það að vísu óeðlilega lágt fyrir en vitaskuld fór hluti hinnar auknu fyrirgreiðslu í hækkað íbúðaverð á þeim tíma.
    Við veltum því fyrir okkur hvort einhver tök væru á því að hafa svigrúm í kerfinu inn við Laugaveg þannig að sett yrði á fót einhver stofnun eða einhver undirnefnd húsnæðismálastjórnar sem mundi hafa það verkefni, jafnvel í tengslum við viðskiptabanka, að átta sig á því hvort reynandi væri að haga lánveitingum til kaupa á notuðum íbúðum nokkuð eftir efnahag, en komumst fljótt að þeirri niðurstöðu að slíkur dilkadráttur með borgara landsins var alls ekki við hæfi hjá opinberri stofnun svo niðurstaða okkar

var í rauninni sú að ef til þess ætti að koma að lánsfyrirgreiðsla ætti að fara nokkuð eftir efnahag, tekjum manna og aðstöðu allri --- lánstími gæti t.d. verið mismunandi eftir efnum og ástæðum --- væri óhjákvæmilegt að færa lánveitingarnar inn í viðskiptabankana.
    Ég vék að því í minni ræðu áðan að því fylgdu þeir kostir að launatekjur viðkomandi færu í gegnum hina sömu banka þannig að bankastjórarnir hefðu alla aðstöðu til þess að fylgjast náið með því hvort viðkomandi hefðu reist sér hurðarás um öxl og gætu staðið undir skuldbindingunum þannig að það gæti þá fljótt komið til úrlausnar hvort viðkomandi réðu við þá íbúð sem þeir höfðu fest kaup á, kannski með einhverri tilhliðrun í bili, eða hvort nauðsynlegt væri fyrir viðkomandi að selja hana og kaupa aðra minni á meðan hann væri að ná fótunum undir sig. Ég tók eftir því að hv. 14. þm. Reykv. tók undir sömu sjónarmið og ég var nú að lýsa.
    Við höfum oft haft orð á því, sjálfstæðismenn, og ég man eftir því einmitt þegar við stóðum í viðræðunum við fulltrúa Alþýðusambandsins á vordögum 1986 að þeir voru okkur sjálfstæðismönnum algerlega sammála um að það væri bæði siðferðilega þroskandi og þjóðfélagslega nauðsynlegt að reyna með almennum aðgerðum að hafa áhrif á að þeir sem hygðust festa kaup á húsnæði hefðu yfir nokkru fjármagni að ráða, hefðu lagt til hliðar töluvert af sjáfsaflafé sínu og þannig komið fótunum undir sig. Það er miklu, miklu betri aðferð en hin að knýja menn til lántöku fyrir allri íbúðinni.
    Af þessum sökum var lögfest að þeir sem legðu fé inn á sérstaka reikninga, húsnæðissparnaðarreikninga, skyldu njóta vissra skattfríðinda. Mér er algerlega ljóst að þessi löggjöf var í upphafi mjög ósveigjanleg. Það var sjónarmið fjmrn. að slíka tilhliðrun frá skatti væri ekki réttmætt að veita heimild til nema inn í löggjöfina væru sett mjög óaðgengileg refsiákvæði sem höfðu þau áhrif að fjöldi manna sneri frá, treysti sér ekki til að fara út í þann sparnað sem reikningarnir þó heimiluðu. Síðan bættist það við að á árinu 1987 voru tekjur manna í raun skattfrjálsar þannig að þá greiddu menn einungis skatt af því fé sem þeir höfðu unnið fyrir árið áður en skipti ekki máli hvernig þeir ráðstöfuðu fé sínu það árið.
    Þegar staðgreiðslan var síðan tekin upp var ekki samstaða milli Sjálfstfl. og Alþfl. um þetta atriði. Alþfl. mátti ekki heyra á það minnst undir neinum kringumstæðum að fólki væri gefinn áfram kostur á þessum húsnæðissparnaði og afleiðingin hefur síðan orðið sú að þessir reikningar hafa ekki komið að þeim notum sem við höfðum þó gert okkur vonir um.
    Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. félmrh. svari því nú hvaða hug hann hefur til húsnæðissparnaðarreikninganna, hvort hugur hans standi til þess að þeir verði endurreistir. Ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi áðan en svo að hann hefði í hyggju að draga mjög úr þeim lánsrétti sem vissir einstaklingar hafa nú innan húsnæðiskerfisins. Einmitt með hliðsjón af þeim orðum held ég að

óhjákvæmilegt sé að á það reyni hvort húsnæðisráðherra geti fallist á að menn megi spara fyrir fram þannig að þær upphæðir sem lagðar eru inn á bundinn húsnæðisreikning séu undanþegnar tekjuskatti eftir ákveðnum reglum, annaðhvort að hluta eða algjörlega. Það sem þá kemur til álita er að sjálfsögðu sú ávöxtun sem húsnæðissparnaðarreikningarnir gefa í heild og það getur verið álitamál hversu langt löggjafinn telur rétt að gengið sé í því að menn geti lagt til hliðar með þessum sérstaka hætti.
    Ég skal ekki neita því að það geti verið nauðsynlegt að setja því takmörk. Á hinn bóginn vil ég ítreka þá skoðun mína að við eigum ekki aðeins að huga að því hvernig við getum með framlögum úr ríkissjóði stutt stoðir lánakerfis húsnæðismála. Við hljótum líka að velta því fyrir okkur hvort það þjóni ekki
tvenns konar tilgangi að örva menn til sparnaðar, annars vegar þeim að auka innlendan sparnað, sem er mikilvægur liður í því að draga úr erlendum lántökum m.a., og hins vegar með því að draga úr þörfinni fyrir húsnæðislánin. Einmitt með því að færa húsnæðislánin inn í bankana þannig að við losnuðum við þann millilið sem húsnæðislánastofnun er mundi slíkur sparnaður fyrir fram beinlínis tengjast þeirri fyrirgreiðslu sem viðskiptabankarnir yrðu síðan reiðubúnir til að veita viðkomandi mönnum.
    Sumir hafa sagt að það sé raunar óþarfi að blanda viðskiptabönkunum inn í þessi mál. Það sé miklu eðlilegra og miklu nær að lífeyrissjóðirnir láni beint til sinna félagsmanna þannig að bæði sé hægt að ganga fram hjá Húsnæðisstofnun og viðskiptabönkum, a.m.k. í verulegum mæli. Ég hef nokkuð íhugað þann möguleika, en ég hef eftir sem áður komist að þeirri niðurstöðu að það yrði mjög til einföldunar og hagræðis fyrir alla aðila ef hinn hátturinn yrði á hafður, að viðskiptabankarnir tækju að sér þessa fyrirgreiðslu eins og gerist víðast erlendis. Fyrirgreiðslan mundi þá ganga fyrir sig með þeim hætti að lífeyrissjóðirnir keyptu skuldabréf af bönkunum til langs tíma sem þeir gætu síðan endurlánað viðskiptavinum sínum.
    Eins og ég lagði ríka áherslu á áðan: Ef við viðurkennum slíkt fyrirkomulag hlýtur það að þýða að markaðsvextir koma á skuldabréfin sem aftur gerir þá nauðsyn knýjandi og óhjákvæmilega að vextir og verðtrygging séu undanþegin við álagningu tekjuskatts, ekki síst eins og nú er komið þegar við völd er ríkisstjórn sem byrjar á að hugsa um hverju hún megi eyða og langar til að eyða og fer síðan með hjálp Borgfl. eða einstakra þingmanna úr honum ofan í vasana á þegnunum. Verð ég raunar að segja að sumt af því hefur komið mér mjög á óvart sem maður hefur orðið vitni að, eins og það t.d. að samningsrétturinn skuli ekki lengur vera heilagur í huga þess verkalýðsleiðtoga sem sæti á á þingi fyrir Borgfl.
    Ég vil, herra forseti, leggja áherslu á að ef ríkisstjórninni tekst að knýja fram þær miklu

skattahækkanir sem ætlast er til að við í Ed. setjum upp á færiband og afgreiðum fyrir jólin, ef það áform ríkisstjórnarinnar tekst að fara svo djúpt í vasann hjá þjóðinni hlýt ég að ætlast til þess á móti að meiri hluti en nú er á fjárlögum næsta árs eftir 2. umr. fari til þess að létta hlut þeirra fjölskyldna sem sárast brenna á erfiðleikarnir í húsnæðismálum. Það er kannski skiljanlegt að menn séu naumir í slíkri fyrirgreiðslu ef alls staðar er gætt fyllsta aðhalds og ef ríkisstjórnin hagar skattheimtu sinni með þeim hætti að einstaklingarnir hafi eitthvert svigrúm, en þegar á að gera hvort tveggja, þegar nú er með skipulögðum aðgerðum verið að skapa atvinnuleysi víðs vegar um landið, þegar nú er með skipulegum aðgerðum verið að brjóta niður kaupmáttinn hjá fólkinu með því að verðbólga er mjög vaxandi --- það er vaxandi dýrtíð í landinu --- og þegar maður verður á sama tíma vitni að því að ekki megi gefa samningsréttinn lausan og svo á að klípa af á hinum endanum líka með því að auka hlut ríkisins af sjálfsaflafénu, ekki þó þannig að þetta fólk geti fengið vaxtaálögurnar frádráttarbærar við álagningu tekjuskattsins heldur þannig að nauðþurftirnar eiga að vera algjör afgangsstærð, þá hlýtur það að vera almenn siðferðilega krafa, ekki aðeins frá þingmönnum Sjálfstfl. heldur líka frá þjóðinni allri, að þeir sem fara með húsnæðismálin í ríkisstjórninni sjái um að betur verði gert við þá sem verst eru staddir núna í húsnæðismálunum en áætlað hafði verið, að lánum þeirra sem verst eru staddir verði flýtt meira en áætlað hafði verið, að meira fé verði varið í svokölluð erfiðleikalán en áætlað hafði verið.
    Ríkisstjórnin hafði ekki vissu fyrir því né öruggan meiri hluta að hún gæti komið skattheimtunni fram. Þess vegna get ég kannski skilið að hún hafi skorið við nögl meira en hún vildi þessa sérstöku liði. En nú er búið að kasta bjarghringnum til hennar. Nú hafa þeir sem þóttust vera borgaralega þenkjandi brugðist þeim borgaralegu skyldum sínum að standa vörð um sjálfsaflaféð (GHG: Og fóru létt með það.) og fóru létt með það. Þá er ekki lengur sú afsökun að ríkisstjórnin geti ekki skattlagt eins og hún vill. Ég get ekki betur séð en ( SkA: Allt sé í lagi.) sómi hennar sé sá einn ef einhverju á að bjarga að koma til móts við þetta fólk.
    Í ræðu minni áðan vék ég sérstaklega að því að víðs vegar úti um land hefðu húsbyggingar legið niðri á árunum eftir að nauðsynlegt þótti að setja fiskkvóta á öll fiskiskip í landinu, sem hafði mjög mikinn samdrátt í för með sér í sjávarplássum hringinn í kringum landið, og á þessum sama tíma þótti þeirri ríkisstjórn sem þá sat nauðsynlegt að herða mjög að almenningi þannig að kaupmáttur rýrnaði mjög mikið og varð snöggt um minni en áður og síðar. Það var skiljanlegt við þessar aðstæður að menn skyldu ekki vera mjög áfjáðir í að taka á sig miklar skuldbindingar vegna húsbygginga í hinum minni sjávarplássum þar sem allt var undir því komið að vel veiddist. Af þessum sökum drógust húsbyggingar algjörlega saman ef undan eru skildir

verkamannabústaðir. Þetta voru ástæðurnar fyrir því ekki síst að landsbyggðarfólk á mörgum stöðum á landinu var seint til að sækja um fyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði ríkisins þegar nýju lögin tóku gildi. Það var ekki í byggingarhugleiðingum, hafði ekki
ráðið við sig hvar það mundi setjast að og vildi bíða og sjá hvað gerðist. Síðan breyttist ástandið og ekki síst rækjan varð til þess að afkoma batnaði mjög skjótt og sums staðar á landinu hefur verið mikill skortur á vinnuafli og fleiri viljað setjast að en mögulegt var vegna húsnæðiseklu.
    Ég vék að því áðan, herra forseti, að það væri mjög nauðsynleg breyting á húsnæðislöggjöfinni að breyta henni svo að einmitt þetta fólk gæti setið fyrir um lánveitingar, þ.e. á þeim stöðum þar sem húsbyggingar hafa legið niðri, til þess að koma byggingunum aftur af stað og vekja tiltrú fólksins á þessa staði og er fróðlegt að fá að heyra hvaða skoðun húsnæðisráðherra hefur á því. Ég hafði t.d. mjög gaman af því að koma til Djúpavogs nú á þessum haustdögum með hv. þm. Agli Jónssyni, sem því miður er upptekinn við önnur störf, og ræða við það unga fólk sem þar var. Þeir sögðu mér að þar væru, ég man ekki hvort þeir sögðu sex eða átta ungir menn sem vildu fara í húsbyggingu. Ég get t.d. talað um stað eins og Dalvík þar sem veruleg byggingarstarfsemi hefur verið og fólk hefur viljað setjast að eða vildi a.m.k. til skamms tíma. Ég skal ekki segja hvort stefna ríkisstjórnarinnar hefur einhverju breytt. Hún bitnar auðvitað mjög á svona stöðum. Atvinnulífið á Dalvík er annars vegar byggt upp á sjávarútvegi og hins vegar á fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn og keppa beint við innflutninginn. Þegar þeirri stefnu er fylgt að reyna að keyra niður lífskjörin með því að gera slíkum fyrirtækjum erfitt fyrir, með því að framkalla hallarekstur í sjávarútvegsfyrirtækjum og hallarekstur í samkeppnisiðnaði, þegar reynt er þannig að brjóta niður kaupmáttinn má auðvitað búast við því að þau byggðarlög sem eingöngu byggja á slíkum atvinnurekstri standi höllum fæti. Þó held ég að Dalvík standi sig enn til guðs lukku. ( SkA: Hvernig er hjá Sæplasti?) Það eru erfiðleikar hjá því fyrirtæki. Ég heyri að hv. þm. er kunnugur og gerir sér grein fyrir því að einmitt þetta fyrirtæki á mikil viðskipti við útgerðarmenn og auðvitað hlýtur að valda því vissum greiðsluerfiðleikum . . . ( SkA: Blankheitin hjá útgerðarmönnum.) Já, að erfið staða útgerðarmannanna verkar beint á þessi þjónustufyrirtæki. Það er alveg laukrétt hjá hv. þm. ( SkA: Bliki stendur sig sæmilega). Bliki stendur sig vel, en á hinn bóginn sýnir þetta dæmi þýðingu þess að unga fólkið sem þar vill setjast að fái eðlilega fyrirgreiðslu til þess þegar vel gengur í plássinu. Svo kemur fleira til á Dalvík, ýmsar aðrar ástæður en á Djúpavogi, eins og t.d. þær góðu samgöngur sem þar eru og eru alveg gagnstætt því sem á við um Djúpavog sem er mjög einangraður staður. Ég held að ég muni það rétt að þau byggðarlög sem standa næst Djúpavogi eiga sum hver í vissum erfiðleikum.

    Ég veit ekki, herra forseti, hvort ástæða sé til að víkja nánar að öðrum atriðum í tengslum við það frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil aðeins ítreka áhuga minn á því að það gangi fram, sem hæstv. félmrh. boðaði áðan, að hið félagslega kerfi húsnæðismálanna megi koma í heild til endurskoðunar. Á því er ekki vanþörf. Það er í rauninni grundvöllur þess að hægt sé að koma fastri og skynsamlegri skipan á húsnæðismálin.
    Ég vænti þess að sú nefnd sem fær þetta frv. til meðferðar leggi einmitt áherslu á það í sínu nál., sem félmrh. sagði áðan, að húsnæðismálin í heild eru í ólestri, að brýn þörf er á því að taka félagslega kerfið í heild til endurskoðunar og að spurning sé með hvaða hætti unnt sé að láta þá gífurlegu peninga sem í húsnæðiskerfinu liggja koma að sem bestu haldi og að sem bestu gagni.